05.04.1954
Efri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv. um breytingar á skattalögunum er nú orðið svo kunnugt af miklum umr., sem orðið hafa um það nú þegar, að ég get sparað mér ýtarlega framsögu um málið í hv. d., enda er greinargerðin fyrir frv. mjög ýtarleg.

Ég vil fyrst minna á það, að núgildandi lög um tekjuskatt og eignarskatt, eða réttara skattstigarnir, eru aðallega frá 1941, en viðaukar miklir þó settir 1945. Síðan þessir skattstigar voru lögfestir hefur orðið stórfelld breyting á öllum fjárhagsástæðum vegna verðbólgunnar. Tölur allar hafa hækkað stórkostlega. Skattstigarnir, sem settir voru þá, hafa því í raun og veru hækkað stórkostlega frá því, sem þeir voru, þegar þeir voru lögleiddir. Að vísu hefur verið dregið úr þessu með því að innleiða svo kallaðan umreikning á, tekjur að vissu marki, og sérstök löggjöf hefur verið sett um lækkun skatts á lágtekjum. Þessar ráðstafanir hafa komið í veg fyrir, að skattur hafi hækkað á lægstu tekjum frá því, sem ætlazt var til í löggjöfinni frá 1941 og 1945, en á hinn bóginn hafa skattar á miðlungstekjum og þar fyrir ofan, af þessum ástæðum, sem ég hef greint, hækkað stórlega frá því. sem löggjöfin ætlaðist til, þegar núgildandi skattstigar voru settir í lög. Það hefur verið ljóst um hríð af þessum ástæðum, sem ég nú hef tekið fram, að brýn nauðsyn var að endurskoða skattalögin. Þó hefur það dregizt úr hömlu. En með batnandi afkomu ríkissjóðs hafa menn eygt möguleika til þess að láta verða af þessari endurskoðun og þeirri lækkun á beinu sköttunum, sem hlaut að verða afleiðing hennar eins og komið var.

Þegar núverandi stjórn var mynduð s.l. sumar, var ákveðið í stjórnarsamningnum að láta verða af því að setja ný skattalög á þessu þingi og lækka beinu skattana. Var þeirri stefnu yfir lýst, að með nýrri löggjöf skyldi draga úr því ósamræmi, sem orðið væri á skattalöggjöfinni vegna verðbólgunnar, lækka beinu skattana og gera einnig ráðstafanir til þess að ýta undir sparifjársöfnun. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er miðað við þessa stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar og stjórnarflokkanna. Er með þessu frv. uppfyllt það fyrirheit, sem gefið var í sjálfum stjórnarsáttmálanum um endurskoðun og lækkun á beinum sköttum. Þó er málinu ekki lokið með því frv., sem hér liggur fyrir. Það er ekki hægt að segja, að í þessu felist breytingar til framhúðar nema á þeim kafla skattalaganna, sem fjallar um skattlagningu einstaklinga. Aftur á móti reyndist ekki svigrúm til þess að komast að niðurstöðu um þann kafla skattalaganna, sem fjallar um skattlagningu félaga, en sá kafli þarfnast einnig endurskoðunar, ekkert síður en hinn í sjálfu sér, þótt ekki væri hægt að ljúka því nú að endurskoða hann. Mun milliþn. í skattamálum, sem hefur þegar starfað í tæplega tvö ár og unnið mikið og gott verk og undirbúið þetta frv., sem hér liggur fyrir, því halda áfram störfum og m.a. vinna að því að endurskoða þann kafla tekjuskattslaganna, sem fjallar um skattlagningu félaga. Enn fremur mun n. íhuga þann kafla skattalaganna, sem fjallar um framkvæmd þeirra, og vinna áfram að því verkefni, sem hún hefur líka haft með höndum, að athuga um útsvarslögin, eða réttara sagt um tekjustofna sveitar- og bæjarfélaga. Að þessum þáttum mun n. vinna enn áfram með það fyrir augum að geta skilað fleiri till. en enn þá eru frá henni komnar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mjög út í einstök atriði frv. Ég vil þó minna á stærstu atriðin. Fyrst er það, að lögleiddur er nýr skattstigi í stað þriggja, sem nú gilda fyrir einstaklinga, og verður allt einfaldara og betra í framkvæmd en áður hefur verið. Umreikningurinn er að sjálfsögðu felldur niður. Það verða lögleiddir nú tveir skattstigar, annar fyrir hjón, og er það algert nýmæli í íslenzkri skattalöggjöf. Það hafa verið uppi raddir um, að það væri ekki réttmætt að skattleggja hjón saman, eins og gert hefur verið fram að þessu, og þeir, sem halda því fram, hafa talsvert til síns máls. Á hinn bóginn sýnast ekki vera rök fyrir því að skattleggja hjón eins og óviðkomandi aðila hvort í sínu lagi. Að þessu sinni er sú millileið farin að gera sérstakan skattstiga fyrir hjón, sem gerir það að verkum, að tekjur hjóna eru skattlagðar lægra en jafnháar tekjur einstaklinga og gerður meiri munur á skattlagningu þessara tekna en sá einn, sem leiðir af mismunandi persónufrádrætti fyrir hjón og einstaklinga. Það eru sem sé nú í fyrsta skipti settir í lög tveir skattstigar, annar fyrir einstaklinga og hinn fyrir hjón. Með þessu er komið til móts við þær óskir, sem fram hafa komið um endurskoðun á reglunum fyrir skattlagningu hjóna. Það hefði getað komið til mála að ganga lengra í þessa átt og gera meiri mun á skattlagningu á tekjum hjóna og einstaklinga en gert er í þessu frv., en það var ekki talið fært að ganga lengra, a.m.k. ekki nú í þetta sinn, vegna þess að af því hefði leitt stórfellda tekjuskattslækkun. Það hefði þá þurft að fara að hækka verulega skatta á einhleypum mönnum til þess að vega upp hina miklu skattalækkun á tekjum hjóna, ef út í slíkt hefði verið farið, því að það var ekki mögulegt að gera ráð fyrir, að ríkissjóður mætti missa meiri tekjur en þær, sem hann tapar vegna ákvæða þessa frv., eins og þau eru nú. Það var þess vegna ekki talið fært að ganga lengra í þessu atriði en frv. gerir ráð fyrir. Skattstiginn sjálfur er í raun og veru miðaður við það að taka af mestan þann skakka, sem orðið hefur á skattabyrðinni vegna vaxandi verðbólgu. Þannig er uppfyllt það atriði í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar.

Mörg önnur þýðingarmikil atriði eru í frv. Nú er gert ráð fyrir, að fiskimenn geti dregið frá ýmislegan kostnað, sem þeir hafa sérstaklega við öflun teknanna, svo sem sjófatakostnað, en það hefur ekki áður verið heimilað. Mun þetta draga talsvert í skattgreiðslum fiskimanna, sem hafa allgóðar tekjur. Það mun láta nærri, að skattur togarasjómanns, sem hefur 45 þús. kr. tekjur, er kvæntur og hefur tvö börn á framfæri, muni lækka um rúmlega 50% samkvæmt þessu frv. og verður skattur þess manns mjög lágur eftir frv.

Þá er í frv. mjög aukin heimild fyrir menn til þess að draga frá það fé, sem þeir verja til þess að kaupa sér líftryggingu, sem nú er nokkuð tíðkað, og ætti það að geta verkað á tvennan hátt, bæði til þess að auka sparnaðinn í landinu og líka til þess að ýta undir menn að kaupa sér slíka tryggingu, meðan þeir hafa dágóðar tekjur, til stuðnings sér síðar á ævinni, þegar menn geta ekki unnið sér fyrir nema litlum tekjum eða máske engum. Og ætti þetta ákvæði að geta orðið talsvert þýðingarmikið fyrir marga.

Þá er í fyrsta skipti í skattalögunum nú með þessu frv. farið inn á þá braut að leyfa mönnum að draga frá húsaleigu. Er gert ráð fyrir því, að menn fái nú heimild til þess að draga frá nokkrum hluta þeirrar húsaleigu, sem þeir greiða, og er það sérstaklega gert vegna þess, að það er orðið verulegt ósamræmi, eins og nú standa sakir, í skattgreiðslum húseigenda annars vegar og leigjenda hins vegar, vegna þess að eigin húsaleiga er yfirleitt lágt metin til tekna á skattframtölum. Til þess að draga úr þessu ósamræmi er nú það ráð upp tekið að heimila leigjendum að draga frá nokkuð af þeirri leigu, sem þeir kunna að borga, eftir reglum, sem nánar eru tilgreindar í frv. Hér á að vera á ferðinni réttarbót fyrir leigjendur.

Það er rétt að taka fram, að gert er ráð fyrir, að lækkun á sköttum einstaklinga, persónulegra gjaldenda, muni verða að meðaltali um 29% samkvæmt þessu frv. Hér er því um stórfellda skattalækkun að ræða. Sjálfur skattstiginn og aukinn persónufrádráttur mun gera rúmlega 20% lækkun út af fyrir sig. En það er mat skattstofunnar, að þau margvislegu frádráttarhlunnindi, sem nú er bætt inn í lögin, muni gefa 8–9% lækkun á skattinum í heild sinni, skatti einstaklinga eða persónulegra skattgjaldenda. Það er húsaleigufrádrátturinn, það er frádráttur sá, sem fiskimönnum er ætlaður vegna kostnaðar við atvinnu sína, það er lífeyrissjóðsfrádrátturinn og fleiri atriði smærri, sem ég hef ekki sérstaklega drepið á, en eru þó sum allmerkileg.

Þá kem ég að sparifénu. Það hefur mikið verið rætt undanfarið um nauðsyn þess að auka sparnaðinn í sambandi við lánsfjárskortinn, sem Íslendingar eiga sífellt við að stríða, og þær miklu framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru á næstu árum. Menn hafa talað um, að í því skyni væri hægt að fara tvær leiðir, annars vegar væri einhvers konar þvingunarleið til þess að ná af mönnum meira fé og leggja til hliðar, hin leiðin væri sú að reyna að gera aðgengilegra að spara, eiga sparifé. Ég fyrir mitt leyti hef ekki talið fyrri leiðina færa eins og nú stendur og hef viljað leita að leið til þess að gera aðgengilegra fyrir menn að spara og eiga sparifé. Hefur nú stjórnin tekið upp þá stefnu, sem mörkuð er í frv., að gera sparifé skattfrjálst og útsvarsfrjálst og setja. ákvæði í lög um, að ekki þurfi að telja sparifé fram, að því leyti sem menn eiga það umfram skuldir. Þetta er mjög stórfellt nýmæli, og það er einlæg von þeirra, sem að þessu standa, að þessi ráðstöfun geti orðið til þess að ýta undir sparnaðarvilja manna, geti orðið til þess, að sparifjárinnlög vaxi verulega frá því, sem verið hefur. Sparifjárinnlög hafa vaxið nú síðustu missirin. Til þess liggja sjálfsagt tvær ástæður. Önnur er sú, að menn hafa haft meiri tekjur en oft áður einmitt á þessum missirum og því lagt meira til hliðar af þeim ástæðum. Hin ástæðan er vafalaust sú, að verðlag í landinu hefur verið óbreytt í tvö ár í fyrsta skipti um marga áratugi. Hefur það haft þau áhrif, að mönnum finnst miklu aðgengilegra að eiga reiðufé, að eiga innstæður, heldur en áður hefur verið, og er það eðlilegt. Áður þorðu menn tæpast að eiga innstæðu yfir nóttina af ótta við það, að hún yrði verðminni næsta dag, en sá ótti hefur horfið nú um skeið, og það hefur orðið til þess að ýta undir þá heppilegu þróun í þessum málum, sem nú hefur bólað á. Nú vill ríkisstj. ýta undir þessa þróun með því að lögleiða skattfrelsi sparifjár.

Ég gat um áðan, að það hefði ekki verið lokið við að endurskoða þann kafla tekjuskattslaganna, sem fjallar um skatt félaga, en það væri mikil nauðsyn á að breyta þeim kafla laganna. Ég skal ekki ræða það mál hér almennt; en aðeins benda á, að þetta mál er leyst til bráðabirgða í frv. með þeirri till., að lögleidd verði 20% lækkun á tekjuskatti félaga. E n það er tekið fram í frv., að það ákvæði á að gilda aðeins til eins árs, og er það miðað við, að verið er að vinna að málinu áfram.

Ég held, að ég hafi nú minnzt á höfuðatriði málsins og aðdraganda þess og læt við þetta sitja að sinni, en leyfi mér að óska eftir því, að málinu verði vísað til hv. fjhn. d. að lokinni þessari umr., og ég efast ekkert um, að n. muni afgreiða málið fljótt og skörulega frá sér, enda er þess nú mikil þörf, þar sem ætlunin er að sjálfsögðu, að þetta frv. verði að lögum fyrir páska. Ætlazt er til, að lagaákvæðin nýju gildi dm skattaálagninguna fyrir árið 1953, og þess vegna biða skattanefndir og skattstofur víðs vegar um landið blátt áfram ettir nýju lögunum. Ég vona, að nefndinni veitist tiltölulega létt að afgreiða málið fljótt, vegna þess m.a., að í nefndinni eiga sæti tveir þingmenn, sem hafa unnið í milliþn. í skattamálum og þekkja hvern stafkrók frumvarpsins.