24.03.1954
Neðri deild: 67. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í frv. þessu, sem hér liggur fyrir til 1. umr., sem er frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt, er gert ráð fyrir stórfelldri lækkun á sköttum. Það má vafalaust teljast til nýrra tíðinda á hv. Alþ., að lagðar séu fram till. um stórfellda lækkun á beinum sköttum. Þó er það nú ekki alveg einsdæmi, og vitna ég þar til þess, að þetta er annað frv. á tæpum 4 árum, sem lagt er fram hér á hv. Alþ. til lækkunar á beinu sköttunum. Fyrra frv. var lagt hér fram 1950 og var um sérstaka lækkun á sköttum á lágum tekjum. Það var að vísu veruleg lækkun á sköttum á lágum tekjum, en ekki stórfelld tekjuskattslækkun í heild sinni.

Núgildandi lög eða núgildandi skattstigar ern frá 1941 og til viðbótar skattstigi frá 1945 um tekjuskattsálag eða tekjuskaftsviðauka. síðan þessir skattstigar voru settir hefur orðið mikil breyting á fjárhagsmálum landsins. Verðbólgan hefur haft í för með sér mjög hækkaðar tölur, og þessar hækkuðu tölur, hið hækkaða verðlag og hið hækkaða kaupgjald og hinar hækkuðu tekjur að krónutölu, hafa haft í för með sér verulega hækkun á sköttunum umfram það, sem gert var ráð fyrir, þegar skattstigarnir voru settir. Reynt hefur verið að ráða bót á þessu að nokkru með sérstökum ákvæðum, og má þar nefna umreikningsákvæðið svo nefnda, sem var sett 1945 í skattalögin og er um það, að umreikna skuli tekjur að vissu marki til þess að koma í veg fyrir, að verðbólguþróunin hækkaði skattabyrðina á þessum tekjum. Þessi umreikningur, sem gerður var til þess að halda skattabyrðinni á lægri tekjunum sem líkastri því, sem gert var ráð fyrir, þegar lögin voru sett, gildir aðeins, eins og ég sagði áðan, að vissu marki. Nú er því svo komið, að skattar á miðlungstekjum og þar fyrir ofan eru miklu hærri en löggjafinn ætlaðist til, þegar skattstigarnir voru lögleiddir, eins og ég gat um áðan. Menn hafa séð missmíði á þessu, og ýmsar raddir hafa verið uppi um, að það þyrfti að endurskoða skattalöggjöfina, m.a. með þetta fyrir augum, sem ég nú hef fram tekið. En það hefur dregizt að gera þessar breytingar á skattalöggjöfinni, fyrst og fremst sjálfsagt vegna þess, að þær hlutu að valda verulegum tekjumissi fyrir ríkissjóð, því að endurskoðun hlaut að hafa í för með sér lækkun á beinu sköttunum, eins og þessum málum var komið. Ég efast ekkert um, að það hefur verið hugur í mörgum að fá þessu breytt og fá skattana lækkaða og tekinn af þann skakka, sem smátt og smátt var að koma á skattabyrðina. En um lækkun á sköttum var ekki hægt að tala í alvöru, á meðan fjárhagur ríkisins leyfði ekki slíkt vegna stöðugs hallarekstrar. En nú, eftir að heppnazt hefur að færa rekstur ríkissjóðs í heppilegra horf, hefur sá ásetningur festst með mönnum að gera þessar breytingar. í samningi þeim, sem núverandi stjórnarflokkar gerðu s.l. sumar og liggur til grundvallar stjórnarsamstarfinu, var það eitt af því, sem fram var tekið, að stj. ætlaði að beita sér fyrir setningu nýrra skattalaga á því þingi, sem nú situr. Stefnan var mörkuð þannig, að það átti að lækka beinu skattana, færa til leiðréttingar misræmi, sem orðið hefur vegna verðlagsbreytinga, og gera ráðstafanir til þess að auka sparnaðinn.

Fyrir tæpum tveimur árum var sett milliþn. til þess að endurskoða skattalöggjöfina, og henni var einnig ætlað að endurskoða löggjöf um tekjustofna sveitar- og bæjarfélaga. Þessi nefnd hefur ekki enn þá skilað fullnaðaráliti, en þær till., sem hér liggja fyrir og lagðar eru fram af stjórninni, eru í raun og veru þættir úr till. milliþn. N. hefur nú þegar unnið mjög mikið starf og að mínum dómi mjög gott starf á margan hátt. En hins vegar er verkefni hennar ekki tæmt, hún hefur ekki lokið störfum, og er það fullkomlega að vonum. Hafa heyrzt raddir um, að þessi n. sæti lengi á rökstólum og óeðlilegur dráttur hefði orðið á því, að hún skilaði áliti. Þetta er fávíslega talað, þegar þess er gætt, hvert verkefni n. hefur með höndum, þar sem henni er ætlað að endurskoða bæði skattalöggjöf ríkisins og skattstofna bæjarog sveitarfélaga. Hér er um gífurlega flókið og örðugt verkefni að ræða, sem óhugsandi er að tæma af nokkurri vandvirkni á örfáum missirum, enda hefur það einnig sýnt sig, að þrátt fyrir mjög mikið og gott starf eru ýmsir þættir málanna ekki það langt á veg komnir, að hægt væri að byggja á þeim rannsóknum, sem fyrir lágu, till. um úrlausn þeirra. N. mun því halda áfram störfum, og meðal þess, sem hún á eftir að athuga nánar, er skattur félaga, útsvarslöggjöfin og í því sambandi tekjustofnar bæjar- og sveitarfélaga og ýmis sérstaklega stór og þýðingarmikil atriði í sambandi við sjálfa útsvarsálagninguna, svo sem veltuútsvörin. Enn fremur mun n. athuga nánar en hún hefur þegar gert ýmislegt viðvíkjandi framkvæmd tekjuskattslöggjafarinnar og væntanlega gera till. um þau efni. N. mun sem sé halda áfram störfum. Það er hægt að segja mönnum það hér til fróðleiks, að Danir hafa haft milliþn. starfandi að endurskoðun skattalöggjafarinnar hjá sér, bæði þeirrar löggjafar, sem fjallar um skattgreiðslur til ríkissjóðs og eins bæjarfélaganna. N. er búin að starfa í tíu ár og er núna að skila fyrstu till. frá sér, en hefur þó ekki lokið störfum.

Því var lýst yfir fyrir jólin í sambandi við afgreiðslu fjárl., að ríkisstj. mundi belta sér fyrir breytingum á skattalöggjöfinni, sem lækkuðu skattabyrðina um 20%. Það er mat skattstofunnar, sem mestan kunnugleika hefur á þessum málum, að þegar til greina eru tekin öll ákvæði þessa frv., bæði breytingar þær á skattstigunum sjálfum, sem í því felast, og einnig mörg önnur ákvæði, sem fela í sér lækkun á sköttum, þá muni frv. valda um 29% lækkun að meðaltali á sköttum annarra en félaga, þ.e.a.s. á sköttum persónulegra skattgreiðenda, en í frv. eru ákvæði um rétta og slétta 20% lækkun á skattgreiðslum félaga. Hér er því um stórfellda skattalækkun að ræða, mun meiri en ríkisstj. gaf fyrirheit um fyrir jólin í sambandi við afgreiðslu fjárl. Efndir eru því hér nú rausnarlega úti látnar, ef svo mætti að orði kveða. Að hér er um stórfellda skattalækkun að ræða, sést m.a. á einu dæmi, sem mér kemur í hug. Það var nýlega lögleidd í Kanada, í því mikla gósenlandi, 11% lækkun á beinum sköttum og þóttu stórtíðindi þar í landi.

Ég mun þá rekja nokkuð efni frv.

Fyrst er að nefna þann höfuðþátt málsins, að settur er nýr skattstigi fyrir einstaklinga í staðinn fyrir þrjá, sem fyrir voru, og umreikningsákvæðin eru numin úr lögum. Þessi nýi skattstigi er miðaður við það m.a. að færa til leiðréttingar þær skekkjur, sem orðið hafa í skattabyrðinni vegna verðlagsbreytinganna. Skattstiginn verkar nokkuð líkt og að umreikningsreglan sé nú innleidd á allar tekjur, og er það að öllu leyti sanngjarnt og fullkomlega eðlilegt. Þessi nýi skattstigi tekur 40% af hæstu tekjum og er því allhár þrátt fyrir lækkunina. Það má hafa til samanburðar, að skattstiginn, sem hér var lögleiddur 1935, náði í 22%, þar sem hann gekk hæst, en svo var því að vísu öllu gerbreytt síðar, þegar viðauki og stríðsgróðaskattur kom til. Þessi nýi skattstigi er byggður þannig upp, að tekjuskattur einhleypra yfirleitt lækkar ekki verulega og sums staðar ekki neitt vegna sjálfra skattstiganna, en hins vegar lækkar tekjuskattur allra einstaklinga vegna þess, að í öðrum ákvæðum þessara nýju skattalaga er gert ráð fyrir mörgum nýjum frádráttarliðum.

Hér er í fyrsta skipti tekið upp það nýmæli í skattalög, að gerður er sérstakur skattstigi fyrir hjón, annar skattstigi fyrir hjón en einstaklinga. Áður hefur það verið þannig, að það hefur einvörðungu verið gerður sá munur á skattgreiðslum einstaklinga og kvæntra manna eða hjóna, sem persónufrádrátturinn hefur valdið. Hér er horfið frá þessari stefnu og tekin upp alveg ný stefna.

Mun ég fara nokkrum orðum um þessa nýju tilhögun.

Því hefur verið haldið fram, að það væri mjög óréttlátt að láta hjón, sem hér um bil ævinlega vinna bæði saman fyrir tekjum heimilisins, og á það jafnt við, hvort sem konan vinnur heima hjá sér eða vinnur fyrir tekjum utan heimills, greiða skatta eftir sömu reglu og einhleypa, sem ynnu einir fyrir sínum tekjum. Í þessu er nokkur sanngirni. Ýmislegt hefur mönum komið í hug til þess að koma til móts við þetta sjónarmið, t.d. hefur það komið til orða að skipta tekjum hjóna til skatts og reikna eins og um tekjur tveggja einstaklinga væri að ræða. Enn fremur hefur það komið til orða að skipta tekjum hjóna að vissu marki, t.d. miðað við eðlilegar vinnutekjur þeirra, og reikna skatt þeirra sitt í hvoru lagi af þeim tekjum, en reikna síðan af því, sem umfram væri, eins og um einstakling væri að ræða. Hvort tveggja þetta hefur komið til álita. Hvorugt hefur þó orðið ofan á í sambandi við þetta mál, og ég get sagt a.m.k. fyrir mitt leyti, að það fyrra, sem ég nefndi, kom ekki til af því, að það mundi lækka svo stórkostlega skatta á hærri tekjum, og auk þess er það ekki réttmætt, að hjón borgi af sínum tekjum eins og um tvo óskylda aðila væri að ræða, sem hefðu tekjurnar sitt í hvoru lagi. Hið síðara, að skipta tekjum hjóna að vissu marki til skatts, felst að nokkru leyti í þessum nýju till. um sérstakan tekjuskattsstiga fyrir hjón. Verður þetta til þess, að þegar hjón vinna saman fyrir tekjum sínum eða hafa tekjurnar sameiginlega, eins og maður og kona ævinlega hafa, þá borga þau minni skatt af tekjunum en einhleypur maður mundi gera, ef hann hefði jafnháar tekjur einsamall.

Ég vil nefna hv. alþm. aðeins örfá dæmi um það, hvernig þessi nýi skattstigi og ákvæðin um persónufrádráttinn breyta sköttum hjóna. Hjón, sem hafa 20 þús. kr. nettótekjur, borga í skatt eftir gildandi lögum 39 kr., ef þau hafa tvö börn á framfæri, en eftir þessu frv. ekki neitt. Hjón með 25 þús. kr. nettótekjur borga eftir núgildandi lögum 165 kr., en mundu borga aðeins 30 kr. eftir þessu frv. Hjón með 30 þús. kr. tekjur, sem eru þó nokkuð algengar tekjur, borga 330 kr. eftir gildandi lögum, en aðeins 160 kr. eftir hinum nýja stiga, og það er 51% skattalækkun. Hjón með 35 þús. kr. tekjur og tvö börn borga núna 550 kr., en 320 kr. eftir þessum nýja stiga, eða 42% skattalækkun. Hjón með 40 þús. kr. tekjur borga 826 kr. núna, en verður 520 kr., eða 37% skattalækkun. Þau, sem hafa 50 þús. kr. tekjur, borga núna 1523 kr., en mundu greiða 1050, þ.e.a.s. 31% skattalækkun hjá þeim. En við þetta er því að bæta, að þessar tölur gefa þó engan veginn fulla hugmynd um þá skattalækkun, sem í frv. felst. Hún er miklu meiri en þetta. Það er vegna þess, að ég nefni hér aðeins það, sem skattarnir lækka á hjónum með tvö börn vegna skattstiganna sjálfra og persónufrádráttar, en hef ekki, eins og gefur að skilja, í tölum það, sem skattarnir lækka vegna ýmiss konar frádráttarliða, sem nú eru heimilaðir, en áður voru ekki heimilaðir.

Hér er því um stórkostlega skattalækkun að ræða, einkum hjá hjónum og alveg sér í lagi hjá hjónum, sem hafa ómaga á framfæri sínu. Hjá hjónum aftur á móti, sem hafa ekki neina ómaga, er þetta nokkuð öðruvísi, en þó mjög mikil lækkun. Ef þau hafa 35 þús. kr. tekjur, þá hafa þau áður borgað 908 kr., en borga nú 710 kr., eða 220 lækkun, og af 45 þús. kr. borga þau nú 1652 kr., en mundu borga eftir frv. 1320 kr., og er það 20% lækkun.

Ég vona, að þessu nýmæli í löggjöfinni, að gera mismun á skattstiga hjóna og einhleypra, verði vel tekið og með þessu þyki komið vel til móts við þær skoðanir, sem fram hafa komið um þetta atriði og að mínum dómi hafa verið að mörgu leyti réttmætar.

Þá vil ég víkja nokkuð að skatti fiskimanna sérstaklega. Það hefur allmikið verið rætt um það undanfarið, að skattaálögur á fiskimenn hafi ekki verið réttlátar. Það sé ekki tekið nægilega mikið tillit til þess, að þeir hafi sérstakan kostnað við að afla teknanna, sem aðrir hafa ekki. Einnig hefur verið á það minnzt, að það ætti að skattleggja hreinar tekjur fiskimanna nokkuð öðruvísi en annarra.

Í frv., sem hér liggur fyrir, eru nýmæli um þessi atriði. Hér er lagt til, að tekið verði tillit til þess sérstaka kostnaðar, sem fiskimenn óneitanlega hafa umfram aðra menn við að afla teknanna, og skal ég rekja þetta í stuttu máli. Það er gert ráð fyrir, að togarasjómenn fái að draga frá 300 kr. fyrir hvern mánuð, sem þeir stunda veiðar, vegna sérstaks sjófataslíts og vinnufatakostnaðar umfram það, sem tíðkast hjá öðrum, og bátasjómenn 200 kr. á mánuði. Það er allra manna mál, sem til þekkja, að þó að fataslit sé mikið og kostnaður hjá bátamönnum í þessu tilliti, þá sé hann enn meiri hjá togaramönnum. Er þessi mismunur gerður eftir að ráðgazt hefur verið við menn, sem hér mega vel til þekkja, og þessar fjárhæðir ákveðnar í samráði við þá.

Einnig er hér nýmæli í þessu frv., að ef menn kosta fæði sitt um borð í skipi, eins og margir bátasjómenn þurfa að gera, þá megi telja það til frádráttar sem kostnað við að afla teknanna. Þetta hefur ekki áður verið og gildir ekki um neina aðra. Þetta er byggt á þeirri skoðun, að það valdi miklum aukakostnaði fyrir menn, sem hafa heimili, að þurfa að fæða sig sér í lagi utan heimilis.

Einnig er hér tekið inn það nýmæli, að ferðakostnaður í langferðum til þess að afla sér atvinnu skuli frádráttarbær, en það hefur ekki heldur áður verið. Er það líka réttmætt atriði.

Loks vil ég geta þess, að hér er staðfest og sett inn í sjálf skattal. lagaákvæði, sem áður hefur að vísu haft gildi, en hefur verið annars staðar en í sjálfum skattal., um það, að fái sjómenn ókeypis fæði, þá skuli það ekki reiknað þeim til tekna sem hlunnindi, en það var mjög lengi gert að reikna mönnum slíkt til tekna.

Ef við athugum aðstöðu togarasjómanna í sambandi við skattgreiðslur til ríkisins eins og þær eru núna og yrðu, ef frv. þetta verður að l., þá koma þar fram ýmsar fróðlegar tölur, sem ég ætla að leyfa mér að færa hér fram.

Ég tek þrjú dæmi um togaramenn, sem hafa 40 þús. kr. kaup, 45 þús. kr. kaup og 50 þús. kr. kaup, og síðan annars vegar af einhleypum manni og hins vegar af kvæntum manni, sem á tvö börn, sem er tæplega meðalfjölskylda. Er þá reiknað eftir nýja skattstiganum og persónufrádrættinum og einnig tekinn til greina þessi leyfði nýi frádráttur vegna sérstaks kostnaðar fiskimanna við að afla teknanna, sem ég gat um áðan. Verður niðurstaðan þessi: Sá, sem hefur í kaup 40 þús. kr., greiðir nú um 1487 kr., einhleypur maður, en mundi borga eftir þessu frv. 1191 kr., m.ö.o. lækkar hans skattur um 20%. Ef um 45 þús. kr. kaup er að ræða hjá einhleypum manni, borgar hann núna 1979 kr., en mundi borga 1665 kr., og lækkunin hjá honum er rétt um 16%. En ef hann hefði 50 þús. kr., sem eru víst háar tekjur hjá togaramönnum, en sumir segja, að tekjur hjá togarahásetum séu á milli 40 og 45 þús. kr. að meðaltali, — ef um 50 þús. kr. tekjur er að ræða, þá er tekjuskattur nú 2606 kr., en mundi verða 2165 kr. Hjá einhleypum manni á þessu tekjubili mundi frádrátturinn muna um 15% í sköttum.

Víkjum svo að kvæntum manni með tvö börn. Ef hann hefur 40 þús. kr. tekjur, lækkar skattur hans úr 729 kr. niður í 337 kr. og lækkar því um 54%, og er það mun meiri lækkun en almennt, vegna þess að það munar mikið um þennan frádrátt vegna kostnaðarins við að afla teknanna. Hann tekur toppinn af tekjunum. Ef maðurinn hefur 45 þús. kr. tekjur, lækkar hann úr 1044 kr. í 538 kr., eða um tæp 49%, nærri 50% af 45 þús. kr., sem sumir telja meðaltekjur togaramanna. Af 50 þús. kr. tekjum eru það 1413 kr., sem hjónin borga nú, en mundu borga 782 kr., og lækkunin hjá þeim er þá 45%.

Hér er aðeins tekið tillit til þeirrar lækkunar, sem felst í skattstiganum, persónufrádrættinum og vegna sérstaks frádráttar hjá fiskimönnum, en ef hér er um leigjendur að ræða og fólk, sem hefur einhvern af þeim öðrum frádráttarliðum, sem leyfðir eru í frv. nýja, og það mun nú vera um flest af þessu fólki, þá lækkar skatturinn enn meira en þetta.

Nú hefur verið talað um það í sambandi við ýmis vandkvæði, sem togaraútgerðin á við að búa, og mannakost á skipunum, að það mundi geta leyst þann vanda að einhverju verulegu leyti að breyta skattal. Sannleikurinn er sá, að skattgreiðslur á þessum tekjubilum til ríkisins hafa aldrei verið svo háar, að það hafi getað riðið baggamuninn í þessu sambandi. Það er a.m.k. alveg óhætt að segja það hiklaust, að eftir að þær breytingar eru á komnar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þá eru þessar skattgreiðslur orðnar svo smávægilegar, samanborið við tekjurnar, að breytingar á þeim úr því geta ekki valdið úrslítum, þegar um það er að ræða, hvort menn vilji manna togaraflotann eða ekki. Ríkisstj. og milliþn. hafa viljað leita að því sanngjarna í þessu máli og bæta úr því, sem áfátt hefur verið um löggjöfina í þessu tilliti, og sannleikurinn er sá, að það hefur ekki í löggjöfinni verið tekið tillit til þess sérstaka kostnaðar, sem fylgir þessum störfum, en nú verður það gert. Hitt er svo annað mál og kemur ekki þessu beinlínis við, að það eru útsvörin, sem eru miklu stærri gjaldaliður fyrir menn yfirleitt, fiskimenn og aðra, og ekki sízt menn á þessum tekjubilum, sem hér hefur verið talað um, en tekjuskatturinn, og sennilega óhætt að segja margfalt stærri, eftir að þær breytingar, sem hér er stungið upp á, hafa verið lögfestar.

Þá vil ég næst minnast á húsaleigumat og húsaleigu og skattgreiðslur húseigenda og leigjenda. Það hefur verið mikið kvartað yfir því, að það væri ósamræmi á milli skattgreiðslna húseigenda annars vegar og leigjenda hins vegar, og það má til sanns vegar færa, að hér hefur verið misrétti. Húsaleiga í eigin húsum hefur verið tiltölulega lágt metin til skatts, og á því hafa nú ekki verið gerðar verulegar breytingar upp á siðkastið. Það getur verið erfitt að skera úr um það, hvað sanngjarnt er í þessu tilliti, og skal ég ekki fara langt út í það, en okkur, sem stöndum að þessu frv., finnst vera ósamræmi hér, sem þarf að draga úr. Viljum við stíga skref til þess að bæta úr eða minnka það bil, sem hér er á milli, með því að lögleiða hér algert nýmæli, heimila leigjendum að draga frá hluta af þeirri leigu, sem þeir greiða, ef þeir sýna fram á, að þeir greiði hærri leigu en húseigandanum mundi vera metin leigan, ef hann notaði húsnæðið sjálfur. Það er aðalreglan. En þó má frádráttur ekki fara yfir 600 kr. á mann í fjölskyldunni. Það hefði í sjálfu sér verið sanngjarnt, að þessi leigufrádráttur hefði verið leyfður meiri, að óbreyttu mati á eigin húsaleigu, en við treystum okkur ekki til þess að stiga stærra skref en hér er gert vegna þess, hversu skattalækkunin var orðin mikil, þegar öll ákvæðin voru tekin saman, sem nauðsynlegt þótt að lögleiða. Þegar þetta var allt saman tekið, þá sýndi það sig, að skattalækkunin var orðin svo mikil, að við treystum okkur ekki til þess að ganga lengra í þessu.

Þá er hér í frv. allmerkur þáttur, sem ástæða er til þess að minnast á, og það er helmildin til þess að draga frá iðgjöld fyrir ólögboðnum lífeyristryggingum og líftryggingum, þ.e. þegar menn leggja til hliðar fé í því skyni að fá það aftur síðar á ævinni og þegar menn kaupa líftryggingu, sem allir kannast við. Það hefur verið mjög takmarkað, sem menn hafa mátt draga frá af iðgjöldum slíkra trygginga, en er nú mjög aukið eða upp í allt að 10% af tekjunum, þó ekki yfir 7000 kr. Þetta er gert til þess að hvetja menn með skattalöggjöfinni til að fara inn á þessa braut. Það er nú orðið talsvert tíðkað, að menn geri þetta. Ég vil nefna tvö dæmi, sem eru mjög merkileg. Annað er, að yfirmenn á togaraflotanum hafa gert samninga við togaraútgerðarfélögin um það, að hluti af kaupgjaldi þeirra skuli þeim greitt þannig, að það sé lagt inn á sjóði, og svo útborgað síðar á ævinni eftir vissum reglum. Flugmenn hafa nú alveg nýlega samið á svipaðan hátt. Þetta er mjög æskileg aðferð og æskileg þróun, bæði að því er snertir togaramennina og flugmennina. Hér er um menn að ræða, sem oft hafa allgóðar tekjur á vissu tímabili ævinnar, en vinna þannig vinnu, að þeir geta ekki búist við því að halda henni eða hafa ekki aðstöðu til þess að hafa þá vinnu, eftir að þeir eru orðnir mjög fullorðnir, og þá lækka tekjur þeirra oft skyndilega. Þá er mjög gott fyrir þá og nauðsynlegt að hafa geymt hluta af tekjum sínum, meðan þær voru góðar, og geta notið þeirra síðar. En þetta geta þeir ekki, nema þeim sé sleppt við að borga skatta af því, sem lagt er í tryggingasjóðina af tekjunum, og einmitt við þetta eru þessi nýju ákvæði í frv. miðuð. það er mín skoðun, að sérstök ástæða sé til þess að ýta undir þetta, bæði vegna þess, hversu hagfellt þetta er fyrir einstaklingana, og einnig vegna þess, að þetta er mjög heppileg og góð leið til þess að auka sparnað, til þess að auka sparifé og þar með það fé, sem handbært er til hvers konar framkvæmda. Hér er sem sé ein leið og það mjög heppileg leið til þess að ýta undir sparnað, en eins og menn muna, þá var það í stefnuyfirlýsingu ríkisstj., stjórnarflokkanna, að þeir vildu við setningu skattalöggjafarinnar einmitt sérstaklega hafa það sjónarmið fyrir augum að ýta undir aukinn sparnað.

Ég kem þá að einu nýmæli enn, sem er stórmál út af fyrir sig, og það er ákvæði þessa nýja frv. um skattfrelsi sparifjár. Ég minnti á það í haust, þegar ég lagði fyrir fjárlagafrv., að stjórnin hefði á prjónunum miklar framkvæmdir, og ég minnti á þær miklu kröfur, sem ætið væru uppi í landinn um meiri og meiri framkvæmdir. Ég minnti á, hversu erfitt væri að afla fjár til þeirra framkvæmda, sem þjóðin vildi hafa og teldi nauðsyn að væri komið áleiðis. Ég benti á, að það væri ekki um annað fé að ræða í þessu skyni en það, sem þjóðin legði fyrir. Það er ekki hægt að nota sama féð til venjulegrar eyðslu og einnig til framkvæmda. Það yrði þess vegna að auka sparnaðinn, ef draumar manna um miklar framkvæmdir á næstu árum ættu að rætast. Það væri hægt að hugsa sér tvær aðferðir: annars vegar einhvers konar þvingunarleið, þvinga menn til þess að spara með einhverju móti, hins vegar með því að gera aðgengilegra að spara, gera ráðstafanir, sem gerðu aðgengilegra fyrir menn að eiga innstæður. Ég sagði þá, að ég hefði enga trú á þvingunarleiðunum, eins og allt væri í pottinn búið, og það yrði að reyna að fara hina frjálsu leið í þessu sambandi og gera ráðstafanir vil þess að gera aðgengilegra fyrir menn að spara og eiga innstæður. Eitt af því, sem ég nefndi þá, var það ákvæði stjórnarsáttmálans að ýta undir sparnað með setningu nýrrar skattalöggjafar. Þetta hyggst stjórnin gera með því að lögleiða skattfrelsi sparifjár, og er ákvæði um það í þessu frv. Ákvæðið er þannig, að skattfrjálsar eru allar innstæður og allar tekjur af innstæðum, sem menn eiga umfram það, sem þeir skulda, þó með þeirri undantekningu, að til skulda þarf ekki að telja í því sambandi allt að 120 þús. kr. fasteignalán, sem menn kunna að skulda með veði í fasteign, enda sé lánið a.m.k. til tíu ára og tekið til þess að afla fasteignarinnar. Þetta ákvæði er byggt á þeirri meginhugsun, að einstaklingurinn spari ekki í raun og veru, nema hann leggi til nettósparifé í þjóðarbúið, þ.e.a.s. spari meira en hann tekur að láni. Enn fremur er nauðsynlegt að hafa þetta ákvæði um, að skattfrelsið nái aðeins til þess sparifjár, sem menn eiga umfram skuldir, til þess að fyrirbyggja misnotkun á ákvæðinu um skattfrelsi sparifjár. Ef þetta ákvæði væri ekki, þá gæti hæglega svo farið, að menn gætu grætt á því að fá lán til þess að láta innstæðu standa á móti, en það væri misnotkun á ákvæðinu um skattfrelsi sparifjár. Fyrir þetta er byggt með þessu ákvæði um, að skattfrelsið nái til þess sparifjár einungis, sem menn eiga umfram skuldir. En undantekningin, þessi sem ég gat um áðan, um fasteignaveðslán að vissu marki, er byggð á þeirri hugsun, að það sé alveg eðlilegt, að svo að segja hver maður þurfi að taka eitthvert slíkt lán til þess að eignast íbúð eða allra nauðsynlegustu fasteign til afnota fyrir sig, og megi því vel gera undantekningu um þetta frá aðalreglunni og vel verðlauna menn fyrir sparnað, þó að þeir skuldi slíka skuld á móti.

Þá hefur verið horfið að því ráði að ákveða, að það þurfi ekki að telja fram á framtölum það sparifé, sem skattfrjálst er á annað borð, en aftur á móti aðeins það sparifé, sem skattskylt er, þ.e.a.s. sparifé þeirra, sem skulda á móti. Þó er það tekið fram, að þeir, sem bókhaldsskyldir eru, verði að setja spariféð í reikninga sína, til þess að samræmið ekki raskist, þótt það sé skattfrjálst, ef þeir uppfylla skilyrði laganna.

Þetta þótti rétt að gera. Margir skynsamir menn halda því fram, að það sé mjög stórt atriði til þess að örva sparnaðinn, að menn þurfi ekki að telja fram innstæður, og muni notast miklu betur af skattfrelsisákvæðinu til þess að örva sparnaðinn með því að hafa þetta ákvæði í lögunum. Þess vegna hefur verið horfið að þessu ráði og skrefið stigið alveg hiklaust og heilt. Það hefur verið mjög gaumgæfilega athugað, hvort í þessu muni vera fólgin hætta fyrir framkvæmd skattalaganna, hvort það vegna þessa verði svo erfitt að fylgjast með eignahreyfingum, að verulega tapist aðhald og tækifæri til þess að gagnrýna framtöl manna og komast að því rétta, ef menn kynnu að vilja skýra rangt frá. Sú athugun hefur leitt til þess, að menn setja þetta ekki fyrir sig og telja, að það muni ekki vera nein veruleg hætta á þessu, a.m.k. ekki svo mikil, að þetta sé setjandi fyrir sig, og sé því réttara að stíga skrefið alveg heilt og gera spariféð skattfrjálst að því leyti, sem ég hef lýst, og undanþiggja það framtalsskyldunni líka. Ég vil taka það fram í leiðinni, að spariféð verður líka undanskilið útsvarsskyldunni. Eins og gefur að skilja, þá er þetta þýðingarlítið, nema það sé gert líka. Það væri ekkert skattfrelsi á sparifé, þó að ríkið félli frá skattinnheimtu á sparifé, ef bæjar- og sveitarfélög mættu svo hækka að sama skapi skattlagninguna á spariféð. Hér er spariféð gert skattfrjálst beinlínis til þess að gera aðgengilegra fyrir menn að leggja fyrir peninga, og þess vegna verður að stíga skrefið alveg heilt, og féð verður að vera útsvarsfrjálst líka. Sannleikurinn er einnig sá, að þjóðfélagsnauðsyn er svo brýn í þessu sambandi, að ég hygg, að flestir muni telja þetta alveg eðlilegt og sjálfsagt raunar, eins og nú er komið, til þess að reyna að örva sparnaðinn. Það hefur hallað stórkostlega á sparifjáreigendur undanfarið, og þó að við vonum, að það þurfi ekki að halla á þá eins í framtíðinni, þá held ég, að enginn þurfi að bera kviðboga fyrir því, að það verði of vel að þeim búið. Svo þýðingarmikið er, að menn gerist til þess að leggja fyrir fé, einmitt eins og hér horfir um framkvæmdaráhuga og fjárskort.

Ég vil í þessu sambandi minnast á það, að vegna hinnar nýju stefnu, sem fyrrv. ríkisstj. tók upp í fjárhagsmálum, þá hefur nú orðið hér alveg stöðvun á verðlagi í tvö ár, og það hefur orðið til þess, að viðhorf manna til peninga er mjög breytt. Menn þora þó a.m.k. nú að eiga peninga yfir nóttína, en það var tæpast hægt að segja, að menn þyrðu það, eins og ástandið var áður. Nú hefur verðlagið verið stöðugt hér í tvö ár. Viðhorf manna til peninga er talsvert breytt, enda sýnir þróunin í bankamálunum það greinilega, því að sparifé hefur aukizt óvenjulega mikið. Og þó að það sé að verulegu leyti af því, að tekjur manna hafa vaxið, þá er það einnig af hinn, að mönnum finnst ekki nauðsyn bera til að eyða öllu jafnóðum, eins og mönnum fannst á meðan verðbólguhjólið valt áfram með fullum hraða.

Þá er ákvæði í þessu frv. um það, að jarðræktarstyrkur teljist ekki til tekna. Þetta ákvæði er byggt á því, að jarðræktarframlagið er framlag ríkisins í stofnkostnað framkvæmda og er því alls ekki tekjur fyrir þann, sem á móti því tekur. Þetta er alveg hliðstætt við það, sem framkvæmt hefur verið um önnur slík framlög, því að engin slík framlög af hinu opinbera hafa veríð talin til tekna.

Í gildandi l. er ákvæði um það, að eiginkonur, sem vinna utan heimilis og þurfa að kaupa sér aðstoð, megi draga frá kostnaðinn við þessa aðstoð að nokkru leyti, en mjög er þetta takmarkað. Í þessu nýja frv. er veitt mun ríflegri frádráttarheimild fyrir slíkum kostnaði en áður hefur verið, og þykir það eðlilegt.

Þá er í þessu frv. heimilað, að frumbýlingar, sem stofna heimili, megi draga frá tekjum sínum kostnaðinn við stofnun heimilisins að vissu marki það ár, sem þeir stofna til heimills.

Loks er í frv. ákvæði um það, að hluti af björgunarlaunum sjómanna skuli skattfrjáls. Er þetta ákvæði komið til af því, að við höfum séð hvað eftir annað á undanförnum árum, að skipshöfn hefur bjargað skipi og áhöfnin hefur fengið nokkur björgunarlaun í eitt skipti, en þau mestmegnis farið í skatta. Þetta hefur máske komið fyrir menn í eitt skipti á ævinni. Þetta er ekki sanngjarnt, og því er nú lagt til, að þessu verði breytt.

Ég kem þá að félögum og skattlagningu félaga. Eins og ég gat um áðan, var störfum milliþn. ekki svo langt komið, að fullum tökum væri hægt að ná á þessu máli, skattlagningu félaga. Hér er um stórfellt vandamál að ræða. Það verður að segja eins og er, að ákvæði gildandi l. um skattlagningu félaga hafa ekki gefizt vel. Það var ákveðið á sínum tíma, að þau skyldu greiða skatt eftir sömu reglum og einstaklingar, og sá skattstigi er mjög hár, eins og menn vita. Afleiðingin af þessu hefur orðið sú, að atvinnurekstri og rekstri yfirleitt hefur verið skipt niður í mörg félög, til þess að menn gætu komizt hjá hinum háu skattstigum á þann hátt. Efnahagsstarfsemi hefur verið bútuð niður, ef svo mætti segja, í mörg félög til þess að komast hjá hinum háu skattstigum. Þetta er mjög óheilbrigð þróun. Þetta verður til þess, að hinir háu skattstigar hafa enga þýðingu í þá átt, sem þeir áttu að verka, þ.e.a.s. til þess, að af háum félagatekjum væri greiddur hár skattur. Menn dreifa starfseminni og komast þannig hjá hinum háu sköttum. Á hinn bóginn verður þetta til þess, að sú efnahagsstarfsemi, sem á að vera rekin í einu lagi, er rekin í mörgu lagi. Þetta er dauðans óheppileg atburðanna rás. Þetta hafa menn líka rekið sig á í öðrum löndum, og hafa þessi mál víða verið til meðferðar. Norðmenn og Svíar hafa tekið hér upp alveg nýja stefnu. Ég veit ekki með vissu, hvað langt er síðan þeir tóku alveg nýja stefnu í þessu, en hún er sú, að þeir láta félögin greiða jafna prósentu alveg án tillits til þess, hvað tekjurnar eru miklar. Hugsunin er sú, að í félögum komi til samsköttunar eign og tekjur margra aðila. Enn fremur á þannig að koma í veg fyrir, að efnahagsstarfsemin sé klofin niður í eintóm smáfélög. Þeir hafa vafalaust rekið sig á það sama og við, að hinir háu „progressívu skalar“ fyrir félögin hafa í reyndinni litla þýðingu aðra en þá, að efnahagsstarfsemin er bútuð niður í ótal félög. Hér er þetta allt í athugun enn þá.

Eitt af því, sem mjög þarf að skoða í þessu sambandi, eru hin svo kölluðu veltuútsvör og útsvarsálagning á félög yfir höfuð. Eins og menn vita, þá er hvorki tekjuskattur né útsvar núna frádráttarbært á skattaframtölum, og það er byggt á þeirri hugsun, að tekjuskatturinn og útsvörin séu skattar af hreinum tekjum, en ekki óbeinir skattar. En verulegur hluti af útsvarinu er ekki skattur á hreinar tekjur, heldur á veltu eða umsetningu. Þetta hefur stundum verkað þannig, að einstökum aðilum hefur verið gert að greiða í tekjuskatt og útsvar samanlagt eins hátt og jafnvel meira en tekjur þeirra hafa numið. Veituútsvarið er eins konar umsetningargjald eða söluskattur, en þó að þessu leyti frábrugðið, að það er ekki frádráttarbært. Þetta verkar á þennan hátt, að stundum verða fyrirtæki að greiða jafnvel meira en allar tekjur sínar í skatta. Þetta er mikið vandamál, og eftir eðli sínu ætti veltuútsvarið að vera frádráttarbært, þó að tekjuskatturinn og það af útsvörunum, sem lagt er á eignir og tekjur, væri það ekki. En það er ómögulegt að lögbjóða það, að veltuútsvarið sé frádráttarbært, nema það séu þá um leið settar skorður við því, hvað veltuútsvarið má vera mikið. Séu engar reglur í l. um veltuútsvarið og það gert frádráttarbært, þá er niðurjöfnunarnefndum gefið alveg ótakmarkað vald til þess að leggja á nýjan söluskatt eða nýjan toll.

Það er hins vegar geysilega miklum vandkvæðum bundið að finna skynsamlegar og heppilegar reglur í lög um veltuútsvörin. Það er vegna þess, að fjárþörf bæjarfélaganna og sveitarfélaganna sýnist vera ákaflega misjöfn, a.m.k. samanborið við tekjur í byggðarlögunum, og þar af leiðandi sýnast veltuútsvörin vera mjög misjöfn nú og þörfin fyrir þau. Ákvæði um veltuútsvar, sem væru meira en nógu rúm fyrir eitt byggðarlagið, tíundu koma öðru byggðarlagi á kaldan klaka. Það liggja samt ekki nógu glöggar upplýsingar fyrir um þetta efni, þetta stórkostlega vandamál, til þess að um þetta verði dæmt nú. Allt er þetta í nánu samhengi við félagaskattinn, bæði til ríkis og bæjar- og sveitarfélaga.

Niðurstaðan varð því sú að taka hér algera bráðabirgðalausn varðandi félögin, og til þess að leggja áherzlu á, að hér er um bráðabirgðalausn að ræða, er það ákvæði sett í frv., að það skuli lækka skattgreiðslu félaga um 20% á þessu ári, og það gildir aðeins fyrir þetta ár.

Í sambandi við þetta mál vil ég gerast svo djarfur að minnast ofur lítið á frv. til l. um útsvör, sem hæstv. félmrh. mun leggja hér fyrir á eftir, en er þessu mjög nátengt. Ég gat um það áðan, að milliþn. í skattamálum hefði ekki lokið störfum, m.a. ekki lokið rannsóknum sínum á málefnum bæjar- og sveitarfélaga, og ég minntist á þetta nokkuð í sambandi við það, sem ég sagði nú rétt áðan um veltuútsvarið. Ýmsar raddir hafa verið uppi um, að það ætti að setja í lög útsvarsstiga fyrir bæjar- og sveitarfélögin, það væri ekkert vit í því að leyfa að leggja á útsvör ótakmarkað. Á þessu eru miklir erfiðleikar, og hvað sem um þetta verður í framtíðinni, þá lágu þessi mál ekki þannig fyrir nú, að þetta væri með nokkru móti fært. Hér kemur það enn upp úr dúrnum, að þarfir sveitar- og bæjarfélaganna virðast vera svo misjafnar, samanborið við tekjur og eignir a.m.k., þannig að útsvarsstigi, sem settur væri í l., yrði allt of rúmur fyrir suma og mundi hvetja þá beinlínis til frekari álaga, en allt of þröngur fyrir aðra og valda þar miklum vandkvæðum. Mál þetta lá því ekki þannig fyrir, að nokkrir menn væru reiðubúnir, að því er ég veit bezt, til þess að gera till. um að lögfesta fastar reglur fyrir útsvarsstiga fremur en reglur um veltuútsvörin. Niðurstaðan varð því sú að leggja til að sinni þá eina breytingu á útsvarslögunum, sem felst í frv., sem hér er á dagskrá í dag. Breytingin er sú, að skylda niðurjöfnunarnefndir til þess að birta þær reglur, sem þær jafna niður eftir útsvörunum, enn fremur að gera nefndunum skylt að gera hverjum einstökum grein fyrir því, hvernig útsvar hans er á lagt eftir reglunum, ef hann óskar þess.

Þetta sýnist vera skynsamlegt að lögleiða og eðlilegt, og manni finnst, að þetta lagaákvæði gæti m.a. orðið að nokkru til þess að skapa grundvöll undir fastari skipan þessara mála í framtíðinni. Með þessu mundu koma fram miklu meiri og betri upplýsingar en áður hefur verið hægt að fá fram um það, hvernig raunverulega er ástatt í þessu tilliti, hvernig útsvörunum er í raun og veru jafnað niður, t.d. að hve miklu leyti útsvörin eru nú beinn skattur og að hve miklu leyti þau eru veltuútsvar eða óbeinn skattur o.s.frv. Með þessu ætti því að vera hægt að vinna tvennt: innleiða meira öryggi fyrir borgarana en þeir hafa áður átt við að búa og fá betri og skýrari upplýsingar um hið raunverulega ástand þessara mála en áður hafa verið fyrir hendi.

Þá vil ég geta þess, að það mun verða lagt fram, væntanlega á morgun, frv. frá ríkisstj. um það, að bæjar- og sveitarfélögin fái fasteignaskattinn. Það er flutt til þess að leggja áherzlu á, að það sé rétt, að fasteignaskatturinn verði skattstofn bæjar- og sveitarfélaganna eingöngu, en ekki ríkissjóðs.

Ég orðlengi ekki meira um mál þetta.

Ég vil að lokum aðeins minna á það enn og aftur, sem ég hef drepið á, að í stjórnarsamningnum er fyrirheit um það að lækka beina skatta, færa til leiðréttingar misræmi í skattabyrðinni vegna verðlagsbreytinga og stuðla að aukinni sparifjársöfnun. Það mun víst enginn í efa draga, að fyllilega er við þessi fyrirheit staðið með þessu frv.