25.03.1954
Neðri deild: 68. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það, sem er nauðsynlegt að gera sér ljóst, þegar verið er að ræða, á hverju þetta frv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir, sé úrbætur og að hvaða leyti það sé gallað, er, að það eru tvenns konar kröfur, sem fyrir liggja til ríkisstj., þegar hún fer að endurskoða skattal. og leggja til að breyta þeim. Og þær tvenns konar kröfur, sem fyrir liggja hjá þjóðinni viðvíkjandi breytingum á skattal., eru svo gerólíkar, orsakir þeirra og aðstaða öll, að það er eins og það væri verið að semja raunverulega tvenns konar mismunandi lög.

Annars vegar hefur verið krafa frá launþegum, að tekjuskatturinn á lágum tekjum væri lækkaður, jafnvel afnuminn. Þetta hafa verið ákaflega eðlilegar kröfur, vegna þess að tekjuskattur á launþegum, sérstaklega með lágar tekjur, hefur hvílt mjög þungt á þeim, og tekjuskatturinn hefur lent á launþegunum hlutfallslega miklu þyngra en á fyrirtækjum, vegna þess að launþegar hafa orðið að telja fram allt sitt, en um fyrirtækin hefur gilt allt annað lögmál. Tekjuskatturinn hefur þess vegna komið hlutfallslega miklu þyngra niður á launþegum heldur en á fyrirtækjunum, og þess vegna skapast þessi sterka krafa frá hálfu launþega um, að sérstaklega á lágum tekjum verði tekjuskatturinn lækkaður.

En svo hafa verið uppi allt aðrar kröfur um endurskoðun á skattalöggjöfinni. Það hafa verið uppi þær raddir frá þeim, sem safna auð á Íslandi, að tekjuskattslöggjöfin sé gersamlega óviðunandi. Frá þeirra sjónarmiði hefur að vissu leyti mátt færa þetta til sanns vegar. Sannleikurinn er, að ef maður vill fara út í það svona stranglöglega, þá hefur kapítalisminn raunverulega verið bannaður á Íslandi, þ.e. auðsöfnun á Íslandi hefur aðeins verið möguleg með skattsvikum og gjaldeyrissvikum, og það hafa verið aðferðirnar, sem hafa verið hafðar til auðsöfnunar á Íslandi á undanförnum áratugum. Það er opinbert leyndarmál. Þessir aðilar, sem þarna eiga hlut að máli, hafa krafizt þess, að þeirra starfsemi væri gerð lögleg, að gífurleg auðsöfnun yrði látin vera innan ramma laganna og þyrfti ekki að fara í felur. Og þessar kröfur eru náttúrlega allt annars eðlis en þær kröfur, sem liggja fyrir, sérstaklega frá launþegum með lágar tekjur, um að endurskoðaður verði skattstiginn með tilliti til þess að létta á þeim.

Þetta tvennt þurfum við þess vegna að athuga, þegar við lítum á, hvernig till. ríkisstj. um skattana nú eru.

Þegar talað hefur verið um, að skattarnir væru þungir, þá verður maður þess vegna að spyrja af hverju. Launþegunum, þeim, sem hafa haft sínar lágu tekjur og orðið að borga af þeim eins gífurlega mikið og hér hefur þegar verið reiknað upp í tollum og söluskatti og allt mögulegt annað slíkt, hvers konar iðgjöld til ríkisins og stofnana þess, — þeim hefur fundizt tekjuskatturinn eðlilega þungur líka. Þeim hafa fundizt allir skattarnir þungir, allir tollarnir þungir. Hins vegar hafa svo auðmennirnir kvartað, og hér las einn af fulltrúum auðmannanna í Reykjavík, hv. 3. þm. Reykv. (BÓ), upp lýsinguna á því, hvernig skattarnir færu með auðmanninn, að það væri bókstaflega svoleiðis, að þeir yrðu að borga með sér til ríkisins, og það var mjög greinilegur lestur hjá honum. Náttúrlega er það alveg eins gefið, að það var ekki bara svona seinasta ár, — það var svona öll hin árin líka, — og það, að þessi blessuð fyrirtæki hafa öll saman haldið áfram ár eftir ár alltaf að borga til ríkisins, hefur náttúrlega ekki stafað af því, að þau álíti sig sem þjóðnýt fyrirtæki, sem yrðu að starfa fyrir Eystein einan, heldur hefur þarna verið um það að ræða, að skattframtölin hjá fyrirtækjunum eru ekki í neinu samræmi við tekjurnar yfirleitt. (Gripið fram í.) — Já, fyrir Gunnar líka náttúrlega.

Það er þess vegna alveg gefið, að þessi framtöl er yfirleitt ekki að marka. Það væri óhugsandi það þjóðfélag, sem hér hefur viðgengizt,. ef það væri ekki gengið út frá því, að skattsvík, sérstaklega hjá fyrirtækjum, væru almennt fyrirbrigði, þ.e. ólögleg starfsemi kapítalismans á Íslandi, það væri séð í gegnum fingur með kapítalismanum, honum væri leyft þetta áfram. Þetta hefur verið praksísinn öll undanfarin ár, og það væri rétt að athuga einmitt út frá þessu sjónarmiði, hvernig þetta viðhorf er.

Raunverulega hafa öll þau ríkari hlutafélög hér á Íslandi skammtað sér skattinn sjálf á undanförnum árum. Það er opinbert leyndarmál, að þegar búið hefur verið að setja upp reikningana, þá hefur jafnan verið breytt á eftir, svo framarlega sem skattarnir yrðu of háir eins og lagt var fyrir, og skattanefndirnar hafa gengið út frá þessu, og veltuútsvörin hafa byggzt á þessu; svona hefur nú þetta verið. Allra ríkustu félögin hafa verið gerð skattfrjáls með lögum. Ríkustu og mestu gróðafélögin í landinu eru skattfrjáls með lögum. Svona hefur einokunarkerfið verið viðvíkjandi þessum hlutum, og það, sem við þess vegna verðum að athuga, er, hvernig er nú orðið við gagnvart þessum tveim aðilum, annars vegar launþegunum, sérstaklega þeim með lágu tekjurnar, og hins vegar auðsöfnunarfyrirtækjunum, sem hafa starfað í banni laganna.

Við skulum fyrst líta á einstaklingana. Þar er, eins og hv. 11. landsk. sýndi greinilega fram á, raunveruleg hækkun. Það eru felld burt lögin um lækkun skatts af lágtekjum. Það er ekki orðið við þeim kröfum, sem við sósíalistar höfum borið fram þing eftir þing, að hreinar tekjur undir 30 þúsundum séu skattfrjálsar. Það er bókstaflega þyngdur skatturinn á einstaklingum. Þarna eru algerlega svikin þau loforð, sem mönnum höfðu verið gefin m.a. almennt um 20% lækkun og jafnvel sérstaklega um það, að lágtekjumenn yrðu undanþegnir skatti. Það er alveg auðséð, á hverju þetta byggist fyrst og fremst.

Það byggist á því, að skattstiginn er látinn byrja allt of lágt. 1935, í þeim lögum, sem þegar hefur verið minnzt á hér, er tekið fram, að af þeim skattskyldum hluta teknanna, sem er undir þúsund krónum, greiðist 1%. Af 1–2 þús. kr. greiðist 10 kr. af þúsund krónum og 2% af afganginum. Og það, sem hér er 1000 kr., jafngildir 10 þús. kr. nú. En núna er byrjað að reikna skattinn hjá einstaklingunum af 1–2 þús. kr.; af 1–2 þús. kr. greiðist 1%; af 2 þús. kr. greiðast 10 kr. af 2 þúsundum og 2% af afganginum. Skattstiginn er látinn byrja allt of neðarlega. Í staðinn fyrir að byrja við 10 þús., eins og hefði samsvarað því, sem gert var 19i5, þá er hann bókstaflega látinn byrja við eitt þúsund. Að vísu kemur frádráttur til í báðum tilfellunum. En það er þetta, sem er gefið, að ekki einu sinni þeir menn, sem mest eru búnir að tala um verðbólgu öll þessi ár, eru enn þá búnir að átta sig á því, að verðbólgan hefur átt sér stað, þegar þeir eru að leggja skatta á þjóðina.

Hvernig kemur þetta til með að líta út fyrir verkamenn? Það þýðir, að það er byrjað að skatta þá fyrr en gert var 1935. Hvað snertir hjón, þá er frá þeim núgildandi ákvæðum veruleg endurbót í sambandi við skattinn á hjónum og fjölskyldufólki, eins og hér hefur verið viðurkennt af þeim, sem það hafa rætt. En þetta gengur ekki eins langt og þó var 1935, miðað við svipaðar aðstæður þá Ef það er miðað við það hlutfallslega, sem hver einstaklingur nú ætti að geta fengið af þjóðartekjunum, ef það er miðað við, hvað Ísland og Íslendingar hafa miklu meiri tekjur nú hlutfallslega á hvern mann heldur en þeir höfðu þá, þá er skattað meira af lágtekjum heldur en þá var. Hæstv. fjmrh. kom hér nokkuð inn á útreikning, sem hv. 1. landsk. var með í sambandi við verkamannatekjurnar þá og hvernig þetta liti út, og hélt því fram, að svo framarlega sem það væri rétt, sem 1. landsk. hefði sagt, þá hefðu verkamenn raunverulega ekki skapað sér neinar endurbætur með síðustu 20 ára baráttu. Það er rétt fyrir okkur að athuga þetta alveg greinilega, þennan samanburð. 1935 var dagkaup Dagsbrúnarverkamanns, ef hann vann 10 tíma á dag, kr. 13.60, og ef maður reiknar með 10 tíma vinnu á dag 300 daga ársins, þá fær hann 4080 kr. yfir árið. Þá er framfærslukostnaður, sem reiknað er með, 4181 kr., m. ö. o.: Dagsbrúnarmaður, sem þá vann árið um kring hvern einasta dag ársins, gat ekki unnið fyrir því, sem hagstofan áleit nauðsynlegt fyrir 4–5 manna fjölskyldu til þess að draga fram lífið. Það var undir þeim framfærslukostnaði, sem var álitinn eðlilegur og var ákaflega lágur. Þetta slæm voru kjörin þá, og til þessa var tekið nokkurt tillit í skattinum.

Í janúar 1948, um það leyti sem fyrsta vísitölubindingin var gerð, var kaup Dagsbrúnarverkamanns, sem vann 8 tíma á dag — þá var búið að stytta vinnudaginn niður í 8 tíma — fyrir kr. 9.24 tímakaup 300 daga ársins, 22176 kr. Þá, í janúar 1948, er framfærslukostnaður meðalfjölskyldu reiknaður hjá hagstofunni 12304 kr. M.ö.o.: Verkamaðurinn, sem vinnur svona, hefur um 10 þús. kr., — það slagar hátt upp í helming af því, sem hann vinnur, sem hann hefur fram yfir brýnustu framfærslu. Þetta kemst hann, þegar verkamenn hafa náð því hæsta kaupi, sem þeir hafa náð hérna. Verkamenn skapa sér þá þetta góð lífskjör. Ég minni á þetta vegna þess, að um þetta leyti var Framsókn að koma til skjalanna í sambandi við lífskjör verkamanna á Íslandi, og er að rifja þetta upp fyrir hæstv. fjmrh., til þess að hann geti séð, hverju Framsókn hefur áorkað í því að þrýsta aftur niður verkamönnum, til þess að þeir komist sem næst því að lifa rétt við framfærslukostnaðinn opinbera.

Núna í janúar 1954 hefur Dagsbrúnarverkamaður á sama hátt með 8 tíma vinnudegi 300 daga ársins 35040 kr. Núna er framfærslukostnaður fyrir meðalfjölskylduna eftir hagstofuútreikningnum á ári 27964 kr., þ.e. tæpar 28 þús. kr. Hann hefur þannig núna 1/5 fram yfir það, sem er reiknað sem framfærslukostnaður yfir árið, en hafði upp undir helming fram yfir 1948, en náði því ekki 1935. Þetta er sú raunverulega breyting. Núna í 6 ár er þetta búið að ganga niður á við. Þetta er búið að þrýsta því niður, og það er ekki vegna þess að tekjur Íslendinga í heild hafi minnkað. Þær eru meiri. En það er vegna þess, að misskipting teknanna er meiri núna en hún var. Hluti 5 manna fjölskyldu á Íslandi úr þjóðartekjunum, ef jafnt er reiknað, er núna milli 70 og 80 þús. kr., eins og hæstv. fjmrh. sjálfur upplýsti, en Dagsbrúnarverkamaður hefur ekki nema 35 þús. kr. á ári, ef hann vinnur hvern einasta dag ársins.

Hins vegar er byrjað að skatta þessar tekjur fyrr nú en gert var 1935, og það er það, sem er höfuðgallinn á þessu frv. Skattstiginn er látinn byrja of lágt, og það er það, sem ég álít að hv. fjhn. ætti í fyrsta lagi að athuga í sambandi við allar þessar till. Við vitum, hvernig það er með tekjuskattsfrv. og tekjuskattslög. Það eru einhver erfiðustu lög að fá breytt, þegar einu sinni er búið að setja þau, og ég álít það ákaflega illa farið, að það skuli ekki hafa verið haft í huga af hálfu skattan., þegar þessi lög voru samin, að byrja skattstigann hærra, og af því stafi mikið einmitt af því óréttlæti, sem þarna kemur til með að verða, og þetta væri nauðsynlegt að fjhn. endurskoðaði.

Ég ætla nú ekki að fara nákvæmlega út í þetta, en það er ofur lítið, sem ég vildi benda á í 7. gr., þar sem frádrættirnir eru, að vísu ekki sérstaklega stór atriði, en þó þannig, að það er rétt að athuga þau. Það er í 4. undirgr., j-liðnum, þegar talað er um: „nú vinnur gift kona, sem er samvistum við mann sinn, fyrir skattskyldum tekjum, en keypt er í staðinn heimilisaðstoð“. Ég vil undirstrika það, sem hér hefur komið fram áður. Það er ekki rétt að binda þessa undanþágu við það, að það sé keypt heimilisaðstoð. Ef gift kona vinnur úti, og við skulum hugsa okkur, að bæði hún og hennar maður vinni fyrir lágum launum og hafi ekki efni á því að kaupa heimilisaðstoð, af hverju á þá að svipta konuna þeim rétti, sem veittur er þeim giftum konum, sem hafa efni á því að kaupa heimilisaðstoð? Hér er margt fátækt fólk, þar sem bæði hjónin vinna úti, eiga samt ung börn, koma þeim t.d. fyrir á dagheimilum og sækja þau á kvöldin. Ef þau borga með barni á dagheimili, þá á ekki að draga það frá. Það er þó eins konar sameiginleg heimilisaðstoð, sem verið er að veita og er borguð, og það er vitanlega þjóðfélaginu miklu praktískara, ef við erum að reikna það út í vinnuafköstum, að börnunum sé komið fyrir á slíkum dagheimilum og borgað þar fyrir þau og sameiginleg heimilisaðstoð þannig hagnýtt, heldur en að hver einstök fjölskylda fái sér heimilisaðstoð, fái sér ráðskonu. Þetta er algert óréttlæti. Ef slík hjón hafa sitt barn á barnagörðum eða dagheimilum, eða sin börn, þá á alveg eins að leyfa þeim að draga það frá. Ef þau láta elzta barnið passa hin, sem er ekki óalgengt, þá ætti að skattleggja hlutfallslega meira tekjur hinnar giftu konu. Þetta er óréttlátt. Þetta álít ég að fjhn. eigi að athuga og eigi að breyta. Ég get ekki skilið, að það sé tilgangurinn hjá hæstv. ríkisstj. með þessu ákvæði. að bara t.d. fjölskyldur embættismanna, þegar bæði vinna úti, eða þeirra bezt efnuðu millistétta hér eigi að fá að verða þessa réttlætis aðnjótandi, en svo framarlega sem fátækasta fólkið reyni að bjarga sér með því, að bæði hjónin vinni úti, en hafi ekki efni á að kaupa sér heimilisaðstoð, þá eigi að skattleggja giftu konuna. Ég held, að það sé sjálfsagt réttlætismál að breyta þessu, og ég vil eindregið vonast til þess, að hv. fjhn. geri það, því að ég skil ekki í öðru en þetta sé fyrst og fremst yfirsjón.

Í síðari hluta þessa j-kafla hins vegar, þar sem rætt er um einstæðar mæður og ógifta menn, þá get ég nú ekki séð annað en það væri fullkomlega sanngjarnt, að það væri dregið frá alveg að fullu fyrir heimilisaðstoðina, — ekki takmarka það við það, sem þarna er. En þetta eru nú smærri ábendingar.

Þá er það viðvíkjandi spursmálinu um skattfrelsi og þeim umræðum, sem út af því hafa orðið. Ég býst við, að það viðurkenni allir, að það mætti gjarnan reyna að finna út aðferðir til þess að stuðla að aukinni sparifjársöfnun og að það mætti gjarnan gera þeim smásparifjáreigendum, sem er illa við, að það sé verið að hnýsast í þeirra sparifjárbækur, mögulegt að losna við óttann af því. En ég vil beina þeirri fyrirspurn til ríkisstj. í sambandi við þessi mál: Hvað hefur hæstv. ríkisstj. hugsað sér að gera til þess að reyna að ná einhverjum sköttum af því fé, sem gefur af sér mestan gróða í Reykjavík sem stendur? Það fé, sem gefur af sér mestan gróða í Reykjavík sem stendur, er okurféð, sem lánað er út með okurvöxtum á svarta peningamarkaðinum í Reykjavík. Það er staðreynd, sem er viðurkennd af öllum, að þessi svarti markaður sé til. Ég býst við, að það muni ekki vera óalgengt, að t.d. víxlar séu keyptir með 20% afföllum, jafnvel þó að þeir séu bara til þriggja mánaða. Ég býst við, að það séu dæmi til um það, að það sé ávaxtað á þennan hátt fé með allt upp í 80% ársvöxtum. Og þetta er fé, sem aldrei nokkurn tíma kemur til skatts. Hvað hefur hæstv. ríkisstj. hugsað sér að gera til þess að ná í eitthvað af þessu okurfé, sem er alveg vitanlegt að er það fé, sem gefur langsamlega mestar tekjur í Reykjavík núna sem stendur?

Nú vil ég benda hæstv. fjmrh. á, þegar hann talar um elnmitt út frá þeim athugasemdum, sem hér hafa komið fram um skattfrelsi sparifjár, að ef það sýndi sig, að það væri á einhvern hátt hægt að misnota þessi ákvæði, sem hérna eru, þá væri bara að endurskoða þetta. En ég vil spyrja: Ef þetta er leitt í lög, sem hér er, á þann hátt, sem hérna er gert, þ.e. með því að undanþiggja framtalsskyldu og allt slíkt, hvernig er þá hægt að endurskoða þessi lög? Ef búið er að gera það löggilt, að svo og svo mikið af peningum, svo og svo margar millj. kr. fái að vera í frjálsri veltu í þjóðfélaginu, án þess að þær séu framtalsskyldar, og svo ætti allt í einu að skella því yfir þessa menn, sem ríkisstj. hefur verið að veita þessi sérréttindi, að þeir yrðu allt í einu að fara að telja fram, ef þessu er lýst yfir af hæstv. ráðh., um leið og þessi lög eru sett, að það verði kannske endurskoðað eftir nokkurn tíma, þá er ég hræddur um, að þau missi mikið af því gildi, sem ríkisstj. ætlast til að þau hafi núna. Mig misminnir það kannske, en ég er ákaflega hræddur um, að það hafi verið þannig einmitt í Finnlandi, þegar spariféð var gefið skattfrjálst á þennan hátt og það var farið að tala um það rétt á eftir að breyta þessu, að mönnum hafi þótt það ófært. Það var einu sinni búið að hleypa þessu inn, og það er ekki svo gott að breyta því á eftir. Þessu vildi ég nú aðeins skjóta fram.

En hitt aftur á móti, að ná skatti af okrinu, af því fé, sem gefur mestan gróða í Reykjavík, af því fé, þar sem skattsvíkin ern ægilegust, hvað ætlar ríkisstj. að gera til þess? Ég sé ekki betur en að einmitt með því, sem verið er að smeygja inn í sambandi við að sleppa framtalsskyldunni um spariféð og annað slíkt, sé verið að ýta undir þennan svarta markað. (Gripið fram í.) Nei, það er hrein blekking hjá hæstv. fjmrh., sem stafar af því, að hann getur aldrei nokkurn tíma gert sér hugmynd um, hvaða lögmálum lánsféð fer eftir í þjóðfélaginu. Það er ekki að neinu leyti verið að stuðla að aukningu sparifjár með þessu. Það, sem afmarkar, hvernig lánsfjármarkaðurinn er, er sú pólitík, sem sjálfir bankarnir og fyrst og fremst seðlabankinn rekur um lánsfé. Svo framarlega sem seðlabankinn rekur þá pólitík að draga úr lánsfénu alveg kerfisbundið, þá þýðir það að skapa okurmarkað fyrir svartamarkaðsfé. Við skulum segja ef lánsfjárpólitík seðlabankans er þannig, að það er séð um að hafa lánsfjárveltuna sem minnsta og seðlaveltuna sem minnsta, þá þýðir það, að þeir, sem eiga peninga, geta leyst þá út með vöxtum, sem skipta mörgum tugum prósenta á ári. Það er alveg beint samband á milli núverandi svarta markaðs á peningum í Reykjavík og annars staðar á Íslandi og þeirrar lánsfjárpólitíkur, sem núverandi ríkisstj. rekur. Núverandi ríkisstj. ræður þessari lánsfjárpólitík. Það er hún, sem ræður okurmarkaðinum í Reykjavík. Hann stendur í beinu sambandi við hennar stjórn á fjármálum og lánsfjármálum landsins og bankanna. Þess vegna er sparifjárspursmálið í þessu sambandi aðeins hverfandi lítið spursmál Það er bara spursmál um tilfæringu og um útreikning. Meginið af öllu því lánsfé, sem er í veltu, er skapað af ríkinu sjálfu, það er skapað með seðlunum, með 300 millj. kr. seðlaveltu, sem er í gangi og seðlabankinn hefur til umráða, en þetta er hlutur, sem hæstv. fjmrh. getur aldrei skilið. Þess vegna er það svo, að sú pólitík, sem hérna er farið inn á, kemur ekki að neinu leyti til að breyta neinn um svarta markaðinn á fé í Reykjavík. Svo framarlega sem lánsfjárpólitík seðlabankans er ekki breytt og svo framarlega sem seðlabankinn, eins og hann hefur lýst yfir núna, ætlar að draga úr lánsfjárveltunni á næstunni einmitt í sambandi við m.a. greiðslur til Framkvæmdabankans, útborgun á mótvirðissjóðnum, þá þýðir það bara, að hvaða sparifjáraukning sem væri hefur ekkert að segja í slíku sambandi. Þarna er bara um tilfærslur að ræða og mismunandi „kontó“ á reikningum hjá sama aðila. Þess vegna er það raunverulega fyrst og fremst þetta mál, sem þyrfti að knýja hæstv, ríkisstj. til þess að gefa yfirlýsingar um, hvers konar pólitík hún ætli sér að reka viðvíkjandi lánsfénu. Hún stendur hér hvað eftir annað frammi fyrir okkur og kvartar og þykist ekki hafa lánsfé og veit ekki yfirleitt, hvernig hún á að skaffa þetta, og núna notar hún það ástand, sem hún skapar sjálf með tilbúnum lánsfjárskorti, sem yfirvarp til þess að auka svarta markaðinn á fé í Reykjavík, eins og þetta kemur til með að verða. Það er mjög slæmt, að hæstv. ríkisstj. skuli aldrei geta gert sér ljóst, í hvaða sambandi lánsfjárpólitík ríkisins og ríkisbankanna stendur við vextina í landinn og skortinn á fé til framkvæmda, en það er ekki neitt nýtt fyrirbrigði, að sérstaklega hæstv. fjmrh. eigi erfitt með að skilja þá hluti.

Ég verð þess vegna að segja viðvíkjandi þessum 3. kafla, þrátt fyrir það að ég þykist vita, að meint sé gott með honum, og að sumu leyti eru þar spor í rétta átt, þá kemur það hvað aðalatriðið snertir ekki til með að verða að neinu gagni, heldur þvert á móti. Þetta kemur til með að löggilda það okurfé, sem í umferð er, a.m.k. að einhverju leyti, en hins vegar ekkert gert til þess að ná í skatta af einhverju af þessu.

Í sambandi við hlutafélögin, eins og hér er áður búið að taka fram, er höfð þessi gullna regla: Því meira sem þau græði, því meira skuli þeim eftir gefið. Og það finnst nú hæstv. fjmrh. ágætt. Það er þveröfug regla við það, sem beitt er við þá einstaklinga, sem lægstar hafa tekjurnar, á þeim skal þyngja skattana. En því hærri tekjur sem hlutafélögunum þóknast að gefa upp, því meira skal gefa þeim eftir. Hér í Reykjavík borguðu félögin á síðasta ári um 10 millj. kr. í tekjuskatt, tekjuskattsviðauka og stríðsgróðaskatt eftir sinni eigin uppgjöf. Þessi 20% verða því um tveggja millj. kr. eftirgjöf á þeim, ef þeirra skattauppgjöf yrði eitthvað svipuð. Það er látið í veðri vaka, að þetta sé nú að vísu bara bráðabirgðaákvæði, sem eigi að gilda næsta ár. Í framsöguræðunni hjá hæstv. fjmrh. talaði hann um, að það hefði nú í öðru góðu landi tekið 10 ár fyrir skattanefnd að starfa og væri hún samt ekki búin enn þá, það fyrsta kæmi nú ettir 10 ár. Honum þótti það gott, að þessi skattanefnd kæmi með eitthvað eftir tvö ár. Ég skildi það nú sem svo, að við mættum kannske eiga von á því, að það yrði nú ekki farið að breyta þá mikið viðvíkjandi hlutafélögunum, a.m.k. ekki í þá áttina að reyna að ná hærri beinum sköttum af auðsöfnuninni fyrstu árin, jafnvel þótt talað væri um, að þetta væri bráðabirgðaákvæði nú. Ég man ekki eftir neinu bráðabirgðaákvæði í sambandi við fjármál, sem sett hefur verið á síðustu árum, sem hefur ekki verið framlengt ár eftir ár.

Þá virðist hins vegar, á sama tíma sem það virðist ganga tiltölulega glatt að fá samkomulag um að gefa hlutafélögunum því meira eftir, því meira sem þau græða, miðað við það, sem þau áður hafa greitt, ganga því erfiðar að fá fram það, sem hefði þó mesta þjóðfélagslega þýðingu núna fyrir okkur, og það er skattfrelsi að meira eða minna leyti til sjómanna. Það er engum efa bundið, að það frv., sem lagt var fram hér af hv. 11. landsk. í upphafi þings um að gefa sjómönnum eftir einn þriðjung af þeirra skatti, hefði mikla þýðingu fyrir togaraútgerðina og alla útgerð nú sem stendur, og ég verð að segja það, að það er hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkunum til skammar, það er hreinasta hneyksli, þegar þessir flokkar standa uppi eins og þvara í málum togaraútgerðarinnar, treysta sér ekki til þess að leggja nokkurn skapaðan hlut fyrir Alþ., sem gæti tryggt togaraútgerðina, og undirbúa nú þegar að láta alla togarana stöðvast í maílok. Það er til skammar, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki einu sinni geta gert svo mikið í sambandi við endurskoðun skattalöggjafarinnar að verða við þessum kröfum sjómanna. Það er ekki mikið, sem þeir fara fram á í þessu efni, og það hefði þess vegna verið alveg sjálfsagt að verða við þessu. Ég veit satt að segja ekki, hvaðan á að innheimta tekjur hér á Íslandi og taka tekjuskatt, svo að ég tali ekki um alla aðra skatta og tolla, svo framarlega sem togaraútgerðin á Íslandi stöðvast. Ég held þess vegna, að þessi nánasarskapur, sem þarna kemur fram og ég get alveg sérstaklega trúað að eigi rót sína að rekja til Framsóknar, eigi eftir að hefna sín. Ég held, að það væri alveg nauðsynlegt, að hv. fjhn. gerði þarna breytingu á, þegar nú þessi skattalög fara til hennar, og yrði við þeim kröfum, sem fram hafa komið frá öllum sjómönnum á togaraflotanum um að lækka þessa skatta, og ég vil enn fremur benda á, að það væri líka sanngirnismál, að verkamenn fengju skattfrjálsa sína næturvinnu og eftirvinnu. Það er í mörgum löndum, sem slíkt viðgengst, og það væri fullkomlega sanngjarnt.

Hv. 5. þm. Reykv. minntist hér á það áðan í sinni ræðu, að við sósíalistar og Alþfl.-menn hefðum verið mjög hrifnir af hans frv. og þeirra sjálfstæðismanna, sem flutt var á síðasta þingi, og var nú hissa á, að við værum að „krítisera“ ýmislegt í núverandi frv. Ég vil benda hv. 5. þm. Reykv. á, að það var eiginlega ekkert sérstaklega undarlegt, þó að við yrðum hrifnir af ýmsum atriðum í hans frv., og ég vil benda hæstv. ríkisstj. á um leið, hvaða munur er þarna á, af því að þeir eru nú farnir að deila, bræðurnir í ríkisstj., Framsókn og Sjálfstfl., um, hvorum sé að þakka allt það ágæta, sem þeir telja upp í þessu skattafrv. hér.

Till. hv. 5. Reykv. um persónufrádrátt var, að fyrir hjón væru það 11300 kr., fyrir hvert barn 6600 kr. Nú er það fyrir hvert barn 4500 kr. í þessu frv. Till. í frv. hv. 5. þm. Reykv. var, að fyrir einhleyping væri persónufrádrátturinn 8500 kr., í núverandi stjórnarfrv. er það 6500 kr.

Þá sagði enn fremur í frv. þeirra sjálfstæðismanna, í 4. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Skattur hjóna með tvö börn á framfæri og með hreinar tekjur samanlagt 30 þús. kr. eða lægri skal falla niður.“ Ég hafði flutt hér þing eftir þing till. um, að skattur slíkrar fjölskyldu, ef tekjur væru undir 30 þús. kr., félli niður, þessir góðu sjálfstæðismenn tóku þetta upp, og það var ekkert að undra, þó að bæði við sósíalistar og Alþfl.- menn værum hrifnir af þessu. En hvar er þetta í núverandi löggjöf stjórnarflokkanna? Stjórnarflokkarnir undanfarin ár hafa ár eftir ár samþ. löggjöf um það, að niður skyldi falla skattur af tekjum, sem væru undir 20 þús., en þau lög eru ekki framlengd nú. M.ö.o.: Það skásta, sem var í 3. og 4. gr. hjá þeim sjálfstæðismönnum, er miklu lakara í þessu núverandi stjórnarfrv.

Í 5. gr. hjá þeim sjálfstæðismönnum sagði um þetta, sem ég minntist á áðan, ef gift kona ynni utan heimilis, að þá var ekkert tekið fram um, að það þyrfti að koma heimilisaðstoð til. Menn fengju það alveg jafnt. Segjum t.d. fátæk hjón, sem ynnu bæði utan heimilis, þó að þau hefðu ekki heimilisaðstoð, fengju þennan frádrátt eftir till. Sjálfstfl. þá, einmitt það, sem ég var að benda hér á áðan. Nú er það sett inn í þetta stjórnarfrv., að það þurfi að kaupa heimilisaðstoð, til þess að þetta komi til greina. M.ö.o.: Þarna hefur þetta verið rýrt líka frá því, sem Sjálfstfl. þá lagði til.

Hvernig var enn fremur í því frv. skattstiginn, sem ég var að gagnrýna hér áðan? Í 7. gr. í frv. þeirra sjálfstæðismanna segir: „Ef hinn skattskyldi hluti teknanna er undir 4500 kr., greiðist af honum 1%.“ Hvað stendur í núverandi skattafrv. ríkisstj.? Ef það er 1–2 þús. kr., þá greiðist 1%. M.ö.o.: Þarna var byrjað á 4500 kr., núna er byrjað á 2000 kr.

Með öðrum orðum hefur verið að öllu leyti gert mun verra þetta frv., sem Sjálfstfl. var með þarna, miðað við þetta stjórnarfrv., sem nú er. Fyrir kosningar leggur Sjálfstfl. fram anzi laglegt frv. á ýmsan hátt, og Alþfl. og Sósfl. segja, að það sé margt alveg ágætt í þessu frv., sem þeir vilji styðja. Svo komu ótætis kosningarnar, og svo mynda þeir stjórn eftir kosningarnar. Þá leggja þeir fram annað frv., og þá er kippt burt ýmsu af því skásta, sem var í þessu gamla frv., eða það er rýrt, þar sem það er látið halda sér. En svo eru settir inn nýir hlutir í stjfrv., sem núna er. Það er ekkert minnzt á skattfrelsi sparifjár eins og hérna í frv., sem Sjálfstfl. flutti fyrir kosningar. Það er ekki minnzt á neitt viðvíkjandi hlutafélögunum, að minnka skattinn á hlutafélögunum um 20%, þau eru, ef ég man rétt, alls ekki til í hinn gamla frv. Ég held það hafi ekki verið neitt um hlutafélögin. Og þannig er það með öðrum orðum: Fyrir kosningarnar vildi Sjálfstfl. mjög gjarnan ganga til móts við þær eðlilegu kröfur launþega um, að það væru léttir dálitið skattarnir á þeim. Þá var ekkert minnzt á kröfurnar frá auðsöfnurunum. Eftir kosningarnar hefur verið dregið úr þessum fríðindum, sem launþegarnir fengu fyrirheit um að fá fyrir kosningarnar. Hins vegar hefur verið bætt inn í stjfrv. fyrirheitum til auðsafnaranna um, að þeirra starfsemi skyldi nú fara að verða löglegri en verið hefur og þeir fái ýmis skattfríðindi.

Hvað hefur nú gerzt í þessu sambandi? Eru það bara kosningarnar, eða hefur Framsfl. svona slæm áhrif á Sjálfstfl.? Áðan var verið að geta þess til hérna og verið með sálgreiningu á hæstv. fjmrh. um, að mikið hefði hann versnað frá því 1935, þegar hann var í samfélagi við Alþfl., og þangað til hann núna lagði fram þetta stjfrv. í samfélagi við Sjálfstfl. En nú sjáum við hins vegar, að Sjálfstfl. fyrir kosningar var skrambans miklu betri en Framsfl. og Sjálfstfl. eru samanlagðir nú. Meðan maður fær ekki neinar aðrar upplýsingar, þá hlýtur maður að álykta svo, að Framsfl. hafi versnað svo hrottalega frá því 1935, að nú meira að segja spilli hann Sjálfstfl. á þessu eina einasta ári, sem liðið er síðan þetta frv. kom fram, svo að úr því verði þetta stjfrv., sem núna liggur fyrir. Ég sé ekki nema eitt ráð í sambandi við þetta, og það er, að nú reyni Alþfl., af því að hann á nú fulltrúa í fjhn., að ná samkomulagi við Sjálfstfl. um það, að Sjálfstfl. og hv. 5. þm. Reykv., sem á sæti í fjhn., reyni nú að laga þetta stjfrv., svo að það verði ofur litið í áttina við frv. Sjálfstfl. fyrir kosningar. Þetta vil ég nú vona að hv. fjhn. takist að gera, því að annars færi menn kannske að gruna, að það væri allt annað, sem Sjálfstfl. segði fyrir kosningar, heldur en það, sem hann gerði eftir kosningar, og það var vist ekki meiningin að fara að sanna það í sambandi við þetta.

Að síðustu vil ég svo aðeins taka það fram, eins og hér hefur verið mjög greinilega undirstrikað, að þeim þunga, sem hvílir á alþýðuheimilunum, er ekki verið að létta nema að hverfandi litlu leyti sem stendur. Hv. 11. landsk. reiknaði það út hér áðan, og ég þarf ekki að endurtaka það. Af þeim 15 þús. kr., sem alþýðuheimili, fimm manna fjölskylda, greiðir í tolla, í söluskatt, í bátagjaldeyri, í nefskatta til ríkisins og ríkisstofnana, er engu létt með þessu. Það er aðeins tekjuskatturinn. Og það er ákaflega illa farið, að ástandið skuli vera orðið þannig á Íslandi, að beinu skattarnir, vegna þess, hvernig þeir hafa verið misnotaðir, hvernig auðmönnunum hefur verið hlíft við þeim á undanförnum árum, skuli vera orðnir illræmdastir, en nefskattarnir og tollarnir skuli svo að segja vera látnir óáreittir. Þetta er orðin alger ranghverfa við allt, sem er eðlilegt og skynsamlegt. Það, sem alþýða manna í landinu fyrst og fremst ætti að hata, eru tollarnir, það eru nefskattarnir og annað slíkt. Það væri eðlileg krafa, eins og Sósfl. hvað eftir annað hefur flutt hér á þingi, að t.d. ríkið borgaði iðgjöldin til almannatrygginganna fyrir fólkið, iðgjöld, sem eru fyrir almenna alþýðufjölskyldu nú um 1400 kr. Það væri eðlilegt, að ríkið létti einhverju af tollunum á nauðsynjavörum og gerði þannig fólkinu léttara að lifa. En af því að þessir gífurlegu tollar eru innheimtir í hvert skipti, sem menn borga einhverjar vörur í búðunum, og af því að það hanga ekki uppi töflur í búðunum, sem sýna mönnum, að í hvert einasta skipti, sem þeir ganga inn í búð, þá borga þeir þriðjunginn af verðinu, sem þeir borga, beint til ríkisins, þá átta menn sig ekki á þessu. Ef ástandið væri þannig, að fjmrh. hefði sérstaka einkennisklædda tollheimtumenn í hverri einustu búð í Reykjavík, þannig að kaupmaðurinn eða kaupfélagið tæki aðeins greiðsluna fyrir það, sem varan raunverulega kostaði, og svo þegar maður færi út, þá yrði maður að borga tollana, söluskattinn, bátagjaldeyrinn og allt, sem á vörunni er, þá vissu menn, hvað óbeinu skattarnir eru á Íslandi. Þá yrðu menn í hvert skipti, sem þeir gengju inn í búð, að borga meira í ríkiskassann en menn borga fyrir vöruna. En menn vita þetta ekki, og það er alltaf reynt að blekkja menn um þetta, og þess vegna er hægt að fara að reyna að blekkja fólk núna um það, að þegar fjölskyldu, eins og hv. 11. landsk. reiknaði hér út áðan, eru gefnar eftir 279 kr., þá sé verið að létta á henni skatti. En við megum vera nokkurn veginn vissir um það, að það verður ekki langt þangað til það kemur söluskattur eða bátagjaldeyrir eða logaragjaldeyrir í viðbót, sem tekur þetta margfalt aftur, en þá er búið að koma í gegn því, sem Sjálfstfl. sýndi ekki í sínu frv. fyrir kosningar, en er núna, þ.e. skattfríðindunum handa auðsöfnurunum. Þá er það það, sem stendur eftir.

Ég vil svo leyfa mér að vona, þó að maður geti ekki gert sér vonir um, að höfuðstefnu ríkisstj. fáist breytt í þessum efnum, að a.m.k. þær smærri lagfæringar, sem hér hefur verið bent á, ætti þó hv. fjhn. að geta tekið til greina.