06.04.1954
Efri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Í hvert skipti sem hv. frsm. meiri hl. talar hér, þá staðfestir hann enn betur allt það, sem ég hef haldið fram í þessum umr. Hv. þm. sagði, að ekki hefði verið hægt að afnema skatt af lágum tekjum, t.d. undir 15 þús. kr., vegna þess að þá hefði ekki verið hægt að leiðrétta misræmið í skattaIögunum; það mundi hafa kostað það mikla upphæð, að þá hefði ekki verið mögulegt með þeim takmörkunum, sem mþn. hefðu verið settar, að leiðrétta þetta misræmi, sem hann nefndi svo. M.ö.o.: Það þarf að skattleggja menn, sem hafa 10 þús. kr. í árstekjur, til þess að hægt sé að lækka skatt á þeim, sem hafa t.d. 200 þús. kr. árstekjur, til þess að fullnægja öllu réttlæti. Er nú hægt að sanna það öllu betur, sem ég sagði hér áðan, að þessi hv. þm. kemur hér fram sem fulltrúi hinna tekjuhæstu, sem fulltrúi efnastéttarinnar? Raunar hygg ég, að þessi lækkun, þ.e. sú ráðstöfun að innheimta ekki skatt af tekjum, sem eru undir 15 þús. kr., mundi muna sáralítilli upphæð, og það virðist alls ekki hafa verið rannsakað af mþn., a.m.k. hefur ekki komið neitt fram um það.

Það skal enn einu sinni viðurkennt, að till. mín um skattfríðindi sjómanna á fiskiskipum leysir ekki að fullu vandamál togaraútgerðarinnar. En hitt er rangt, að þessi skattfríðindi muni litlu og stuðli ekki að því að leysa vandann. Sjómaður, sem hefur t.d. 50 þús. kr. í skattskyldum tekjum, mundi lækka í skatti um nokkuð á 3. þús. kr., og einkum mundi þetta hafa þá þýðingu, að kauphækkanir, sem sjómenn fengju, mundu koma. þeim sjálfum miklu fremur til góða heldur en nú, í stað þess að nú rennur bróðurparturinn til ríkisins. Þess vegna er enginn efi á því, að samþykkt þessara skattfríðinda mundi auðvelda mjög samninga milli sjómanna og útgerðarmanna. Hv. þm. sagði, að þetta mundi muna mestu fyrir yfirmennina á skipunum. Þetta er alveg rétt. Ég væri líka fús til þess að gera það samkomulag við hv. þm., að þessi skattfríðindi féllu niður við ákveðið tekjumark, ef á því stendur og ef hann setur það fyrir sig, að þetta séu of mikil fríðindi fyrir yfirmennina á skipunum. En ég vil aðeins segja það, að yfirmenn á togurum er einmitt sú stétt manna, sem þarf að vera hálaunuð, og eins og ástandið er núna í togaraútgerðinni, þá finnst mér það hlálegt, að ríkið skuli hirða mikið af þeim háu launum, sem útgerðin neyðist til þess að borga yfirmönnunum á skipunum.

Þá sagði hv. þm., að ákvæðið um, að leyft skuli að draga 7 þús. kr. frá, áður en tekjuskattur er á lagður, vegna iðgjalda til líftrygginga, kæmi einnig lágtekjumönnum til góða. Má ég nú spyrja hv. þm.: Heldur hann, að Dagsbrúnarmaður með 36 þús. kr. tekjur, sem hefur t.d. 3 börn á framfæri, geti notað þennan rétt og keypt sér líftryggingu, sem hann verður að borga 7 þús. kr. í iðgjald til? Og er það þá ekki rétt, að hér er um sérréttindi fyrir efnaða menn að ræða, sem hinn fátæki er sviptur?

Þá sagði hv. þm., að ekki þyrfti að greiða skatt af ellilaunum og örorkubótum samkvæmt frv. Þetta er algerlega rangt. Samkvæmt frv. er skattur greiddur af tekjum, sem eru yfir 7500 kr., ef um einstakling er að ræða, og 14 þús. kr., ef um hjón er að ræða. Nú veit hv. þm., að ellilaun og örorkubætur geta í sumum tilfellum orðið nokkru hærri, og ef viðkomandi hefur einhverjar smávægilegar tekjur til viðbótar, þá getur honum verið gert að greiða talsverðan skatt, svo að allir hv. þm. hljóta að sjá, að verði till. mín um þetta efni ekki samþ., þá verður enn haldið áfram þeim leiðindum og þeirri fásinnu, að skattur verður innheimtur af elli- og örorkulífeyrisþegum.