06.04.1954
Efri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég mun nú ekki þurfa mjög langan tíma til þess að svara því, sem fram hefur komið hér hjá hv. stjórnarandstöðu, en skal þó fara nokkrum orðum um þær athugasemdir, sem fram hafa komið, svo og um þær till., sem fyrir liggja á þskj. 690 og 677, og með því að sumar till. eru alveg um sama efni, þó að orðalagið sé nokkuð annað, þá geri ég ráð fyrir, að ég geti rætt þær sameiginlega.

En áður en ég tala um till., vildi ég þó mega leiða hv. 4. þm. Reykv. í sannleika um það, fyrir hvers hönd ég talaði hér við umr., því að það sagðist hann nú ekki hafa fundið út úr minni ræðu, því að ég hefði sumpart talað sem frsm. meiri hl. n., en sumpart sem þm. og sumpart sem einstaklingurinn Gísli Jónsson. Ég hélt, að það hefði komið skýrt fram í minni ræðu, að ég talaði fyrir hönd n. um öll þau atriði, sem snerta frv., tók svo alveg sérstaklega fram, að ég talaði ekki fyrir hönd n. um þau atriði, sem snertu niðurfellingu á skattalöggjöfinni. En mér þótti rétt að láta koma fram þau sjónarmið um það sérstaka atriði, sem einnig hafa komið upp hjá öðrum þjóðum en hjá okkur Íslendingum og það einmitt hjá þeim þjóðum, sem við höfðum leitazt við í fjöldamörg ár að samræma okkar skattalöggjöf við þá skattalöggjöf, sem þar er ríkjandi. Ég veit, að jafnglöggur maður og hv. 4. þm. Reykv. gat vel gert greinarmun á því, svo að honum ætti ekki að finnast það neitt óeðlilegt, þó að ég hefði skipt minni ræðu í tvo sérstaka kafla, og alveg sérstaklega þegar ég tók það fram, hvað ég talaði fyrir hönd meiri hl. n. og hvað ég talaði sem mína sjálfstæðu skoðun í þessu máli, og ég skal ekki ræða frekar um það.

Hv. þm. kvaðst vera undrandi yfir því, að ég fylgdi frv. þessu, eftir að ég hafði þó lesið upp ummæli hins danska þm. Í sambandi við það vildi ég leyfa mér að spyrja hv. þm.: Hefur hann ekki enn þá komizt að raun um, að þetta frv., sem hér er til umr., er mjög mikið til lækkunar á sköttum almennt í landinu? Hvers vegna ætti ég þá að vera á móti slíku frv., þótt það nái ekki að fullu því takmarki, sem ég tel skynsamlegast í þessu máli? Ég held, að þetta sé bein afleiðing einmitt af því, sem ég hef barizt fyrir áður. Og ekki ætti ég einasta að fylgja þessu frv., heldur og að hafa tilhneigingu til að fylgja ýmsum þeim till., sem fram hafa komið, bæði frá þessum hv. þm. og öðrum, sem ganga enn lengra í áttina til þess að mæta mínum óskum í sambandi við málið og ég veit að ef samþ. yrðu mundu einmitt verða til þess að afnema tekjuskattslögin alveg, þar sem ljóst er, að ef mætt væri öllum þeim till., sem hér hafa komið fram. og þeim kröfum, sem hafa komið fram um þessi mál, þá væri ekkert eftir yfirleitt af tekjuskattinum nema það, sem í hæsta lagi gæti staðið undir þeim kostnaði, sem hlytist af því að leggja hann á og innheimta hann. Þetta er svo auðskilið mál, að það þarf ekki að deila lengi um það atriði. Það er því ekki verið að lýsa neinu yfir af hv. meiri hl. n. um niðurfellingu skattalaganna, þó að það sé samkomulag um að lækka tekjuskattinn svo sem lagt er til í frv., því að það hefur verið skýrt, af hvaða ástæðu það er. Það er vegna þess, að tekjuskatturinn er orðinn slík byrði á bæði einstaklingum og félögum, og ríkissjóðurinn er farinn að hafa óhag af því að hafa slíka skattalöggjöf sem hér er í landi voru. Það er ekki fyrir neitt annað, að meiri hl. Alþ. hefur fallizt á að endurskoða skattalögin, en þann sannleika, að skattalögin eins og þau eru í dag lama framkvæmdir í landinu, lama löngun manna til þess að framkvæma eitthvað í landinu til þess að afla tekna og skapa atvinnu einnig fyrir þá, sem hafa ekki nema þurftartekjur. Það er höfuðatriði í þessu máli, að þjóðin búi við slíka skattalöggjöf, að þeir menn, sem hafa möguleika fjárhagslega til þess að halda uppi atvinnulífi í landinu, gefist ekki upp, vilji halda áfram einnig því mikilvæga hlutverki að hafa næga atvinnu handa þeim mönnum, sem hafa ekki getað fengið annað en það, sem kallað er þurftartekjur, til lífsframfæris. Þetta hefur ekki hv. 4. þm. Reykv. viljað skilja eða ekki viljað látast skilja, og það er þess vegna, sem ágreiningurinn milli okkar er um þetta mál.

Það er því síður en svo, að verið sé að gera tekjuskattinn óvinsælan hjá þjóðinni með því að samþ. það frv., sem hér er. Hvernig ætti líka tekjuskattur, sem er miklu mildari, að vera óvinsælli hjá þjóðinni, eftir að hann verður lögfestur, heldur en sá tekjuskattur, sem nú er og er miklu þyngri? Það væri einkennilegt og ég veit ekki, hvaða flokkur manna það væri, sem bæri meiri óvild til tekjuskattslaganna, eftir að búið væri að koma þeim í mildara horf, eins og gert er ráð fyrir hér í frv.

Þá sagði hv. frsm. minni hl., hv. 4. þm. Reykv., að ríkissjóðinn munaði ekkert um 100 kr., sem teknar væru af þúsundum manna í landinu. Er ég hv. þm. sammála um það, að það væri mjög æskilegt, og það hef ég einnig lagt til, að ekki væri verið að innheimta 100 kr. eða minni upphæð. Voru mínar till. um enn hærri upphæð, sem ætti að sleppa, en þær till. fengu ekki fylgi meiri hl. í n., sem ekki var von á, á meðan meiri hl. skilst ekki, að það sé bezt að afnema tekjuskattinn yfirleitt. Þessar smáupphæðir eru þó greiddar af svo mörgum þúsundum manna í landinu, að ef þær væru felldar niður, mundi tekjuskatturinn verulega rýrna. Það hefði að sjálfsögðu verið ein leið til þess að bæta úr því ranglæti, sem hefur verið framið, að láta svo og svo mikið af þeirri tekjurýrnun, sem samkomulag var um, renna til þess að fella niður þessar lægstu upphæðir, en þá var gersamlega ómögulegt að ætla sér að leiðrétta það misræmi, sem hefur verið á skattalögunum að öðru leyti. En ætti einnig að leiðrétta það samtímis. varð niðurstaðan sú, að tekjuskatturinn gaf engar tekjur í ríkissjóð, og þá hefði átt að afnema lögin. Auk þess er það og alveg áreiðanlegt, að hvaða tekjuskattstigi sem hefði verið tekinn, þá hefðu alltaf verið einhverjir skattþegnar í landinu, sem borguðu lágan skatt, og hefði þá þurft að innheimta hann einnig, þó að það væri af hátekjumönnum. Hv. þm. sagði einnig, að allur skattur á lágtekjum væri ranglátur og aðeins notaður til þess að fá skattinn af hátekjunum afnuminn. Ég veit ekki, hvað hv. þm. á við með þessu. Ef hann er kominn á þá skoðun, að allur skattur af lágtekjum, þ.e. af 30–35 þús. kr. tekjum, sé ranglátur, hvers vegna stigur hann þá ekki sporið til fulls og er sammála mér um að vinna að því, að skattalögin verði alveg afnumin? Það væri eðlilegasta afleiðingin af þessari yfirlýsingu hans. Hann hefur að vísu alltaf haldið því fram, að það ætti enn að vera skattur á hátekjumönnum, en ef hann vildi kynna sér, hvað það væru margir menn í landinu, sem kæmu til með að greiða það, sem hann nú kallar hátekjuskatt, þá mundi hann komast að þeirri niðurstöðu, engu síður en n., að sú tala er svo lág, að ef aðeins ætti að taka skatt af þeim mönnum, þá er ekki einasta, að tekjuskatturinn gæfi lítið meira en upp í kostnaðinn við að leggja hann á, og þá hefðu þessir menn enn minni löngun en þeir hafa í dag til þess að vera að vinna fyrir ríkið og bæina, þegar enn þá lengra yrði farið út á braut ranglætis og misræmis en gert hefur verið, svo að þá yrði komið að því, sem e.t.v. stefnir að síðar meir, að tekjuskattslögin yrði að afnema.

Þá sagði hv. 4. þm. Reykv., að lágtekjur væru nú tollaðar, þ.e.a.s., að af lágtekjumönnum væru nú tollar teknir með ýmsu móti, söluskattur og ýmsir aðrir óbeinir skattar. Eðlismunurinn á þessu er þó sá, að þegar um er að ræða tolla, söluskatt og vörugjald, sem lagt er á vöruna, þá gefa þeir tollar, sem allir koma fram í vöruverðinu, fullkomið tilefni til þess að reikna út verðlagsvísitöluna í landinu, svo að menn geti vitað, hver framfærslukostnaðurinn er á hverjum tíma. Þetta er hins vegar ekki gert í sambandi við beinu skattana. Síðan er, eins og við vitum, vísitalan höfð sem grundvöllur fyrir lannagreiðslu almennt. Það er því síður en svo. að tollar á lágtekjum manna, hvort sem það er nú á brauðum eða öðru, komi eingöngu á þá aðila, sem greiða þá tolla í vörukaupunum, heldur má segja, að þeir komi engu síður á þá aðila, sem veita þeim mönnum lífsframfæri, sem kostnaður eða rekstrargjöld við framleiðsluna. Ljóst er, að vegna þessarar reglu hefur orðið að taka upp alveg sérstakar ráðstafanir í sambandi við launþegana í landinu, til þess að þeim væri ekki ofþyngt með vöruverðinu, beinlínis vegna þess að lagt er svo og svo mikið af tollum og sköttum til ríkisins á vöruna, sem þeir verða að kaupa. Þetta veit hv. þm. eins vel og hver annar. Áróður sá. er hann rekur hér, er því algerlega rangur.

Skal ég þá ræða nokkuð þá till. á þskj. 690 sem hv. þm. ber fram, þar sem hann vill, að gerð sé sú breyting, að aðeins 100 kr. séu greiddar af 15 þús. og 5% af því, sem afgangs er, upp í 25 þús. Er fróðlegt að bera þetta saman við þær till., sem komu frá Alþfl. í mþn. Þar leggur fulltrúi Alþfl. til, að tekið sé 2% af fyrstu 5 þúsundunum og síðan sé byrjað með 3% af því, sem er fyrir ofan 5 þús. kr. Hér eru allt önnur sjónarmið en þau, sem komu fram í till. í a-lið hjá hv. 4. þm. Reykv., og mér verður nú á að spyrja: Er svona slæm samvinna á milli hv. 4. þm. Reykv. og flokks hans, eða er svona litil samvinna milli flokksins og þess fulltrúa, sem hann hefur haft í n.? Eða eru þessar till. komnar fram nú beinlínis sem sýndartill. til þess að reyna að gera sig meira gildandi hjá þjóðinni, eftir að mþn. hefur skilað sínum till.? Ég vil ekki trúa því fyrra. Ég vil ekki trúa því, að það sé svo léleg samvinna á milli þessara manna, að þeirra fulltrúi í n. hafi borið þessar till. fram á eigin ábyrgð án þess að hafa um það samráð einnig við hv. 4. þm. Reykv., og þá er ekki hægt að skilja þessar till. öðruvísi en að hér sé um sýndartill. að ræða, áróðurstill. í sambandi við þetta mál, til þess að reyna að veiða á þær atkv. Nákvæmlega sama má segja um b-till. Hún er allt önnur en þær till., sem fulltrúi Alþfl. lagði fram í skattanefndinni. Ég get skilið till. á þskj. 677 frá hv. 2. landsk. (BrB) og flokki hans, sem ekki átti neinn fulltrúa í n. Þeir hafa frjálsar hendur um það að bera fram áróðurstill., en það hefur sannarlega ekki Alþfl., eftir að hann er búinn að senda inn í n. til þess að starfa að þessum málum fullábyrgan mann, sem hefur aldrei látið sér detta í hug að koma með þær till., sem hér eru bornar fram. Það sýnir fullkomleg óhellindi hjá flokknum og eiginlega miklu meiri fávísi en ég hefði getað vænzt af jafnprýðilegum manni og hv. 4. þm. Reykv. er, en hér er hann að sjálfsögðu kúgaður af verri helming flokksins, sem reið á vaðið í hv. Nd. til þess að koma fram með slíkar till. í fullkomnu ábyrgðarleysi, að séð verður, og þykir mér það leitt með jafnprýðilegan og ágætan mann og hv. 4. þm. Reykv., að hann skuli einnig láta ýta sér til þess að gera þá óeðlilegu hluti hér í þessari hv. deild.

Um 2. brtt. á þskj. 690 sé ég ekki ástæðu til þess að ræða mikið, það hefur verið rætt um það atriði annars staðar, en vildi aðeins segja nokkur orð um b-liðinn og þá einnig svara sams konar hliðstæðri till. á þskj. 677. Eins og ég tók fram í minni framsöguræðu, þá er þetta ekki til þess að bjarga því máli, sem 1!arf að bjarga, þ.e. að fá menn til þess að sækja frekar atvinnu sína á fiskiskipum en við landvinnu eða á öðrum skipum. Þó að þessar till., sem hér um ræðir, yrðu samþ. og 1/3 af kaupi sjómanna fyrir vinnu á fiskiskipi, þó ekki hærra en 20 þús. kr., yrði gert skattfrjálst, þá mundi ekki sá ávinningur, sem við það fengist hjá viðkomandi aðila, verða til þess, að hann frekar veldi sér erfiða vinnu á togara eða á mótorbátum heldur en að vera við vinnu í landi. Það er ljóst mál, og það er kjarni málsins. Þessi tillaga, ef samþykkt yrði, yrði beinlínis til þess að lækka allverulega skatta þeirra manna, sem eru yfirmenn um borð í skipunum, og alveg sérstaklega togaraskipstjóranna. Það eru menn, sem hafa nú jafnvel kannske 250 þús. kr. í tekjur, ef vel gengur, og þá mundi sannarlega muna um það, að 1/3 af þeirra tekjum yrði skattfrjáls. En mér finnst það nú skjóta nokkuð skökku við, að einmitt þeir mennirnir, sem bera fram slíka till., skuli vera að vernda þessa hátekjumenn, þegar þeir á sama tíma nota hvert tækifæri til þess að reyna að koma þeirri skoðun inn hjá þjóðinni, að einmitt hátekjumenn, sem þessir menn eru, eigi að hækka alveg sérstaklega í skatti, en alls ekki að lækka. Ja, ég verð að segja, að það er engin betri sönnun fyrir því hundavaði, sem þessir báðir hv. þm. eru á hér í þessum málum, en að þeir skuli bera fram svona gersamlega óhugsaða till. Það er engin betri sönnun fyrir því, að hér er aðeins um löngun til gagnrýni að ræða, en ekki rök, að einmitt þessar till. eru fram bornar. Þeir eru ekki með þessu að bjarga hag fátækustu mannanna um borð í skipunum, því að þá munar ekkert um þetta, þegar búið er að samþ. frv. eins og það liggur fyrir, heldur eru þeir að reyna að bjarga tekjum hátekjumannanna, sem þeir þó að öðru leyti vilja að beri miklu þyngri skatt en frv. gerir ráð fyrir.

Ég get ósköp vel upplýst hér, ef þessir hv. þm. vita það ekki, hver er meginorsökin fyrir því, að ekki fást undirmenn á togarana sem stendur. Ég get vel upplýst þá um það, að á meðan stríðið stóð, var tekin upp sú regla að láta ekki sigla nema 13 menn á hverju skipi á milli landa til þess að vernda líf skipshafnarinnar. Það þótti þá rétt að láta þá menn, sem í landi voru, halda launum sínum, á meðan skipin voru í ferðunum, og það alveg eins, þótt þeir færu einhvers staðar annars staðar í atvinnu á meðan skipíð var í utanlandsferð. Þetta varð til þess að koma á þeirri reglu, að þeir, sem voru í landi, fengu laun fyrir 14 daga minnst, stundum 16 og 18 daga, sem þeir þurftu ekki að láta neina vinnu koma á móti, gátu verið við aðra vinnu, voru sumir hverjir af þeim strax komnir á önnur skip, sumir unnu í landi, en hinir, sem sigldu, fengu fyrst og fremst sín venjulegu laun og þess utan áhættuþóknun. Þegar stríðinu var lokið, þótti ekki gerlegt að breyta þessari reglu, sem komin var á. Þá kröfðust sjómennirnir þess, að þeir héldu áfram að fá full laun, þó að þeir yrðu að vera í landi, meðan skipið sigldi til útlanda. Þeir gátu þá unnið annars staðar áfram fyrir aukalaun. Hinir, sem fylgdu skipi, fengu að vísu ekki neina áhættuþóknun, en þeir fengu annað, þeim var mögulegt að nota sín laun til þess að gera betri kaup á ýmsum hlutum á sínu erlenda ferðalagi og bæta sér þannig upp launin. Þegar svo skipin nú hættu að sigla til útlanda, þá breyttist þetta þannig, að mennirnir urðu að starfa í 30 daga fyrir launin á heimamiðum, og það er það, sem þeir vilja ekki sætta sig við. Það væri hægt að fá nóga menn á togara fyrir laun samkv. gildandi samningum, ef þessi skip sigldu enn til útlanda. Það er aðeins þetta, sem hefur orsakað það, að ekki hefur verið hægt að fá nægilegt fólk, og till. hv. þm. mundu ekki greiða úr þessu máli, sem hér um ræðir. Ég er ekki með þessu að ásaka neitt sjómennina, nema síður sé, en þetta eru raunverulega þeir erfiðleikar, sem útgerðin á við að stríða í dag út af fólksfæðinni á togurunum.

Á þskj. 690 leggur hv. þm. til, að j-liðurinn í 4. tölul. falli niður. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða það. Ég skýrði það hér í minni framsöguræðu, svo að það yrði bara endurtekning. Meiri hl. n. mun ekki fallast á það, að það sé eðlilegt. Það hefur verið mætt hér, eins og ég tók þá fram, kröfum frá viðkomandi aðilum að mjög verulegu leyti. Ég veit, að báðir þessir hv. þm. eru svo kunnugir þingstörfum yfir allan sinn langa þingferil, að þeim er ljóst, að það fá ekki allir aðilar ávallt allar sínar óskir eða kröfur í sambandi við löggjöf eða þingmál uppfylltar, en ég tel, að hér hafi verið gengið svo mjög á móti óskum þessara aðila, að það sé ekki sérstaklega ástæða til að breyta hér nokkru um.

Ég skal þá koma nokkuð að 5. brtt., þar sem ekki er ástæða til þess að ræða 4. brtt., því að það hef ég þegar gert í sambandi við persónufrádráttinn, svo að það er ekki ástæða til þess að dvelja neitt við hana.

Ég vil taka það fram í sambandi við d-lið þeirrar till., að ég teldi það mjög koma til athugunar, þegar endurskoðun yrði gerð að fullu á skattalöggjöfinni, að eitthvert slíkt ákvæði yrði sett inn í lögin, og ég mæli það persónulega frá mínu sjónarmiði. Ég taldi, að það hefði t d. ekki verið óeðlilegt, að einhvern hluta af sparisjóðsfé, sem þjóðinni væri lagt til, mætti einnig draga frá skattskyldum tekjum, og það voru fleiri en ég, sem vildu hallast að þeirri skoðun. En á þessu er allmikill vandi, og ekkert af þessu rúmaðist, eins og ég tók fram áður, innan þeirra takmarka, sem mþn. voru sett í sambandi við afgreiðslu þessara mála á þessu þingi. En það er sannarlega til athugunar, hvort ekki sé rétt að taka upp, að ákveðinn hluti sparifjár, sem menn safna sér saman, hvort heldur væri til þess að nota hann til húsbygginga eða til einhvers annars, verði undanþeginn skatti. Er það ekkert óeðlilegt, að ég sé þeirrar skoðunar, sem hef barizt fyrir og hef ekki látið af þeirri baráttu, að skattalögin verði alveg felld niður, og mér finnst, að þeir menn, sem einmitt nú eru að koma með slíka till. eins og þessa, ættu raunverulega að skipa sér í flokk með mér í framtíðinni um þessi mál. Þá yrði allt þetta skattfrjálst, allar þessar 20 þús. kr., sem hér um ræðir í þessari gr., — þá yrði það skattfrjálst til ríkisins ásamt öllum öðrum tekjum. Það er ákaflega mikið rétt í því, sem hv. þm. segir, að einstaka aðilar í landinu fá skattfrelsi til þess að inna af hendi ákveðin verk fyrir þjóðfélagið, og þetta verk, sem hér um ræðir, er síður en svo minna um vert en margt annað. Er ég alveg á þessari skoðun, og mér fyndist það vera mjög til athugunar fyrir mþn. síðar, þó að ekki sé fært að gera þá breytingu nú vegna þess, hversu hefur verið gengið frá þessum málum, enda mundi það ekki rúmast innan þeirra takmarka, sem ríkisstj. hefur samið um í sambandi við rýrnun á tekjum til ríkissjóðs. Mér hefði t.d. líka fundizt það alveg sjálfsagður hlutur, þegar börn, sem ekki eru sérstakir skattþegnar, vinna sér inn fé og það fé er látið á sparisjóð, að það þyrfti ekki að telja það fram til skatts, heldur væri skattfrjálst. Með því móti gætu þau byggt upp nokkuð fyrir sjálf sig, annaðhvort þegar þau þyrftu að fara frá heimilunum til þess að stofna eigin heimili eða til þess að kosta nám sitt, eftir að þau væru orðin 16 ára gömul. En allt slíkt hlaut að rýra tekjur ríkissjóðs, og allar slíkar till. gátu því ekki rúmazt innan þess ramma, sem n. hafði verið ákveðinn.

Út af 6. brtt. vil ég aðeins segja hv. þm. það, að sá kafli laganna, framkvæmdarkaflinn, er allur óendurskoðaður. Það þótti ekki rétt að ljúka endurskoðun á framkvæmdarkaflanum í þetta skipti, þar sem ekki var búið að ljúka endurskoðun á tekjukafla l. og breytingar á þeim hluta tekjukaflans, sem eftir er, hlutu að hafa breytingar í för með sér einnig á framkvæmdarkaflanum; að ég nú ekki tali um, ef farið yrði í að setja hér einn skatt bæði fyrir ríki og sveitarfélög, þá hlaut framkvæmdarkaflinn að taka stórkostlegum breytingum. Það þótti því rétt að láta allar breytingar í sambandi við framkvæmdarkaflann bíða, nema þær örfáu formsbreytingar, sem gerðar eru á l. Ég get því ekki fallizt á, að það sé rétt að taka út einhverjar einstakar greinar úr framkvæmdarkaflanum til þess að breyta þeim sérstaklega á þessu þingi. Ég get m.a. bent á, að það kemur sannarlega til athugunar, hvort ekki á að leggja niður allar þær 160 skattanefndir, sem eru í landinu. Það er sannarlega ekkert lítill kostnaður fyrir ríkissjóð að halda slíkum n. að mínu áliti — ég segi, að mínu áliti — gersamlega að óþörfu, þar sem hægt væri að koma því fyrir á miklu auðveldari og betri hátt en gert er nú í sambandi við álagningu og innheimtu skattanna. En þessi kafli er alveg óendurskoðaður eins og annað það í skattalöggjöfinni, sem ekki eru gerðar tillögur um að breyta hér.

Þá sagði hv. þm., að hjónum væri refsað fyrir að vera saman, ef frv. næði fram að ganga óbreytt. Ég held einmitt, þegar þetta frv. er orðið að l., að þá verði hópar karla og kvenna, sem búa nú saman ógift, viljugri að fara í hjónaband til þess að njóta þeirra fríðinda, sem l. gefa hjónum á móts við einstaklinga, og það verður alls ekki það, að menn fari að skilja, nema síður sé. Ég gæti trúað, að nú yrðu skattalögin ný tekjulind fyrir prestastéttina í landinu, ef þau yrðu samþykkt, því að mér er alveg ljóst, að fólk, sem býr saman ógift, mundi hugsa sig um tvisvar, hvort það eigi nú ekki að fara að hlaupa til og gifta sig til þess að njóta þeirra skattfríðinda, sem eru ekki svo litil hér fyrir hjón. — Nú verð ég að segja það, að Tryggingastofnun ríkisins og tryggingalöggjöfin hefur gert of mikið að því að gera jafnt undir höfði ógiftu fólki, sem býr saman eins og gift væri, og hinu, sem gift er. Ég er ekki að ásaka hv. 4. þm. Reykv. um það, en ég tel, að þessi stefna sé ekki rétt. Þess vegna er það alveg rangt að segja, að það sé verið að gera tilraun til þess að skilja hjón að með því frv., sem hér um ræðir. Það er miklu frekar verið að gera tilraun til þess, að fólk, sem býr saman, gangi í hjónaband.

Þá sagði hv. þm. einnig, að það væri að vísu gengið á móts við menn, en þó ekki hæfilega, því að enn væri í þessu ýmislegt ranglæti. Hvenær er gengið svo á móts við nokkrar kröfur manna, að einhverjir aðilar geti ekki komið og sagt: Hér er ranglæti? Ég hef ekki orðið var við það enn. Ég held, að það megi segja um hverja þá löggjöf, sem samþykkt hefur verið á Alþ. fyrr og síðar, og svo mun enn verða um langan tíma. Það finnast ávallt einhverjir menn í þinginu og einhverjir menn utan þingsins, sem segja: Hér er ranglæti framið. — Met ég því ekki mikils þessa fullyrðingu hv. þm. Hann hefur viðurkennt, og það er alveg rétt, að það sé gengið mjög á móts við óskir manna í frv., og er það aðalatriðið. Þessu hef ég einnig skýrt frá, og það verður ekki hrakið. Hitt var ekki hægt og verður aldrei hægt, að uppfylla allar kröfur allra manna í þessu landi.

Þá sagðist hv. þm. ekki hafa fengið svar við því, hvers vegna verið er að skattfrelsa sparifé, en skattfrelsa ekki verðbréf, sem m.a. væru tryggð með ríkisábyrgð á sama hátt, og það er mjög eðlilegt, að hv. þm. spyrji um það, og hann á heimtingu á að fá svar við þessari spurningu. Kom þetta mjög til umræðu í n. En það var alveg ljóst, að með því einmitt að fara þessa leið, sem hér er farin, hlýtur ríkisstjórn og bankar ávallt að hafa meira yfirlit yfir það, til hvers sparifé þjóðarinnar er almennt notað, ef samfara þessu er lögð sú kvöð á banka og sparisjóði, að ákveðnum hluta þess fjár, sem sparisjóðsaukningin verður á hverjum tíma af þessum ástæðum, skuli varið til þess að kaupa ríkistryggð bréf eða önnur trygg bréf og andvirði þeirra varið til þeirra framkvæmda, sem nauðsynlegastar þykja á hverjum tíma. En með þessu var ekki unnt að fylgjast, ef ákveðið hefði verið, að öll ríkistryggð bréf skyldu jafnrétthá í sambandi við skattfrelsi, auk þess sem slíkt ákvæði hefði hlotið að skapa enn meiri kröfur frá sveitarfélögunum og bæjarfélögunum, hafnarbótasjóðum og öðrum slíkum aðilum til Alþ. um ríkisábyrgðir, og það er sannarlega komið nóg á þann reikning, að okkur finnst sumum hverjum, þótt það sé ekki gerð alveg sérstök tilraun til þess með nýrri löggjöf að auka á þær kröfur.

Þá sagði hv. þm., að meginástæðan fyrir því, að sparisjóðsfé hefði ekki aukizt, væri ótrú manna á verðgildi peninganna, alveg sérstaklega eftir að hæstv. núverandi ríkisstj. og tvær fyrrv. hæstv. ríkisstj. hefðu tekið við fjármálunum hér í landinu. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur fylgzt með, hvað hefur skeð í sambandi við sparifjárinnstæður þjóðarinnar á þessum tíma. Ég veit ekki betur en að á síðasta ári hafi aukning sparifjár í landinu verið meiri en nokkru sinni fyrr, og það svo, að það dreymdi engan mann um það, að á einu ári gæti sparifjárinnstæða þjóðarinnar aukizt eins og hún gerði á s.l. ári. Og það er mikið því að þakka, að fólkið hefur fengið trú á verðgildi peninganna undir stjórn núverandi hæstv. ríkisstj., því verður á engan hátt neitað.

Ég skal ekki eyða tíma hæstv. forseta og hv. 3. til þess að ræða um stóreignaskattinn, því að það er svo stórt mál, en vel veit nú hv. þm. það, að hann bar fram í fjöldamörg ár sams konar löggjöf, að vísu undir allt öðru nafni, eins og hann tók fram hér áðan, en sannarlega var hugurinn sá sami og till. efnislega nákvæmlega eins.

Þá sagði hv. þm., að það að undanskilja innstæðurnar framtalsskyldu væri að gefa þeim einstaklingum og félögum, eins og hann sagði, tækifæri til enn frekari skattsvíka, og að rétt væri að koma upp skattdómi eða skattdómara. Nú vil ég út af þessu mega benda á, að ef frv. verður samþ. óbreytt, munu félög almennt engan veginn njóta hvorki skattfrelsis á sparifé né réttar til þess að telja það ekki fram, því að ákaflega fá félög munu vera svo stödd að eiga sparifé almennt. En þó að þau ættu það, þá eru það enn færri félög, sem hafa ekki miklu meira en 120 þús. kr. skuld á fasteignum, en það er frumskilyrðið fyrir því, að engar skuldir séu hjá þeim á móti, auk þess sem bókhaldsskyldir aðilar verða að telja fram í reikningum sínum allar eignir og skuldir. Þetta er ófrávíkjanlegt skilyrði. Þess vegna koma ekki þessi ákvæði félögunum neitt að haldi, þó að þau ættu sparisjóðsfé, sem þau raunverulega eiga ekki undir flestum kringumstæðum. Það var hins vegar ljóst, að skattfrelsi sparisjóðsfjár ásamt vöxtum af því var sáralítils virði, ef halda skyldi framtalsskyldunni. Það eru bundnar sterkar vonir við það, að með þessum ákvæðum, eins og þau eru nú, aukist enn verulega sparisjóðsfé landsmanna og að með því fé verði hægt að koma í framkvæmd þeim verkefnum, sem þjóðin bíður eftir að framkvæmd verði og henni er lífsskilyrði að verði framkvæmd. Þó að hægt verði að finna einhvern mann, — sem ég álit nú að sé ákaflega erfitt, — sem kynni að geta notfært sér að einhverju leyti að fela einhverjar tekjur, þá er sá ágalli miklu minni og gerir þjóðinni miklu minna tjón heldur en það gagn, sem hitt gerir, að menn fái í friði að safna sparisjóðsfé og nota það til nytsamlegra hluta. Ég hef ekki trú á því, að bankarnir verði til þess, sem menn hafa gizkað á í sambandi við þessi mál, að hjálpa aðilum til að stofna til víxilskulda, aðeins til þess að þeir geti talið fram skuldir, en láta svo sömu upphæðina liggja inni á bankanum, og þannig gerast meðsekir þeim í skattsvíkum. Ég hef ekki trú á því, síður en svo. En það væri þá eina leiðin í sambandi við þetta atriði, og ef það yrði rekið þannig nú eftir að lögin eru samþykkt, mundi það fljótt komast upp. Hver getur svo fullyrt, að ekki mætti þá einnig hafa þennan hátt á undir gildandi lagaákvæðum? Ég held því, að hræðsla hv. þm. um þetta atriði sé alveg ástæðulaus.

Út af athugasemdum hv. 2. landsk., þá sagðist hann nú heyra það á ræðu minni annars vegar og þeim till., sem ég stæði að hér í n., hins vegar, hverrar stéttar fulltrúi ég væri hér á Alþ., það bæri nú frv. með sér, ef það yrði að lögum, að ég væri hér fulltrúi ákveðinnar stéttar. En ég vil nú benda hv. þm. á það, að ég hef út af fyrir sig aldrei farið neitt leynt með það, hverrar stéttar fulltrúi ég er á Alþ., og ég þykist ekki heldur hafa sýnt það með mínum till. hér eða öðrum mínum till. á Alþ., að ég hafi borið minni umhyggju fyrir þeim mönnum, sem hann þykist vera fulltrúi fyrir, heldur en einmitt hann sjálfur, og gæti þar vísað í mörg mál og margar ræður, sem ég hef haldið, hvort ég hafi ekki styrkt þá menn, sem hafa verið lágtekjumenn í landinu, engu siður en hann. En ég vil benda hv. þm. á, að það er beinlínis fyrirskipað í þál. af meiri hl. Alþ., að leiðrétta skuli það ósamræmi í skattalöggjöfinni, sem skapaðist við það, að ekki var hafður sami umreikningur á öllum tekjum manna. Þetta er beinlínis fyrirskipað, og ef mþn. í skattamálum hefði ekki gert till. um það, þá var hún að svíkja það hlutverk, sem meiri hl Alþ. fól henni að gera. Það má segja, að ég hafi verið einn af þeim mönnum, sem stóðu að þeirri fyrirskipun, — það er svo allt annars eðlis, — en það er a.m.k. meiri hl. Alþ., sem hefur fallizt á, að það væri rétt að leiðrétta það ranglæti, sem þar hefur verið framið. Það eru þá fleiri menn heldur en ég, sem skipast í þann flokk manna, sem hv. þm. talaði um áðan.

Þá sagði hv. þm., að hátekjumennirnir einir hefðu ráð á því að greiða lífeyristryggingu, en þetta munaði hins vegar lágtekjumennina ekkert um. Ég veit nú ekki betur en þúsundir manna og það lágtekjumanna séu á einn eða annan veg launtakar hjá því opinbera, ýmist hjá ríkinu eða bæjunum, hjá bönkum eða hingað og þangað, og það menn með ekkert hærri laun en hv. þm. talaði um. Er ég alveg viss um, ef sá réttur væri tekinn af þessum mönnum, sem þeir hafa í dag, að þurfa ekki að telja fram til skatts 4% af tekjum sínum, sem fara í iðgjaldagreiðslur, og að bætt yrði við laun þeirra 6%, sem atvinnurekendur greiða, svo að tekjur þeirra til skatts hækkuðu um 1%, þá kæmu háværar raddir einnig frá þessum ágætu þm., að hér væri verið að fremja ranglæti. Ef væri með því verið að fremja ranglæti, þá er verið að koma á réttlæti gagnvart þeim mönnum, sem hér um ræðir og hafa ekki haft þessi fríðindi áður. Því verður ekki móti mælt.

Þá sagði hv. þm. síðast, að með hans till. væru fyrirbyggð þau leiðindi að heimta skatta af ellistyrkjum og örorkubótum. Það er nú eftir því, hvaða skilningur er lagður í það, að það sé verið að heimta skatta af ellilaunum og örorkubótum í dag, að ég nú ekki tali um, þegar búið væri að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir. Ef viðkomandi aðili hefur ekkert til þess að lifa af annað en ellistyrk og örorkubætur, þá hygg ég nú, að það verði ekki mikill skattur á honum. (Gripið fram í: Jú, jú.) Á þeim tekjum einum? Ég segi nú bara nei. Hv. þm. getur þá reiknað það út. Það er nú fyrst og fremst örorkubæturnar, sem í dag eru ekki nema um 9 þús. kr. á fyrsta verðlagssvæði. Þegar svo er búið að draga frá því 6500 kr. persónufrádrátt og svo ýmislegt annað, sem dregið er frá samkvæmt þessari löggjöf hér, hvað ætli það sé þá mikið af ellilífeyri eftir til skatts? Hv. þm. veit, að hann er hér að túlka málið ranglega. Hitt er svo allt annað atriði, að ef viðkomandi aðili hefur aðrar tekjur, þá er að sjálfsögðu greitt af örorkubótum eða ellilífeyri, þegar þar bætast við þær tekjur viðkomandi aðila. En er það þá nokkuð ranglátara en þegar viðkomandi aðili eða viðkomandi aðilar verða sjálfir að vinna fyrir sínum tekjum á annan hátt? Ég sé ekki, að það væri nokkur sanngirni í því að skipta þar á milli, svo að þessi túlkun hv. þm. á þessu atriði er algerlega röng.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þessi mál nánar og mun láta mínu máli hér með lokið og ekki taka til máls aftur, nema sérstakt tilefni gefist til.