08.04.1954
Neðri deild: 81. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var til meðferðar hér í hv. d., þá fjallaði menntmn. d. um frv. Nú hefur frv. fengið athugun í Ed., og á því voru gerðar nokkrar breyt. þar í d. Það er skammt síðan frv. var afgr. frá hv. Ed., og menntmn. þessarar d. hefur ekki haft aðstöðu til þess að taka málið til athugunar að nýju. En þrátt fyrir það vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um þær breyt., sem frv. hefur tekið, og bera fram brtt., sem mér hefur því miður ekki unnizt tími til að koma á prent, en miða að því að leiðrétta nokkur atriði, sem samþ. voru í Ed. og ég mun síðar gera grein fyrir.

Hæstv. landbrh. vék að því í ræðu sinni, að hann teldi, að markmiðið með þeirri lagasetningu, sem hér er stefnt að, væri tvenns konar: annars vegar að veita fuglalífi landsins hæfilega vernd og hins vegar að gera mönnum kleift að nytja hlunnindi, sem nytjuð hafa verið frá ómunatíð. Þetta er rétt. En ég vil bæta við þriðju ástæðunni, sem liggur til grundvallar því, að þetta mál er hér á ferðinni. Það er þannig, að meðan við Íslendingar vorum í stjórnarfarslegu sambandi við Danmörku, fóru Danir með umboð fyrir okkar hönd í alþjóðafuglaverndunarsambandi, en eftir að fullur stjórnarfarslegur skilnaður varð milli landanna, töldu fulltrúar Danmerkur sig ekki lengur geta verið umboðsmenn fyrir Íslendinga á þessum alþjóðavettvangi. Af því leiddi, að ríkisstj. ákvað, að Ísland gerðist aðili að alþjóðafuglaverndunarsambandinu, en í sambandi við þá ákvörðun bar brýna nauðsyn til þess að endurskoða eldri lagaákvæði um þessi efni og samræma þau hinni alþjóðlegu fuglaverndunarsamþykkt, og að því er stefnt með þessu frv., sem hér er til umr., og það er þriðja ástæðan fyrir því, að þetta mál er nú til afgreiðslu hér á hv. Alþ.

Þær brtt., sem samþ. voru í Ed. og menntmn. þeirrar d. bar fram, eru að mínum dómi þannig vaxnar, að ekki sé ástæða til að gera breyt. á þeim eða amast við því, þó að þær væru samþ. inn í frv. En á síðasta stigi málsins í Ed. var samþ. tili. frá hv. þm. S-Þ., þar sem breytt er nokkuð ákvæðinu í 8. gr. frv. um friðunarákvæði vissra fuglategunda. Í c-lið 8. gr. frv. er ákveðið, að á vissum tíma megi veiða gæsategundir og nokkrar andategundir, sem þar eru nefndar. Undanfarið hefur það verið svo, að tvær af þessum gæsategundum hafa verið alls kostar ófriðaðar, þ.e. margæs og helsingi, en um hinar tegundirnar hefur verið leyft að hefja veiði þeirra 1. ágúst á hverju sumri og veiða þær síðari hluta sumars og fram á haustið. Í frv., eins og það var lagt fram og fór héðan úr hv. Nd., var gert ráð fyrir því að lengja friðunartíma þessara tegunda þannig, að það mætti hefja veiði þeirra 20. ágúst í stað 1. ágúst, eins og nú er samkv. gildandi l. Þetta er byggt á því sjónarmiði, að ungar þessara tegunda séu ekki fleygir, — eða að það sé hæpið, að ungar þessara tegunda séu orðnir svo þroskaðir og fleygir 1. ágúst, að þeim sé ekki hætta búin, ef leyft er að veiða tegundirnar svo snemma, og til öryggis átti því að færa þetta ákvæði aftur til 20. ágúst. Nú hefur þessu verið breytt þannig í hv. Ed., — og þannig er það í frv. nú, — að í stað þess, að það eigi að leyfa að veiða þessar tegundir frá 20. ágúst, þá sé veiðin ekki leyfð fyrr en 20. sept. Þetta er alls kostar ástæðulaust og raunar alveg fráleitt, vegna þess að sumar þessar tegundir, eins og gæsirnar, gera nokkurt tjón bæði í engjalöndum og garðlöndum manna einmitt á þessum tíma, þegar þær koma af varpstöðvunum seint í ágúst og fram eftir september, þangað til uppskerunni er lokið, enda fara þessir fuglar af landinu um mánaðamótin september og október. Það er því álit manna í ýmsum héruðum, að það sé mjög varhugavert og bændum í óhag að banna mönnum að skjóta gæsir á þeim tíma, sem þær gera skaða í garðlöndum manna og engjum. Til málamiðlunar, úr því sem komið er, ætla ég að leyfa mér að leggja fram brtt. til þess að reyna að samræma þessi sjónarmið, og sú brtt., sem ég geri, er þannig, að í staðinn fyrir c-liðinn í 8. gr. frv. komi tveir tölul. C-liðurinn orðist þannig, að frá 20. ágúst til 31. okt. sé heimilt að veiða grágæs, blesgæs, heiðagæs, margæs og helsingja; m.ö.o., að því leyti sem tekur til gæsategundanna, þá sé þessu haldið óbreyttu frá því, sem upphaflega var í frv. og þeir fræðimenn, sem frv. sömdu, töldu eðlilegast. En til þess að taka nokkurt tillit til hins sjónarmiðsins, sem hefur komið fram, þá legg ég til, að á eftir c-lið komi nýr tölul., svo hljóðandi, að frá 1. sept. til 31. okt. verði heimilt að veiða urtönd, grafönd, skúfönd, duggönd og hrafnsönd. Hér er um þá málamiðlun að ræða, að í stað þess að í frv. var þetta miðað við 20. ágúst, en Ed. miðar við 20. sept., þá legg ég til, að það komi 1. sept.

Þá hefur hv. Ed. breytt ákvæðum d-liðar á þann hátt, að í stað 20. ágúst, eins og upphaflega var í frv., komi 20. sept. Ég legg til, að í því efni sé gerð sams konar málamiðlun, að þar komi 1. sept., og það nær þá til andategundanna þriggja, stokkandar, rauðhöfðaandar og hávellu.

Loks hefur hv. Ed. breytt f-liðnum á þann hátt, að í stað 20. ágúst, eins og upphaflega stóð í frv., er nú 1. september. Ég leyfi mér að leggja til, að þetta sé fært í sama horf og áður var, að hér standi 20. ágúst. Þær tegundir, sem þar er um að ræða, eru lómur, himbrimi, sefönd, stóra toppönd og litla toppönd. Um þær er það að segja, að þeir fuglar eru yfirleitt ekki veiddir til nytja, þannig að þeir séu taldir til hlunninda, en þessir fuglar lifa að miklu leyti á hrognum vatnasilunga og laxa, og fiskiræktarmönnum fellur það mjög illa, ef ekki er leyfilegt að verja fiskivötn og skjóta þessar tegundir á þeim tíma, þegar fiskivötnin þurfa að njóta friðunar vegna silunga- og laxaræktar. Það er af þeim ástæðum, að talið er skynsamlegt að leyfa að veiða þessar tegundir síðari hluta sumars, o„ ég legg til, að tímamarkið verði fært aftur í það horf, sem frv. gerði ráð fyrir upphaflega.

Allmikill ágreiningur hefur orðið um eina tegund í þessum flokki, þ.e. himbrimann. Í frv. upphaflega var himbriminn látinn falla undir sömu ákvæði og lómur, sefönd, stóra toppönd og litla toppönd, en hv. þm. N-Þ. og hv. þm. S-Þ. hafa báðir, sinn í hvorri d., flutt um það brtt. og leggja á það mikið kapp, að himbriminn verði ekki þarna með, heldur alfriðaður, og hef ég nú til samkomulags ekki tekið það upp í þessa brtt., sem ég hef nú gert grein fyrir.

Brtt. þær, sem fram hafa komið frá öðrum hv. þm. nú við þessa umr., hefur n. af þeim ástæð- . um, sem ég áður greindi, ekki tekið til athugunar, og hef ég því ekkert umboð til þess að ræða þær f.h. nefndarinnar, en eins og fram hefur komið, bæði hjá hæstv. landbrh. og ég hef einnig vikið að, þá er að því stefnt með þessu frv., að mönnum verði kleift eftir sem áður að nytja þau hlunnindi, sem nytjuð hafa verið um langan aldur hér á landi, og finnst mér því till. frá hv. þm. Skagf. vera í samræmi við það sjónarmið, og mun ég fyrir mitt leyti greiða henni atkv.

Um brtt. frá hv. þm. N-Þ. gegnir nokkuð öðru máli. 6. gr. frv. fjallar um það, að fastráðnum starfsmönnum við dýrafræðideild náttúrugripasafnsins skuli heimilt að veiða fugla og safna eggjum hvar sem er handa safninu. Hv. þm. N-Þ. leggur til að binda þetta við það, að leyfi landeiganda komi til hverju sinni. Þetta finnst mér of langt gengið. Á það ber að lita í þessu sambandi, að forstöðumaður náttúrugripasafnsins er formaður í fuglafriðunarnefndinni, en sú n. mun fara með framkvæmd þessara l. í umboði ráðherra. Það er því sízt ástæða til þess að ætla, að sá maður fari að beita sér fyrir óþörfu fugladrápi.

Í annan stað skal á það bent, að eins og frvgr. er, þá er þessi heimild bundin við fastráðna starfsmenn dýrafræðideildar náttúrugripasafnsins, m.ö.o., eins og nú er háttað, eina tvo menn, forstöðumanninn og aðstoðarmann, sem þar er.

Í þriðja lagi má á það benda, að það getur komið fyrir um fuglategundir, sem eru sjaldgæfar eða gestir hér og nokkur fengur þykir að ná í í náttúrugripasafnið, að það sé alls ekki kleift og verði kannske jafnvel óbætanlegt, ef ekki má skjóta slíkan fugl innan landareignar lögbýlis, ef landeigandi bannaði. Og enn má á það benda, að þess eru dæmi, að landeigendur lita þannig á máli n, að það sé kannske ekki fyrst og fremst athugavert, þótt einhver fugl sé skotinn, heldur sé ástæða til að taka fyrir það fjármuni, ef starfsmenn á vegum ríkisins, náttúrugripasafnsins, koma í þeim erindum. En ekki virðist nú ástæða til að binda það í löggjöfinni, að svo eigi að vera.

Ég legg þá þessar brtt. mínar fram skriflega og vænti þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þeim, svo að þær geti komið hér undir atkvæði.