02.04.1954
Neðri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Meiri hl. fjhn. flytur hér brtt. við 3 greinar frv., sem ég vildi gera grein fyrir með nokkrum orðum. Það er nú verið að útbýta þessum till., en þær eru á þskj. 637. Það er um smávægilegar breytingar eða lagfæringar á þremur greinum frv.

Samkvæmt núgildandi skattalögum telst ágóði af sölu á fasteign með skattskyldum tekjum, ef eignin hefur verið í eigu seljanda skemur en 5 ár. Á það hefur verið bent, að þetta lagaákvæði gæti í vissum tilfellum komið illa og ósanngjarnlega við menn, t.d. ef þeir teldu sér af einhverjum ástæðum þörf á því að selja íbúð, sem þeir hefðu átt og notað skemur en 5 ár, en kaupa aðra í staðinn til eigin nota. Sama má segja um það, ef bóndi, sem hefur átt jörð skemur en 5 ár, telur sér nauðsynlegt eða hagkvæmt að flytja búferlum og selur jörð sína, en kaupir aðra í staðinn.

Í 5. gr. frv., 2. tölul., er lagt til, að frá því lagaákvæði, sem ég hef hér nefnt, sé veitt sú undanþága, að sölugróði sé ekki skattskyldur, þó að fasteignin hafi verið skemur en 5 ár í eigu seljanda, ef hann kaupir aðra innan árs eða byggir hús áður en 2 ár eru liðin frá söludegi, enda sé hin keypta eign eða hið nýreista hús að fasteignamati jafnhátt eða hærra hinu selda, en ef það er lægra að mati skal sölugróðinn skattskyldur hlutfallslega. Síðan segir í frvgr., að undanþága þessi nái þó ekki til neinnar sölu, þar sem telja má, að um atvinnurekstur sé að ræða, og í a-lið 1. brtt. meiri hl. fjhn. á þskj. 637 er lagt til, að hér við bætist orðin: eða eignarinnar hafi verið aflað til að selja hana aftur með hagnaði.

Eins og ég hef áður tekið fram, er tilgangurinn með ákvæði frvgr. að gera mönnum mögulegt að hafa skipti á fasteignum, t.d. að selja íbúðarhús sitt og kaupa annað í staðinn, án þess að þurfa að borga tekjuskatt í sambandi við slík skipti, ef það, sem þeir kaupa, er jafnverðmætt hinu selda. En brtt. er aðeins flutt til þess að gera það fullgreinilegt í frv., að undanþágan nái ekki til annarra viðskipta með fasteignir, t.d. ekki til þeirra, sem hafa húsabyggingar og húsasölu eða fasteignasölu að atvinnu, og ekki heldur til annarra, sem stofna til slíkra viðskipta í þeim tilgangi að hagnast á þeim fjárhagslega. Slíkur hagnaður á auðvitað að teljast með öðrum skattskyldum tekjum manna.

Þá er hér í brtt. í b-lið 1. till. lagt til, að flugvélar verði taldar þarna í sama flokki og skip í 2. málsgr. 2. tölul. Þykir eðlilegt, að sömu reglur gildi um þau farartæki eins og skipin.

2. brtt. á þskj. 637 er við 7. gr., og er þar fyrst brtt. við j-liðinn í 4. tölul., sem er um heimild til frádráttar vegna keyptrar heimilisaðstoðar í vissum tilfellum og með ákveðnum takmörkunum. Lagt er til í brtt., að á eftir 2. málsl. í þessum stafl. komi nýr málsl., sem orðist þannig: „Til keyptrar heimilisaðstoðar telst kaup og hlunnindi þjónustufólks á heimilum og greiðslur fyrir börn á dagheimllum.“ Er þessi till. flutt til skýringar á því, við hvað sé átt með orðunum „keypt heimilisaðstoð“. Þykir eðlilegt, að ef gift kona, sem hefur börn á heimili sínu og vinnur fyrir skattskyldum tekjum, kemur börnum sínum fyrir á svo nefndum dagheimilum í stað þess að taka aðstoðarstúlku á heimilið til að gæta þeirra, meðan hún er við störf til að afla heimilinu tekna, teljist þær greiðslur með keyptri heimilisaðstoð.

Þá er b-liður í sömu brtt., og hann er við stafl. f. í sama tölul., þ.e. 4. tölul. 7. gr. Sá stafl. er um björgunarlaun. Er þar lagt til, að helmingur af björgunarlaunum, er skipverjar hljóta, sé undanþeginn skattlagningu. Þessi liður er orðaður um í brtt. og bætt þar við heimild til þess að láta þetta ákvæði gilda um björgunarlaun, er greidd voru árið 1951 og 1952, og endurgreiða skatt samkvæmt því. Árið 1953 þarf ekki að nefna, því að samkv. ákvæðum frv. á að leggja skatt á tekjur þess árs eftir þeim nýju lögum, sem nú verða afgreidd.

Þá er loks 3. brtt. meiri hl., við 9. gr. frv. Siðast í 9. gr. frv. er rætt um frádrátt, sem framfærendur fá fyrir skylduómaga aðra en börn, og á sá frádráttur að nema sömu upphæð og veitt er fyrir börn. En hér er lagt til, að við þennan málslíð bætist eins og segir í brtt.: „en hafi þeir tekjur“, þ.e. skylduómagarnir, „lækkar frádrátturinn sem þeim nemur og fellur burt, ef tekjuupphæðin nemur löglegum ómagafrádrætti eða meiru.“

Hér er ekkert nýmæli á ferð. Þetta er aðeins tekið upp úr gildandi skattalögum og látið fylgja þarna með. En þannig hefur þetta verið frareikvæmt að undanförnu.

Þá hef ég gert grein fyrir brtt. á þskj. 637, sem nú var verið að útbýta.

Þá er hér eitt smáatriði enn. Á það hefur verið hent, að það mætti betur fara að hafa upphafið á 10. gr. í frv. nokkuð öðruvísi orðað. Það er hér þannig í frv., upphaf 10. gr., að á eftir II. kafla laganna komi nýr kafli, svo hljóðandi: „III. kafli — um skattfrelsi sparifjár — 22. gr.“ o.s.frv.

Ég hef hér till., sem ég leyfi mér að leggja fram skriflega, aðeins um að breyta þessu upphafi 10. gr., þ.e. orðalaginu, og að það verði þannig: Á eftir II. kafla laganna (21. gr.) kemur ný gr. (verður 22. gr.) í nýjum kafla, er verður III. kafli, með fyrirsögninni: Um skattfrelsi sparifjár. — Þetta er, eins og mönnum er ljóst, eingöngu orðalagsbreyting á upphafi 10. gr., og leyfi ég mér að leggja fram um þetta skrifl. brtt. frá fjhn., þó að ég hafi að vísu ekki getað ráðgazt um þetta við alla nm., síðan till. var samin. En það var búið að ræða um þetta í n., og mér er víst óhætt að fullyrða, að n. stendur að þessari till. Hér er, eins og ég hef sagt, aðeins um orðalagsbreytingar að ræða á upphafi 10. gr., og þykir þetta betur fara í frv. með þessu nýja orðalagi. Ég vil leyfa mér að óska þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða um þessa till.