31.03.1954
Neðri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ræða hv. þm. V-Húnv. (SkG) hér áðan fannst mér staðfesta mjög rækilega það almenna álit manna, að þessi hv. þm. sé einn allra íhaldssamasti maður á þingi. Af ummælum hans um tili. stjórnarandstæðinganna, þ.e.a.s. brtt. við frv., var helzt á honum að skilja, að skattamálanefnd hefði fengið frv. það, sem hér er til umr., frá guði sjálfum, eins og sagan segir að Móses hafi fengið boðorðin forðum á steintöflunum. Að minnsta kosti var það niðurstaða hans ótvíræð, að svo vel hefði skattamálanefnd til tekizt, að útilokað væri, að stjórnarandstæðingar hefðu nokkurn möguleika á því að leggja fram betri, hagkvæmari eða skynsamlegri till. en þar er gert, hvað þá að þeir hefðu gert það nú þegar.

Það fór svo sem mig grunaði og eins og ég sagði í fyrri ræðu minni hér í dag, að hv. forsvarsmaður hæstv. ríkisstj., hv. þm. V-Húnv., sagði, að till. okkar stjórnarandstæðinga um að skera framan af skattstiganum, eins og það er kallað, þ.e. hækka skattfrjálsar tekjur, mundu lækka tekjur ríkissjóðs af hinum beinu sköttum mjög verulega. Þannig komst hann að orði: „Þessar till. mundu lækka tekjur ríkissjóðs af beinum sköttum mjög verulega.“ Þá veit maður það. Þá veit maður, af hverju ríkissjóður hefur „mjög verulegar“ tekjur. Það er af því að leggja heina skatta á einstaklinga, sem hafa minna en 8 þús. kr. skattskyldar tekjur, og á hjón, sem hafa minna en 10 þús. kr. skattskyldar tekjur, því að við hv. 8. þm. Reykv. lögðum ekki til í till. okkar, að meira yrði nú skorið framan af skattstiganum en það, að þeim, sem hefðu innan við þessi tekjumörk, yrði sleppt við að greiða skatt. Af þessum einstaklingum hefur ríkissjóður sem sagt mjög verulegar tekjur af beinum sköttum.

Það var nokkuð fleira í þessu sambandi, sem hv. þm. V-Húnv. ræddi um, og brá þá eins og hans er venja, þegar hann kemst í vandræði með að rökstyðja sitt mál, inn á þá leið að snúa út úr málflutningi andstæðings síns. Hann sagði t.d., að tekjur ríkissjóðs af beinum sköttum mundu lækka samkvæmt okkar tili. vegna hækkunar á persónufrádrætti og breytinga á skattstigunum. Í því sambandi ræddi hann eingöngu um skattstigann, þ.e.a.s. það, sem við skerum framan af honum, en hann sennilega vildi ekki — a.m.k. minntist hann ekki á það, hvaða afleiðingu það mundi hafa í för með sér, að við leggjum til í fyrsta lagi, að það verði gerð veruleg takmörkun á skattfrelsi sparifjár, þannig að ríkissjóður mundi hafa skatttekjur af sparifjárvöxtum þeirra, sem eiga yfir 100 þús. kr., og alveg sérstaklega virtist hann gleyma viljandi að minnast á það, hvaða afleiðingar það mundi hafa fyrir tekjur ríkissjóðs af beinum sköttum, ef sú till. okkar yrði samþ., að skattaeftirgjöf gróðafyrirtækja yrði lækkuð ofan í 10%, eins og við leggjum til, en yrði ekki 20%, eins og hæstv. ríkisstj. leggur til.

Í málflutningi sínum var hv. þm. V-Húnv. nefnilega ekki heiðarlegri en það, að hann vildi ekki taka tillit til þess, að till. þær, sem við þm. Þjóðvfl. höfum borið fram, eru að sjálfsögðu heildartill. Þær miðast við það, að þær yrðu allar samþ., og ég skora á hv. þm. V-Húnv. að halda því fram hér, að tekjur ríkissjóðs vegna beinna skatta yrðu minni á næsta ári, ef okkar till. yrðu samþ. í heild, heldur en ef það frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt hér fram, yrði samþ.

Þá fór hv. þm. V-Húnv. nokkrum gamansömum orðum um það, hvernig menn mundu reyna að hnika til skattinum sínum um eina kr. til að losna við að greiða skatt. Ég var búinn að minnast á það hér í dag, að það kæmi þarna brot á skattstigann, og ég viðurkenni það, enda þýðir ekki annað. Það er augljóst mál, og til þess er ætlazt. Till. beinlínis bera það með sér, að til þess er ætlazt, að það komi brot á skattstigann. Og hvort einn einstaklingur, sem er á þessu tekjumarki, 8 þús. kr. fyrir einstakling og 10 þús. kr. fyrir hjón, borgar 150 kr. eða borgar þær ekki, skiptir engu meginmáli, þegar tekið er tillit til verðgildis íslenzkrar krónu eins og það er í dag.

Einnig sagði hv. þm. V-Húnv. í gamansömum tón, að till. okkar þjóðvarnarmanna fælu í sér, að forsrh. mundi fá lægri skatt samkv. þeim heldur en eftir frv. ríkisstj. En hann gleymdi líka alveg í því sambandi að minnast á það, hvort skatturinn hjá fyrirtækjum hæstv. forsrh. yrði minni eða meiri eftir okkar till. heldur en frv. ríkisstj.

Loks lagði svo hv. þm. V-Húnv. gegn því að breyta skattheimtunni á þann veg, að skatturinn yrði innheimtur um leið og tekjurnar myndast, eins og við þm. Þjóðvfl. höfum lagt til. Sagði hann, að þetta mundi reynast erfitt í framkvæmd og jafnvel óframkvæmanlegt. Nú hefur hv. 1. landsk. gert nokkra grein fyrir þessu, og get ég tekið undir það, sem hann þar sagði. Ég vil benda hv. þm. V-Húnv. á það, að þessi aðferð við skattinnheimtu hefur verið framkvæmd um langt skeið í Bretlandi, í Bandaríkjunum, í Þýzkalandi, í Svíþjóð nú í nokkur ár og hafði þá verið í gildi áður í Svíþjóð. Og aðalröksemdin fyrir því að fara inn á þessa braut, taka upp þessa aðferð, er sú, sem Svíar orðuðu þannig, þegar þeir breyttu sinni skattalöggjöf, að það yrði að sjálfsögðu að ausa sköttunum úr tekjulindinni, um leið og hún streymdi fram, en ekki löngu eftir að hún væri þornuð. Þannig orðuðu Svíar kjarnann í sínum röksemdafærslum fyrir þessari breytingu.

Ég gat um það við 1. umr. þessa máls, að eins og þessum málum háttar hjá okkur núna, þá getur það hæglega komið fyrir, sérstaklega vegna þess, að tíðar sveiflur eru hér í okkar efnahagslíf:, að maður, sem hafði 70 þús. kr. í tekjur í fyrra og á að borga af þeim skatt í ár, hefur ekki nema 35 eða 30 þús. kr. tekjur, og þá á hann að greiða af þeim tekjum skattinn af 70 þús. kr. Í sjálfu sér er ekki hægt að mála þetta mjög gróft í sambandi við beina skatta, vegna þess að þeir nema ekki svo miklum upphæðum, en í sambandi við útsvörin ætti öllum að vera ljóst, hvernig þetta gengi, hvernig — við skulum segja — hjón með eitt barn, sem hefðu haft 70 þús. kr. tekjur í fyrra, ættu að fara að því að borga nú skatta og útsvar af t.d. 30 þús. kr. tekjum. Og hugmynd okkar þjóðvarnarmanna með því að flytja þessar till. nú um breytt form á innheimtu tekjuskatta er að sjálfsögðu sú, að ef ríkissjóður tæki upp þessa aðferð, þá leiddi það til þess, að bæjar- og sveitarfélög neyddust til að taka hana upp líka varðandi innheimtu útsvara. Þess vegna er það mjög þýðingarmikið atriði, að hv. þm. geri sér grein fyrir þessu og verði ekki jafníhaldssamir í hugsun og anda og hv. þm. V-Húnv. hvað þetta mál snertir.

Ég gat þess í dag, að það væri þegar farið að bera á því, að stéttarfélög væru farin að gera samþykktir um það og senda áskoranir til Alþ. um það að breyta skattinnheimtunni í þetta horf, og virðast þau og þar með hinn almenni skattborgari vera í hugsun nokkuð á undan hv. þm. V-Húnv. í þessu efni a.m.k.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um ræðu hv. þm. V-Húnv. að þessu sinni.