22.03.1954
Neðri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja nokkrar brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir til 3. umr. Þessar brtt. eru á þskj. 477. Ég skal taka það fram, að þessar till. eru í öndverðu komnar frá sýslunefndunum í Norður- og Suður-Þingeyjarsýslu og voru sendar rn. því, sem mál þetta hefur með höndum, á árinu sern leið. Ég hef tekið till. upp eins og sýslunefndirnar gengu frá þeim, að undanskilinni brtt. við a-lið 8. gr., en þar hef ég farið eftir bendingu í þessu erindi sýslunefndanna. Nú kunna hv. þingmenn að spyrja sem svo, hvort sérstök ástæða sé til þess að vera að flytja hér á hv. Alþ. tillögur frá tveimur sýslunefndum í þessu máli. En ég vil benda á það í þessu sambandi, að í þessum hluta landsins, í Þingeyjarsýslum báðum, er sérstaklega mikið fuglalíf og fjölbreytt, þannig að ég efast um, að nokkur landshluti sé sambærilegur að því leyti. Á sumum svæðum þar er t.d. meira um æðarvörp heldur en — að ég ætla — nokkurs staðar annars staðar á landinu að undanteknum Breiðafirði. Á öðrum svæðum í þessum héruðum er t.d. mikið um bjargfugl, einkum á Langanesi. Við Mývatn eru, eftir því sem mér er tjáð af fróðum mönnum, fleiri tegundir anda heldur en á nokkrum öðrum stað á landinu, og þar er mikið andavarp til nytja. Sama er að segja um fuglalíf annars staðar en við sjó og vötn, að það er í þessum héruðum ákaflega mikið og fjölbreytt, — og má segja, að það sé nú reyndar viðar. En því er ég að nefna þetta hér, að þegar þetta er athugað, þá má af líkum ráða, að það fólk, sem þessi héruð byggir, hefur a.m.k. ekki minni — og ég geri ráð fyrir meiri — áhuga en aðrir landsmenn fyrir þeim málum, er fuglalífið varða, þ. á m. löggjöf um nytjar af fuglum, því að það er einmitt hagsmunamál margra manna á þessum slóðum að hafa nytjar af ýmsum tegundum fugla. Þarna eru því ýmsir, sem hafa haft ástæðu til þess að hyggja vandlega að þessum málum, og það er auðsætt á því, sem frá þessum sýslunefndum hefur komið, í Norður- og Suður-Þingeyjarsýslu, að þær hafa lagt í það allmikla vinnu, skilað rökstuddu áliti og tillögum um þetta mál. Ég hef því talið rétt og skylt að láta þessar till. koma fram hér fyrir auglit hv. þm., þannig að þeir gæfu athugað þær og myndað sér skoðun um þær. Ég skal svo stuttlega gera grein fyrir þessum t,illögum.

1. till. á þskj. 477 er við 3. gr. Hún er þess efnis, að et landareign er í óskiptri sameign, þá skuli landeigendum öllum fuglaveiðar jafnheimilar í landareigninni í réttu hlutfalli við afnotarétt lands, nema samkomulag verði um aðra skipan, þ.e.a.s., að till. er í raun og veru um þetta, að veiðirétturinn skuli vera í réttu hlutfalli við afnotarétt lands, nema samkomulag verði um aðra skipan, og skýrir þetta sig sjálft.

2. brtt. er við 5. gr. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Afréttir og almenningar, er liggja utan lögbýla og enginn getur sannað eignarrétt sinn til, skulu friðaðir fyrir allri fuglaveiði og eggjatöku. Þó getur ráðh. veitt valinkunnum mönnum veiðileyfi þar um takmarkaðan tíma og takmarkað leyfi til eggjatöku, enda komi meðmæli fuglafriðunarnefndar til hverju sinni.“

Í frv., eins og það liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að öllum íslenzkum ríkisborgurum séu heimilar fuglaveiðar í afréttum og almenningum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra. Hér er því lagt til, að algerlega sé breytt um og að fuglar í þessum almenningum séu yfirleitt friðaðir. nema með sérstökum undantekningum. Það er fært fram til rökstuðnings þessari till., að með þeirri miklu tækni, sem nú er orðin í samgöngum, þá geti það orðið mjög hættulegt fyrir fuglalíf í óbyggðum landsins, að menn geti farið þangað eftir vild og hvað margir sem vera skal og herjað þar, eftir því sem þeim sýnist. Í byggðum er þetta svo, að landeigendur geta takmarkað slíkt, ef þeim sýnist svo, jafnvel þó að á veiðitíma sé. Ég hef orðið var við þann misskilning í sambandi við þessa till., að af henni mundi leiða, að á ýmsum svæðum, t.d. í ýmsum afréttum nærri byggðum, mundu fuglaveiðar algerlega vera bannaðar samkvæmt þessu, t.d. rjúpnaveiði. En í því sambandi er þess að geta, að margar þessar afréttir nærri byggðum eru eign einhverra jarða, þannig að ákvæði þessarar brtt. tekur ekki til þeirra, heldur mundi það aðallega snerta þær óbyggðir, sem fjær eru, og miðbik landsins, sem þarna yrði alfriðað. Ég vil taka það sem dæmi, sem mörgum er sjálfsagt ókunnugt um, að t.d. Mývatnsöræfi, frá Mývatnssveit og allt austur að Jökulsá, það mikla flæmi, sú mikla óbyggð, eru að miklu leyti eign jarða í Mávatnssveit. Þannig er það viða um afréttir, að þessi ákvæði mundu ekki taka til þeirra.

3. brtt. er við 6. gr. og er nokkur takmörkun á því, að starfsmenn frá náttúrugripasafninu geti skotið fugla og tekið egg hvar sem er. Það er gert ráð fyrir því, að það þurfi þó samþykki hlutaðeigandi landráðenda til þess, og virðist það eðlilegt, að menn geti ekki, jafnvel þó að starfsmenn þessa safns séu, farið inn á landareignir manna til þess að skjóta fugla eða taka egg, nema landeiganda sé kunnugt um það eða umráðamanni lands.

Þá er 4. brtt. við 8. gr., en 8. gr. í frv., eins og það liggur fyrir, fjallar um friðunartíma og ófriðunartíma einstakra fuglategunda. Þessar till. mínar eru við nokkra stafliði í 2. tölul. gr. og stefna í þá átt yfirleitt að lengja friðunartímann og fækka þeim fuglategundum, sem heimilt er að veiða. Þannig er hér lagt til, að þær tegundir, sem fjallað er um í e-lið, megi aðeins veiða frá 20. sept. til 31. okt. í stað 20. ágúst til 31. okt. En þær fuglategundir, sem þarna er um að ræða, eru gæsa- og andategundir. Kunnugir menn telja, sérstaklega varðandi endur, að það sé allt of snemmt að leyfa veiði þeirra 20. ágúst, því að margt af andarungum sé þá enn ófleygt, sérstaklega þegar seint sumrar. Ég ætla að þetta sé rétt.

Þá er lagt til, að f-liðurinn breytist þannig, að alfriðaður verði himbrimi, sefönd og stóra toppönd, en kunnugir menn telja, að sérstaklega tvær af þessum tegundum, stóra toppönd og himbrimi, séu orðnar mjög fáséðar og liggi við, að eyðing þeirra sé yfirvofandi, þess vegna sé fráleitt að leyfa að veiða þessar tegundir. Samkv. minni till. yrði eftir f-lið leyft að veiða lóm og litlu toppönd á tímabilinu frá 20. ágúst til 20. apríl.

Þá er lagt hér til, að veiðitími rjúpu sé aðeins frá 1. nóv. til 22. des., en í frv. er lagt til, að byrja megi að veiða rjúpu 15. okt. Er því um nokkra styttingu að ræða, nokkuð tekið framan af veiðitímanum. Auk þess ætti nú að þykja tilhlýðilegt, að rjúpan væri friðuð um jólin, og þess vegna er hér miðað við 22. des.

Þá er það 5. brtt., við 19. gr. Hún er um takmörkun á því að nota flugvélar, bifreiðar, vélbáta og önnur vélknúin farartæki til fuglaveiða. Greinin er um þetta í frv., en hér er lagt til að takmarka nokkru meira en þar notkun þessara tækja til þess að vinna á fuglum.

6. brtt. er við 20. gr. Sú grein er í frv. í þremur liðum og er um notkun ýmissa tækja til fuglaveiða. Ég legg til, að 1. tölul. orðist þannig, að net megi ekki nota til fuglaveiða nema háfa og að 3. tölul. falli þá niður.

Eins og hv. þm. hafa heyrt, ganga þessar brtt. yfirleitt í þá átt að takmarka meira en frv. gerir heimild til þess að veiða fugla, og er þetta hér fram komið sem almenn stefna manna í héraði, sem miklar nytjar hefur af fuglum, þannig að gera má ráð fyrir, að þeir, sem þar eiga hlut að máli, sjái sér einmitt hag í því að hafa friðunina meiri en frv. gerir ráð fyrir.