08.04.1954
Neðri deild: 81. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Þetta mál, um fuglaveiðar og fuglafriðun, er búið að vera fyrir hinu háa Alþ. ekki einungis á því langa þingi, sem nú er að ljúka, heldur einnig á einum tveimur þingum undanfarið. En alltaf hefur eitthvað verið í vegi fyrir því, að Alþ. gæti afgreitt þetta frv., sem er í sjálfu sér mjög merkilegt, og skal ég ekki úr því draga. Það var nauðsynlegt að setja ný ákvæði um fuglafriðun og ýmis atriði varðandi það mál, og frv. hefur án efa verið undirbúið af samvizkusemi og af fróðum mönnum. En þó er það svo enn, að minni hyggju, að það eru mjög áberandi gallar á þessu frv., og þeir svo, að ég mun ekki fylgja frv. út úr þessari hv. d., nema einhverjar breyt. fáist á því.

Ég hef alltaf skilið það svo, að meiningin með l. um þessa hluti væri tvenns konar. Annað væri það að veita fuglalífi landsins hæfilega friðun, hindra það, að þessari djásn í náttúru landsins yrði útrýmt, en hins vegar væri séð um það, að landsins börn, þ.e.a.s. fólkið, sem landið byggir, gæti hagnýtt sér þessi gæði á skynsamlegan hátt, engu síður en við hagnýtum okkur fiskinn í djúpi hafsins við strendurnar og við hagnýtum okkur búféð til þess að lifa á því. Maðurinn er nú einu sinni rándýr og verður að lifa á öðrum skepnum, og ég tel ekki, að fuglarnir hafi nein forréttindi á neinn hátt hvað þetta atriði snertir. Ég tel alveg sjálfsagt að hagnýta sér fugl þann, sem hér er á landi, til matar eins langt og má ganga, án þess að hætta sé á, að of nærri sé gengið þessum skemmtilegu náttúruverum hér. Þetta tvennt hef ég talið að hlytu að vera aðalatriðin, sem l. eins og þessi ættu að tryggja.

Ég skal viðurkenna það, að ég hef ekki kynnt mér þetta frv. og þær breyt., sem á því hafa orðið, eins mikið og þm. eru í raun og veru skyldir að gera varðandi allmikilvæg mál, sem fyrir Alþ. liggja, og skal ég því að því leyti viðurkenna, að það væri nokkuð áfátt í því, að ég gæti borið fram að fullu gagnrýni á frv. En mér er ljóst, að þær breyt., sem hv. Ed. hefur gert á þessu frv., eru yfirleitt ekki til bóta og sumar þeirra beint til tjóns, og virðist þar hafa ráðið meir einhver einkennileg rómantík varðandi þetta mál heldur en glögg íhygli og athugun á því, hvað rétt væri. Tala ég þar um hluti eins og það að gefa rjúpunni eitthvert jólafri endilega í sambandi við friðun. Vel gæti ég unnt þessum fallega gesti okkar, ef hún kynni að meta það, að það væru virkileg jól og einhver sérstök hátíð, að hún þá fengi það; en að vera að ákveða friðunarráðstafanir með tilliti til þess eins, að það sé sjálfsagt, að rjúpan hafi jólaleyfi eins og við mennirnir tökum okkur á þessari helgu hátíð, það þykir mér vægast sagt mjög barnalegt og eiga tæpast rétt á sér í löggjöf vor Íslendinga.

Ég vil þá og nefna annað atriði, sem Ed. hefur einnig breytt. Hér eiga viðdvöl, eins og við vitum, á landi okkar vissir gestir, sem ekki dvelja hér yfir sumarið eins og aðrir farfuglar og verpa því ekki hér á landi, heldur fara hér yfir land og hvíla sig stuttan tíma, eins og helsingjar, sem fara norður til Grænlands og verpa þar, en koma hér við á vori og hausti og dvelja hér nokkurn tíma. Í Ed. hefur verið gerð sú vísindalega og hárnákvæma breyt. á þessum ákvæðum, að það er ómögulegt, að landsmenn hér, án þess að brjóta l., geti hagnýtt sér þessa fugla, þegar þeir fara hér um, þótt það sé vitað, að þeir séu veiddir í stórum stíl í Skotlandi og annars staðar hér í nágrannalöndum okkar, þegar þeir fara um. Okkur á að vera bannað að hagnýta okkur þetta. Þetta eru þó fuglar, sem eru engir aufúsugestir. Ég veit, að þegar helsingjasveimar fara að vori til Grænlands, þá eru þeir vissir með að setjast að í Skagafirði um tíma. Þeir rótnaga heilar lendur af beztu engjum bændanna þar og gera þær þannig, að þær eru litt hæfar a.m.k. næsta sumar til slægna. Hins vegar eru þetta fuglar, sem hafa ekki nema stutta viðdvöl hér í þessu landi. Það er svona eins og rekald, sem kemur hér að ströndum landsins, allverðmætt til átu, bezta kjöt af þeim. Hví má ekki veiða eitthvað af þessum fuglum, sem á þennan hátt koma hér, valda tjóni fyrir íbúa landsins, fara hér um haust og vor, en hafa ekki einu sinni svo mikið við að verpa eggjum sínum og ala upp unga sína hér í þessu landi? Með breyt., sem gerðar hafa verið í Ed., hefur þetta verið eyðilagt, þessi möguleiki, því að friðunartíminn er færður svo langt aftur, — ég held aftur til 20. sept. að haustinu, — að þá eru þeir allir farnir. Þá má fara að friða þá hér, þegar allir fuglarnir eru horfnir af landi burt.

Eitthvað fleira af slíku tagi hefur slæðzt inn í þetta ágæta frv., sem hefur verið undirbúið á vandlegan hátt, en hins vegar að mínum dómi er geysilega varhugavert, þegar fræðimenn, sem þekkja þetta út í yztu æsar, eru búnir að gera till., að vera að breyta einstökum ákvæðum eins og þessu. Ég álít, að það sé mjög varhugavert fyrir alþm. að vera af handahófi að koma með till., sem þeir sjálfir gera sér alls ekki grein fyrir, hvaða áhrif kunni að hafa. Það eru þessi atriði, sem gera það að verkum, að ég sagði áðan, að ég mundi ekki fylgja þessu frv. út af Alþ., nema einhverjar breyt. fengjust á þessu.

Nú hef ég ekki borið hér fram nema eina brtt., sem við þm. Skagf. flytjum hér á þskj. 724. Í þessari hv. d. var sett inn í frv., eins og það þá var, heimild um það, að í fuglaveiðasamþykkt, sem gerð yrði vegna sérstakra staða, mætti nota fleka (eða snörufleka) til fuglaveiða. Ég flutti þetta mál fyrir hv. n., og tók hún því með miklum skilningi og varð ásátt um að bera fram þessa brtt., og það er gert vegna þess, að í Skagafirði við Drangey hefur lengi tíðkazt fuglaveiði á snöruflekum og eitthvað á einstökum stöðum víðar. Þessar veiðar hafa að vísu haft slæmt orð á sér fyrir það, að hér væri um pyntingu á fuglinum að ræða, og hefur það mikið stafað af því, að fyrr var það vani að fjötra á fleka þessa bandingja svo nefnda, þ.e.a.s. fugla af þeim stofni, sem átti að veiða, og átti bandinginn að ginna meðbræður sína til þess að koma upp á flekann og flækja sig þar í þeim snörum, sem þar eru. Ég játa það, að þessi aðferð er slæm og er ekki siðmenningu okkar samboðin, enda dettur engum í hug, að þessi aðferð verði leyfð. Það er löngu hætt, þó að flekaveiðar hafi verið við Drangey, að nota bandingja í þessu skyni. En ég verð að segja það, að ég trúi því ekki, að þetta sé neitt verri veiðiaðferð en ýmislegt annað, sem tíðkast, þótt snöruflekar séu notaðir. Þegar fuglar eru drepnir með byssu, a.m.k. þegar högl eru notuð, eins og er nú yfirleitt, særast alltaf fleiri eða færri, sem svo kveljast og veslast upp, og deyja margir eða þá lifa við hálfgerð örkuml. Þetta er náttúrlega ekki fagurt, en það hefur engum dottið í hug að banna skotvopn í sambandi við fuglaveiðar, eftir því sem þær eru leyfðar, og ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að þessar flekaveiðar, eins og þær nú tíðkast við Drangey, eru ekkert verri út af fyrir sig heldur en aðrar þær veiðiaðferðir, sem tíðkaðar eru, með þeim harmkvælum, sem veiðum hljóta alltaf að fylgja fyrir ákveðna fugla. Og það er af þessum ástæðum, sem við þm. Skagf. flytjum þessa brtt. og munum fylgja henni eftir. Vonumst við til, að þessi hv. d., sem sýndi þann skilning á þessu máli, þegar það var hér síðast til meðferðar, að samþ. brtt. um það, haldi við þann málstað, sem hún þá tók, og samþ. nú þá brtt., sem við hér berum fram.

Mér er vel ljóst, að það þarf að gera fleiri breyt. á frv., eins og það er nú orðið eftir meðferð í Ed., þó að ég hafi ekki haft tíma eða aðstöðu til að athuga það og bera fram till. um breyt., sem ég álít að þyrfti að gera á frv. En með því að útiloka algerlega flekaveiði við Drangey er verið að eyðileggja atvinnuveg vissra manna í Skagafirði. Það hafa alltaf nokkrir menn á Sauðárkróki og Hofsós stundað þessar veiðar. Einu sinni var Drangey að nokkru leyti kjötbúr Skagafjarðar, fuglalestirnar fóru fram um héruð á vissum tíma á vorin og söddu þá margan svangan maga, sem var aðframkominn. Því betur er ekki svo ástatt nú, að segja þurfi, að Skagfirðingar muni svelta, þó að þetta yrði frá þeim tekið, en hitt er annað mál, að þarna verða nokkrir menn fyrir tilfinnanlegu atvinnutjóni og að því er okkur flm. virðist algerlega að ástæðulausu, því að eins og ég tók fram í upphafi þessara fáu orða, þá tel ég, að annað meginatriði í l. eins og þessum um fuglaveiðar og fuglafriðun sé að sjá um, að hæfileg hagnýting þessara náttúrugæða landsins sé leyfð, nákvæmlega á sama hátt og við viljum leyfa fiskveiðar í sjó og í vötnum og yfirleitt nota gæði landsins til framdráttar fyrir fólkið án þess þó að eyðileggja verðmætin. Og það er á þeim grundvelli, sem ég vil fylgja þessu frv., en treysti mér ekki til þess, ef engar lagfæringar fást frá því, sem nú hefur hér verið sett inn í frv.