03.11.1953
Neðri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

6. mál, gengisskráning

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það mun vera allflestum hv. þm. kunnugt, að ég hef frá upphafi litið svo á, að þetta vísitölu- og verðlagsuppbótafyrirkomulag, sem hér hefur verið undanfarin 13–14 ár í gildi, hlyti að leiða af sér mjög mikla örðugleika og vandræði í okkar þjóðfélagi. Ég skal ekki fara neitt út í að ræða það almennt nú, en geta þess, sem ég hef oft gert áður, að ég tel, að á þessu sviði sé mjög mikið öðru máli að gegna með verkamenn annars vegar, sem hafa ótrygga atvinnu, og fastlaunaða menn hins vegar, sem eiga vís laun árið um kring, hvernig sem að öðru leyti veltist með atvinnu fyrir aðra menn í landinu. Ég hef nokkrum sinnum flutt brtt. varðandi þessi mál, og þær hafa ekki fengið byr hér á hv. þingi, og kann svo að fara um þá litlu brtt., sem ég flyt nú á þskj. 116, en hún fjallar um það að breyta þessu frv. í þá átt, að sú vísitala, sem verður reiknuð út 1. des. n.k., gildi allt næsta ár, til 1. des. 1954, eftir þeim sömu reglum, sem að öðru leyti eru viðteknar að þessu leyti, þannig að það gildi um þá, sem hafa 1830 kr. á mánuði og þar undir. Um hina, sem eru þar fyrir ofan, gilda alveg sérstakar reglur. Þetta sem sagt þýðir það, að það sé sama vísitala, sem gildir fyrir fastlaunaða menn allt næsta ár, og sú vísitala, sem reiknuð verður út 1. des. n.k. Auðvitað hefur það engin áhrif á samninga varðandi verkamenn í landinu, þó að þessi till. yrði samþ.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta meira, nema frekara tilefni gefist til, en læt það ráðast, hvað hv. þdm. vilja við þessa brtt. gera.