06.04.1954
Efri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég sé nú, að stjórnarandstaðan er ekki jafnsamvizkusöm í fundarsókn hér og hæstv. forseti og aðrir embættismenn deildarinnar, en ég mun samt sem áður ekki fresta minni ræðu, þó að þeir hv. þm. hafi ekki séð ástæðu til þess að vera komnir hér á réttum tíma til þess að hlusta á hana. Þeir munu þá geta athugað þau fáu orð, sem ég segi hér til leiðréttingar á því, sem þeir hafa haldið hér fram áður, og þá svarað þeim við 3. umr., ef þeim sýnist svo.

Hv. 4. þm. Reykv. hélt því fram, að fulltrúa Alþfl. hefði ekki gefizt kostur á að vera á fundum í mþn. frá því í nóv. og þar til í febrúarmánuði og það væri frumástæðan fyrir því, að hann hefði ekki getað athugað sínar till. og hefði ekki getað komið fram með nýjar till. í sambandi við breytinguna á skattalöggjöfinni af þeim sérstöku ástæðum. Út af þessu vildi ég svara því til hv. 4. þm. Reykv., að mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið einn einasti fundur, sem fulltrúa Alþfl. var bolað frá eða ekki verið kallaður á í mþn. Og ef ég fer þar með rangt mál, þá ætti hann að fá upplýsingar um það hjá form. nefndarinnar. Mér er enn fremur kunnugt um, að hver ein og einasta af þeim till., sem fram komu, bæði frá sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum, var jafnan látin ganga til athugunar til fulltrúa Alþfl. og hann hafði öll tækifæri allan þennan tíma til þess að gera athugasemdir og koma fram með nýjar till. En á engum einasta fundi eða nokkurn dag kom ein einasta till. til breytingar frá fulltrúa Alþfl. önnur en þær, sem ég hef þegar lýst, svo að þetta getur ekki verið ástæða fyrir því, að nú eru bornar fram allt aðrar brtt. en komu fram frá Alþfl. í mþn. Það var ekki einasta, að hann bæri fram þær till., sem ég hef þegar minnzt á, heldur kom það alveg skýrt fram í umræðunum við þennan ágæta fulltrúa, sanngjarnan og góðan dreng, sem Alþfl. trúði fyrir þessu vandamáli, að hann vildi hækka jafnvel mjög verulega skatta á einstaklingum á öllum millitekjum og miklu meira heldur en aðrir nm. vildu gera. Þetta er ekkert launungarmál. Og ég geri ráð fyrir, að hann hafi flutt það mál í fullu umboði Alþfl. Hann vildi m.a. einnig hafa sérsköttun hjóna allt að 80 þús. kr. tekjuupphæð, en eftir það var ekkert ranglátt, þó að hjón fengju ekki að skipta sínum tekjum til þess að verða skattlögð sem einstaklingar. Ég hef nú ekki skilið það réttlæti, að hjón skuli hafa allt annan og meiri rétt, ef þau hafa 70 þús. kr. tekjur eða 79 þús. kr. tekjur, en þessi réttur skuli falla alveg niður, þegar komið er að 80 þús. kr. eða þar yfir.

Þá túlkaði hv. þm. það mál alveg ranglega, að 1/3 af skattfrjálsu fé til sjómanna munaði svo og svo miklu fyrir þessa aðila. Báðir hv. þm. úr stjórnarandstöðunni lásu hér eingöngu upp skattstiga fyrir einhleypa menn, en tóku ekkert skattstiga fyrir hjón og því síður fyrir hjón með tveimur börnum. Það er eins og það sé miðað að því alveg sérstaklega í sambandi við skattalögin, ef skilja á ræður þeirra, eins og þær voru hér áðan, að á togurunum eða á veiðiskipum skyldi aldrei nokkru sinni vera maður, sem hefði fjölskyldu fram að færa. En það þætti mér ákaflega einkennilegt, ef það yrði sett í lög að engum skyldi leyft að leita sér atvinnu á fiskiskipum á Íslandi nema þeim, sem annaðhvort væru einhleypir menn eða gætu ekki á nokkurn handa máta átt börn með sínum konum, en það virðist vaka fyrir þessum hv. þm. báðum. Sannleikurinn er sá, að þetta hefur bókstaflega enga þýðingu fyrir fjölskyldumenn, þó að það væri gefinn eftir 1/3 af þeirra tekjum, eins og ég skal sýna fram á. Af 45 þús. kr. tekjum er tekjuskattur hjóna með 2 börn 760 kr., en þó að þriðji parturinn væri gefinn eftir, þá væri tekjuskatturinn 160 kr., svo að það eru einar 600 kr., sem þessir aðilar fengju í hærri launum yfir allt árið, þó að 1/3 af tekjum þeirra yrði skattfrjáls. — Ég sé nú, að hv. 4. þm. Reykv. er kominn hér, og þykir leitt, að hann hefur ekki verið við til þess að heyra mitt svar í sambandi við þetta mál. — Ég tók það fram áðan, að hv. þm. og báðir hv. þm. úr stjórnarandstöðunni miðuðu aðeins sínar till. við einhleypa menn. En það er eins og fyrir þeim vaki, að það sé annaðhvort að taka það í lög eða vinna að því, að aldrei megi fjölskyldufeður fara um borð í skip. Þetta er náttúrlega algerlega röng túlkun á þessu máli og rétt, sem ég hef haldið fram, að almennt er þetta engin bót og engin lausn á þeim vanda, sem hér um ræðir. Hins vegar er þetta stórkostleg bót fyrir hátekjumennina. Skipstjóri t.d., sem hefur 150 þús. kr. tekjur, eða stýrimaður, sem hefði 150 þús. kr. um borð í togara og hefði tvö börn fram að færa og væri giftur, greiðir nú af 150 þús. kr. tekjum eftir skattstiga frv. 26860 kr., en ef hann ætti að greiða aðeins af 100 þús., sem hann gerði, ef till. hv. 4. þm. Reykv. yrði samþ., þá greiddi hann ekki nema 10410 kr. Það munar náttúrlega ákaflega mikið þennan aðila. Það fara nefnilega ekki saman þessar kröfur hv. stjórnarandstöðu og hin krafan um það að hækka þó enn tekjuskattstigann fyrir hátekjumennina.

Hvað viðvíkur þeirri athugasemd, sem hv. 4. þm. Reykv. gerði út af verðbréfunum, að það hefði verið rétt að gera þau öll skattfrjáls, þá vil ég endurtaka það, sem ég sagði í sambandi við það mál í minni fyrri ræðu, að ef öll verðbréf væru gerð skattfrjáls, sem ríkissjóður ábyrgist, þá mundi verða miklu meiri ásókn á ábyrgð ríkisins, — um það er enginn vafi, — og önnur bréf mundu náttúrlega ekki heldur seljast á opinberum markaði. Mér finnst vera miklu meira virði og miklu betri fyrir þessi mál sú stefna, sem tekin er í frv., að ætlast til þess, að bankarnir í samráði við hæstv. ríkisstj. ráði nokkru um það, til hvers sparisjóðsféð er notað, sem gefið er skattfrjálst samkv. frv.

Þá sagði hv. þm., að sparifjáraukningin væri langmest að þakka þeim mönnum, sem ynnu á Keflavíkurflugvelli, og þaðan kæmi öll aukningin. Mér dettur nú ekki í hug að halda, að hv. þm. hafi meint þetta. Hv. þm. veit, að það er svo takmarkaður fjöldi manna, sem vinnur á Keflavíkurflugvelli, að þó að öll þeirra laun hefðu farið beint í sparisjóðina, þá hefðu þau ekki getað numið þeirri hækkun, sem orðið hefur á s.l. ári. Nei, sannleikurinn er sá, að aukning sparifjárins er að þakka tvennu: Í fyrsta lagi, að fólkið hefur fengið trú á verðgildi peninganna síðan núverandi og fyrrverandi stjórn tóku við völdum og mörkuðu stefnuna í fjárhagsmálum þjóðarinnar. Þetta er önnur ástæðan. Hin ástæðan er sú, að þessar sömu hæstv. ríkisstjórnir hafa hlúð þannig að atvinnuvegunum, að það þarf að horfa mjög langt aftur í tímann til þess að finna jafnmikla eftirspurn eftir vinnuafli og verið hefur hér á Íslandi siðan. Þetta eru tvær meginástæðurnar fyrir því, að innstæðurnar hafa aukizt í sparisjóðunum. Hitt er svo samfara þessu, gremja Alþfl. um það að hafa verið utan gátta í þessum umbótum í atvinnulífi þjóðarinnar.

Hv. þm. hélt því fram, að þó að ég léti í veðri vaka, að félög gætu ekki notið skattfrelsis sparifjár, þá væri ekkert því til fyrirstöðu, að þau geti átt á nafnlausum bókum inni svo og svo háar fúlgur, þegar ekki þyrfti að telja þær fram. Hv. þm. veit, að ef um félag er að ræða, sem er bókhaldsskylt, og það eru yfirleitt öll félög, sem hafa nokkurn rekstur, þá er ekki hægt að fela eignir á sparisjóði, þó að þær séu á nafnlausum bókum, nema falsa bókhald viðkomandi félags. Og þá eru að sjálfsögðu þeir orðnir ábyrgir fyrir fölsun gegn sínum félagsmönnum, nema því aðeins að þeir ætli að gera þá alla félagsmennina samseka í slíkum glæp, og það a.m.k. hefur mþn. ekki viljað ætla mönnum. Þess vegna er það alveg rétt, sem ég hef haldið fram, að skattfrelsi sparifjár kemur ekki til þess að snerta að neinu verulegu leyti félögin.

Hv. þm. sagði einnig, að það væri nauðsynlegt að gera á þessu frv., þó að lögum yrði, breytingar mjög fljótt; það væru í því ýmsir ágallar, sem hann hefur bent á og ég skal ekki fara lengra út í hér. Fellur þetta raunverulega alveg saman við ekki einungis skoðun mína í málinu, heldur og skoðun nefndarinnar. Það hefur hvað eftir annað komið fram hjá n., að þetta er einn þátturinn í breytingu á skattakerfi þjóðarinnar, þáttur, sem kannske stendur aðeins til bráðabirgða. Heildarendurskoðuninni er ekki lokið, og sá þátturinn, sem er erfiðastur og tekur lengstan tíma að semja um, þ.e. að koma sér saman um einn skatt fyrir bæði ríki, bæjar- og sveitarfélög, er enn eftir. Framkvæmdarkaflanum er ekki heldur lokið, og allt þetta getur orsakað það, að hér sé aðeins um bráðabirgðalöggjöf að ræða, sem þarf að breyta, ef samkomulag næst um öll hin atriðin.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða frekar við hv. 4. landsk. út af þeim aths., sem hann gerði í sambandi við mína ræðu.

Hv. 2. landsk. sagði, að yfirmennirnir á togurunum þyrftu að hafa há laun. Ég endurtek það, að það er ekki fyrir vöntun á þeim starfskröftum um borð í togara, að það þurfi að gefa eftir á af tekjum þeirra manna, sem þar vinna. Hann sagði einnig, að það væri hlálegt að taka þetta aftur í ríkissjóðinn, eins og nú væri gert með of háum sköttum. Ég vil einnig í sambandi við það leyfa mér að benda honum á, að einmitt þessir menn hafa fengið alveg sérstök skattfríðindi með sérstökum samningum, þar sem þeir mega nota allt að 18% af sínum launum til þess að kaupa sér fyrir lífeyri og að það má draga þessa upphæð frá skattskyldum tekjum þeirra. Það væri því hreinasta fjarstæða að ætla sér ofan á slík fríðindi að fara að gefa þessum mönnum sérstaklega leyfi til þess að draga enn frá 1/3 af þeirra tekjum. Svo var hv. þm. að spyrja mig um, hvað ég héldi að Dagsbrúnarmaður, sem hefði aðeins tekjur upp á 36 þús. kr. og hefði 3 börn, gæti borgað mikið í lífeyri. Ja, ég vil biðja hv. þm. að athuga, hvað þessi maður greiðir mikið í skatta. Ef hann hefur 2 börn og hefur 35 þús. kr., þá greiðir hann 320 kr. í skatt á ári, og hafi hann 3 börn, þá hugsa ég, að þessi upphæð lækkaði það mikið, að það yrði sama sem enginn skattur, svo að það breytir ekki neinu fyrir hann, hvort dregið er frá í lífeyri eða ekki, vegna þess að hann er svo að segja skattfrjáls hvort sem er.

Þá vildi ég aðeins segja hér nokkur orð t sambandi við aths. frá hv. 1. þm. N–M. Ef hann hefði hlustað á mína framsöguræðu og fyrstu orðin í ræðunni, þá hefði hann getað sparað sér allar þær aths., sem hann gerði hér í sambandi við sínar brtt. Ég tók þar ákveðið fram, að n. hefði ekki tekið afstöðu til þeirra brtt., sem hann bar fram við 1. umr. og n. hafði til athugunar, og ekki heldur til þeirra ábendinga, sem hann lét koma fram þá í sinni ræðu; n. mundi athuga þetta hvort tveggja fyrir 3. umr. og þá e.t.v. bera fram sjálf brtt. eða taka til athugunar að mæla með þeim brtt., sem aðeins væru formsatriði, og brtt. hv. þm. snerta aðallega formsatriði og lítið annað. Ég álít því rétt, að hv. þm. taki þessar till. aftur til 3. umr., og þá mun n. segja til, hvernig hennar afstaða er til þeirra, eftir að hafa athugað það sjálf og þess utan rætt það bæði við skattstjóra og hæstv. fjmrh.

Hv. þm. spurði, hvernig ætti að framkvæma ákvæði 5. gr., og átti hann þar aðallega við það ákvæði, sem snertir ágóða af fasteign, sem er seld og viðkomandi aðili hefur átt skemur en 5 ár, en notar siðan söluupphæðina til þess að kaupa aðra eign innan eins árs eða byggja hús innan tveggja ára frá söludegi. Kom hann þá með dæmi um það, að vel gæti maður byrjað á húsi og svo selt það hálfgert til annarra, fengið af því stóran gróða o.s.frv., og það væri aldrei hægt að gera þetta upp. En gr. segir hér alveg ákveðið, að „undanþága þessi nær þó ekki til neinnar sölu, þar sem telja má, að um atvinnurekstur sé að ræða eða að eignarinnar hafi verið aflað til að selja hana aftur með hagnaði“. Nú er það alveg sýnilegt, að ef maður selur fasteign, byggir svo aðra að hálfu leyti og selur hana með hagnaði, áður en hann hefur lokið byggingunni, þá er hann að gera það í atvinnuskyni, og þá gildir ekki þessi undanþága, sem hér um ræðir. Þessi orðun á gr. var gerð í samráði við skattstjóra, sem taldi á því engin tormerki að framkvæma þetta, og sáum við því ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að leggja til, að þær brtt. yrðu samþ., sem hv. þm. bar fram, en munum athuga það, eins og ég segi, fyrir 3. umr.

Þá óskaði hv. þm. eftir að fá nánari skýringu á því, hvað væri meint með langferðum vegna atvinnu, og hann spurði, hvort 15 km ferðir væru langferðir eða ekki og hvort ferðir með strætisvögnum væru langferðir eða ekki. Jafngreindur maður og hv. 1. þm. N–M. þarf nú ekkert að spyrja um það, hvort 15 km ferðir séu langferðir eða hvort strætisvagnaferðir séu langferðir; það er augljóst, að það geta ekki verið neinar langferðir, sem ekki ná nema yfir 15 km. Það var einmitt um það rætt í n., að það væri ómögulegt að fara inn á það að láta draga frá skattskyldum tekjum einmitt þessar ferðir, sem hv. þm. talaði um. Það liggja m.a. engin sönnunargögn fyrir því, hve oft maður fer í strætisvagni til sinnar vinnu eða frá eða hvort hann hefur notað þann bíl, sem kostar 6 þús. kr. á ári, eingöngu til þess að aka sér milli heimilis og vinnustaðar. Það liggja því síður nokkur gögn fyrir því, að það sé ekki miklu ódýrara fyrir viðkomandi aðila að búa 15 km frá vinnustað. Hann getur haft hag af því m.a. í útsvari, hann getur haft hag af því í húsaleigu, og hann getur haft annan margvíslegan hag af því, svo að það liggur alls ekki fyrir að ræða um það atriði. Þegar um er að meða langferðir, þá var meint með því eingöngu hjá mþn., að það væru ferðir, sem menn tækju sig upp lengri leiðir, t.d. norðan af landi eða austan af landi eða úr öðrum landsfjórðungum til þess að sækja atvinnu á annan stað, þar sem væri um virkilegar langferðir að ræða, eða menn færu til útlanda vegna sinnar atvinnu. Það er svo nú samkvæmt gildandi l., að atvinnufyrirtæki, sem verða að senda sína menn til útlanda í sambandi við atvinnurekstur, hafa að vísu fengið dregið frá eitthvað af þeim kostnaði eftir mati skattstofunnar, svo að það er ekki farið hér inn á neinar nýjar leiðir. Hins vegar er það ekki ákveðið í l., að það megi gera það. Þetta verður að vera undir mati skattstofunnar, og verða settar um það ákveðnar reglur, sem eru innan takmarka l. En þetta verður alltaf að vera á mati skattstofunnar á hverjum tíma, hvað skuli hér dregið frá og hvað ekki.

Svo sagði hv. þm. hér ákaflega merkilega setningu, að það væri ófrávíkjanleg krafa, að I. væru þannig úr garði gerð, að þan séu réttlát. Mér er nú bara spurn: Hefur hv. 1. þm. N-M. tekizt það í sínu vandasama starfi í ríkisskattanefnd að kveða upp alltaf og ævinlega slíkan úrskurð, að allir aðilar hafi talið hann réttlátan? Ég fullyrði, að það hefur ekki tekizt, og er það ekki sagt sem nein ásökun á viðkomandi hv. þm., en ég fullyrði, að það hefur ekki tekizt, og það hefur kannske sjaldnar tekizt að úrskurða slíkan úrskurð hjá ríkisskattanefnd heldur en að úrskurða hið gagnstæða. Það er engin sönnun fyrir því, að ríkisskattanefnd og hv. þm. hafi úrskurðað rangt, síður en svo. En það er alveg áreiðanlegt, að það hafa ekki allir aðilar, sem þar hafa átt hlut að máli, talið, að lögunum hafi verið beitt réttlátlega; það fullyrði ég, enda veit ég, að hv. þm. hefur verið fúsastur allra manna til þess að leiðrétta slíka úrskurði, þegar honum hefur verið bent á, að þeir væru einmitt ekki réttlátir. Ég hygg, að það finnist ekki sá maður yfirleitt, sem gæti úrskurðað að öllu leyti þannig, að hverjum einasta aðila fyndist séu hefði verið gert að öllu leyti rétt. Þá væri nú ekki verið að deila um hlutina.

Hv. þm. ræddi um frádráttinn vegna heimilisstofnunar, færði fyrir því ýmis rök. Ég skal ekki ræða það hér. Það gefst tilefni til þess að ræða það nánar, þegar n. hefur sagt sitt álit um þá till.

Út af prentun l. skal ég taka það fram, að það er alveg rétt, að það er miklu handhægra að gera það. En ég vil í sambandi við það mál leyfa mér að benda á, að það voru uppi um það till. í n. að byggja frv. þannig upp, að það væri ekki breyting á gildandi skattalöggjöf, heldur heilsteypt skattalöggjöf, og fella núgildandi skattalöggjöf úr gildi, og hefði það verið eðlilegast. En það var einmitt ekki gert, vegna þess að hér er aðeins verið að breyta nokkrum hluta laganna. Ef þetta hefði verið sett fram sem heildarendurskoðun og breyting á öllum köflum l., þá hefði sjálfsagt verið hafður sá háttur á, sem meira að segja var byrjað á í n. að gera, þ.e. að semja nýtt frv. að nýjum skattalögum og fella svo gildandi l. úr gildi. En hér er eftir, eins og hefur verið upplýst, bæði kaflinn um félagaskatt og kaflinn um framkvæmdina, svo að það mundi að sjálfsögðu þurfa þá að prenta l. upp aftur, ef þau yrðu prentuð upp nú, fella þau aftur inn, þegar þær síðari breytingar kæmu. En um þetta mun n. að sjálfsögðu athuga fyrir 3. umr.

Hv. þm. sagði, að það væri allt annað mál, þó að seinna, á næsta þingi, kæmu breytingar aðeins á einum kafla l., þ.e. á skattinum um félögin. Náttúrlega veit hv. þm. ekkert um það, hvaða breytingar eða till. til breytinga kunna að koma á löggjöfinni í heild, og m.a. getur vel komið til mála, eins og ég hef sagt áður, að einnig á þessum kafla, sem nú er verið að samþ., komi breytingar. Mér sýnist, að það hafi verið full ástæða til hjá mþn. að leggja til, að þetta frv. yrði borið fram sem breyting við skattalögin, en hafa ekki hinn háttinn á, einmitt vegna þess að þessari endurskoðun er ekki lokið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál hér nánar og læt máli mínu hér með lokið.