31.03.1954
Neðri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef sem einn af nm. skattamálanefndar átt þátt í undirbúningi þessa frv., sem hér liggur fyrir, og mér þykir því rétt að segja hér nokkur orð út af ýmsu því, sem fram hefur komið hér í ræðum manna um málið, og einni„ út af nokkrum atriðum í þeim brtt., sem fyrir liggja.

Hv. 1. landsk. þm. hefur nú skilað áliti minni hl. fjhn., og var verið að útbýta því nú á þessari stundu. Sömuleiðis hefur hann lagt fram brtt. á þskj. 612 og mælt fyrir þeim.

Við 1. umr. frv. lét hv. 1. landsk. þess getið, að beinu skattarnir væru orðnir tiltölulega lítill hluti af ríkistekjunum, en þó finnur hann það að stjfrv., sem hér liggur fyrir, að lækkun beinu skattanna samkv. því sé of lítil, og hann sagðist vilja frv., sem hefði veitt stórum meiri lækkun á sköttum. Ekki get ég neitað því, að mér finnst nokkurt ósamræmi í þessu.

Í framsöguræðu sinni nú við þessa umr. var hv. 1. landsk. þm. að tala um meðferð málsins hér í þingi, og skildist mér hann telja, að hann og aðrir dm. hefðu mjög takmarkaðan tíma til þess að átta sig á málinu og bera fram brtt. við frv. Nefndi hann réttilega, að málið er margþætt og mjög vandasamt viðfangs. Ég vil benda á, að það mun nú vera vikutími síðan frv. var útbýtt hér í hv. deild, og hann og aðrir hafa því haft þann tíma til athugunar á málinu.

Ýmislegt kom fram í ræðu hv. þm., og mun ég ekki gera að umtalsefni nema sumt af því. Hann ræddi m.a. um ákvæði frv. um skattfrelsi sparifjár og undanþágu frá framtalsskyldu að því er það snertir, og var á honum að heyra, að hann teldi, að möguleikum til eftirlits með skattaframtölum væri stórspillt, ef þessi ákvæði yrðu gerð að lögum. Ég held, að hv. þm. hafi gert of mikið úr þessu. Ég held, að það sé óhætt að fullyrða það, að nú á undanförnum árum hafi tekjuframtöl manna t.d. yfirleitt alls ekki verið prófuð af skattayfirvöldum með því að athuga um sparisjóðs- eða bankainnstæður þeirra, heldur hafi verið reynt að komast að hinu rétta um tekjur manna eftir allt öðrum leiðum. Ég vil líka benda á það, að í stjfrv. er, í kaflanum um skattfrelsi sparifjár, ákvæði um það, að ef í ljós kemur ósamræmi í framtölum milli ára, sem rekja mætti til þess, að sparifé hefur ekki verið fram talið vegna þessara nýja ákvæða, þá hafa skattayfirvöld rétt til þess að krefja bæði framteljendur og eins peningastofnanir um upplýsingar um innstæður þar hjá viðkomandi aðilum. Ég held því, að hv. þm. hafi gert of mikið úr þessu atriði.

Þá ræddi hann í þessu sambandi nokkuð um ákvæði í öðru frv., sem hér er á dagskránni, frv. um útsvör, og komst að þeirri niðurstöðu, að þar væri mjög takmörkuð heimild niðurjöfnunarnefnda í sambandi við útsvarsálagningu. Hann sagði, að það hefði verið úrræði þeirra að leggja á samkv. ákvæði útsvarslaganna um heimild til að leggja á eftir efnum og ástæðum að einhverju leyti, en þessi réttur væri tekinn af þeim, ef þetta útsvarsfrv. yrði samþykkt. Þetta er alger misskilningur hjá hv. þm. Það er ekkert hreyft við þessu ákvæði í útsvarslögunum. Hitt er annað mál, að niðurjöfnunarnefndum er gert að skyldu, ef eftir er leitað, að gefa gjaldendum upplýsingar um það, hvernig útsvarið hefur verið á þá lagt, og það sýnist nú satt að segja ekki til mikils mælzt, að það sé gert. Það er víst óhætt að fullyrða, að það eru hvergi á byggðu bóli slík ákvæði um álögur á menn sem hér eru í útsvarslögunum og hafa verið lengi um það, að leggja megi á eftir efnum og ástæðum, sem sagt bara eftir geðþótta niðurjöfnunarnefnda og hreppsnefnda. Þetta mun ekki þekkjast í einu einasta landi nema Íslandi. Og ég held, að þetta hljóti áður en langt liður að hverfa úr sögunni, því að menn hljóta að komast að raun um, að þetta er mjög óviðfelldin og óviðeigandi aðferð, þó að hún hafi verið notuð hér. Ég held satt að segja, að það sé kominn tími til fyrir alla aðila að fara að venja sig við þann hugsunarhátt, að frá þessu verði horfið. Ég held líka, að það væri spor í rétta átt, ef niðurjöfnunarnefndir t.d. fengju nokkurn áhuga fyrir því, að skattaframtöl manna væru réttari en þau eru núna víða, og reyndu þá að eiga hlut að því að fá fram réttari framtöl á tekjum og eignum manna.

Hv. þm. segir, að samkv. frv. sé of lítill munur á skatti einhleypra manna og hjóna. Um þetta má náttúrlega deila fram og aftur, en eins og fram hefur verið tekið áður af öðrum í sambandi við þetta frv., er hér gerður miklu meiri þessi munur en hann er nú. Lækkunin á sköttum hjá persónulegum greiðendum fellur öll svo að segja í hlut hjóna og þeim mun meira sem þau hafa fleiri börn á framfæri, en kemur lítið til góða einhleypingum, þannig að þessi munur er gerður miklu meiri en hann nú er.

Hv. þm. er með till. um það, að það verði sleppt við skatt hærri upphæðum, bæði hjá einhleypingum og hjónum, heldur en gert er ráð fyrir í frv., þ.e.a.s., að skattlagningin byrji ekki á eins lágum tekjum og nú er gert ráð fyrir í frv., og fleiri hv. þm., einnig frá Sósfl. og Þjóðvfl., sem eru hér með brtt., eru einnig með till. um þetta atriði. Þessar till. eru svo nýlega fram komnar, að mér hefur ekki unnizt tími til að athuga það, hvað þetta mundi valda mikilli lækkun á sköttunum. Það er hægt að fá áætlanir um þetta með útreikningum, en það tekur dálítinn tíma. En ég þori að fullyrða, að þessar till. þeirra mundu valda mjög mikilli lækkun í heild á sköttunum, vegna þess að þær snerta alla skattgreiðendur, sem eru fyrir neðan þetta tekjumark, sem þeir eru með till. um, og þeir eru ákaflega margir. Það er nefnilega allur fjöldinn af skattgreiðendunum, sem þetta snertir, eða það mikill fjöldi, að það mundi gera stóra upphæð í heildinni.

Þá vill hv. 1. landsk. þm. gera allar giftar konur að sjálfstæðum framteljendum eða sjálfstæðum skattborgurum, eins og ég held að hann hafi orðað það, og flytur till. um það efni. Þessi till. sýnist mér þannig, að það gæti orðið nokkur vafi á því, hvernig ætti að framkvæma hana í ýmsum tilfellum, og hefur verið þannig um till., sem hv. þm. hefur flutt áður hér á þinginu um þetta efni, að á þeim hafa verið ýmsir vankantar, og ég held, að það sé bezt að komast hjá þessu eins og reynt hefur verið við samningu þessa frv., sem hér liggur fyrir, með því að taka inn í lögin það nýmæli, að það verði sérstakur skattstigi gildandi fyrir hjón, nokkru lægri en fyrir einhleypinga. Þetta mundi náttúrlega fjölga framteljendum um tugi þúsunda og mundi þar af leiðandi verða miklu meiri vinna við útreikninga á skatti og auka kostnað við skattálagninguna, sem mér skildist þó hv. 1. landsk. telja nú þegar nógu mikinn.

Hv. þm. sagði í sambandi við þetta eitthvað á þá leið, að ef húsbóndinn vinnur einn fyrir öllum tekjum heimilisins, þá hefur hann undan engu að kvarta, þó að hann borgi stighækkandi skatt eins og aðrir með sömu tekjur, annað mál sé með giftu konuna, sem vinni ef til vill við hliðina á annarri ógiftri. Um þetta má nú ýmislegt segja. Þetta mál hefur verið til athugunar víðar en hér hjá okkur, þetta um samsköttun eða sérsköttun hjóna. Danska skattamálanefndin, sem hefur starfað um mörg ár, hefur haft þetta til meðferðar t.d., og það er töluvert um þetta rætt í áliti þeirrar nefndar. Niðurstaða nefndarinnar er sú, að það eigi ekki að hverfa frá samsköttuninni og fara að skattleggja hjón sitt í hvoru lagi. Danska nefndin bendir t.d. á það á einum stað í sínu áliti, að ef þannig sé ástatt á einu heimili, að húsbóndinn geti aukið tekjur heimilísins með því að taka að sér eftirvinnu eða yfirvinnu og geri það, þá mundi hann eða það heimili borga hærri skatt en annað, ef þessu væri hagað þannig á því heimili, að í stað þess að eiginmaðurinn aflaði þessara viðbótartekna, gerði kona hans það og teldi þær tekjur fram sérstaklega til skatts. Þetta telja þeir Danirnir að muni leiða til ósamræmis og misréttis, og niðurstaða þeirra er því sú, að þeir vilja halda við samsköttunarreglunni, sem þar hefur gilt til þessa.

Um persónufrádráttinn ræddi hv. þm. nokkuð, og það er rétt hjá honum, að með því fyrirkomulagi, sem þar er, má segja, að persónufrádrátturinn valdi meiri lækkun á skatti hjá þeim, sem hefur háar tekjur heldur en lágar. En það á að vera tekið tillit til þessa við samningu skattstiganna að sjálfsögðu. Og ég vil benda á það, að hv. þm. hefur á undanförnum þingum flutt hér frv. um hækkun á persónufrádrætti og þá gert ráð fyrir því alltaf að hafa hann í sama horfi og nú er, með þessum ágalla. Það er fyrst nú, sem hann mun vera með einhverja breytingu í sínum till., sem hér var útbýtt í dag.

Þá ræddi hv. 1. landsk. þm. nokkuð um eitt atriði í brtt., sem hann hefur lagt fram, sem er nýmæli, eins og hann sagði, en það er það, að einstaklingum verði leyft að mynda byggingarsjóði á þann hátt, að þeir megi draga frá tekjum allt að 1/4 hluta þeirra og leggja í slíkan sjóð, þennan hluta megi þeir fá skattfrjálsan, þó ekki meira en 20 þús. kr. á ári og 200 þús. kr. samtals. Hv. þm. sagði, að þetta nýmæli hefði tvær hliðar, annars vegar stuðlaði það að auknum byggingum, sem þörf væri fyrir, og einnig stuðlaði það að auknum sparnaði, þetta væri hvort tveggja gott, og það er rétt. Ég hef nú ekki haft mikinn tíma til að athuga þessa till., en mér sýnist þó, að það muni vera fleiri kantar á henni heldur en þessar tvær hliðar og sumir þannig, að þeir kynnu að vera dálítið athugunarverðir eins og þetta er hér fram sett. Það stendur í till.: „Fjölskyldumenn, sem ekki eiga 90 m2 íbúð eða stærri, skulu undanþegnir tekju- og eignarskatti af framlögum í eigin byggingarsjóð samkvæmt eftirfarandi reglum“ o.s.frv. Ekkert er um það fram tekið í till., að þetta eigi að gilda aðeins fyrir þá, sem hafa sérstaka þörf fyrir slíka skattaívilnun. Mér skilst, að þetta gildi fyrir alla, jafnvel þó að menn eigi í hlut, sem séu það efnum búnir, að þeir geti hvenær sem er án þess að fá nokkur skattfríðindi keypt íbúð eða byggt hús handa sér. Þá sýnist mér, að menn gætu, ef þetta yrði að lögum, haft hagnað af þessu, þó að þeir nú ættu íbúð, sem væri stærri en 90 fermetrar, með því bara að selja hana. Eftir að þeir eru búnir að selja sína íbúð, eiga þeir hana ekki og gætu þá held ég, eins og till. er orðuð, farið að safna í byggingarsjóð og fengið þannig skattfrjálsan fjórðung tekna sinna, allt að 20 þús. kr. á ári, alveg án tillits til þess, hvað efnahag þeirra liður, og þó að þeir ættu inni á banka eða einhvers staðar annars staðar andvirði íbúðarinnar, sem þeir áttu, en hefðu nú selt. Ég held þess vegna, að þetta þyrfti að athuga miklu nánar, áður en það yrði samþykkt, og ég held það séu þarna ef til vill möguleikar til þess fyrir menn, sem vildu það viðhafa, að misnota þetta ákvæði eins og það er fram sett.

Þá ræddi hv. 1. landsk. að síðustu um það, að tekjuskattinn ætti að innheimta jafnóðum og teknanna er aflað, og hv. þm. Þjóðvfl. eru með till. um þetta efni einnig. Mér er nú reyndar ekki alveg ljóst af till. hv. 1. landsk., hvernig hann hugsar sér þessa framkvæmd. Mér skilst þó á síðustu brtt. hans, að hann ætlist til þess, að það verði sett reglugerð um það að innheimta tekjuskatt þannig, að launþegar greiði skatt af tekjum sínum jafnóðum og þeirra er aflað, og heimilt sé að skylda kaupgreiðendur til þess að halda eftir og skila í ríkissjóð upp í skattgreiðslur manna svo miklum hluta af kaupi þeirra, að nægi fyrir skattgreiðslunni. Það eru nú í lögum ákvæði, í 45. gr. l., um heimild til þess að skylda kaupgreiðendur til þess að aðstoða við innheimtuna á þennan hátt. En út af hinu atriðinu, að innheimta tekjuskatt jafnóðum og teknanna er aflað, vil ég segja það, að um þetta hefur verið þó nokkuð rætt í skattamálanefnd og þetta mun hafa verið tekið upp fyrir nokkru í Svíþjóð. Nokkuð eru mismunandi fregnir af því, hvernig þeim þykir þetta þar gefast. Ég held nú, eftir að hafa athugað þetta mál töluvert, að það eigi ekki við hér hjá okkur að taka þetta upp. Þetta er að vísu hægt að gera, að innheimta skatt með þessu móti hjá launafólki. En það er bara ekki hægt hjá miklum fjölda af skattgreiðendum hér á landi, eins og okkar atvinnuvegum er háttað. Það er svo um ýmsa iðnaðarmenn t.d., sem vinna sem kallað er fyrir eigin reikning, að það er ekki hægt að gera upp tekjur þeirra mánaðarlega, og það er þannig um alla bændur landsins og sveitafólk yfirleitt, að þetta væri ekki hægt að gera þar. Þar er ekki hægt að reikna skattana út fyrr en eftir árið, þegar reikningar þess eru uppgerðir. Og ef það væri tekin upp þessi regla að því er launafólk snertir, þá yrði afleiðingin sú, að hér yrðum við með tvenns konar skattakerfi samtímis, og það mundi áreiðanlega verða þyngra í vöfum og kostnaðarsamara heldur en þetta, sem við búum við nú. Ég vil líka benda á, að það ætti að vera hægt að ná að nokkru leyti því sama sem vakir fyrir þessum hv. þm., að því er snertir launafólkið, með því að nota heimild laganna til þess að innheimta hjá því jafnóðum og það fær sínar tekjur, mánaðarlega, upp í skatt. Þar hreyfist þetta ekki svo mjög frá ári til árs, hjá fólki, sem hefur sín fastákveðnu laun. Og það væri vitanlega vel til athugunar að taka upp þá innheimtuaðferð hjá þeim, sem hafa þannig tekjur eða stunda þannig störf, að þetta getur átt við.

Hv. 8. landsk. þm. sagði hér við 1. umr. frv., að í því væri ekkert gert fyrir hinn almenna borgara. Hér eru þó í þessu frv. ákvæði um mikla lækkun á tekjuskatti fjölskyldufólks, fríðindi til fiskimanna, leigufrádráttur hjá þeim, sem búa við hæsta húsaleigu, frádráttur vegna heimilisstofnunar og ýmislegt fleira. En hv. þm. virðast halda því fram, að þetta komi almenningi ekki að neinu gagni, heldur sé þetta eingöngu gert allt fyrir auðmenn og auðfélög. Hv. þm. hefur borið hér fram brtt. ásamt hv. 8. þm. Reykv., og eru þær á þskj. 591. Ræddi hann nokkuð um þessar till. sínar hér á fundi í dag. Hann beindi því í upphafi ræðu sinnar til hæstv. forsrh., að hann ætti nú að athuga till. þeirra þjóðvarnarmanna, því að hann væri ekki eins smásmuglegur í þessum efnum og hæstv. fjmrh.

Hv. þingmenn Þjóðvfl. flytja hér till. um það, að hjá hverjum einstaklingi skuli ekki skattlagðar tekjur, ef þær eru undir 8 þús. kr., þ.e.a.s. skattskyldu tekjurnar, og ef skattskyldar tekjur hjóna eru undir 10 þús. kr., þá greiðist enginn skattur af þeim. Hins vegar leggja þeir til, að sá, sem hefur 8 þús. kr. skattskyldar tekjur, þ.e.a.s. einhleypur maður, skuli borga 150 kr. Það er nokkuð svipað ákvæði í till. frá hv. þingmönnum Sósfl. á þskj. 589. Þeir leggja þar til, að ef skattskyldar tekjur einstaklings eru undir 20 þús. kr., þá greiðist enginn skattur, en af 20 þús. kr. greiðist 630 kr. Og ef skattskyldar tekjur hjóna eru undir 20 þús. kr., greiðist enginn skattur, en af 20 þúsundum greiðist 560 krónur. Samkv. till. hv. þingmanna Þjóðvfl. yrði það þannig, að maður, sem hefur 7999 kr. í skattskyldar tekjur, á ekki að borga neitt, en sá, sem hefur 8000 kr., á að borga 150 kr., og samkv. till. þingmanna Sósfl. á sá einstaklingur, sem hefur 19999 kr. ekki að borga neitt, en hafi hann 20 þús. kr., þá á hann að borga 630 kr. Ja, hún er geysidýr þessi eina króna samkv. þessum till., og ekki finnst mér ósennilega til getið, að menn mundu nú í lengstu lög reyna að hnika til sínum framtölum þannig, ef tekjurnar væru eitthvað nálægt þessu marki, að heldur yrði nú krónunni minna en meira talið fram. Hugsanlegt er það. Mér finnst því, hvað sem annars má um þetta segja, að byrja skattlagninguna ofar en lagt er til í stjfrv., að þá þyrfti þetta nú einhverrar nánari athugunar við. Annars er það athyglisvert við till. þeirra hv. þingmanna Þjóðvfl. og Sósfl. viðkomandi skattstiganum eða skattstigunum, að þeim virðist hann nokkuð góður, skattstiginn, eins og hann er í stjfrv., því að þeir gera ekki tillögur um breyt. á honum nema þarna neðst, eins og ég hef nú lýst, og á þann hátt, sem ég hef lýst. Að vísu er það svo um till. þeirra þjóðvarnarmanna, að þeir leggja til, í staðinn fyrir að í stjfrv. er gert ráð fyrir, að sá, sem hefur yfir 130 þús. kr. skattskyldar tekjur, borgi 40% af afganginum, þá komi 41%. Munar það náttúrlega litlu. En þetta segja þeir að sé til að vega á móti lækkun á skattinum af lágtekjum. Ég held, að þetta hrykki nú skammt til að vega upp lækkunina, sem þeir leggja til, — mjög skammt. En hv. 8. landsk. segir, að með þessu sé verið að taka bagga af bökum hinna fátæku og færa þá yfir á bök þeirra, sem hafa yfir 130 þús. kr. skattskyldar tekjur, og þetta muni jafnast. Þetta mundi nú áreiðanlega ekki jafnast. Og ég var að reyna að gera mér ljóst, hvernig þetta mundi koma út, ef þeirra till. yrðu samþykktar. Það er rétt, eins og tekið er fram, að t.d. einstaklingur, sem hefur minna en 8 þús. kr. skattskyldar tekjur, mundi vera skattfrjáls eftir þeirra tillögum, en greiða dálítið eftir stjfrv. Ekki er það nú há upphæð að vísu. En ég athugaði það, að einstaklingur, sem hefði 150 þús. kr. nettótekjur, mundi borga eftir till. þjóðvarnarmanna 890 kr. minni skatt heldur en eftir stjfrv., svo að ekki mundi nú færast neinn baggi yfir á hans bak, þó að þeirra till. yrðu samþykktar. Ég athugaði líka ómagalaus hjón með jafnmiklar nettótekjur, 150 þús. kr., og þau mundu greiða eftir till. þeirra 1970 kr. minna en þau eiga að borga eftir frv.

Hv. 8. landsk. þm. var líka að tala um að innheimta skattana af tekjunum, um leið og teknanna væri aflað, og vill láta það gilda frá ársbyrjun 1955. Ég hef þegar rætt um þessa till. í sambandi við aðra svipaða frá hv. 1. landsk.

Hv. 8. landsk. þm. endaði ræðu sína á endurtekinni áskorun til hæstv. forsrh. um að kveða nú niður nánasarskapinn í þessum skattamálum. Þjóðvfl. virðist setja mest traust á hann, hæstv. forsrh., þegar um lagfæringar á skattalögunum er að ræða. Ef til vill hafa þeir ætlað sér að mýkja hann svolítið líka með því að bera fram till., sem mundu lækka hans skatt persónulega um dálitla fjárhæð, en hann mundi fá nokkra skattalækkun, sennilega skiptir það hundruðum, kannske nær það þúsundi, ja, ég skal ekki segja um það, en það skiptir nokkurri fjárhæð, sem hann mundi borga minna í tekjuskatt eftir þeirra till. en ef stjórnarfrv. verður samþ. eins og það nú er.

Hv. þm. Siglf. ræddi hér um till., sem hann og nokkrir fleiri hafa flutt, en hafa nú tekið aftur til 3. umr., og get ég því frestað að tala um hana nú.

Ég hef þegar gert nokkuð að umtalsefni till. þm. Sósfl., sem hv. 11. landsk. þm. mælti fyrir um breytingar á skattstiganum, og get látið það nægja.

Hv. 9. landsk. þm. talaði hér um till., sem hann og tveir flokksbræður hans flytja á þskj. 586 og er um það, að kaup verkafólks fyrir eftir-, nætur- og helgidagavinnu skuli ekki reiknast til skatts, nema eins og greitt hefði verið fyrir dagvinnu, þ.e.a.s. kauphækkunin ætti að vera skattfrjáls, skilst mér, vegna eftir-, nætur- og helgidagavinnu.

Út af þessu vil ég segja það, að ég held, að það yrði töluverð aukavinna við að reikna þetta út, en látum það vera. Annað kemur hér líka til athugunar í sambandi við þetta, að ég tel, að það mundi valda misrétti, ef þetta næði eingöngu til verkafólks. Hvað er þá að segja t.d. um sjómenn á fiskibátum, sem oft vinna vitanlega mjög mikið í næturvinnu og eftirvinnu? Hvers vegna ætti þá ekki að gilda sama reglan um þá? En í sambandi við það má auðvitað viðurkenna, að það væri mjög erfitt að koma þessu við þar, því að það er ekki gott að greina þar á milli, hvað mikið af þeim tekjum, sem þeir fá eftir vertíðina, er fyrir dagvinnu og hvað fyrir næturvinnu og eftirvinnu. Það er sennilega óleysanlegt dæmi. Svipað má segja um aðrar stéttir, eins og t.d. bændur og annað sveitafólk. Þar er mjög mikið unnið í eftirvinnu og stundum í næturvinnu, og það er enginn möguleiki að greina það í sundur, þegar fundnar eru út tekjur bóndans eftir árið, hvað mikinn hluta þeirra hann hefur fengið fyrir næturvinnu og hvað fyrir dagvinnu. Ég held því, að það verði ýmsir annmarkar á því að taka upp þessa reglu, en fráleitt tel ég að láta þetta gilda aðeins um ákveðinn hóp manna, en ekki aðra, sem líka verða oft að leggja á sig mikla næturvinnu og eftirvinnu.

Þá ræddi hv. 9. landsk. þm. einnig um aðra till., sem hann flytur einn á þskj. 587 og er um sérsköttun á tekjum konu. Hann talar um það, að til þess að komast af með að greiða minni skatta en nú er, skilst mér, þá geti hjón skilið og fólk geti líka búið saman ógift í stað þess að giftast. Þetta hefur maður heyrt áður. En ég vil benda á það, að í frv., sem nú liggur fyrir, er einmitt hlutur hjóna gerður miklu betri á margan hátt en áður var í samanburði við einhleypinga. Þannig er nú, eins og þegar hefur verið lýst, till. um það í frv., að það verði sérstakur skattstigi fyrir hjón, lægri en fyrir einhleypinga. Þá er einnig aukin heimild til að draga frá keypta heimilisaðstoð. Þá er það nýmæli í frv., að þar er gert ráð fyrir verulegum frádrætti vegna kostnaðar við heimilisstofnun á því ári, sem karl og kona ganga í hjónaband, og þetta fái þau vitanlega ekki, ef þau láta það vera að giftast, en búa saman ógift. Þá er enn eitt, sem hefur allmikla þýðingu, að minnsta kosti hér í Reykjavík, og það er húsaleigufrádrátturinn, sem eingöngu á að gilda fyrir fjölskyldufólk.

Við 1. umr. frv. flutti hv. 5. þm. Reykv. ræðu og gerði þar einkum að umtalsefni frv. um skattamál, er hann ásamt hv. 2. þm. Eyf. bar fram á siðasta þingi.

Þetta frv. þeirra, sem þeir fluttu þá, bar það með sér, að efni þess var fengið frá öðrum fulltrúa Sjálfstfl. í skattamálanefndinni, Sigurbirni Þorbjörnssyni, og sennilega að mestu samið af honum. Þar var till. um að skipta skattskyldum tekjum hjóna í tvo jafna hluta og að skattur reiknaðist í tvennu lagi, af hvorum helmingi fyrir sig. Þessi till. var lögð fram af Sigurbirni Þorbjörnssyni í skattamálanefndinni 9. júlí 1952 til athugunar. Hinn sjálfstæðismaðurinn í n. stóð ekki að till., og honum voru ljósir annmarkar á þessu eins og fleiri mönnum í n. Þessi regla mundi valda óeðlilega mikilli lækkun á tekjuskatti og tekjuútsvari hjá hátekjuhjónum, en þessa till. lét þessi nm. í frv., sem þeir tveir flokksbræður hans báru fram hér á þinginu í fyrra. Hann lagði einnig til í það till. um skattstiga og persónufrádrátt, sem hann lagði fram í skattamálanefnd til athugunar nokkru áður, eða 10. sept. 1952, gerði þó smávægilegar breytingar á stiganum til lækkunar, áður en hann lét hann í frv., sennilega vegna breytingar á svo nefndri umreikningsvísitölu.

Í skattamálanefndinni hafði verið rætt um að auka tekjufrádrátt vegna keyptrar heimilisaðstoðar og till lagðar þar fram um það. Þessi nm. lét því till. um það efni í þetta frv. Þá hafði einnig verið rætt um það í n. að veita hjónum tekjufrádrátt vegna kostnaðar við stofnun heimilis á því ári, sem þau ganga í hjónaband. Höfðu framsóknarmenn í n. lagt þar fram till. um þetta til athugunar. Þetta atriði lét þessi nm. einnig koma fram í frv. Á þann hátt, sem ég hef hér lýst, var það frv. til komið, sem þeir hv. 5. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Eyf. fluttu á þinginu í fyrra. Og þegar þetta er athugað, er það í meira lagi skrýtið, þegar hv. 5. þm. Reykv. er að gefa í skyn, að frv., sem hér liggur fyrir og undirbúið er af skattamálanefndinni, sé að einhverju leyti byggt á þeirra frv. eða þar sé farið inn á þeirra slóðir, eins og hann orðaði það í ræðu sinni.

Frv. þeirra hv. 5. þm. Reykv. og félaga hans var þannig úr garði gert, eins og ég hef hér gert grein fyrir, að efni þess var sótt í till., sem einstakir nm. í skattamálanefnd höfðu lagt þar fram og voru til athugunar hjá n. Frv. þeirra gat því vitanlega ekki orðið og varð ekki til neinna nota við störf skattamálanefndarinnar.

Þá var hv. 5. þm. Reykv. einnig að tala um það í sinni ræðu, að miklu lengra mundi komið endurskoðun skattalaganna, ef heilbrigður áhugi hefði verið hjá skattamálanefndinni. Ég tel ummæli hans um það, að nm. í þeirri n. hafi skort áhuga á því að leysa það mál, sem þeim var falið að vinna að, órökstudd og ómakleg. Ég mun ekki fara að ræða meira um það að sinni, þar sem þessi hv. þm. er hér ekki viðstaddur nú á fundinum. En benda má á það, að þetta mál allt, skattamálið, er margþætt og vandasamt á ýmsan hátt, og það er því ekkert óeðlilegt, að lausn þess taki nokkurn tíma. Nm. þurfa margt að athuga og margs að gæta. Þeir þurfa að afla sér upplýsinga víðs vegar að viðkomandi verkefninu og hafa samráð um margt við aðra, bæði einstaka embættismenn og marga aðra, sem málíð snertir. Og ég vil endurtaka það, að ég tel aðdróttanir hv. 5. þm. Reykv. um áhugaleysi hjá n. við að vinna að þessu máli ekki á rökum reistar.

En það er svo um þetta frv., sem þeir tveir hv. þm. Sjálfstfl. fluttu hér á þinginu í fyrra, að auk þeirra tveggja er þó a.m.k. einn maður hér á þingi, sem hefur töluvert álit á því frv.; það kom á daginn við 1. umr. þessa máls. Það er hv. 2. þm. Reykv. (EOl). Mér þykir leitt, ef hann er ekki hér viðstaddur nú, en við því fæ ég ekki gert. Hann hældi því frv. mjög við 1. umr. þessa máls og sagði m.a., að það væri ekkert undarlegt, þó að þeir sósíalistar hefðu orðið hrifnir af frv. hv. 5. þm. Reykv. Hann lét þess getið um leið, að í það frv. hefði verið tekin einhver till. frá sósíalistum. Hann sagði, að frv. þeirra sjálfstæðismanna hefði verið „bara anzi laglegt“ og miklu betra en stjórnarfrv., sem nú er hér til umr. Og hv. 2. þm. Reykv. sagði, að nú væri það helzta ráðið, að Alþfl.- og Sjálfstfl.-menn í fjhn. d. tækju höndum saman og reyndu að færa málið í svipað horf og það var hjá sjálfstæðismönnum í fyrra fyrir kosningar.

Samkvæmt frv. þeirra sjálfstæðismanna áttu hjón með tvö böru á framfæri og 30 þús. kr. nettótekjur eða lægri að sleppa við tekjuskatt. Þau eiga hins vegar að borga samkvæmt þessu frv. 0.53% af tekjunum í skatt. Það er nú allt og sumt. En samkvæmt frv. þeirra sjálfstæðismanna hefði einhleypingur með 30 þús. kr. hreinar tekjur borgað 25% hærri tekjuskatt en samkvæmt frv., sem hér liggur fyrir, og hjón ómagalaus með 40 þús. kr. hreinar tekjur hefðu borgað 3% hærri skatt samkvæmt frv. þeirra sjálfstæðismanna en eftir þessu frv. En aðaláhrifin, sem orðið hefðu af því, ef frv. þeirra sjálfstæðismanna frá í fyrra hefði verið samþ., hefðu orðið mjög mikil lækkun á sköttum hjóna, sem hafa háar tekjur, enda sjáanlega aðaltilgangur flm. Þetta hlaut að verða afleiðingin af því að skipta tekjum allra hjóna í tvennt, hversu háar sem þær eru. Það hefði því orsakað mjög miklu lægri tekjuskatt hjá kvæntum mönnum með háar tekjur en hann mun verða, ef stjfrv., sem hér liggur fyrir, verður samþ. En þetta segir hv. 2. þm. Reykv. að sé harla gott og lætur í ljós sérstaka hrifningu sína yfir því. Þó var þessi hv. þm. í ræðu sinni að tala um háa nefskatta og að aflétta þyrfti tollum, söluskatti og bátagjaldeyrisálagi. Ef til vill dettur honum í hug, að það verði auðveldara að lækka tolla og þess háttar gjöld, ef beinir skattar á hátekjufólki verða lækkaðir miklu meira en lagt er til í því frv., sem hér liggur fyrir. En ýmsir aðrir munu líta öðruvísi á það mál.

Í frv., sem hér liggur fyrir, eru m.a. ákvæði um mjög aukna heimild til að draga frá tekjum iðgjöld vegna lífeyristrygginga, einnig um frádrátt á fæðiskostnaði og hlífðarfatakostnaði fiskimanna og ferðakostnaði manna vegna atvinnusóknar. Þá eru ákvæði í frv., eins og ég hef áður getið um, þess efnis, að leigjendur húsnæðis, sem búa við mjög óhagstæð leigukjör, en svo er um mikinn fjölda fólks, sérstaklega hér í Reykjavík, megi draga frá tekjum nokkurn hluta húsaleigunnar. Þetta er nýmæli eins og fleira í frv. Enn eru ákvæði um frádrátt á hluta af björgunarlaunum, sem greidd eru áhöfnum skipa, og enn fremur ákvæði um skattfrelsi sparifjár. Ekkert af þessu, sem ég nú hef talið, var í frv. þeirra sjálfstæðismanna á síðasta þingi, en þrátt fyrir það telur hv. 2. þm. Reykv., að það frv. hafi verið miklu, miklu betra en stjórnarfrv., sem hér er á ferð. Ég geri ráð fyrir því, að allur fjöldinn muni nú líta nokkuð öðruvísi á það mál, ef hann gerir samanburð á þessu tvennu.