08.04.1954
Neðri deild: 81. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Pétur Ottesen:

Það er aðeins út af þeirri brtt., sem nú var síðast borin fram af hv. þm. A-Húnv. um að fella niður ákvæðið um það, að ekki mætti hirða dauðan fugl úr netjum. Náttúrlega er út af fyrir sig ákaflega óeðlilegt að láta slíkt vera í lögum, af því að yfirleitt er ekki eftir þessu farið. En þetta er ekkert nýtt núna, þetta er búið að vera í fuglafriðunarlögunum um áratugi. En við skulum bara athuga, hvaða afleiðingar það getur haft í sambandi við friðunina, að slíkt ákvæði sé fellt niður. Vitanlega opnar það leið fyrir mönnum um það, að þeir geti alltaf, þegar þeir eru með dauðan æðarfugl eða aðra fugla, sem bannað er að skjóta, borið það fyrir sig, að þessi fugl hafi verið dauður í neti, og þar af leiðandi komizt undan ákæru út af þessu etni. Svo hjákátlegt sem þetta virðist vera, þá skulum við bara athuga það, að þarna er verið að opna leið fyrir því að ganga á snið við ákvæði laganna og gera máske að litlu eða engu þá friðun, sem nú er ákveðin gagnvart vissum fuglategundum, eins og t.d. æðarfugli. Þessu vildi ég vekja athygli á í sambandi við, að þessi till. er fram borin.