05.04.1954
Efri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Menn hafa nú beðið eftir framkomu þessa frv. með mikilli eftirvæntingu. Við það voru miklar vonir tengdar. Stjórnarflokkarnir höfðu lofað, að það skyldi fela í sér miklar kjarabætur fyrir almenning. Nú er frv. komið, og ég held, að það sé óhætt að segja, að það hafi valdið miklum vonbrigðum.

Það skal játað, að frv. þetta felur í sér nokkrar ívilnanir fyrir hina almennu skattþegna. Tekjuskattur fjölskyldumanna er lækkaður nokkuð, og auk þess eru ýmsar minni háttar lagfæringar. En það, sem fyrst og fremst vekur athygli, er það, hvað þetta er allt smátt og munar litlu. Þetta sést strax á því, hvað lækkunin nemur örlítilli upphæð borið saman við heildartekjur hins opinbera, sem lagðar eru á skattþegnana. Skattalækkunin mun varla nema miklu hærri upphæð en 10 millj. kr. Allir opinberir skattar hins vegar nema nú varla minni upphæð en 800 millj. kr., þegar allt er talið: tollar og óbein gjöld, tekjuskattur, útsvör, tekjur af einkasölum, tryggingagjöld og bátagjaldeyrisskattur. Af þessu eru 10 millj. hlægilega lítil upphæð, einkum þegar þess er gætt, að bróðurparturinn af lækkuninni fellur í hlut auðfélaga og hátekjumanna. Enn skýrara verður þetta, ef tekið er dæmi af lágtekjumanni, sem nýtur mestrar lækkunar samkvæmt þessu frv. Tollar og óbeinir skattar að meðtöldum bátagjaldeyri verða varla minna en um 13 þús. kr. að meðaltali á hvert 5 manna heimili á landinu á þessu ári og nálægt 16 þús. kr., ef tekjur af einkasölum eru taldar með. Við þetta bætast svo iðgjöld til almannatrygginga og sjúkrasamlagsiðgjöld, sem samtals nema 1362 kr. á ári, eins og upphæðin er nú fyrir hjón í Reykjavík, og loks útsvar og tekjuskattur. Það er að vísu ekki hægt að gera neina nákvæma áætlun um það, hvað 5 manna heimili með venjulegar verkamannatekjur verður raunverulega að greiða samtals í alla opinbera skatta. En af þessum meðaltalstölum, sem ég nú hef nefnt; má sjá, að það eru gífurlegar upphæðir. Tekjuskattslækkun slíks heimilis mundi samkvæmt frv. verða 200–300 kr., t.d. 279 kr., ef maður reiknar með 36 þús. kr. árstekjum, og er þó þetta heimili í flokki þeirra, sem langmestrar lækkunar mundu njóta, reiknað í hundraðshlutum samkvæmt frv. Af þessu má sjá, hversu hlægilega smásmugleg fríðindi það eru, sem létt hefur verið af slíkum heimilum, borið saman við þær gífurlegu skattabyrðar, sem á þau eru lagðar.

Ég bar fram fyrr á þessu þingi frv. um afnám persónuíðgjalda til almannatrygginga og til sjúkrasamlaga. Það mundi hafa orðið verulegur léttir á almenningi, því að hér er um gjöld að ræða, sem hvíla með tvöfalt og þrefalt meiri þunga á fátækum alþýðuheimilum en tekjuskatturinn. En einmitt þess vegna, vegna þess að till. mínar hefðu fyrst og fremst komið fátækum almenningi til góða, var þeim vísað frá með rökstuddri dagskrá og hafa alls ekki komið til athugunar við undirbúning þessa máls.

Þeir ágallar á þessu frv., sem maður sérstaklega rekur augun í, eru að mínum dómi þessir:

Tekjuskattslækkunin, sem frv. gerir ráð fyrir, kemur fyrst og fremst hátekjumönnum og auðfélögum til góða, því að að því er þá varðar er um verulega háar upphæðir að ræða, sem þessi lækkun nemur. 20% skattlækkun á félögum munar t.d. engu smáræði fyrir auðug hlutafélög, sem greiða háan skatt.

Í frv. er ekki gerð minnsta tilraun til þess að leysa það vandamál, sem brýnast er og mest aðkallandi að því er varðar innheimtu tekju- og eignarskatts, en það er að tryggja rétt framtöl. Þess vegna mun tekjuskatturinn hvíla með öllum sínum þunga fyrst og fremst á launamönnum eftir sem áður. Af um 800 millj., sem ríki og bæir innheimta á ári af þegnunum, er aðeins um 60 millj. tekjuskattur. Af þeim gjöldum, sem ríki og ríkisstofnanir innheimta, er hinn stighækkandi skattur ekki meira en um 10%. Og þessi hundraðshluti lækkar enn með þessu frv. Það miðar því í þá átt að afnema hinn stighækkandi beina skatt, en það er, eins og kunnugt er, opinbert stefnumál sumra hv. þm., en virðist þó vera óopinbert stefnumál miklu fleiri, sem ekki eru eins hreinskilnir í málflutningi sínum. Markmið þessara manna er að afla allra tekna með nefsköttum og óbeinum sköttum.

Skattar einstaklinga með lágum tekjum og miðlungstekjum lækka alls ekki samkvæmt þessu frv., en aftur á móti lækkar verulega skattur ókvæntra hátekjumanna. Þetta tel ég hróplegt ranglæti. Á þessu landi er mjög dýrt að lifa fyrir einhleypa menn, oft og tíðum engu ódýrara en fyrir barnlaus hjón, og ég leyfi mér að vona, að þetta hróplega ranglæti verði að einhverju leyti leiðrétt hér í þessari hv. d. Samkvæmt frv. þessu er skattur lagður á alveg óhæfilegar lágar tekjur, langt fyrir neðan þurftartekjur. Ég get ekki skilið annað en að öllum hv. þm. sé ljóst, að þetta er blátt áfram fjarstæða. Það nær engri átt að leggja skatt á hreinar tekjur, sem t.d. nema ekki 20 þús. kr. á ári. En í þessu frv. helzt sú sama ósvinna og fjarstæða, sem tíðkazt hefur hingað til, að skattur er lagður á tekjur, sem menn geta með engu móti lifað af. T.d. er tekinn skattur af elli- og örorkulaunum. Ég vona nú, að samkomulag geti orðið í þessari hv. d. um að afnema þessa fásinnu.

Vandamálinu um skattlagningu hjóna eru engan veginn gerð nein fullnægjandi skil í þessu frv. Enn sem fyrr er það beint tjón fyrir karl og konu, sem hvort um sig vinna fyrir sjálfstæðum tekjum, að ganga í hjónaband. Þetta þarf einnig að leiðrétta og leyfa að hjón, sem bæði vinna úti, megi telja fram hvort í sínu lagi og vera skattlögð sem einstaklingar.

Það hafa verið uppi mjög almennar kröfur um það, að sjómönnum á íslenzkum fiskiskipum væri leyft að draga ríflegan hluta frá tekjum sínum. áður en skattur er á þær lagður. Mikill meiri hluti sjómanna hefur krafizt þess af Alþingi, að þetta væri leyft. Samtök útgerðarmanna hafa tekið mjög eindregið undir þessa kröfu. Ég veit líka, að þessi krafa nýtur stuðnings alls almennings, af því að hún er sanngjörn. Sjómenn vinna svo erfitt, áhættusamt og mikilvægt starf, sem þeir verða auk þess að stunda langt frá heimilum sínum, að það verður að teljast í alla staði eðlilegt að veita þeim slík fríðindi. Nú vita allir, hvílíkur vandi steðjar að togaraútgerðinni vegna þess, að ekki er hægt að fá vana menn á skipin sökum þess, hvað kjör togarasjómanna eru bágborin. Og eitthvert bezta og sjálfsagðasta framlag ríkisins til þess að leysa þennan vanda, sem verður að leysa, ef þjóðfélag okkar á að geta staðizt, er að lækka verulega skattinn á sjómannastéttinni. Í frv. er gert ráð fyrir, að fæðiskostnaður sjómanna á fiskiskipum, ef þeir þurfa að sjá sér fyrir fæði, komi til frádráttar við ákvörðun skattskyldra tekna. Þetta er sjálfsagt ákvæði, en jafnsjálfsagt tel ég líka hitt, að landverkamenn, sem eins er ástatt um og vinna fjarri heimilum sínum og þurfa að sjá sér fyrir fæði, njóti sömu fríðinda. Þetta er réttlætismál, sem Alþingi getur með engu móti skellt skolleyrunum við. Í hv. Nd. var till. um þetta efni lögð fram af nokkrum þm. úr öllum flokkum, og hún var felld með jöfnum atkvæðum. Þetta er enn eitt, sem þessi hv. d. verður að leiðrétta. Og það eru enn mörg atriði í þessu frv., sem þyrftu athugunar við, en ég hef hér aðeins stiklað á því allra stærsta og ætla að láta þetta nægja að sinni.