25.03.1954
Neðri deild: 68. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Mér þykir hálfbroslegt það kapphlaup, sem hér er á milli hv. stjórnarflokka um að eigna sér þetta frv. og stefnu þess eins og það liggur nú fyrir, eða — eins og ég orðaði það áðan — þá íhaldsstefnu í skattamálum, sem hér er verið að framkvæma. Þetta er þó í ákveðnu ljósi kannske ekki eins einkennilegt og virðast mætti, nefnilega ekki, ef höfð eru í huga ummæli hv. þm. A-Húnv. hér við eldhúsdagsumr. í vetur. Hann sagði þá, að nú væri svo komið, að ekkert væri því til fyrirstöðu lengur, að Framsfl. og Sjálfstfl. sameinuðust í einn flokk. Kapphlaup þessara flokka um að eigna sér þá íhaldsstefnu, sem hér er á ferðinni og hefur verið á ferðinni í skattalöggjöf okkar síðustu 10 árin, sannar þessi ummæli hv. þm. A-Húnv. fyllilega og kannske betur en flest annað, sem komið hefur fram hér á þinginu.

Ég ætla að öðru leyti aðeins að gera örfáar athugasemdir við ræðu hæstv. fjmrh. hér í d. áðan. Hann talaði m.a. mikið um, að það væri óviðurkvæmilegt hjá mér og mundi stafa af vanþekkingu, að ég hefði kallað það herfilega blekkingu að halda því fram, að þetta frv. fæli í sér 29% lækkun á skattgreiðslum einstaklinga að meðaltali. En ég vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði áðan, að það er hæstv. fjmrh., sem fer með herfilega blekkingu í þessu máli, en ekki ég, vegna þess að eins og hann túlkar það, þá val hann, að hinn almenni borgari í landinu skilji það svo, að hann fái, ef þetta frv. verður samþ., að meðaltali 29% lækkun á skatti sínum frá því, sem verið hefur. Þetta er ekki rétt. Það, sem er rétt í málinu hjá hæstv. fjmrh., er það, að skattabyrðin í heild mun lækka samkvæmt útreikningum skattstofunnar um 29%. En eins og ég sýndi fram á í fyrri ræðu minni hér áðan, kemur þessi lækkun fyrst og fremst hátekjumönnum og auðfélögum til góða. Sú heildarupphæð, sem greiddur skattur til ríkisins lækkar um samkvæmt þessu frv., kemur að langmestu leyti fram hjá mönnum með mjög háar tekjur og gróðafélögum, en hinn almenni skattborgari, lágtekjumaðurinn, launþeginn, verkamaðurinn og bóndinn, sem ekki hefur möguleika á því að notfæra sér hina nýju frádráttarliði, sem ekki hefur möguleika á því að kaupa sér lífeyrisfé fyrir 7 þús. kr. á ári eða líftryggingu fyrir 2 þús. kr. iðgjald á ári o.s.frv., mun ekki verða var við þá skattalækkun, sem hæstv. fjmrh. hefur hér kallað stórkostlega. Þá taldi hæstv. fjmrh., að ummæli þau, sem ég hafði um skattfrelsi sparifjár, hefðu verið sögð eingöngu í þeim tilgangi að mála fjandann á vegginn og gera þetta sem grófast og tortryggilegast í augum hv. þm. Hann sagði m.a., að hann fagnaði því, ef þetta frv. og þá sérstaklega þetta ákvæði um skattfrelsi sparifjár yrði til þess, að menn seldu fasteignir og legðu féð í sparisjóði, þannig að þar safnaðist fyrir aukið sparifé, eins og hann orðaði það, sem hægt væri að gripa til til meiri háttar framkvæmda. Þau dæmi, sem ég nefndi, voru þess eðlis, að ef þau kæmu til framkvæmda, sem er vel hugsanlegt, þá mundi sparifé alls ekki aukast um eina krónu, og það tók ég fram. Það eru núna í sparisjóðum og slíkum innlánsdeildum um 900 millj. kr. Það er hugsanlegur möguleiki að taka út allt þetta sparifé og kaupa fyrir það fasteignir, sem einhverjir aðrir aðilar þá selja um leið, fá þessar 900 millj. kr. aftur í hendurnar, leggja þær aftur inn í sömu lánsstofnanir, og spariféð hefur ekki aukizt um eina einustu krónu. Þannig er opinn möguleiki í þessu frv. fyrir því að gera ráðstafanir, sem alls ekki er ætlazt til af flm. þessa frv. að verði gerðar. Vitanlega leggja þeir sínar till. fram með þeim góða ásetningi að reyna að auka sparifé landsmanna, og að svo miklu leyti sem það tækist, er till. virðingarverð, en að svo miklu leyti sem hún verður notuð sem spekúlasjón, er hún fáránleg.

Hingað til hefur íslenzk skattalöggjöf aðeins boðið upp á einn möguleika til að losna við skattinn, skattsvikaleiðina, sem allir þekkja. Það er að reka einhvers konar fyrirtæki, þar sem ekkert eftirlit er til með framtölum, með það í huga, að sú starfsemi gefi möguleika til skattsvika, og öðlast á þann hátt skattfrelsi fyrir ákveðinn hluta af tekjum sínum. Með þessu frv. er verið að opna aðra leið til skattfrelsis, sem ekki mundi lengur heita skattsvikaleið. Það er því mönnum í sjálfsvald sett hér á eftir, ef þessi till. hæstv. ríkisstj. verður samþ., að meta það og gera upp við sjálfa sig, hvora leiðina þeir vilja fara. Hafi þeir möguleika, eins og mennirnir, sem ég nefndi í fyrri ræðu minni, til að selja fasteignir fyrir — við skulum segja 30 millj. kr. og leggja það inn sem sparifé, eignast þannig skattfrjálsar tekjur 1.8 millj. á ári, og telji þeir, að með þessu móti geti þeir þarna öðlazt tekjur með minni fyrirhöfn og með því að leggja minna á sig heldur en með því að fara hina leiðina og nota skattsvikamöguleikann, þá gera þeir þetta vitanlega. Og ég efast stórlega um það, eins og ástandið er í okkar þjóðfélagi í dag, að menn, sem hafa þennan möguleika, mundu láta hann ónotaðan. Ég efast um, að þeir hafi meiri möguleika á tekjuöflun í þessu þjóðfélagi heldur en þann, sem þetta frv. býður upp á. Ég efast um, að mennirnir með fasteignir, sem seljanlegar eru á 30 millj. kr. í dag, hafi meira upp úr þeim, þegar þeir eru búnir að borga lögboðin gjöld, viðhald og þá skatta, sem þeir neyðast til að borga, o.s.frv., þó að þeir noti skattsvikaleiðina, heldur en að selja þær og leggja féð á vexti og fá sínar tekjur löglega skattfrjálsar.

Í þessu sambandi vildi ég mega benda hæstv. fjmrh. á, að það eru tvær þjóðir, sem jafnvel hann mun viðurkenna að hafi einhverja fullkomnustu skattalöggjöf, sem nú er til í veröldinni. Þessar þjóðir eru Svíar og Bretar. Hjá þessum þjóðum eru til tvenns konar tekjuskattsstigar, annar fyrir vinnutekjur og tekjur af atvinnurekstri og hinn fyrir tekjur af sparifé. Og skattstiginn fyrir tekjur af sparifé er mun hærri en skattstiginn fyrir vinnutekjur og tekjur af atvinnurekstri. Þannig líta þessar þjóðir á málið.

En úr því að ég er farinn að minnast á aðrar þjóðir í sambandi við þetta mál, þá vildi ég aðeins drepa á það, sem er meginatriði að mínum dómi í sambandi við þetta skattalagafrv., sem hér liggur fyrir. Það er það, að þær n., sem hafa eytt öllu þessu óhemjustarfi, sem fjmrh. hefur fjálglega lýst hér, í það að undirbúa þetta frv., skyldu ekki einmitt taka skattalög þessara þjóða að einhverju leyti sér til fyrirmyndar, en það hefur alls ekki verið gert. Í því sambandi vildi ég geta þess, að það hefði mátt gera verulegar breytingar á þessum hlutum.

Það er fyrst að nefna, að hér innheimtum við alls konar tegundir af opinberum gjöldum, og það eru margar stofnanir í þessu þjóðfélagi, sem hafa með höndum það hlutverk að innheimta einhver ákveðin gjöld eða ákveðinn skatt. Við skulum t.d. taka ríkisútvarpið. Það innheimtir 200 kr. á ári af hverjum útvarpsnotanda í landinu, og þessi innheimta kostar hvorki meira né minna en 800 þús. kr. eða nær eina millj. kr. á ári samkvæmt þeim upplýsingum, sem hér liggja fyrir frá þeim mönnum, sem kunnugastir eru því máli. Og þetta er bara eitt dæmi. Ég gæti talið 10–20 hliðstæð. Með því nú að færa þetta saman, því að það er ekkert betra fyrir þjóðfélagsborgarana að greiða sín gjöld í tuttugu pörtum og til tuttugu aðila heldur en til eins, — með því að færa þetta saman í einn skatt, taka sem sagt öll þessi opinberu gjöld með einum skatti, þá hefði mátt spara stórlega kostnað við að innheimta skattana og þar að auki spara almenningi mjög mikla fyrirhöfn og óþægindi í sambandi við alla þessa skattheimtu. Þetta hvarflaði ekki að þessum mönnum. Nei, ekkert slíkt, ekkert, sem gat komið hinum almenna borgara, launþega, verkamanni og bónda, til góða, hvarflaði að þeim, vegna þess að hér er ekki verið að framkvæma neitt fyrir þetta fólk. Hér er verið að framkvæma hluti fyrir þá ríkustu. Hér er verið að framkvæma íhaldsstefnuna ómengaða.

Það er annað atriði mjög þýðingarmikið í þessu sambandi, sem bæði Svíar og Bretar hafa komið á hjá sér, og það er það, að þeir innheimta skattana af tekjunum, um leið og þær skapast. Ekkert slíkt er gert hér. Hér taka menn við sínum tekjum mismunandi háum ár eftir ár vegna alls konar sveiflna hér í okkar þjóðfélagi og halda, að þeir eigi þær, gæta þess alls ekki, að ríkið með allar sínar klær er eftir að hrifsa sinn hlut og kemur fyrst árið eftir. S.l. ár, sem var gott atvinnuár, veit ég dæmi til þess, að einn verkamaður – lagði að vísu mjög mikið á sig — hafði 70 þús. kr. tekjur. Næsta ár gæti svo farið, að þessi maður hefði ekki nema 30 þús. kr. tekjur eða 35 þús. kr. tekjur, en af þeim tekjum á hann þá að greiða skatt af 70 þús. kr. Það sjá allir, hvernig þetta muni ganga og hvernig þetta litur út. Nú gátu þessir hv. þm. og aðrir, sem unnið hafa að þessu máli, kynnt sér, hvernig Bretar og Svíar haga framkvæmd á þessum hlutum. Ég veit, hvað þeir munu segja: Þetta er erfitt í sambandi við fyrirtæki. — Já, gott og vel, það er rétt, það er erfitt, en þó ekki ókleift. Það hefur verið framkvæmt. Og það er alls ekki erfitt í sambandi við skattheimtu hjá einstaklingum. því hefði a.m.k. mátt fara þá leið að byrja á því að leggja skattana á tekjurnar, um leið og þær skapast, hjá einstaklingunum og sjá, hvernig það gæfist. Þó að sú leið kunni að reynast erfið við innheimtu hjá bændum og alls konar fyrirtækjum fyrst um sinn, þá mátti a.m.k. prófa sig áfram með þessa leið, því að þetta er ekkert erfið leið og hún hefur ekki valdið neinum erfiðleikum neins staðar, þar sem hún hefur verið reynd. Hún hefur verið reynd í Þýzkalandi. Hún er núna framkvæmd í Bretlandi og Svíþjóð og e.t.v. víðar, þó að ég viti ekki um það, og þetta veldur engum erfiðleikum hvað einstaklingana snertir. En sem sagt, ekkert, sem máli skiptir fyrir hinn almenna borgara þessa lands, hefur verið gert — ekkert, Það eru auðmennirnir og fyrirtæki eins og Olíufélagið h.f. sem hafa rækilega verið höfð í huga, þegar þetta frv. var samið.