25.03.1954
Neðri deild: 68. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vildi segja hér fáein orð út af þeim ræðum, sem fluttar hafa verið síðan ég hafði framsögu fyrir málinn. Ég verð ekki langorður.

Ég vil fyrst minnast á ræðu hv. 5. þm. Reykv. (JóhH). Hann taldi, að milliþn. í skattamálum hefði ekki unnið vel. Ég held, að hv. þm. haldi þessu fram af því, að hann er ekki nógu kunnugur skattamálum og gerir sér ekki nógu vel grein fyrir því, hversu margþætt þau eru og erfið viðfangs. Fer ég ekki lengra út í það. Mér virtist hv. þm. eiga það eitt erindi hér í ræðustólinn að gera tilraun til að koma þeirri skoðun inn hjá mönnum, að sú breyting á skattalögunum, sem hér liggur fyrir, eða þær lækkanir á sköttum, sem nú eru ráðgerðar, séu eingöngu verk Sjálfstfl. og eiginlega þó sérstaklega hans, þm. sjálfs. Færði hann fram í því sambandi tvennt aðallega. Annað var það, að hann hefði flutt ásamt fleirum þáltill. um skipun milliþn. í skattamálum. Hitt var það, að hann hefði ásamt fleirum flutt hér í fyrra frv. um breytingar á vissum þáttum skattalaganna.

Ég vil segja út af þessu í allri vinsemd við hv. þm., að hann má að mínum dómi vara sig á því að gera sig ekki broslegan með málflutningi eins og þessum. Ef það ætti að hafa fyrir satt, að skattalækkanir þær, sem hér eru nú gerðar, væru að þakka þeim frv. eða till., sem á undanförnum árum hafa komið fram hér á þingi um breytingar á skattalögunum, þá hygg ég, að það yrðu fleiri en þessi hv. þm., sem ættu að geta þakkað sér þetta mál. Núverandi stjórnarandstæðingar hafa haugað hér á hverju einasta þingi inn till. um lækkanir á sköttum, um athuganir á skattalögunum, eins og þessi hv. þm. hefur raunar líka gert. Ætli stjórnarandstæðingar mundu þá ekki vilja eiga einhvern þátt í heiðrinum af því að standa að þeirri skattalækkun, sem nú er gerð, alveg eins og þessi hv. þm.? (Gripið fram í.) Já, ég er með þessu að sýna, hvað það er að marka, þó að menn hafi flutt hér till. á undanförnum þingum um skattalækkanir. Það er hægt að leggja að jöfnu þessar till. stjórnarandstæðinga á undanförnum árum og þær uppástungur og till., sem þessi hv. þm. hefur gert. Það er hægt að leggja það alveg að jöfnu. Það hefur engin áhrif haft á afgreiðslu þessa máls, hvorki þær till., sem hv. stjórnarandstæðingar hafa gert, né heldur þær till., sem þessi hv. þm. hefur gert, — ekki hin minnstu áhrif. Og varðandi mþn. er ástæða til að benda á það í þessu sambandi, að hv. þm. fylgist dálítið með og hann hefur fundið, að það var lagzt í loftið, að það átti að fara að endurskoða skattalöggjöfina. Þá var náttúrlega alveg prýðilegt tækifæri til þess að skjótast fram með till. um, að slík endurskoðun færi fram, og skrifa nafn sitt á auglýsingaspjaldið í því sambandi. Það var vitað mál, að endurskoðunin hlaut og átti að fara fram, og þá var hyggilegt frá sjónarmiði þeirra, sem vilja láta á sér bera og hafa gott auga fyrir auglýsingastarfsemi, að leggja fram slíka till. Auðvitað hefði skattalöggjöfin verið endurskoðuð á nákvæmlega sama tíma og hún hefur verið endurskoðuð, þótt hv. þm. og aðrir félagar hans hefðu ekki lagt fram þáltill. Það hafði engin áhrif og markaði enga stefnu í málinu.

Annað má líka minna á í þessu sambandi, máske sumpart til gamans. Ef það er svo auðvelt að lækka skattana, að það þarf ekkert annað en að leggja fram þáltill. eða frv. um lækkun á sköttunum, alveg án tillits til þess, hvernig ástatt er, hvernig stóð þá á því, að fjmrh. Sjálfstfl. skyldu ekki beita sér fyrir skattalækkun, þegar þeir fóru með fjármálin?

Sannleikurinn er sá, að hér er hægt að leggja flest að jöfnu, sem fram hefur komið á undanförnum árum í auglýsingarskyni. Menn hafa minnt á málið, og það er ekkert við því að segja, bæði hv. stjórnarandstæðingar og aðrir, en allt má leggja það að jöfnu varðandi áhrif á úrslit málsins og gang þess. Og satt að segja finnst mér það dálítið óviðkunnanlegt að vera að reyna að læða þeirri skoðun inn hjá hv. þm. og öðrum, að það eigi að draga sérstakar ályktanir um þetta mál, sem hér liggur fyrir, af þessum till., sem undanfarið hafa verið á ferðinni.

Ef hv. þm. er þannig settur, að hann trúi því sjálfur, að hann sé eiginlega „primus motor“ í þessu máli, þá veit ég sannast að segja ekki, hvernig fer fyrir honum. Mér dettur þá í hug, að verði hann gamall maður, sem við allir von um, þá fari þannig fyrir honum, að hann standi að lokum í þeirri meiningu, að hann hafi verið fjmrh. 1950–54 og staðið fyrir því að lækka stórkostlega skatta á þjóðinni, og segi barnabörnum sínum sögur af þessum afrekum. Manni getur dottið þetta í hug, ef hv. þm. er nú þegar á unga aldri þannig kominn, að hann trúi því sjálfur, að hann hafi verið „primus motor“ í þessum ráðstöfunum til skattalækkunar, sem nú er verið að gera.

Þá má minna á annað líka í þessu sambandi, og það er þetta einkennilega fyrirbrigði í fari Sjálfstfl., að þegar sjálfstæðismenn höfðu fjmrh. úr sínum hópi, þá héldu þeir því alltaf fram, að það væru eiginlega framsóknarmenn, sem stýrðu fjármálunum! Þá gekk allt á tréfótum, og það þótti ekki sómi að því að vera við fjármálin kenndur, og þá var lausnin einföld: Það var Framsókn, hún var ómöguleg, og því gekk allt á tréfótum hjá fjmrh. sjálfstæðismannal En eftir að framsóknarmenn tóku við forustunni í fjármálunum, þá er því aftur á móti haldið fram af sjálfstæðismönnum, að það séu eiginlega þeir, sem stýri fjármálunum, þ.e.a.s. skattalækkunum og þess háttar, aftur á móti ráði framsóknarmenn því, að ríkisútgjöldin hækki. Í raun og veru má ég vel við þetta una. Það sýnir svona hér um bil, hvernig sjálfstæðismenn telja inn á sér að fjármálaforustan hafi tekizt fyrr og nú.

Hv. þm. minntist hér á skattfrelsi sparifjár og viðhafði sömu aðferðina í því sambandi, sagði, að það hefði verið flutt hér í fyrra af hv. þm. A-Húnv. frv. til laga um skattfrelsi sparifjár. Það er alveg rétt, svo langt sem það nær. Það var flutt hér í fyrra frv. af hv. þm. A-Húnv. og hv. 1. þm. Rang. um skattfrelsi sparifjár. En fyrst hv. þm. fór að minnast á sögu þessara mála, þá finnst mér, að hann hefði átt að geta um það, að á þinginu 1951 flutti þm. S-Þ. (KK) fyrstur manna á Alþingi frv. til laga um skattfrelsi sparifjár. Það má vera, að fleiri menn hafi flutt hér undanfarið frv. til l. um skattfrelsi sparifjár en ég hef talið, síðan þm. S-Þ. hreyfði fyrst málinu. Ég rek það ekki, en ég bendi á þetta til þess að sýna, að það, sem hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) sagði um frumvarpsflutning þm. A-Húnv., var broslegt og raupkennt.

Hv. 3. þm. Reykv. (BÓ) spurði um það, hvort búast mætti við, að till. verði lagðar fyrir næsta þing um þá þætti skattamálanna, sem ekki eru till. um í þessu frv. Um þetta get ég það eitt sagt, að ég mun fara fram á það við mþn. í skattamálum, að hún vinni áfram að þeim þáttum einmitt nú í vor og sumar með það fyrir augum að prófa, hvort hægt væri að komast að samkomulagi um úrlausnir í þeim efnum.

Ég mun þá víkja fáeinum orðum að því, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa haldið fram. Maður gæti dregið þá ályktun af undirtektum hv. stjórnarandstæðinga, að þessar till. í skattamálum muni vera allvel heppnaðar, því að gagnrýni þeirra er sannast að segja, finnst mér, gerð meira af vilja en getu. Það er sameiginlegt fyrir þá alla, að þeir segja, að þetta sé ekki stórt mál. Á undanförnum árum hafa þeir ekki átt nógu sterk orð til þess að lýsa því, hvað beinu skattarnir væru þungir. M.ö.o.: Á meðan ekki liggja fyrir till. frá stjórninni og stjórnarflokkunum um að lækka skattana, þá eru þeir „stórir“, en þegar fyrir liggja till. frá stjórninni um að lækka skattana mjög mikið, þá eru þeir allt í einu orðnir litlir. Nú er það allt í einu orðið lítið mál að lækka mikið hina „stóru“ skatta. Heldur finnst mér þetta skjóta skökku við hjá hv. stjórnarandstæðingum. Annað er það, sem ég vildi vekja athygli á í sambandi við málflutning hv. stjórnarandstæðinga. Þeir hafa, ég held allir, vikið að því, að hér væru ekki nein stórtíðindi á ferðinni. Hv. stjórnarandstæðingar mættu gjarnan festa sér í huga, að engin skattalækkun hefði komið til mála, ef farið hefði verið eftir þeirra till. hér á Alþ. um afgreiðslu fjárhagsmála. Þetta mættu þeir muna.

Um einstök atriði málsins skal ég ekki vera fjölorður. Hv. 1. landsk. (GÞG) sagði, að ríkisstj. hefði lofað að leggja skattafrv. fyrir þingið í fyrra. Þetta er ekki rétt. Ríkisstj. lofaði engu um það. Í þáltill., sem Alþ. samþ., var það sett sem markmið, að fyrir það þing skyldu koma till., en ríkisstj. lofaði engu í því efni og hefur því ekki brugðizt í því atriði. Ríkisstj. lofaði því á hinn bóginn í sumar, þegar stjórnarsamningurinn var gerður, að leggja fyrir þetta þing till. um lækkun beinna skatta og um útsvarsmál, og því var heitið, að það skyldi vera um lækkun beinna skatta, um leiðréttingu á því ósamræmi, sem komizt hefði inn í skattalögin vegna verðbólgunnar, og um ráðstafanir til þess að auka sparnað. Eins og ég sagði í framsöguræðu minni í gær, þá tel ég, að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafi fullkomlega staðið við þetta fyrirheit og það sé ekkert upp á þá að klaga í því efni.

Þá sagðist hv. 1. landsk. vilja bera saman, hverjar væru minar till. nú um skattlagningu á lágtekjumönnum og hverjar þær hefðu verið fyrir 20 árum. Hann tók dæmi af Dagsbrúnarverkamanni, sem hefði þá haft 3500 kr. tekjur og 3 börn á framfæri, og sagði, að eftir þeim skattalögum, sem ég beitti mér fyrir fyrir 20 árum, hefði þessi maður átt að greiða aðeins 0.1 % í skatt. En svo sagði hv. þm., að nú mætti gera ráð fyrir, að þessi maður hefði 35 þús. kr. í tekjur, og ætti hann nú að greiða 1/2%, 5 sinnum meira, eða 175 kr. Af þessu vildi hann draga þær ályktanir, að ég hefði nú heldur en ekki færzt til hægri, þ.e. í þá átt að íþyngja þeim fátækari, frá því, sem var fyrir 20 árum. Það er við þennan samanburð hv. þm. að athuga, að hann stenzt engan veginn, þegar hann er skoðaður ofan í kjölinn. Fyrst er nú það, sem allir vita, að sá maður, sem nú hefur 35 þús. kr. tekjur, er talsvert betur settur en sá, sem hafði 3500 kr. tekjur fyrir 20 árum. Þetta er nú vafalaust staðreynd. Ef hv. þm. vill mæla í móti þessu, þá verður hann um leið að játa það, að öll barátta verkalýðsins til kauphækkunar á undanförnum árum hafi verið til einskis, en það er nú ekki rétt. Menn eru núna betur settir með 35 þús. kr. tekjur en þeir voru þá með 3500 kr. Þetta er eitt atriði, sem þarf að taka til greina. Annað atriði er það, að samkv. því lagafrv., sem hér liggur fyrir, er margs konar frádráttur heimilaður, sem var ekki heimilaður í þeirri löggjöf, sem ég lagði fram fyrir 20 árum, og þessi kvænti maður með 3 börn, sem hv. þm. talaði um og hefði núna 35 þús. kr. laun, en áður 3500 kr. laun, borgar alls ekki 175 kr. nú, vegna þess að skattskyldar tekjur hans verða mun lægri en hv. þm. reiknar með. Það er af þeirri einföldu ástæðu, að það eru margir nýir frádráttarliðir í frv., sem voru ekki áður leyfðir. Þessi samanburður hv. þm. er því allur skakkur og hefur enga þýðingu.

En fyrst hv. 1. landsk. þm. er að minnast á þetta, vil ég benda honum á eitt í því sambandi. Við erum með þessu skattafrv. að leggja til að lækka skattana frá því, sem þeir eru núna, — um það er ekki deilt, — og alveg sérstaklega á fjölskyldufólki frá því, sem þeir eru núna. Hverjir ákváðu skattana eins og þeir eru núna? Það var gert árið 1941 aðallega og síðan 1945, og Alþfl. ákvað ásamt tveim öðrum flokkum, að þeir skyldu vera svona. M.ö.o. er ég með þessu frv. að leggja til stórkostlega lækkun á skatti fjölskyldufólks frá því, sem ákveðið var 1941 og 1945 með ráði Alþfl: manna. Ég skil þess vegna alls ekki, hvað hv. þm. er að fara með samanburði sínum við árið 1935.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., og hv. il. landsk. þm. (LJós) tók undir það, að lækkanir á sköttum fiskimanna væru of litlar að þeirra dómi eftir frv. og mundu ekki geta hjálpað til að leysa það vandamál, að fiskimenn fengjust á togaraflotann. Ég upplýsti það hér í gær, að togarasjómaður með 40 þús. kr. laun og tvö börn á framfæri, sem er tæplega meðalfjölskylda, mundi greiða 729 kr. eftir gildandi lögum, en 337 kr. eftir þessu frv., en væri þó eftir að taka til greina ýmsa frádráttarliði, sem hann mundi hafa umfram þá, sem sjómönnum eru í þessu frv. ætlaðir sérstaklega. M.ö.o.: Hann greiðir ekki 337 kr., heldur eitthvað þó nokkuð lægri tölu. Ég segi, að ef þessi breyting á skattakjörum eða sköttum fiskimanna verður ekki til þess að greiða fyrir því, að fiskimenn fáist á togaraflotann, þá hefur það heldur engin áhrif, þó að þessi maður t.d. yrði gerður skattfrjáls. Það er sönnu næst, að skattgreiðslur til ríkisins á þeim tekjubilum, sem hér koma til greina, eru það lágar, að það verður aldrei hægt að leysa vandamálið um það, hvort menn fást á fiskiskipin eða ekki, með breytingum á skattalögunum og hefur aldrei verið hægt. Þetta sér hver einasti skynsamur maður, sem íhugar þetta mál. Sannleikurinn er sá, að þegar menn ræða um skattgreiðslur fiskimanna, þá gera menn sér almennt ekki grein fyrir því, hversu skattstigi ríkisins er og einkum þó verður lágur á þeim tekjum, sem þarna koma til greina.

Ég vil að lokum minnast á þrjú atriði, sem hv. 8. landsk. kom inn á. Hann sagði, að það væri herfilegasta blekking — hann tekur nú oft nokkuð m:kið upp í sig — að meta skattalækkun á einstaklingum 29% eftir frv. Ég veit ekki, hvaðan hv. 8. landsk. kemur vitneskja eða þekking til þess að viðhafa svo herfileg orð í þessu sambandi. Skattstofa Reykjavíkur hefur metið það, hve mikil lækkun á heildarskattinum mundi verða vegna þeirra hlunninda, ýmiss konar frádráttar, sem leyfður er í frv. Hv. 8. landsk. vildi slá því föstu, að þetta mat væri allt saman vitleysa hjá skattstofunni, og hún hlyti að hafa reiknað með því, að hver einasti maður fengi skattalækkun t.d. vegna húsaleigufrádráttarins og hver einasti maður fengi skattalækkun vegna lífeyristryggingarfrádráttarins o.s.frv. En hvaðan kemur honum vitneskja, eða grunur yfirleitt um, að þannig hafi verið að þessu unnið, og hvaðan þrek til þess að fullyrða slíka fjarstæðu? Auðvitað hefur skattstofan metíð þessa liði með tilliti til reynslunnar. Hún hefur reynt að gera sér grein fyrir því, hversu margír mundu koma til greina í sambandi við húsaleigufrádrátt, og tekið það eitt til greina, sem hún hefur fengið út úr þeirri skoðun, og eins hvað margir mundu geta komið til greina í sambandi við sjófatafrádrátt o.s.frv. Skattstigarnir sjálfir og persónufrádrátturinn lækka skatt persónulegra gjaldenda um rúmlega 20%, og það er mat skattstofunnar á öllum hinum liðunum, að þeir muni lækka skattana um 8–9%. Mér finnst, að hv. 8. landsk. ætti yfirleitt að temja sér minni fullyrðingar en hann gerir. Það er óafsakanlegt að kalla niðurstöður opinberrar stofnunar, sem fengnar eru með mikilli samvizkusamlegri vinnu margra embættismanna, herfilega blekkingu, án þess að hafa kynnt sér nokkurn skapaðan hlut, hvernig að þessu máli hefur verið unnið. Það veit ég að hv. þm. hefur alls ekki gert, því þó að hv. þm. sé kaldrifjaður, þá er hann þó ekki svo, að hann hefði þorað að segja þetta, ef hann hefði kynnt sér það. Eina afsökun hans, þótt léleg sé, liggur í því, að hann hafi ekkert kynnt sér þetta. Skörin færist upp í bekkinn nú, ef þm. ætlar nú að fara að telja mönnum trú um, að hann hafi kynnt sér þetta, en fullyrðir þetta samt. Hann er þá ekki vandur að virðingu sinni, ef hann tekur þann kostinn.

Þá sagði hv. 8. landsk. þm., að með 20% skattalækkun á skattstiga hlutafélaga, eða félaga yfirleitt, væri farið öfugt að við allar sómasamlegar skattareglur. Hann virtist álita, að það hefði átt að hafa þetta þannig að veita þeim félögum, sem borga lága skatta, meiri afslátt prósentvís, en þeim, sem borga meiri skatta, aftur lægri. Ég vænti, að hv. þm. hljóti að átta sig á því, að sé 20% lækkun veitt á sköttum allra félaga, þá helzt óbreytt sú stighækkun, sem er í gildandi lögum.

Þá kom hv. þm. að lokum að sparifénu, og þar sló hann út stóra trompinu eða spadilíunni. Hann tók dæmi um mann, sem mundi selja fasteign á Laugaveginum t.d. fyrir 30 millj. kr., fengi andvirðið greitt í peningum út í hönd — það varð að vera, til þess að dæmið gæti staðizt — og legði svo þessa aura inn í Landsbankann og hefði þar renturnar skattfrjálsar. Þetta dæmi er náttúrlega fullkomin fjarstæða þegar af þeirri ástæðu, að svona hlutir gerast alls ekki. Menn fá ekki 30 millj. borgaðar út í hönd í peningum, sem þeir geti lagt inn í sparisjóði. Slíkir hlutir gerast ekki. En nú skulum við segja, að þessi breyting verði til þess, að menn fari að selja fasteignir sínar og leggja fyrir innstæður, vilji siður eiga fasteignir, en heldur eiga innstæður. Gerist þetta, þá verkar lagaákvæðið rétt. Hvað væri þá að gerast? Versta vandamálið, lánsfjárskorturinn, mundi leysast og fé fást til framkvæmda, en eyðslan minnka. Vandræðin hér í landi eru nefnilega þau, að hér vilja allir eiga fasteignir og allir eiga fé sitt fast, en enginn vill eiga grænan eyri í sparajóði, og þar af leiðandi er ekki lánsfé að fá handa þeim, sem þurfa sárlega á því að halda. Þetta kemur nú einmitt alveg stórkostlega illa niður á æskufólkinu í landinu, sem ævinlega þarf á lánsfé að halda til þess að stofna heimili, byggja sér íbúðir og koma fyrir sig fótum með margvislegu móti. Við þekkjum þau gífurlegu okurkjör og þau vandræði, sem þeir eiga við að búa, sem eru að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Hvers vegna? Vegna þess, að menn vilja ekki eiga sparifé. Það safnast ekki fyrir sparifé. Menn vilja annaðhvort nota peningana strax eða koma þeim í fasteignir. Þessu þarf að breyta, og þetta ákvæði, sem hér er um skattfrelsi sparifjár, er hugsað einmitt til þess að breyta þessari þróun í aðra átt, — að menn keppist ekki eins um það, allir sem eiga peninga, að koma þeim í fasteignir, heldur vilji eiga þá í lánsstofnunum eða kaupa fyrir þá skuldabréf, til þess að hægt sé að fá lán handa þeim, sem þurfa á lánsfé að halda til þarflegra framkvæmda. Ef þetta ákvæði verkar nógu vel í rétta átt, þá stóreykst framboð á lánsfé, og það mun verða þeim til góða, sem nú standa einna höllustum fæti. Þeir, sem nú standa einna höllustum fæti í þjóðfélaginu, eru þeir, sem þurfa að stofna heimili, koma sér upp íbúðum, leggja í atvinnurekstur og geta hvergi fengið lán vegna þess, hvernig þróunin í peningamálunum hefur verið. Spekúlantarnir og þeir, sem hafa ætlað sér að græða undanfarið, hafa sannarlega haft peninga sína annars staðar en í sparisjóðunum.