25.03.1954
Neðri deild: 68. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er nú ekki margt, sem ég þarf við að bæta mína fyrri ræðu í þessu máli, en það vakti þó sérstaka athygli mína, hvað ég virtist hafa valdið hæstv. fjmrh. miklum sársauka og viðkvæmni, og held ég ekki, að hann hafi verið í annan tíma á þessu þingi viðkvæmari en í þeirri ræðu, sem hann flutti áðan. (Gripið fram í.) Já, látum það gott heita, en þó var það svo, að helzt fann hæstv. fjmrh. mér það til foráttu, að ég hefði reifað nokkra þætti þessara mála á undanförnum árum og þátt sjálfstæðismanna í þeim, og fannst það nú allt saman of grobbkennt. Svo datt honum í hug að bregða út í gamanið og segja sem svo, að þetta mundi líklega enda með því, að þegar ég yrði orðinn gamall, mundi ég segja barnabörnum mínum, að á þessu herrans ári hefði ég sem fjmrh. umbætt eða leiðrétt skattalöggjöfina. Mér varð nú að gripa fram í og sagði, að ég mundi sennilega hafa þetta öðruvísi, ef ég á annað borð ætlaði að fara að gorta af afrekum mínum, og segja, að mér hefði tekizt að hafa góð áhrif á leiðréttingu skattalaganna, þrátt fyrir það að Eysteinn Jónsson hefði verið fjmrh. á þessu herrans ári, og mundi ég telja það miklu meira afrek heldur en að breyta löggjöfinni verandi sjálfur fjmrh. (Fjmrh.: Þannig verður sagan um miðjan aldur, en á elliárunum verður hún hin.) Ég veit ekki, hvaða kunnugleika þessi hæstv. ráðh. hefur á því, hvernig sögurnar myndast í hugum manna. Hann er sjálfur á miðjum aldri, svo að það má kannske taka mark á því, sem hann segir um það.

Hæstv. ráðh. vék annars nokkuð að forustu fjármálanna og eins og blað Framsfl. hefur gert, að hin örugga forusta hæstv. fjmrh. hafi verið og sé forsendan fyrir þeim leiðréttingum, sem nú er hægt að gera, og fannst mér þá kenna þess, að um leið og hann var sár yfir því, að aðrir vildu telja sér nokkuð eða sitt hvað til ágætis, vildi hann tileinka sér nokkuð mikinn hlut sumra mála og þar á meðal í fjármálunum. Það hefur oft heyrzt í blaði ráðherrans þetta sama, að fyrst þurfi að stjórna fjármálunum vel, áður en hægt sé að leiðrétta skattalöggjöfina. Í fjármálunum hefur verið tekin upp breytt stefna, eins og ég vék að í minni fyrri ræðu, stefna, sem mörkuð var af stj. Sjálfstfl., þegar hún lagði fram frv. sitt um gengisbreytingu og annað, sem síðan varð samið um á milli Framsfl. og Sjálfstfl. Og á það er nú að lita, að þó að fjárhagsafkoman hafi verið góð á ýmsum þessum árum hjá ríkissjóði, þá valda þar nú að nokkru um ýmsir aðrir þættir í stjórn landsins og þá ekki hvað sízt kannske stefnan í viðskiptamálunum, sem var gerbreytt á sama tíma. Hefur það sannarlega orðið til þess, að aðstaðan til góðrar fjármálastjórnar var allmikið önnur en áður var, enda hefur það reynzt svo, að sum ár í fjármálaráðherratíð hæstv. fjmrh. hefur hann haft tekjuafgang um 100 millj. kr. og þar yfir, sem fyrst og fremst stafar af gerbreyttri stefnu í viðskiptamálunum, og þaðan komu þær tekjur, en ekki fyrir það, að þær væru skapaðar af fjmrh. út af fyrir sig, og önnur ár tugi millj. kr. í rekstrarafgang, sem rekja má til sömu kringumstæðna og ýmiss konar annarra þátta stjórnmálanna á þessum undangengnu árum en fjármálastjórnarinnar einnar. Hvað svo hinu viðvíkur, að ráðh. furðaði sig á því, að sjálfstæðismenn teldu sér til ágætis stjórn fjármálanna, þegar hann væri fjmrh., en kenndu framsóknarmönnum um illa fjármálastjórn, þegar þeir sjálfir hefðu fjármálaráðherrann, og átti erfitt með að átta sig á því, þá vil ég nú aðeins gefa litla skýringu með því að setja fram það dæmi, að Eysteinn Jónsson — og við höfum reynslu af því, sem starfað höfum með honum hér á þingi — fer nokkuð öðrum höndum og huga um fjárreiður ríkisins og fjármálastjórn, þegar hann er t.d. menntmrh., en ekki fjmrh. Og það er sannmæli, að það hefur reynzt sjálfstæðismönnum að mörgu leyti betra að koma fram góðum áhrifum á fjármálastjórn landsins, þegar framsóknarmenn hafa ekki komizt hjá því að taka ábyrga afstöðu til þeirra mála, eins og reynzt hefur þegar þeir hafa haft fjmrh. úr sínum hópi.

Þá sagði hæstv. fjmrh., að þegar ég teldi, að skattamálanefndin hefði ekki unnið vel, — sem ég held að ég hafi nú ekki sagt, en ég sagði, að hún hefði getað unnið betur, — þá væri það vegna þess, að ég væri ekki nógu kunnugur skattamálum. Ég vil segja hæstv. fjmrh., að ég er nægjanlega kunnugur starfsemi og starfsaðferðum skattamálanefndarinnar til þess að segja þetta, sem ég sagði, og endurtaka það, að starfsemi skattamálanefndarinnar er með þeim hætti, að hún gat vissulega á löngum tímabilum sætt mjög þungri gagnrýni og varð bæði mér og öðrum sjálfstæðismönnum og öðrum, sem höfðu náin tengsli við starfsemi hennar í gegnum fulltrúa Sjálfstfl. í n., undrunarefni. Kann að vera, ef mönnum þykir ástæða til að ræða það betur, að sú saga yrði þá nánar rakin. En þó má segja það, að þingmenn í stjórnarflokkunum, bæði Sjálfstfl. og Framsfl., munu hafa verið orðnir nokkuð úrkula vonar um, að nokkuð kæmist fram í skattamálunum á þessu þingi, einmitt vegna þess að menn hefðu óskað eftir traustari og affarasælli forustu í starfsemi skattamálanefndarinnar heldur en reyndist. Og það vil ég fullyrða af kunnugleika mínum í þessu máli, að það má vissulega þakka hæstv. fjmrh. fyrir það, sem nú hefur betur skipazt í þessu efni á þessu þingi heldur en á horfðist um tíma, og á hann þar ekki einn heiður skilið, heldur og kannske engu síður hæstv. forsrh., en þessir tveir ráðh. innan stjórnarinnar munu hafa beitt sér mest fyrir því innan stjórnarinnar, að það kæmi einhver árangur á þessu þingi frá þessari blessaðri nefnd. Ég tel mig sem sagt ekkert hafa ofmælt í því efni og er alveg reiðubúinn til þess að ræða það mál frekar, ef menn óska þess.

Þeir furðuðu sig svo á því hér tveir hv. þm. stjórnarandstöðunnar, að í þessu skattalagafrv., sem hér er verið að ræða, skyldi vera horfið inn á þá leið að gera skattfrjálst sparifé með þeim hætti, sem þar er, og sérstaklega furðuðu þeir sig á því, að framtalsskylda skyldi vera afnumin í sambandi við spariféð, og töldu að verulegu leyti með því raskað grundvellinum undir eftirliti með framtölunum, bæði hv. 1. landsk. og hv. 8. landsk.

Þegar þetta mál var til umr. hér á þinginu í fyrra, þegar rætt var um frv. hv. þm. A-Húnv., þá var sýnt fram á það og stuðzt við upplýsingar frá Landsbankanum, að Finnar hefðu lögleitt skattfrelsi sparifjár hjá sér á árunum, held ég, 1913 og þar á eftir, og við þá löggjöf hafði stórkostlega aukizt sparifé landsmanna. Svo eftir að það var búið að vera skattfrjálst í ein 7–9 ár, þá var innleidd sú breyting á löggjöfinni, að framtalsskyldan var afnumin, til viðbótar við það skattfrelsi, sem verið hafði. Við þá einu breytingu þrefaldaðist spariféð miðað við það, sem það hafði verið árið áður. Var af þeirra hálfu talinn einmitt mjög nauðsynlegur þáttur í skattfrelsi sparifjár, að það væri ekki framtalsskylt. Það má líka benda á það, að einn af bankastjórunum, en mál þetta var í fyrra sent til umsagnar allra bankanna, bankastjóri Búnaðarbankans, benti á það, að menn þyrftu ekki að vera svo ósköp viðkvæmir fyrir því, hvort það væri beinlínis lögleitt að afnema framtalsskylduna, því að í stórum stíl teldu menn alls ekki spariféð fram, þó að það væri lögskylt eins og nú væri. Ég held þess vegna ekki, að hv. þm. þurfi að óttast neina röskun í þessu sambandi á framtölum og aðstöðu til þess að fylgjast með framtölum manna, þvert á móti sé þetta e.t.v. einn af merkilegustu þáttum þess frv., sem hér liggur fyrir, og hafi mest skilyrði til þess að skila beztum árangri fyrir landsmenn.

Að lokum vil ég svo aðeins minna á það, að hér hafa talað nokkrir hv. þm. stjórnarandstöðunnar og allir talið frv. þetta harla lítið og ómerkilegt. Furðuðu þeir sig á því sumir hverjir, að ég skyldi viðhafa þau ummæli í gær, að ég teldi frv. bæði merkilegt og til stórra bóta á mörgum sviðum. Hv. 8. landsk. taldi, að ummæli mín sönnuðu það, að verið væri að framkvæma íhaldssama stefnu, hina íhaldssömu stefnu síðari ára í skattamálunum. Nú benti ég á það í minni ræðu í gær, og ætla ég, að það þurfi nú ekki að valda endurnýjuðum sársauka hjá neinum, að með frv. því, sem hér liggur fyrir, væru í veigamiklum atriðum farnar sömu slóðir og við höfðum lagt til, hv. 2. þm. Eyf. og ég, með frv. okkar í fyrra, og taldi ég fram ýmis dæmi þess, sem óþarfi er að endurtaka nú. Hv. 1. landsk. segir nú um þetta frv., sem vissulega gengur lengra í því að létta af sköttum og ívilna mönnum á mörgum sviðum, eins og ég benti á, þar sem eru nýmæli í því nú, sem voru ekki í okkar frv. í fyrra, — hann segir nú um þetta frv.: Þetta er einskis virði. Þetta er lítið og ómerkilegt frv. — En mig langar til að minna hv. þm. á það, sem hann sagði um okkar frv. í fyrra, en það var á þessa leið:

„Ég vil þegar við þessa 1. umr. málsins lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við meginefni þessa frv. og jafnframt taka það fram, að Alþfl. mun í þessari hv. d. greiða atkv. með frv. í öllum meginatriðum þess, bera fram brtt., ef það kemur til endanlegrar afgreiðslu, við einstök atriði, en að meginstefnu til fylgja því. Þetta er að því leyti siður en svo undarlegt, þar eð Alþýðuflokksmenn hafa þegar á þessu þingi flutt frumvörp, sem ganga í sömu átt og ýmis meginatriði þessa frv., og þarf því engan að undra, þó að við tökum þessu frv. hið bezta og teljum það vera mjög gott, í raun og veru eitt bezta frv., sem sézt hefur frá nokkrum þingmanni eða þingmönnum Sjálfstfl. í mörg ár.“

Mér finnst, að þeir, sem viðhöfðu þessi ummæli um skattalagafrv. okkar hv. 2. þm. Eyf. í fyrra, geti sannarlega ekki talið þetta frv., sem hér liggur fyrir, litið og ómerkilegt, því að það verður að viðurkennast, að þó að það gangi í mörgum atriðum skemmra í þeim sömu tilvíkum, sem bæði frv. fjalla um, þá eru mörg nýmæli nú til viðbótar í þessu frv., sem ganga lengra í því að létta sköttum á almenningi. Og hv. 1. landsk. talaði nú eiginlega fyrir hönd Sósfl. líka í þessu máli á þinginu í fyrra, þar sem hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég geng út frá því sem vísu, með tilliti til fyrri umræðna og yfirlýsinga um þau mál, sem hér eru til umr., að hv. Sósfl. muni einnig vera fylgjandi öllum meginatriðum þessa frv.“

Mér finnst eiginlega skjóta skökku við hjá ræðumönnum beggja flokkanna miðað við undirtektir þeirra varðandi þetta mál nú.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en vil aðeins árétta fyrri ummæli mín um það, að ég tel, að hér sé í veigamiklum og verulegum atriðum stefnt í rétta átt til þess að létta sköttum af almenningi og lagfæra margt, sem miður hefur farið í þessari löggjöf á undanförnum árum.