31.03.1954
Neðri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja nokkrar brtt. við þetta frv., sem ég vildi gera hér grein fyrir.

Á þskj. 589 flyt ég ásamt hv. 4. landsk. og 9. landsk. þm. fjórar till. Sú fyrsta gerir ráð fyrir því, að skattur á lægstu tekjum verði afnuminn að fullu og sú regla verði tekin upp hvað einstaklingum viðkemur, að aðeins skattskyldar tekjur yfir 20 þús. kr. verði teknar til skatts — eða tekjur, sem eru undir 20 þús. kr. miðað við skattskyldan útreikning, séu skattfrjálsar. Á sama hátt er gert ráð fyrir því, að breytt verði skattainnheimtu í sambandi við skattaútreikning hjóna. Þessar till. miða sem sagt að því að eltast ekki við hina smærri skattainnheimtu af lægstu tekjum og innheimta yfirleitt ekki lægri skatta af neinum einstaklingi en sem svaraði í kringum 600 kr. skatti. Það er skoðun okkar flm., að það geti ekki skipt ríkissjóð neinn verulegu máli, þótt að þessu ráði yrði horfið, en hins vegar teljum við, að þetta sé mjög réttlátt gagnvart þeim, sem hafa ekki hærri tekjur en þarna er gert ráð fyrir.

2. brtt. okkar, a-liður, gerir ráð fyrir því, að sömu fríðindi verði veitt verkafólki og gert er ráð fyrir í frv. að veita sjómönnum í sambandi við fæðiskostnað þess, þegar það vinnur utan heimilissveitar sinnar um lengri tíma og verður þar að greiða fyrir fæði. Það hefur að vísu komið hér fram önnur brtt. um sama efni, sem fer að nokkru leyti lengra en þessi brtt. okkar gerir ráð fyrir, og munum við að sjálfsögðu styðja þá till., en þá mætti skoða okkar till. sem nokkurs konar varatillögu við hana. En við höfum miðað okkar till. við það aðeins, að verkafólk, sem svona er ástatt fyrir, fái að njóta nákvæmlega sams konar fríðinda og gert er ráð fyrir í frv. að sjómenn njóti.

Þá er í 2. brtt. á þessu þskj., b- og e-lið, gert ráð fyrir því, að til þess að njóta þeirra sérstöku hlunninda, sem frv. gerir ráð fyrir að veita hjónum, þar sem svo stendur á, að eiginkonan vinnur fyrir allverulegum tekjum, þurfi ekki að uppfylla það skilyrði að kaupa sérstaka heimilisaðstoð. Við teljum, að þar sem svo stendur á, að eiginmaðurinn aflar atvinnutekna og eiginkonan líka, og þar sem verður um allháar tekjur að ræða og skattstiginn kemur heldur óþægilega við, sé réttmætt að veita þau fríðindi, sem frv. gerir ráð fyrir, jafnvel þó að ekki sé um aðkeypta heimilisaðstoð að ræða, en einmitt ýmis hin fátækari heimili munu í svona tilfeilum berjast við að spara sér hina aðkeyptu heimilishjálp, þó að hins vegar báðir aðilar vinni úti og tekjur þeirra leggist saman eftir núverandi reglum um útreikning á skatti.

Þá er 3. brtt. okkar á þessu þskj. Hún felur það í sér að hækka nokkuð persónufrádrátt frá því, sem gert er ráð fyrir í frv. Gert er ráð fyrir því, að persónufrádráttur einstaklinga hækki úr 6500 kr. í 7500 kr., persónufrádráttur hjóna úr 12000 kr. í 15000 kr. og persónufrádráttur ómaga á framfæri hækki úr 4500 kr. í 5000 kr. Við teljum, að þó að gert sé nú ráð fyrir því í þessu frv. að hækka persónufrádráttinn talsvert, þá sé það enn of takmarkað, og vildum freista þess að fá þó þessa hækkun, sem till. okkar gerir ráð fyrir, samþ. hér við afgreiðslu málsins, þótt við hins vegar séum á þeirri skoðun, að persónufrádrátturinn hefði í raun og sannleika þurft að vera allmiklu hærri en við höfum treyst okkur að flytja hér till. um.

Þá er 4. brtt. okkar á þessu sama þskj. Hún gerir ráð fyrir því, að felldir séu niður í 16. gr. frv. stafliðirnir b og e, en þar er gert ráð fyrir í frv., að tekjuskattur, tekjuskattsviðauki og stríðsgróðaskattur hjá félögum öllum verði lækkaður um 20% frá því, sem verið hefur fram að þessu. Við leggjum til með okkar brtt., að þetta ákvæði verði fellt niður, sem sagt, að félagaskatturinn verði sá sami og hann hefur verið, og sjáum ekki ástæðu til þess að létta þessa beinu skatta — tekjuskattinn — á félagarekstri, því að það er okkar álit, að félögin yfirleitt greiði tiltölulega mjög lítinn hluta af tekjuskattinum til ríkissjóðs.

Þá flytjum við hér, sömu menn, brtt. við frv. á þskj. 588, en efni þeirrar brtt. er algerlega samhljóða meginefni þess frv., sem ég hafði flutt hér snemma á þessu þingi, þar sem gert var ráð fyrir að veita íslenzkum sjómönnum allveruleg skattfríðindi eða að heimila þeim að draga frá hreinum tekjum sínum 1/3 hluta sem skattfrjálsan kauphluta. Í sambandi við þessa brtt. vildi ég segja það, að því hefur verið haldið hér fram í þessum umræðum, að það væri ekki ástæða til þess að verða við óskum sjómanna um að veita þeim þessi skattfríðindi, m.a. vegna þess, að þetta skipti sjómennina tiltölulega litlu máli og að þetta gæti ekki orðið að liði í þeirri baráttu að fá fleiri sjómenn til starfa á íslenzku fiskiskipunum. Ég tel, að þessi fullyrðing sé ekki á rökum reist, og við nánari athugun á málinu hygg ég, að flestir muni komast að raun um, að samþykkt þeirrar brtt., sem við hér flytjum, mundi beinlínis stuðla allverulega að því að bæta kjör sjómanna í þessu efni og vinna þar nokkuð að því að leysa þann vanda, sem bíður nú úrlausnar í þeim efnum. Ég skal taka hér eitt dæmi, sem ég hygg að geti verið dæmi um nokkuð almennt tilfelli í þessu efni. Ég vildi hugsa mér einstakling á íslenzkum togara, sem hefði haft heildarkaup 50 þús. kr. Það mun að vísu vera heldur í hærra lagi, miðað við það, sem var núna á árinu, sem var að líða. Þó munu vera einhver skip, sem hafa skaffað lægst launuðu hásetunum þetta kaup, en á allmörgum skipum öðrum hefur kauphlutinn legið heldur lægra, en oft og tíðum hefur kaup hinna lægst launuðu togarasjómanna þó numið í kringum 50 þús. kr. Þar að auki er svo þess að gæta, að á skipunum eru líka sjómenn, sem eru ekki í lægsta launaflokki. Þar eru allmargir menn, sem hafa nokkra aukaþóknun fyrir sérstök störf, og er þá kaup þeirra líka þó nokkru hærra en 50 þús. nú í ýmsum greinum. Ef þau skattfríðindi hefðu verið samþykkt, sem till. okkar gerir ráð fyrir, þá mundi skattur þessa einstaklings verða mjög nærri því að vera um 780 kr., en skattur þessa sama einstaklings mundi verða samkvæmt þessu frv. eins og það liggur fyrir um 2200 kr., eða bein skattalækkun í þessu tilfelli mundi vera um 1440 kr. Hér skiptir vitanlega talsverðu máli fyrir þennan einstakling að njóta þessarar skattalækkunar. En það er ekki aðeins þessi skattalækkun, sem mundi gera hér gagn, heldur er einnig vitað mál, að þetta skattfrelsi í sambandi við tekjuskattinn er frumskilyrði þess, að takast megi að fá hliðstætt skattfrelsi fyrir sjómannatekjurnar í sambandi við útsvarsálagningu. Ef maður lítur svo einnig á útsvar þessa einstaklings, þá hefði útsvar þessa einstaklings, miðað við útsvarsstigann, sem gilti í Reykjavík á s.l. ári, numið 5930 kr. En ef þau sérstöku fríðindi, sem till. okkar stefnir að, hefðu gilt fyrir þennan einstakling, þá hefði útsvar hans verið 1530 kr. Lækkun á útsvari hefði þá orðið 4400 kr. eða lækkun samtals á útsvari og skatti í þessu tilfelli numið 5840 kr., en það jafngildir í þessu tilfelli rétt tæpum 12% í beinni launahækkun. Ég veit það, að þar sem um heimilisfeður er að ræða, sem hafa allmarga menn á framfæri og fá að njóta hins hækkaða persónufrádráttar fyrir sína ómaga, hefði vitanlega skattalækkunin í þeim tilfellum numið heldur minni upphæð, og sömuleiðis hefði útsvarslækkunin þar numið lægri upphæð, en því er nú svo farið t.d. á togaraflotanum, að þar munu vera að meiri hluta til einhleypir menn, og ég er alveg fullviss um það, að ef þessi skattfríðindi hefðu verið veitt, þá hefðu fjöldamargir menn fremur kosið að starfa á skipunum heldur en miðað við þær skattareglur, sem nú eru í gildi.

Það er því með öllu rangt að mínum dómi að halda því fram, að veiting þessara skattfríðinda, sem sjómenn hafa nú mjög almennt óskað eftir, hefði ekki haft neitt að segja í þessu efni, enda er það líka sannast mála, eins og kom fram hjá einum þeirra hv. þm., sem að samningu þessa skattafrv. ríkisstj. stóðu, að þegar hann var að gera sínum flokki grein fyrir þessu nýja skattafrv. á flokksfundi hér í bænum, þá komst hann þannig að orði, eftir því sem blað hans skýrði frá hans orðum í þessu efni, að fyrsta ástæða til þess, að ekki hefði þótt fært að verða við óskum sjómanna um þessi skattfríðindi, hefði verið sú, að innan þeirrar lækkunar, sem gert hefði verið ráð fyrir frá hæstv. ríkisstj., þ.e. 20% almennrar lækkunar á skattinum, þá hefðu þessi skattfríðindi ekki getað rúmazt, því að þau hefðu numið of miklum afslætti í sambandi við tekjur ríkissjóðs, til þess að það hefði mátt gera þessa ráðstöfun. Það er sem sagt ekki hægt að segja þetta hvort tveggja í einu, að þessi skattfríðindi hefðu kostað ríkissjóð í tekjum of mikið, og jafnframt halda því svo fram hér á Alþ., að í rauninni hefðu nú þessi skattfríðindi ekki skipt sjómenn neinu máli og ekki getað leyst neinn þann vanda, sem þar er við að eiga.

Ég vil því vænta þess, að hv. alþm. athugi þetta mál betur nú við afgreiðslu þessa máls og hugleiði það betur en þeir hafa gert fram að þessu, hvort ekki er rétt að verða við þessum almennu óskum sjómanna um að veita þeim þessi sérstöku fríðindi, og samþ. þá till., sem ég hef nú gert grein fyrir og er flutt hér á þskj. 588.

Ég hef þá í aðaldráttum gert grein fyrir þeim till., sem ég stend að, og sé ekki ástæðu til þess að lengja umr. um þetta mál lengur að sinni.