02.04.1954
Neðri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls voru bornar fram allmargar brtt., og það kom mjög greinilega í ljós, hver vilji stjórnarmeirihlutans hér í hv. d. er í afstöðunni til breytinga á l. um tekju- og eignarskatt. Ég býst ekki við, að það þýði að fara að endurtaka neitt af þeim brtt. í smábreyttu formi, og ætla mér ekki að gera það. En ég vildi aðeins leggja áherzlu á, hvers konar mynd það er, sem þetta frv. er að taka á sig í meðferð þingsins og hefur tekið á sig áður í meðferð skattan. og ríkisstj. eftir kosningar. Það er svo eftirtektarvert atriði, hvernig sá stjórnarflokkur, sem nú hefur forustuna, lagði þessi mál fyrir fyrir kosningarnar, þegar þetta þing var kosið, og hvernig nú á að afgreiða þetta mál, að ég allt, að það sé nauðsynlegt, að þm. geri sér það alveg ljóst. Ég skal aðeins minna á tvö atriði.

Tveir þm. Sjálfstfl. fluttu frv. á síðasta þingi, fyrir kosningar, sem hét frv. til l. um lækkun skatta á fjölskyldufólki, skattfrelsi á lágtekjum, skattfríðindi o.fl. Það voru hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) og hv. 2. þm. Eyf. (MJ), sem fluttu það.

Í því frv. var ákveðið, að skattur hjóna með tvö börn á framfæri og með hreinar tekjur samanlagt 30 þús. kr. eða lægri skuli falla niður. Það var eitt af höfuðákvæðunum í því frv. Nú hafa þrír flokkar flutt till., sem ganga varla eins langt og þessi till. Sjálfstfl. fyrir kosningar, og hvað hefur gerzt? Sjálfstfl. hefur við allar þessar atkvgr. drepið allar þessar till.; sömu till. sem hv. þm. Sjálfstfl. hér í d. flytja fyrir kosningar um endurbætur á skattalöggjöfinni eru drepnar eftir kosningarnar, þegar þrír aðrir flokkar þingsins flytja þær.

Í öðru lagi var allur persónufrádrátturinn hærri í því frv., sem þm. Sjálfstfl. fluttu fyrir kosningarnar, heldur en hann er nú ákveðinn í þessu frv., sem nú er að verða að l. Hér voru fluttar þrennar till. um að hækka persónufrádráttinn við 2. umr. málsins. Allar þessar till. voru drepnar.

Ég beindi þeirri spurningu við 1. umr. þessa máls til stjórnarfl., hvernig viðhorfið væri í þessum efnum, hvort Sjálfstfl. hefði barizt fyrir því í skattamálan. að fá fram þessar till., sem hann flutti fyrir kosningarnar, og ég var svo ósvífinn að drótta því að Framsfl., að fyrst árangurinn af allri þeirri baráttu, sem Sjálfstfl. hefði háð og hlotið kosningasigur út á, væri ekki betri en þetta frv., sem núna liggur fyrir, þá hlyti það að hafa verið vegna þess, að fjmrh. eða Framsfl. hefði beitt Sjálfstfl. svona í viðskiptunum, þegar var verið að undirbúa þetta skattalagafrv. En í öllu falli væri gaman að fá upplýsingar um þetta eða hvort Sjálfstfl. hefur ekkert gert til þess að berjast fyrir því, sem hann flutti hér fram fyrir kosningar.

Ég vil svo vekja eftirtekt á hinu, sem talar raunverulega enn þá meira en þær till., sem Sjálfstfl. flutti hér í þessari hv. d. fyrir kosningar, og það eru þau atriði, sem hann þagði um fyrir kosningar.

Í frv. Sjálfstfl. fyrir kosningarnar, sem hét frv. til h um lækkun skatta á fjölskyldufólki, skattfrelsi á lágtekjum, skattfríðindi o.fl., var ekki minnzt á nokkur skattfríðindi fyrir auðmenn landsins. Í því frv. frá þm. Sjálfstfl. var ekki eitt orð um að lækka skatta á hlutafélögunum, sízt af öllu að lækka skatta á milljónafélögum um 20%, á sama tíma sem skattarnir haldast þeir sömu og áður á einstaklingum. Það er ekki eitt orð í frv. Sjálfstfl. um skattfrelsi sparifjár, um skattfrelsi fyrir okrarana, um allt það skattfrelsi fyrir auðsöfnun, sem nú er orðið að aðalatriðinu í þessu frv., sem hér er verið að setja í gegn. Allt, sem Sjálfstfl. þagði um fyrir kosningarnar, lagfæra nú Sjálfstfl. og Framsfl. eftir kosningarnar. Ég vil aðeins vekja eftirtekt á þessu vegna þess, að það frv., sem nú er sett hér í gegn, hafa Sjálfstfl. og Framsfl. aldrei beðið um neina heimild hjá þjóðinni til þess að samþykkja. Hann hefur logið að þjóðinni og þeir báðir saman fyrir kosningar. Þeir hafa flutt hér frv. um mjög mikil fríðindi fyrir almenning, sem þeir svíkja, þegar kosningarnar eru hjá liðnar. En í staðinn koma aftur á móti frv. um stórkostleg skattfríðindi fyrir alla þá, sem geta safnað auði, og fyrir alla þá, sem meira eða minna svíkja undan skatti, þannig að það kemur fram umsnúið frv., sem fyrst og fremst kemur til með að hvíla þungt á launþegunum, þó að stjórnarflokkarnir hafi ekki séð sér annað fært en að framkvæma nokkra endurbót viðvíkjandi fjölskyldufólki til þess að dylja á bak við þá endurbót margfalt meiri skattfríðindi til handa auðsöfnurum landsins. Þetta er orðið eðli þessa frv. eins og það er nú, og þetta verður sú raunverulega framkvæmd á því alveg auðsjáanlega.

Ég veit, að það muni ekki þýða sérstaklega mikið að reyna að fá fram lagfæringar á þessum málum núna. Það er auðsjáanlega haldið á þessum málum með slíkum járngreipum, að það á engu að hnika þar til, hvað sanngjarnt eða sjálfsagt sem það væri. Þeir, sem nú fyrirskipa, hvernig skattafrv. á Íslandi skuli afgreidd og hvernig þau lög skuli verða, eru þeir menn, sem Sjálfstfl. minntist ekki á að ættu að fá nein skattfríðindi fyrir kosningar, þeir menn, sem Framsfl. hefur þótzt vera að berjast á móti við hverjar einustu kosningar. Ég segi þetta aðeins til þess að vekja eftirtekt á því, hvert stefnt er. Það er lengi búið að lofa launþegum því, að þeir ættu að fá verulegar endurbætur. Þær eru ekki nema svipur hjá sjón, þó að þær séu nokkrar. En hins vegar eru framkvæmd þarna slórkostleg skattfríðindi fyrir auðsafnara landsins og öll skattamál okkar auðsjáanlega héðan í frá miðuð við að ýta undir auðsöfnun einstakra manna og reyna að mestu leyti að sjá um, að hún geti farið fram hjá skattyfirvöldunum, og hefur þó þótt hingað til nóg um það fyrirbrigði á Íslandi. -Ég vildi aðeins minna á þetta, um leið og þetta frv. fer út úr d., til þess að mönnum sé alveg ljóst, hvert nú er stefnt.