02.04.1954
Neðri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að flytja nú við 3. umr. tvær brtt. við frv., eins og það er orðið eftir 2. umr. Fyrri till. er um efnisatriði, sem ég gerði að umtalsefni í þeim tveimur ræðum, sem ég flutti um málið við 2. umr., en sú brtt., sem er í fjórum liðum, er við 5. gr. frv. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þessar tillögur nema mjög stuttlega, vegna þess að ég gerði þær að umtalsefni við 2. umr.

1. brtt. er um það, að undanþágan um skattfrjálsan söluhagnað á eignum nái aðeins til fasteigna, en ekki til skipa, eins og gert er ráð fyrir í frv. Ég sé, að nú hefur hv. meiri hl. fjhn. lagt til, að flugvélum verði bætt við skip, þ.e.a.s. bætt í tölu þeirra eigna, sem selja má með gífurlegum skattfrjálsum hagnaði, jafnvel þó að þær hafi verið afskrifaðar með mjög háum lögleyfðum afskriftum. Þessi breyting er ekki til bóta, heldur þvert á móti mjög til hins verra. Það er verið að bæta við einum eignaflokkinum enn, sem hægt á að vera að selja með gífurlegum skattfrjálsum hagnaði. Það er spor aftur á bak frá því, sem var við 2. umr., ef þessi till. verður samþykkt.

Þá legg ég enn fremur til, að hert verði nokkuð eftirlitsákvæðin í 5. gr. til þess að koma í veg fyrir, að sú undanþága, sem þar er veitt varðandi skattfrjálsa sölu fasteigna, verði til þess að ýla undir brask með fasteignir. Ég sé nú, að hv. fjhn. hefur flutt brtt. um þetta atriði, sem er nokkuð til bóta, en ég tel æskilegt að herða enn meira á tryggingarákvæðum til þess að koma í veg fyrir brask með fasteignir með því að leggja til, að sú grein, sem um er að ræða, verði orðuð þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Undanþága þessi nær þó ekki til neinnar sölu, þar sem telja má, að um atvinnurekstur sé að ræða, eða ætla má, að eignarinnar hafi verið aflað til að selja hana aftur með hagnaði.“ — Þetta er í samræmi við brtt. meiri hl. fjhn., en ég legg til, að bætt verði enn fremur við: „Enginn skattgreiðandi skal þó njóta þessarar undanþágu oftar en einu sinni á tíu árum.“

Það er engin ástæða til að ætla, að nokkur íbúðareigandi þurfi að skipta oftar um fasteign af eðlilegum ástæðum en einu sinni á tíu ára fresti. Ef hann gerir það, er um eðlileg eignaskipti að ræða, og þá á hann að geta haft söluhagnaðinn skattfrjálsan. En ef það kemur í ljós, að hann fer að gera þetta aftur og aftur og oftar en á tíu ára bili, þá er ástæðulaust að sleppa honum við skatt af söluhagnaðinum, því að þá má gera ráð fyrir, að um eignaskipti í hagnaðarskyni hafi verið að ræða.

Þá flyt ég enn fremur brtt. um, að við hinn skattskylda sölugróða, sem gert er ráð fyrir í frv., verði bætt viðhaldi þriggja síðustu ára, en samkvæmt núgildandi reglum er mjög riflegur frádráttur heimilaður fyrir viðhaldi á eignum, þannig að fyrirtæki geta eignazt mjög verulega eignaaukningu skattfrjálsa vegna löglegs viðhalds. Þetta má segja að sé eðlilegt, meðan eignin er í eigu og notkun skattgreiðandans, en ef hann selur hana, þá er ástæðulaust að láta þennan viðhaldsfrádrátt verða skattfrjálsan áfram. Þá er eðlilegt, að eigandinn greiði af honum skatt.

Þá flyt ég og aðra brtt., við 6. gr., um, að aftan við gr. bætist nýr stafliður um, að alþjóðleg heiðurslaun fyrir afrek í listum og vísindum skuli vera skattfrjáls. Það er — ég held mér sé óhætt að segja alþjóðleg regla, að alþjóðleg heiðurslaun, svo sem Nóbelsverðlaun og önnur slík alþjóðleg verðlaun fyrir afrek í listum og vísindum, séu ekkí skattlögð í heimalandinu hjá móttakanda slíkra verðlauna. Að minnsta kosti gildir sú regla á Norðurlöndum, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, og sé ég ekki ástæðu til annars en að hliðstæð lagaákvæði gildi um þetta efni hér.

Að svo mæltu leyfi ég mér að afhenda forseta þessar skriflegu brtt.