31.03.1954
Neðri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég verð að hefja mál mitt á því að láta í ljós óánægju mína yfir þeirri meðferð, sem þetta mál hefur sætt eftir 1. umr. Í hv. fjhn., þar sem ég á sæti, hafa verið haldnir tveir fundir um málið. N. afgreiddi málið frá sér s.l. sunnudag og klofnaði. Meiri hl. skilaði stuttu áliti þegar í stað, en ég lýsti því yfir, að ég mundi skila áliti mínu svo fljótt sem unnt væri. Hér er um að ræða eitt yfirgripsmesta mál, sem lagt hefur verið fyrir þetta þing, og allir, sem skattamálum eru kunnugir, vita, að fá mál eru erfiðari viðfangs en einmitt skattamálin. Það er torveldara að semja brtt., ef þær eiga að vera vandaðar og rökstuddar, við skattalögin en við nokkur önnur frv., sem þingið fær til meðferðar. Það gat því ekki verið við öðru að búast en að ég mundi sem minni hl. í n. þurfa nokkra daga til þess að semja nál. mitt og gera till., en frv. var tiltölulega nýútbýtt, þegar fjhn. afgreiddi það, mun hafa verið útbýtt um eða eftir miðja síðustu viku. Engu að síður tókst mér að ljúka till. mínum í gærkvöld og nál. mínu og afhenti það til prentunar þegar í morgun. Nál. er að vísu alllangt og brtt. nokkrar, en mér kom það samt mjög á óvart, að málinu skyldi þurfa að hraða svo, að taka þyrfti það fyrir til umr. og keyra það áfram, meðan beðið er eftir því, að prentsmiðja Alþ. ljúki prentun þessara þskj., m.ö.o., að ekki skuli vera hægt að bíða með þessa 2. umr. eftir því, að starfsmenn þingsins skili af sér störfum sínum, sem ómögulegt er að ætlast til að þeir vinni hraðar en þeir gera.

Till. og nál. hefur því miður ekki verið útbýtt enn, en það er von á því á næsta hálftímanum, að því er mér er sagt. Ég ætla engu að síður að leyfa mér að ræða till. og mun í þessu máli mínu skýra efni þeirra.

Vonbrigði mín yfir frv. hæstv. ríkisstj. hafa vaxið, eftir því sem ég hef haft af því nánari kynni. Hvað var nauðsynlegt að gera í skattamálum þjóðarinnar nú? Í fyrsta lagi var nauðsynlegt að stórbæta skattheimtuna til þess að tryggja ríkissjóði stórauknar tekjur, jafnvel að óbreyttum öllum skattstigum. Í öðru lagi var nauðsynlegt að jafna metin milli launþega og atvinnurekstrar, en eins og skattheimta tekjuskatta hefur verið undanfarin ár, hefur tekjuskatturinn fyrst og fremst verið skattur á launafólki og þá fyrst og fremst launafólki í Reykjavík og hinum stærri kaupstöðum og kauptúnum. Nær allur atvinnurekstur hefur borið tiltölulega miklu léttari byrðar en launafólkið vegna þeirra reglna, sem gilda í skattal. sjálfum um margs konar fríðindi atvinnurekstrinum til handa, og vegna slælegrar skattheimtu af atvinnurekstrartekjum. Í sambandi við þetta var einmitt nauðsynlegt að draga stórkostlega úr hlunnindum, sem ýmis stórgróðaatvinnurekstur nýtur nú í gildandi lögum. Og svo í fjórða og síðasta lagi var nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að skattleggja verðhækkunargróða, sem í gildandi reglum er undanþeginn nær allri skattlagningu. Allur hinn gífurlegi gróði, sem hefur hlotizt af hækkun fasteignaverðs og lóðaverðs á undanförnum hálfum öðrum áratug, hefur verið gersamlega undanþeginn tekjuskatti. Við þessum meginverkefnum, sem fyrir hendi eru í skattalöggjöf þjóðarinnar, er ekkert snert í því frv., sem hér er um að ræða.

Því er þó ekki að leyna, að í frv. felast nokkur framfaraspor. Frv. felur í sér dálitla skattalækkun, þ.e.a.s. lækkun á tekjuskattinum. Tekjuskatturinn mun nú nema um 60 millj. kr., en þegar það er haft í huga, að tekjuskatturinn er ekki nema um 15% af þeim heildargjöldum, sem ríkið leggur á borgarana, þá verður augljóst, að lækkun á honum er mjög óveruleg í krónum, þótt hún kunni að vera há í hlutfallstölum. Þessi tekjuskattur er aðeins um 2–3% af öllum þjóðartekjunum, eins og ég benti á við 1. umr. málsins, og vil ég endurtaka það núna, að eitthvað meira en lítið hlýtur að vera bogið við það skattakerfi, sem þrátt fyrir gífurlega háa skattstiga skilar ekki í ríkissjóð nema um 2–3% af öllum þjóðartekjunum.

Ég geri ráð fyrir því, að sú lækkun, sem við samþykkt þessa frv. yrði á tekjuskattinum, mundi nema um það bil eða liðlega 10 millj. kr. En þegar það er haft í huga, að ríkið innheimtir milli 450 og 500 millj. kr. af borgurunum, þá er augljóst, að þessi skattalækkun er ekki verulega tilfinnanleg sem gjaldaléttir fyrir borgarana og þá auðvitað ekki heldur fyrir ríkissjóð. Í raun og veru hefur lengi verið svo hér hjá okkur, að það fer að verða mikil spurning, hvort ekki sé allt eins gott að hætta við innheimtu tekjuskatts eins og að innheimta tekjuskatt á þann hátt, sem gert hefur verið hér á landi undanfarið. Kostnaðurinn við skattheimtuna er gífurlegur, að því er mér hefur skilizt allt að 9 eða 10 millj. kr., en innheimta féð er þó ekki nema um 60 millj. kr., og ranglætið í skattheimtunni er svo gífurlegt — misréttið milli launþega og atvinnurekstrar svo gífurlegt, að það er mikil spurning, hvort það mundi ekki vera hægt að finna upp önnur skattaform eða óbeina skatta, sem væru réttlátari, miklu réttlátari fyrir lágtekjumenn og raunar launamenn alla heldur en beinir skattar í því formi, sem tekjuskatturinn hefur verið innheimtur í undanfar:ð. En það er mál, sem ég skal ekki ræða nánar að þessu sinni.

Í frv. eru því miður stigin nokkur spor aftur á bak frá gildandi skipun, — beinlínis aftur á bak, — og vil ég þar fyrst nefna það, að möguleikum til skatteftirlits er stórspillt með frv., ef að lögum verður. Skerðingin á skilyrðum til skatteftirlits felst í ákvæðum frv. um það, að ekki skuli telja sparifé fram til skatts, en það tjá mér ýmsir menn, sem eru sérfróðir um innheimtu skatta, bæði hér í Reykjavík og annars staðar, að sé þetta ákvæði fellt úr skattal., þá muni eftirlit með skattframtölum verða stórkostlega torveldað í framtíðinni; það muni verða mjög miklir og vaxandi erfiðleikar á því að fylgjast með tekjuframtölum manna, þannig að búast megi við því, að undanskot undan skatti verði enn þá auðveldari en núna; af þeim sökum muni ríkið tapa verulegum fjárhæðum - kannske meiri fjárhæðum en það missi í tekjum vegna þeirrar skattalækkunar, sem felst í frv. að öðru leyti.

Í öðru lagi er í ákvæðum frv. um ráðskonufrádrátt nokkurt spor aftur á bak frá því, sem verið hefur samkvæmt gildandi reglum, a.m.k. eins og þær hafa verið framkvæmdar. Ákvæði gildandi laga um ráðskonufrádrátt hafa verið framkvæmd þannig, að sá skattgreiðandi, sem hefur ráðskonu og er talinn hafa rétt á því að hafa ráðskonu, hefur fengið dreginn frá persónufrádrátt hennar vegna. Í frv. ríkisstj. er hins vegar gert ráð fyrir því, að það sé skilyrði fyrir ráðskonufrádrætti, að eiginkonan vinni utan heimilisins, en ráðskonufrádráttur hefur verið heimilaður í mörgum tilfellum, þar sem eiginkonan vinnur ekki utan heimilisins, ef aðstæður hafa verið þannig, að nauðsyn hefur verið talin á ráðskonu til heimilisstarfanna. Hér er því um spor aftur á bak að ræða, hvort sem það er viljandi eða óviljandi.

Þá vil ég í þessu sambandi einnig nefna ákvæðin, sem eru í frv. hæstv. ríkisstj. um breytingu á útsvarslögunum, sem eru náskyld þessu frv. Þar er takmörkuð heimild skattan. til þess að leggja á eftir efnum og ástæðum á þann hátt, að skylt sé að birta þann stiga, sem lagt sé á eftir, og gera hverjum einstökum gjaldanda grein fyrir þeim reglum, sem útsvar hans hefur verið ákveðið eftir. Nú er það á allra manna vitorði hér, að skattframtölum er svo ábótavant og siðferði á þessu sviði því miður svo lélegt, að menn leyfa sér að sýna skattyfirvöldum framtöl, sem þeir geta varla ætlazt til að þau eða nokkur annar taki trúanleg. Eina úrræðið gagnvart slíkum skattgreiðendum hefur verið að beita heimildinni til þess að leggja á eftir efnum og ástæðum og taka beinlínis í útsvarsálagningunni tillit til þess, að framtalið sé auðsjáanlega gallað. Það getur oft verið erfitt fyrir niðurjöfnunarnefndir að sýna fram á það, að framtalið sé gallað, með óyggjandi rökum, þannig að standast muni fyrir dómi, og þess vegna er það mjög oft, að þessi heimild til að leggja á eftir efnum og ástæðum er notuð til þess að láta menn, sem skila ófullkomnu skattframtali og auðsjáanlega svíkja undan skatti, greiða sama skatt og heiðarlegir framteljendur gera. Þessi réttur niðurjöfnunarnefndarinnar mundi verða af henni tekinn, ef umrætt útsvarsfrv. næði fram að ganga. Afleiðing þess yrði vafalaust sú, að eftir því sem fleiri skattgreiðendur skjóta sér undan að greiða réttmætan skatt af tekjum sínum, þeim mun meira verður að hækka skattana á hinum, sem telja samvizkusamlega fram. Hér er því um stórt spor aftur á bak að ræða, mjög stórt, og það kann að vera, að afleiðing af þessari lagasetningu yrði sú, að útsvar á lágtekjum, miðlungstekjum og launamönnum yfirleitt hækkaði jafnmikið vegna þessa nýja útsvarsfrv. eins og ríkisskatturinn lækkar vegna tekjuskattsfrv. ríkisstj., og þá er sannarlega það tekið með annarri hendinni, sem gefið er með hinni.

Ég játa það hins vegar, að það er viðtæk heimild, sem niðurjöfnunarnefndum er veitt, að leggja á útsvar eftir efnum og ástæðum, og að vissu leyti má segja, að öryggi skattborgaranna í þessum efnum sé býsna litið, þegar þannig er hægt að fara að. En hér verður að lita á ástandið eins og það raunverulega er. Ef við hefðum gott siðferði í þessum málum, ef við hefðum stranga skattheimtu og ef við hefðum ströng viðurlög, sem hefði verið beitt á undanförnum árum eða áratugum gegn röngum framtölum, þá væri ekki nema sjálfsagt að gera slíkar ráðstafanir, jafnvel þær, sem hér er gert ráð fyrir, og þær mundu þá verka sem vernd fyrir borgarana. En eins og saga þessara mála er hjá okkur og ástand þessara mála nú, þá mundi slíkt ákvæði ekki verka sem vernd fyrir hinn almenna skattgreiðanda, ekki fyrir launamanninn, ekki fyrir lágtekjumanninn eða miðlungstekjumanninn, heldur þvert á móti vernd fyrir hátekjumanninn og atvinnurekandann, sem hefur skilyrði til þess að skjóta tekjum sínum undan skatti á þann hátt, að erfitt er að sannreyna, að svo hafi verið gert.

Ég hef þá nefnt þrjú atriði, sem ég tel vera beinlínis spor aftur á bak í þessum skattatill. hæstv. ríkisstj. En ef ég ætti að segja, í hverju ég teldi megingalla frv. almennt vera fólgna, þá mundi ég segja þetta:

Í fyrsta lagi: Ég tel skatt vera innheimtan af allt of lágum tekjum. Það er fráleitt að láta mann, sem hefur 7500 kr. tekjur, greiða tekjuskatt af því, sem þar er umfram, þótt lágur sé. Það er sömuleiðis fráleitt að láta hjón, sem hafa 14 þús. kr. tekjur, byrja að greiða tekjuskatt fyrir ofan það mark, jafnvel þótt lágur sé. Með þessu móti er jafnvel ellilífeyrir skattlagður; af honum þarf að greiða nokkrar krónur í tekjuskatt. Þess skal að vísu getið, að skatturinn verður mjög lágur. En sannleikurinn er sá, að það er fjarstæða að vera að innheimta nokkrar krónur eða nokkra tugi króna í skatt. Það er enginn vandi að gera skattstigana þannig úr garði, að til slíks komi ekki. Ég efast um, að það svari kostnaði að innheimta skatt, sem er mikið undir 100 kr. Kostnaður við skattheimtuna fer þá vafalaust að slaga hátt upp í skattinn sjálfan, sem innheimtur er, þannig að með slíkri skattheimtu er ríkissjóður raunverulega að leggja á sjálfan sig byrðar, og getur það þó vissulega ekki verið meiningin með ákvæðum í skattalögum.

Í öðru lagi tel ég enn allt of lítinn mun gerðan á einhleypingum og hjónum í frv. ríkisstj. Munur á skattgreiðslu þeirra hefur verið allt of lítill; hann er minnkaður dálítið í frv., en er enn of lítill.

Í þriðja lagi er allt of lítill munur á skattgreiðslu einstaklinga og hjóna annars vegar og barnafjölskyldna hins vegar. M.ö.o.: Það er allt of lítið tillit tekið til barnafjölskyldna við ákvörðun skattgjaldsins.

Í fjórða lagi er í frv. engin lagfæring á skattamálum þeirra hjóna, þar sem konan aflar sér sérstakra atvinnutekna.

Í fimmta lagi eru þau hlunnindi, sem sjómönnum eru veitt í frv., ákveðin of lág.

Úr þessum fimm megingöllum frv. hef ég leitazt við að bæta með þeim till., sem ég flyt, og skal ég nú gera grein fyrir aðalefni brtt. minna.

Í fyrsta lagi legg ég til, að tekjuskattur sé ekki lagður á lægri tekjur hjá einstaklingi en 15 þús. kr. og ekki lægri tekjur hjá barnlausum hjónum en 28 þús. kr. Jafngildir þetta í raun og veru því, að persónufrádráttur einstaklings skuli vera 15 þús. kr. og persónufrádráttur barnlausra hjóna 28 þús. kr. En þá hefst skattgreiðslan á 100 kr. skattgjaldi. M.ö.o.: Lægri skattur en 100 kr. er aldrei innheimtur. Ef um svo háan persónufrádrátt fyrir einstaklinga og hjón er að ræða, verður auðvitað að semja alveg nýja skattstiga til þess að koma í veg fyrir, að svo mikil hækkun persónufrádráttarins valdi tiltölulega meiri lækkun á háum tekjum en lágum. Það er sá galli almennt á persónufrádráttaraðferðinni, hver svo sem persónufrádrátturinn er, að hann er alltaf tekinn ofan af tekjukúfnum, hann lækkar alltaf hæstu tekjurnar, og veldur það því, að tekjuháir menn græða alltaf tiltölulega meira á persónufrádrættinum, hver svo sem hann er ákveðinn, heldur en tekjulágir menn. Það hefur aldrei verið meiningin með hugmyndinni um persónufrádrátt, að svo skyldi vera. Mér er ekki alveg ljóst, hvenær hugmyndin um persónufrádrátt kemst fyrst inn í skattalöggjöf almennt. Hún hefur verið í skattalöggjöf okkar frá því hér voru fyrst sett lög um tekjuskatt, en mér segir svo hugur um, að persónufrádráttur muni fyrst hafa verið ákveðinn í tekjuskattslögum, þegar skattstigar voru afar lítið stighækkandi, jafnvel algerlega hlutfallslegir. Þá var persónufrádráttur eðlilegur til þess að vernda lægstu tekjurnar. En eftir að stighækkandi skattstigar komu til skjalanna, er sú aðferð til þess að vernda lágtekjur að draga frá öllum tekjum sama persónufrádrátt í raun og veru algerlega óeðlileg, vegna þess að hún gefur tekjuháum mönnum tiltölulega miklu meiri lækkun í skatti en tekjulágum mönnum, og er það í raun og veru algerlega andstætt þeirri grundvallarhugsun, sem liggur á bak við persónufrádráttarhugmyndina. Þess vegna er sú leið miklu æskilegri að skera neðan af skattstiganum, ef svo mætti segja, þ.e.a.s. að byrja ekki skattheimtuna fyrr en við það mark, sem maður vill hafa skattfrjálst, en breyta síðan tekjuskattsstiganum þannig, að svara mundi til þess persónufrádráttar, sem maður hefur annars hugsað sér eftir hinni aðferðinni, þó með þeirri breytingu, að persónufrádrátturinn valdi ekki hlutfallslega meiri lækkun á háum tekjum en lágum.

Til þess að sýna fram á galla þessa fyrirkomulags um háan persónufrádrátt að óbreyttum skattstigum skal ég nefna nokkrar tölur, sem byggðar eru á grundvelli frv. eins og það er nú. Af 30 þús. kr. tekjum lækkar einstaklingur í skatti vegna persónufrádráttar síns um 390 kr., þ.e.a.s. hinn lögheimilaði persónufrádráttur, 6500 kr., lækkar tekjuskatt manns með 30 þús. kr. tekjur um 390 kr. En persónufrádrátturinn lækkar tekjuskatt manns, sem hefur 50 þús. kr. tekjur, um 975 kr. Hann lækkar tekjuskatt manns með 70 þús. kr. tekjur nm 1625 kr. Hann lækkar tekjuskatt manns, sem hefur 70 þús. kr. tekjur fjórum sinnum meira og liðlega það heldur en tekjuskatt manns, sem hefur 30 þús. kr. tekjur.

Varðandi barnlaus hjón er dæmið þannig: Barnlaus hjón með 30 þús. kr. tekjur fá 630 kr. lækkun á tekjuskatti sínum vegna ákvæða frv. um persónufrádrátt. Hafi þau 50 þús. kr. tekjur, þá lækkar skatturinn um 1540 kr., meira en helmingi meira. Og hafi þau 70 þús. kr. tekjur, þá lækkar skatturinn um 2900 kr. M.ö.o.: Hjón, sem hafa liðlega tvisvar sinnum hærri tekjur, fá næstum fimm sinnum meiri lækkun á skatti vegna ákvæðanna um persónufrádráttinn, miðað við þá skattstiga, sem í frv. eru. Og þessi lækkun verður náttúrlega þeim mun meiri, sem persónufrádrátturinn er hærri að óbreyttum skattstigum. Það er ekki hægt að segja, að tillit sé tekið til þess arna í stighækkun skattstiganna, alls ekki ef skattstiginn er einn og raunar heldur ekki, þótt skattstigarnir séu tveir, fyrir einstaklinga og hjón, vegna þess að hjón með börn greiða líka skatt eftir sama skattstiga og hjón. Þess vegna er hin aðferðin miklu eðlilegri, að skera neðan af skattstiganum og umreikna skattstigann, sem þessu nemur. Sú aðferð hefur auk þess þann mjög svo mikilvæga kost, að það auðveldar öllum almenningi stórlega að reikna út tekjuskatt sinn, vegna þess að þá er alltaf hægt að fara beint í skattstigann og nota tölurnar, sem þar eru — burt séð þó frá öðrum lögheimiluðum frádrætti og barnafrádrætti, til þess að gera sér grein fyrir því skattgjaldi, sem á einstaklinginn fellur. En samkvæmt núgildandi kerfi, sem á að halda í öllum aðalatriðum, þarf ávallt að draga persónufrádráttinn frá nettótekjunum, áður en skattskyldu tekjurnar eru ákveðnar, því að tölur skattstiganna eru nú miðaðar við skattskyldar tekjur, en ekki við nettótekjur.

Afleiðing þess, hversu ég hef lagt til, að mikið yrði skorið neðan af skattstiganum, er einnig sú, eins og ég gat um áðan, að ekki er innheimtur lægri skattur en 100 kr., en fyrir því færði ég nokkur rök áðan, þ. e., að vafasamt væri, að það svaraði kostnaði að innheimta lægra skattgjald en þetta. Er það í raun og veru sönnun fyrir því, að þessar till. um raunverulegan persónufrádrátt, 15 þús. á einstakling og 28 þús. kr. á hjón, eru engar skýjaborgir, eru engan veginn óframkvæmanlegar eða óeðlilegar till., því að skattgjald þar fyrir neðan mundi gefa skatt undir 100 kr.

Þá vil ég í öðru lagi fara nokkrum orðum um skattamál hjóna. Í frv. felst nokkur bót hvað þau mál snertir frá því, sem verið hefur í gildandi skattalögum, en ég tel, að of skammt sé gengið í því að leiðrétta hlut hjóna miðað við einstaklinga í frv. Ef það eitt væri þó tilgangurinn að létta skattabyrði á hjónum miðað við einstaklinga, mætti auðvitað gera till. um að halda svolítið lengra á braut hæstv. ríkisstj., þeirri, sem hún hefur farið inn á með frv., þ.e. að lækka hjónaskattstigann dálítið umfram það, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt til. En slíkt teldi ég ekki nægilegt. Það, sem ég tel að þurfi að gera, er að gera allar giftar konur að sjálfstæðum skattborgurum, fyrst og fremst til þess að koma í veg fyrir, að atvinnutekjur giftrar konu valdi stighækkun á tekjuskatti eiginmanns hennar. Hvers vegna er slíkt eðlilegt? Eftir gildandi reglum, sem lagt er til í þessu frv. að haldið verði, þ.e. eftir samsköttunarreglunni, getur svo farið, eins og ég gat um við 1. umr., að gift kona, sem vinnur fyrir atvinnutekjum utan heimilis, greiði hærri skatt en ógift kona, sem stundar nákvæmlega sömu vinnu og aflar sér nákvæmlega sömu tekna. Þær sitja ef til vill sitt hvorum megin við borð í sömu skrifstofu eða vinna hlið við hlið á sama vinnustað, önnur er gift, hin er ógift. Hin ógifta greiðir lægri skatt af sínum tekjum heldur en hin gifta. Hér er því venjulega svarað til, að þetta sé eðlilegt, vegna þess að gifta konan hafi félagsbú við mann sinn og ef maðurinn ynni fyrir jafnmiklum viðbótartekjum og konan færir í búið, þá mundu tekjur hans lenda í stighækkun, svo að heimilið mundi greiða stighækkandi skatt, og sömu stighækkun eigi heimilið að greiða, þó að tekjurnar komi frá konunni. En hér er mjög mikill munur á. Húsbóndinn er einstaklingur, sem auðvitað getur ekki vænzt þess, meðan við á annað borð höfum stighækkandi skattstiga, að viðbótartekjur komist nokkurn tíma undan stighækkuninni. Hann getur ekki bent á nokkurn annan skattgreiðanda, sem greiði lægri skatt af viðbútartekjunum en hann verður sjálfur að gera. Hann getur aldrei bent á nokkurn annan þjóðfélagsborgara, sem vinni við hliðina á sér eða fyrir jafnmiklum tekjum, en greiði ekki nákvæmlega sama skatt af sömu tekjum og hann greiðir sjálfur. Þess vegna hefur hann yfir engu að kvarta, nema kannske því, að stighækkunin sé of mikil, en ef látið væri að þeim kröfum, þá mundi það gilda fyrir alla aðila jafnt. M.ö.o.: Það er um að ræða fullt jafnrétti við alla aðra skattborgara, sem stunda sömu vinnu og hafa sömu tekjur. Það er einmitt þetta, sem á skortir að því er snertir skatt giftu konunnar, sem aflar sér tekna í félagsbúið utan heimilisins. Hliðstæð henni getur verið önnur kona, annar einstaklingur, kona eða karlmaður, sem einmitt stundar sömu vinnu og vinnur sér inn sömu tekjur, en greiðir annan skatt. Þetta mál er algerlega óskylt því, hversu mikils virði félagsbúið sé hjónunum báðum. Til þess má taka tillit við ákvörðun skattstigans, sem eiginmaðurinn greiðir skatt eftir. Það er um að ræða þá spurningu, hvort nokkurn tíma eigi það ástand að geta skapazt, að tveir einstaklingar, tveir þjóðfélagsborgarar, sem stunda sömu vinnu og vinna inn sömu tekjur, þurfi að greiða misjafnan skatt í ríkissjóð. Hin ólíka aðstaða kemur og greinilega fram í því efni, að eiginmaðurinn gæti aldrei komið sér undan stighækkun skattsins af viðbótartekjum sínum. Hann getur ekki skipt sér í tvo hluta. Það er útilokað að víkja sér nokkurn tíma undan þeirri stighækkun skattstigans, sem lendir á tekjuaukanum. En hjón, þar sem konan vinnur fyrir atvinnutekjum utan heimilis, geta, ef þau vilja, skotið sér undan því að verða fyrir stighækkuninni með því hreinlega að skilja samvistum, og maður og kona, sem bæði vinna og mundu lenda í stighækkuninni, ef þau stofnuðu félagsbú, geta komizt undan henni með því að stofna þetta félagsbú ekki, a.m.k. ekki lögformlega, þ.e.a.s. láta ekki vígja sig. Þetta eru enn fremur rök fyrir því, að ríkjandi sköttunarregla er mjög óskynsamleg og ranglát.

En ef sá kostur er tekinn að gera giftar konur, sem afla sér tekna utan heimilis, að sjálfstæðum skattborgurum, þá er einnig nauðsynlegt samræmisins vegna að reikna konu, sem vinnur á heimili, sérstakar tekjur, því að annars mundi þeirri konu, sem hefur atvinnutekjur utan heimilis, eða því heimili vera ívilnað miðað við hjón, þar sem konan vinnur á heimilinu. Þetta er mikill galli á öllum till., sem eru miðaðar við það eitt, að gera skuli atvinnutekjur kvenna skattskyldar sérstaklega. Til þess að halda hér samræmi er nauðsynlegt að reikna eiginkonunni á heimilinu einnig tekjur, og hef ég þess vegna lagt til í till. mínum, að það verði gert. Ég hef lagt til, að eiginkonu verði reiknaðar 20 þús. kr. tekjur af tekjum mannsins, ef tekjur hans eru hærri en 40 þús. kr., og hef ég þar miðað við helming af lágum miðlungstekjum, en nái tekjur mannsins ekki 40 þús. kr., geri ég ráð fyrir, að tekjunum sé skipt til helminga. Þessi regla, að taka ávallt 20 þús. kr. ofan af tekjum eiginmannsins, ylli því auðvitað að óbreyttum skattstigum, að lækkun á tekjum hátekjumanna yrði tiltölulega miklu meiri en lækkun á tekjum lágtekjumanna. Slíkt er auðvitað ekki tilætlunin með ákvæðinu, og til þess að koma í veg fyrir þetta hef ég umreiknað hjónaskattstigann, sem ég geri ráð fyrir að gildi fyrir kvæntan mann, þannig að hátekjumenn græði ekki á þessari tekjuskiptingu hjónanna miðað við frv. hæstv. ríkisstj. Þau rök verður því að þessu sinni ekki hægt að flytja fram gegn þessum tili. mínum um sérsköttun, að þær muni verða hátekjufólki fremur til hagsbóta en lágtekjufólki. En að þeim gagnrökum kvað talsvert síðast, þegar ég flutti till. um slíka skiptingu á tekjum hjóna. Nú er lækkunin svo að segja jöfn upp úr eða ekki meiri en ég hef óskað eftir af öðrum ástæðum að hún sé á skattgreiðslu hjóna miðað við einstaklinga.

Það á og að gilda einu hvað snertir skattgreiðslu, hvort eiginkona vinnur heima eða úti og notar tekjur sínar til þess að greiða ráðskonu kaup. Það er mjög óeðlilegt, að skattar heimilis þurfi að vaxa verulega við það, að kona vegna menntunar sinnar eða vegna áhugamála sinna kýs frekar að stunda starf utan heimilis, en notar tekjur sínar til þess að sjá jafnvel fyrir heimilinu og gert hefði verið, ef hún hefði sjálf verið heima. En samkvæmt gildandi reglum, sem lagt er til að haldist í aðalatriðum óbreyttar í skattafrv., kostar þessi verkaskipting slík hjón talsvert í skatti. Það er í raun og veru að láta skattalögin setja atvinnufrelsi kvenna takmörk, það er í raun og veru að láta skattalögin hindra konu, sem hefur gifzt, í því að stunda það starf, sem hugur hennar stendur helzt til. Henni er refsað fyrir að stunda það starf, sem hún helzt vill stunda, þótt hún sjái nákvæmlega jafnvel fyrir heimilinu ettir sem áður, á þann hátt, að skattgjald heimilisins er látið vaxa. Þetta lagast út af fyrir sig ekki, þó að allar konur séu gerðar að sjálfstæðum skattborgurum og konum séu reiknaðar ákveðnar tekjur af tekjum mannsins. Til þess að laga þetta verður jafnframt að hækka ráðskonufrádráttinn talsvert, og hef ég lagt til, að hann verði hækkaður upp í allt að 20 þús. kr., þ.e. upp í sömu upphæð og reikna má giftri konu af tekjum mannsins, þannig að ef kona, sem ynni sér inn 20 þús. kr. utan heimilis, réði ráðskona og borgaði henni sitt kaup, þá greiddi heimilið sama skatt, hvort sem konan væri heima eða ynni úti, ef hún sér heimilinn fyrir ráðskonu fyrir kaup sitt.

Þá kem ég að barnafrádrættinum. Eins og ég gat um áðan, þá tel ég, að hann sé of lágur í frv., þ.e.a.s., að of lítill munur sé gerður á einhleypingum og barnlausum hjónum annars vegar og barnafjölskyldum hins vegar. En um barnafrádrátt eftir þeim reglum, sem fylgt hefur verið hingað til, gildir í raun og veru hið sama og um persónufrádráttinn. Ef dregin er frá föst tala fyrir hvert barn, — hún á í frv. að vera 4500 kr., — þannig að þessar 4500 kr. takast alltaf ofan af tekjukúfnum, þá er afleiðingin augljóslega sú, að menn græða meira í skatti vegna barna sinna, þeim mun hærri tekjur sem þeir hafa. Það getur ekki verið meiningin og er auðvitað ekki meiningin með þessum barnafrádráttarreglum. Hjón með 3 börn og 40 þús. kr. tekjur fá 650 kr. skattalækkun vegna barna sinna samkvæmt reglum frv., en ef þau hafa 60 þús. kr. tekjur, þá fá þau 1485 kr. skattalækkun vegna þriggja barna. M.ö.o.: Hjón, sem hafa 20 þús. kr. meiri tekjur, fá meira en helmingi meiri skattalækkun vegna barnanna heldur en hjón með 20 þús. kr. lægri tekjur. Nú hlýtur framfærslukostnaður barnanna auðvitað að vera hinn sami, hvort sem hjónin hafa 40 eða 60 þús. kr. í tekjur, og sízt ætti hann að vera meiri hjá hjónunum, sem hafa hærri tekjur. Ef um 80 þús. kr. tekjur er að ræða, þá er skattalækkunin vegna þriggja barna komin upp í hvorki meira né minna en 3100 kr., og ef um 100 þús. kr. tekjur er að ræða, þá græða hjón með þrjú börn 4050 kr. vegna barnafrádráttarins. Á þessari tilhögun eru augljósir gallar. Þess vegna datt mér í hug að gera till. um breytta tilhögun í þessum efnum, þannig að í stað barnafrádráttar, sem væri ákveðin krónutala af hreinum tekjum, skyldi koma ákveðin skattalækkun, ákveðin krónutala í lækkuðum skatti vegna hvers barns, þannig að lágtekjumaðurinn fengi jafnmikla skattalækkun eða jafnmikla tekjuaukningu og hátekjumaðurinn vegna hvers barns. Það er eðlilegt, því að framfærslukostnaður þeirra vegna barnanna er náttúrlega sá sami. Þetta er aðferðin, sem t.d. Danir hafa í þessum efnum, og hjá þeim er tilhögunin meira að segja þannig, að ef það kemur í ljós, að skattalækkunin ætti að verða meiri en álögðum skatti nemur, þá greiðir ríkissjóður barnafjölskyldunum mismuninn, og er þar um að ræða eins konar barnalífeyri í sambandi við tekjuskattskerfið. Ýmsar niðurjöfnunarnefndir hafa beitt þessari aðferð við það að taka tillit til barnafjölda, t.d. niðurjöfnunarnefndin hér í Reykjavík, þó að skattalækkun vegna hvers barns hjá henni hafi að vísu verið allt of lítil og í raun og veru hneykslanlega lág. En ástæðan til þess, að ég lagði ekki fram till. um þetta, er sú, að ef barnafrádrátturinn á að vera eins hár og ég gjarnan vil að hann sé, þá verður hagræði af hinni aðferðinni við of lágar tekjur, að því er ég tel. Miðað við 6 þús. kr. barnafrádrátt og þá skattstiga, sem gert er ráð fyrir í mínum till., þá hefðu menn með liðlega 50 þús. kr. tekjur byrjað að græða á því, að aðferð núgildandilaga væri beitt. Þetta þótti mér of lágt tekjumark, svo að þess vegna hvarf ég frá þessari hugmynd og hef í staðinn gert till. um, að barnafrádrátturinn sé hækkaður upp í 6 þús. kr. og tekið tillit til þess í skattstiganum, sem gilda á fyrir hjón. En jafnframt flyt ég till. um það, að skattalækkun vegna barnafrádráttar skuli þó aldrei verða meiri en hún er komin upp í við 60 þús. kr. tekjur. Þeir, sem hafa yfir 60 þús. kr. tekjur, eiga aldrei að geta fengið meiri skattalækkun en þar er orðin vegna reglnanna um barnafrádráttinn.

Þá er eðlilegt, að þeirri spurningu sé varpað fram, hvaða áhrif þeir skattstigar, sem ég legg til í mínum till. að teknir séu upp, hafi. Skal ég nú stuttlega gera grein fyrir því og ræði þá fyrst einstaklingsskattstigann eða tekjuskatt einstaklings.

Samkvæmt frv. á einstaklingur með 15 þús. kr. tekjur að greiða 175 kr. skatt. Samkvæmt mínum till. 100 kr. skatt. Skattalækkunin er m.ö.o. 75 kr. Nú nefni ég aðeins skattalækkunina, það er nægilegt. Skattalækkun á 20 þús. kr. tekjum einstaklings er 20 kr., á 30 þús. kr. tekjum 40 kr., á 40 þús. kr. tekjum 80 kr., á 50 þús. kr. tekjum 55 kr., á 60 þús. kr. tekjum 30 kr., á 70 þús. kr. tekjum 5 kr., á 80 þús. kr. tekjum er um hækkun að ræða um 20 kr., og helzt sú hækkun upp úr. Ég geri enga stórfellda breytingu á tekjuskattstiga einstaklinganna, en breyti þó skattstiganum heldur til lækkunar. Samkv. frv. stjórnarinnar er tiltölulega mjög lítil lækkun á skattgreiðslum einstaklinga og meira að segja hækkun á þeim á sumum bílum, en skattalækkunin hérna hjá mér er mest á algengustu lágtekjunum, svo að það er ekkert óeðlilegt við það, sem hæstv. ráðh. var að vekja athygli á í framískoti sinn. (Gripið fram í: Engan á nú að meiða, sagði ég.) Nú, ég bið ráðh. afsökunar, ég heyrði þá rangt, það sem hann sagði, og tek þessi ummæli mín aftur. En það er alveg rétt, það er sjálfsagt að meiða engan með skattálagningu, og ég trúi því heldur ekki, að það hafi verið tilgangur ráðh. nokkurn tíma að meiða nokkurn í skattgreiðslum.

Skattstigar mínir verka þannig á barnlaus hjón, að skattur af 15 og 20 þús. kr. er felldur niður, skattalækkun á hjónum með 30 þús. kr. tekjur er 380 kr., á 40 þús. kr. tekjur 190 kr., á 50 þús. kr. tekjur 110 kr., og helzt sú skattalækkun upp úr, þ.e.a.s., ég legg til að lækka skattinn allmikið, um 380 kr., á 30 þús. kr. tekjum fyrir barnlaus hjón, enda hljóta þær tekjur að teljast algerar þurftartekjur og meira að segja spurning, hvort leggja ætti nokkurn skatt á þær, en ég geri ráð fyrir, að þau hjón greiði 100 kr. skatt. síðan lækkar skatturinn nokkru minna á hærri tekjum og lækkar síðan aldrei meir en um 110 kr. Skattalækkunin á hjónum með eitt barn er sem hér segir, að af 30 þús. kr. tekjum er skatturinn felldur niður, af 40 þús. kr. tekjum lækkar skatturinn um 735 kr., af 50 þús. kr. tekjum 125 kr., af 60 þús. kr. tekjum 110 kr. Á hjónum með 2 börn verður skattalækkunin þannig: Af 30 þús. kr. tekjum 160 kr., af 40 þús. kr. tekjum 420 kr., af 50 þús. kr. tekjum 280 kr. og af 60 þús. kr. tekjum 160 kr. Á hjónum með 3 börn yrði skattalækkunin miðuð við frv. þannig: Skattur er felldur niður af 30 þús. kr. tekjum og 40 þús. kr. tekjum, þ.e.a.s., ég geri ráð fyrir því, að hjón með 3 börn og 40 þús. kr. nettótekjur verði skattlaus. Fimm manna fjölskylda með 40 þús. kr. tekjur hefur ekkert afgangs umfram brýnustu nauðsynjar, og því á ekki að skattleggja neinar tekjur hjá henni. Skattalækkun á 50 þús. kr. tekjum er 255 kr., en á 60 þús. kr. tekjum aðeins 25 kr. Að síðustu hjón með 4 börn: Þar er skattalækkunin á 40 þús. kr. tekjum 190 kr., á 50 þús. kr. tekjum 230 kr., en á 60 þús. kr. tekjum aðeins 10 kr.

Með þessu tel ég mig hafa gert nokkra grein fyrir, hvernig hinir nýju skattstigar, sem ég legg til að teknir verði upp, verki í framkvæmd á skattgreiðslu einstaklinga, barnlausra hjóna og barnafjölskyldna, og af þessu er augljóst, að heildarniðurstaðan er sú, að skattur einstaklinga lækkar örlítið miðað við frv., skattur barnlausra hjóna lækkar allmiklu meira, en skattur barnafjölskyldna lækkar tiltölulega langmest, og þá stefnu tel ég tvímælalaust vera heilbrigða.

Þá er í till. mínum eitt algert nýmæli í skattalöggjöfinni. Ég legg til, að fjölskyldumönnum, þ.e. kvæntum mönnum, sem eiga ekki íbúð eða eiga íbúð, sem er minni en 90 m2, verði leyft að mynda eigin byggingarsjóð til þess að koma sér upp íbúð eða stærri íbúð en þeir eiga, ef hún er undir 90 m2. og að framlög í þennan byggingarsjóð, þennan eigin byggingarsjóð, skuli vera undanþegin tekjuskatti og eignarskatti, en þó þannig, að framlögin í byggingarsjóðinn megi aldrei vera hærri en 1/4 af tekjum mannsins og heldur aldrei hærri en 20 þús. kr. á ári og ekki hærri alls en 200 þús. kr., sem má telja kostnaðarverð sómasamlegrar íbúðar. Hér er um að ræða algert nýmæli að því er varðar skattgreiðslu einstaklinga, en hugsunin, sem að baki liggur, er síður en svo ný í skattalöggjöfinni.

Svo sem kunnugt er, njóta fyrirtæki margs konar skatthlunninda vegna kaupa og endurnýjunar á atvinnutækjum sínum, þ.e. vegna þeirrar fjárfestingar, sem þau leggja í. Öll hlutafélög og samvinnufélög njóta verulegra skattfríðinda á þann hátt, að þau mega leggja hluta af tekjum sínum í varasjóð skattfrjálst. Enn fremur njóta flest meiri háttar atvinnufyrirtæki gífurlegra skattahlunninda á þann hátt, að þau fá að draga mjög háar fyrningar frá nettótekjum sínum og sömuleiðis mjög mikinn viðhaldskostnað á eignum sínum og geta á þann hátt safnað gífurlegum ósýnilegum varasjóðum skattfrjálsum. Þetta er réttlætt með því, að það sé eðlilegt að styðja fyrirtæki til sparnaðar á tekjum sínum, þ.e.a.s. létta skattabyrðina á þeim fyrirtækjum, sem nota hluta af tekjum sínum til fjárfestingar í eigin þágu; ef fyrirtækin leggi til hliðar hluta af tekjum sínum til þess að endurbyggja framleiðslutæki sín, þá sé eðlilegt að létta skattabyrðina á þeim.

En þá er spurningin: Á ekki nákvæmlega hið sama að gilda um einstaklinga? Á ekki nákvæmlega hið sama að gilda um einstakling, sem vill nota hluta af tekjum sínum til þess að leggja í fjárfestingu, sem honum er persónulega bráð nauðsyn á að leggja i? Ég þarf ekki í þessu sambandi að fjölyrða um þann gífurlega húsnæðisskort, sem nú er hér við að etja. Ég þarf ekki heldur að fjölyrða um það, hversu sparnaðurinn hér er ófullnægjandi og hversu brýna nauðsyn ber til þess að hvetja alla skattgreiðendur til aukins sparnaðar. En ég er sannfærður um, að fátt mundi verða árangursríkara til þess að hvetja menn til þess að eignast eigin húsnæði og fátt mundi bæta meir skilyrði manna til þess að eignast eigin húsnæði heldur en einmitt það að gera þann hluta af tekjum, sem menn vilja leggja til hliðar upp í væntanleg húsnæðiskaup eða húsnæðisbyggingu, undanþeginn tekjuskatti. Það mundi stórauka tilhneigingu manna til þess að ráðast af fullri alvöru í að leysa þetta persónulega vandamál, húsnæðisskortinn, sem jafnframt er þjóðfélagsvandamál. Þess vegna tel ég, að einmitt þetta nýmæli sé mjög mikilvægt. Það hefur tvær hliðar: annars vegar að stuðla að stórauknum byggingum og hins vegar að stuðla að stórauknum sparnaði, en þjóðfélagslega séð verður þetta tvennt að fara saman. Þetta mundi verða til þess, að fjöldi fólks legði harðara að sér en ella, neitaði sér um ýmsa neyzlu til þess að geta myndað þennan skattfrjálsa eigin byggingarsjóð, og jafnframt mundi þá um leið vera stigið stórt spor til lausnar þess alvarlega þjóðfélagsvandamáls, sem húsnæðisleysið er. Ég vil því undirstrika þessa till. alveg sérstaklega og mælast til þess við þingheim. að hann hugleiði efni hennar, í þeirri von, að sú hugmynd, sem þar liggur til grundvallar, megi þá hljóta fylgi. Að sjálfsögðu er í till. mínum ákvæði um það, að ef þessi byggingarsjóður sé notaður til annars en byggingar, þá skuli falla á hann tekjuskattur, sami tekjuskattur og hefði fallið á tekjurnar, þegar þeirra var aflað.

Þá hef ég og lagt til í brtt. mínum, að breytt verði um innheimtuaðferð á tekjuskattinum, þ.e., að tekjuskatturinn sé innheimtur jafnóðum og teknanna er aflað. Á ríkjandi skipulagi í þessum efnum eru mjög miklir annmarkar. Það er mjög slæmt, að menn skuli fá tekjur handa á milli, sem þeir í raun og veru hafa ekki fullan ráðstöfunarrétt yfir, af því að menn eiga eftir að greiða skatt af þeim. Á næsta ári, þegar skatturinn fellur í gjalddaga, hafa tekjurnar kannske minnkað, þannig að menn eiga mun erfiðara með að greiða skattinn heldur en menn hefðu átt, ef tillit hefði verið tekið til skattgreiðslunnar jafnóðum og tekjurnar féllu til. Ég hef þess vegna lagt til, að sú skipan verði tekin upp, að launþegar greiði skatt af tekjum sínum jafnóðum og þeirra er aflað, og skuli nánari ákvæði um þetta sett í reglugerð, enda heyra þau ekki til í lögum.

Þá hef ég og lagt til í samræmi við óskir Landssambands ísl. útvegsmanna, að skatthlunnindi sjómanna verði aukin mjög verulega frá því, sem lagt er til í frv., þannig að 1/3 af tekjum sjómanna á íslenzkum fiskiskipum verði gerður skattfrjáls, en þó ekki hærri upphæð en 20 þús. kr., þannig að menn með hærri tekjur en 60 þús. kr. mundu ekki njóta þessara skattfríðinda.

Í sambandi við reglurnar um hlunnindi sjómanna, þar sem gert er ráð fyrir því, að þeir megi draga fæðiskostnað frá tekjum sínum, ef þeir þurfa að sjá sér sjálfir fyrir fæði við vinnu sína, hef ég flutt till. um, að þessi heimild verði einnig látin ná til verkamanna og iðnaðarmanna, sem stunda vinnu fjarri vinnustöðvum sínum og þurfa að sjá sér fyrir fæði.

Í 5. gr. frv. eru nokkur ákvæði, sem ég tel vera mjög gölluð. Í fyrri málsl. 2. tölul. 5. gr. er gert ráð fyrir því, að skattþegn, sem selur fasteign, er hefur verið í eigu hans skemur en 5 ár, verði skattlaus af söluhagnaðinum, ef hann kaupir aðra innan árs eða byggir hús áður en tvö ár eru liðin frá söludegi. Segja má, að þetta ákvæði sé eðlilegt í ýmsum tilfellum, ástæðulaust sé að skattleggja söluhagnað af eign, ef maðurinn er í raun og veru aðeins að skipta um hús eða íbúð, en eins og gengið er frá ákvæðinu í frv., þá er augljóst, að í kjölfar þess gæti siglt margs konar misnotkun á því. Það getur orðið skálkaskjól fyrir fasteignabraskara og íbúðabraskara, sem mundu leika sér að því að kaupa íbúðir og selja til skiptis með verulegum hagnaði, og það yrði gersamlega ómögulegt að ná til þeirra manna, sem vildu hagnast á því að kaupa og selja íbúðir. Að vísu er gert ráð fyrir því, að söluhagnaðurinn sé ekki skattfrjáls, ef um atvinnurekstur er að ræða, en sú takmörkun er engan veginn nægileg. Það er nauðsynlegt að taka fram, að viðskiptin séu ekki gerð í hagnaðarskyni, því að þau geta verið gerð í hagnaðar- eða spákaupmennskuskyni, þótt ekki sé um atvinnurekstur að ræða. Og enn fremur ber brýna nauðsyn til þess að banna, að skattgreiðendur megi gera slíkt oftar en einu sinni t.d. á 10 árum. Það er algerlega ástæðulaust að veita manni skattfrelsi á söluhagnaði íbúðar eða heimila mönnum að skipta um íbúð skattfrjálst oftar en t.d. einu sinni á 10 árum. Með slíkum breytingum mundi þetta ákvæði koma þeim að gagni og þeim einum, sem meiningin er að aðstaða, en ekki geta orðið skálkaskjól fyrir braskara, eins og greinin er núna.

Í seinni málsl. gr. er og gert ráð fyrir því, að söluhagnaður umfram niðurfyrnt verð á eignum, öðrum en fasteignum og skipum, verði skattskyldur, þó aldrei hærri upphæð en fyrningarafskriftunum nemur. Hér er í raun og veru rétt hugsun og eðlileg á ferðinni. Þó að atvinnurekendum hafi verið ívilnað með of háum fyrningarafskriftum, meðan þeir áttu tækin, þá er það sök sér, ef skatturinn kemur á þessar tekjur. þegar eignin hverfur úr eigu eigandans og er seld. En hér þyrfti í raun og veru að bæta við ákvæði um, að skattur skyldi einnig koma á áður leyfðan viðhaldsfrádrátt nokkur ár aftur í tímann, t.d. þrjú ár, því að það eru víðtæk skatthlunnindi í ákvæðum gildandi laga um viðhaldsfrádrátt. Þá er það og mjög óeðlilegt að láta skip ekki koma undir þessa reglu, þ.e.a.s. að ætla að halda hinum gífurlega háu lögleyfðu afskriftum af skipum skattfrjálsum, þó að eigendur selji skipin. Hér er verið að lögheimila áfram stórkostleg hlunnindi til allra þeirra, sem eiga og reka skip. Skipseigandi getur afskrifað skipið niður í 1/5 af kaupverði á fjórum árum. Hann getur selt eignina, skipið, fyrir miklu hærra verð en það er niðurfyrnt í og haft allan þann söluhagnað skattfrjálsan, og það sem er þó allra andkannalegast: hinn nýi eigandi, kaupandi skipsins, getur byrjað að fyrna skipið aftur, að fyrna hið háa kaupverð aftur á fjórum árum niður í 1/5 af kaupverðinu, selt skipið aftur með sinn söluhagnað skattfrjálsan, þriðji aðilinn getur fyrnt það í þriðja skiptið og síðan áfram. Þetta eru auðvitað algerlega fráleit ákvæði. Þessum ákvæðum verður að breyta. Ég hef þó ekki við þessa umr. lagt fram brtt. við þessa grein, en mun gera það við 3. umr., ef ekki koma brtt. við hana úr annarri átt.

Þá hef ég gert grein fyrir aðalefni brtt. minna, sem eins og af þessu má sjá eru allviðtækar. Ég vona, að við meðferð málsins muni þær hugmyndir, sem þar koma fram, fá sem rækilegasta athugun, og þeim mun rækilegri sem athugunin verður, þeim mun meiri líkur tel ég á því, að þessar hugmyndir hljóti fylgi og nái fram að ganga.