08.04.1954
Neðri deild: 81. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef veitt því athygli, sem fór fram hjá mér við meðferð málsins hér á dögunum, að í 20. gr. þessa frv. stendur ákvæði, sem við getum nú varla verið þekktir fyrir að láta sjást í lögum, því að það er nánast að segja hlægilegt. 2. liður þeirrar gr. er þannig: „Nú festast fuglar í netjum, sem ætluð eru til annarra veiða (fisk- eða selveiða), og ber þá að greiða þá úr netjunum og sleppa þeim, ef þeir eru lifandi, þegar netjanna er vitjað.“ Látum þetta vera, þetta er allt í lagi, en svo kemur: „En fugla, sem finnast dauðir í slíkum netjum, má hvorki hirða né nýta á nokkurn hátt.“ Mér finnst vera hlægilegt, að þetta skuli vera sett í lög, en auðvitað tekur þetta enginn alvarlega. Ég leyfi mér þess vegna að leggja hér fram skriflega brtt. um að fella þetta ákvæði niður.

Að öðru leyti vil ég segja það, að ég get alveg tekið undir það, sem hér hefur verið sagt varðandi helsingana, það er afar einkennilegt að vera að friða svo styggan fugl, sem hér er bara um stundarsakir. Ég flutti hér við 2. umr. um daginn brtt. um það að hafa álftina ófriðaða um nokkurn tíma, en það var fellt. En þannig er ástatt um báða þessa fugla, bæði álftina og helsingjann, að þetta eru hinir mestu skemmdarvargar í engjum manna og oft og einatt ekkert betra að fá mörg hundruð af þessum fuglum á engjarnar heldur en að fá stóðhópa, sem engum bændum mun nú þykja mjög eftirsóknarvert. Ég sé nú ekki ástæðu til að fara að fjölyrða um það eða endurtaka það, sem ég sagði hér við fyrri umr. málsins, en vænti þess, að þessi litla brtt. geti komið til greina, og vil biðja hæstv. forseta að leita fyrir henni afbrigða.