06.04.1954
Efri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Ég skal vera mjög stuttorður, herra forseti, en ég kemst ekki hjá því að leiðrétta ummæli hv. frsm. meiri hl. í síðustu ræðu hans, þau ummæli, sem hann hafði um brtt. um þriðjungs frádrátt af tekjum fiskimanna. Hann fullyrti, að með því væru lækkaðir langsamlega mest skattar á togaraskipstjórum, sem hefðu mjög háar tekjur. Ég hygg, að þetta byggist á misskilningi, því að hv. þm. hlýtur þó væntanlega að hafa lesið till. Í till. segir, að það skuli heimilað að draga frá þriðjunginn af tekjum fiskimanna, þó ekki yfir 20 þús. kr., þannig að skipstjóri, sem hefur 150 þús. kr. tekjur, fær ekki dregnar frá 50 þús. kr. af sínum tekjum, áður en skattur er á lagður, heldur aðeins 20 þús. kr. Sé hann því skattlagður með 30%, getur hæsta lækkun, sem hann gæti fengið, orðið 6 þús. kr., en ekki 16 eða 20 þús., eins og kom fram hjá hv. þm. Þetta hlýtur að byggjast á misskilningi hjá honum.

Að því er snertir útreikninginn á, hverju þetta mundi nema fyrir almenna háseta á skipunum, sem hefðu 45–60 þús. kr., þá er minn útreikningur á því fullkomlega réttur miðað við einhleypan mann. Það er rétt, eins og hv. þm. tók fram, að það yrðu 200–300 kr. á mánuði eða frá 2400 upp í 3600–3700 kr., ef tekjurnar liggja á þessu bili, milli 45 og 60 þús. kr., en gæti að óbreyttri till. komizt upp í allt að því 6000 kr. fyrir mann, eins og t.d. skipstjórann, sem hann nefndi, en alls ekki hærra. Þetta þótti mér sjálfsagt að leiðrétta. En ég væri fullkomlega til viðtals um að setja hámark ekki einasta á tekjuþriðjunginn, heldur líka þá skattalækkun, sem af því leiddi, ef það leiddi til samkomulags við hv. þm.

Um sparifjáraukninguna á siðasta ári hef ég í rauninni litlu við að bæta það, sem ég sagði hér í minni seinnstu ræðu. Hún er að langmestu leyti afleiðing af vinnunni hjá varnarliðinu í Keflavík, beint og óbeint, þeim framkvæmdum, sem þar eru um hönd hafðar. Sá beini tekjuauki fyrir landsmenn af þessu er eftir opinberum skýrslum eitthvað milli 150 og 200 millj. kr. á árinu. Þessir peningar koma fyrst sem kaup til starfsmanna, sem þar vinna, og renna síðan út í framkvæmdalífið í landinu sem hreinar aukatekjur miðað við það, sem ella mundi verið hafa. Hv. þm. heldur því fram, að þessi sérstaki tekjuliður hafi lítið verkað á sparisjóðsinnstæðuna, en það er að minni hyggju hinn mesti misskilningur. Hann segir, að ástæðan til aukningar sparifjárins á síðasta ári hafi verið í fyrsta lagi aukin trú á verðgildi peninganna vegna góðrar og viturlegrar fjármálastefnu hæstv. núverandi ríkisstj. og í öðru lagi vegna þess, að atvinnuvegunum hafi vegnað svo vel á árinu, að þess vegna hafi safnazt sparifé, — ekki vegna þess, að vextir hafi verið látnir skattfrjálsir. eins og gert er ráð fyrir í frv., heldur þrátt fyrir það að þetta hafi ekki fengizt. Ég vil bara leyfa mér að minna hv. þm. á í þessu sambandi. hvernig ástatt er með undirstöðuatvinnuveg okkar Íslendinga nú, togaraútgerðina. Vill hann virkilega halda því fram í alvöru, að það sé velgengni atvinnuveganna að þakka, m.a. þessa útvegs, að sparifé hefur aukizt í landinu? Ég veit, að hv. þm. getur ekki svarað þessu játandi. Ég efast ekki um, að hv. þm. hafi lesið Snorra vel og rækilega, eins og við sjálfsagt flestir hér í d. Þegar Snorri ræðir um sögukvæðin fornu, þá segir hann, að það megi nokkurn veginn treysta sannleiksgildi þeirra, því að þau hafi verið flutt í fjölda manna áheyrn fyrir konungunum sjálfum. Og svo bætir Snorri við, að skáldin hafi að sjálfsögðu farið nálægt sannleikanum, því að ef þau báru á konunginn lof, sem hann átti ekki skilið, þá var það ekki lengur lof, heldur skop eða háð. Ég fæ ekki betur séð en að með þeim ummælum, sem hv. þm. hafði um ríkisstj. og afrek hennar í þessari lofdrápu, sem hann flutti nú um hana, hafi hann gleymt reglu Snorra. Hvað sem annars má segja um hæstv. ríkisstj., þá er það víst, að velgengni atvinnuveganna hefur ekki á þessu síðasta ári í heild sinni verið slík, að af því sé að státa, og má þar líta til togaraútgerðarinnar, eins og hv. þm. er kunnugt um.

Ég skal hafa þetta mitt mál heldur stutt og vísa til þess, sem ég áður sagði. Hv. þm. hefur eins og aðrir formælendur þessa frv. mjög haldið því fram, að með því sé stórkostleg lækkun gerð á sköttum á lágtekjum. Með því er viðurkennt, að skattar á lágtekjum hafa verið allt of háir og hér verið bein og brýn þörf leiðréttingar. Þó að sá varnagli fylgi nú hjá hv. frsm., að réttlætið sé erfitt að finna og framkvæma, þá ætti þó viðleitnin að hafa verið sú. Ég hef sýnt fram á með rökum, að lækkunin á skatti á lágtekjum er slík, að nær engu munar. Eftir sem áður eru beinar og brýnar þurftartekjur skattlagðar með tekjuskatti í viðbót við aðra skatta. Það hefur verið sýnt fram á, að jafnvel ellilífeyrir og almennar bætur trygginganna, sem eru að sjálfsögðu naumt skornar. verða skattskyldar eftir þessu frv., bæði hjá hjónum og einstaklingum. En svo er verið að tala um, að það sé réttlætt það ranglæti núverandi skattalaga að skatta lágtekjurnar eins og gert hefur verið. Ég efast ekki um, að hv. þm. hafi lesið biblíuna ekki síður en Snorra. Þar stendur einhvers staðar um vissan hóp manna, að þeir hafi á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneiti hennar krafti. Að því er lágtekjurnar snertir og breytinguna á skattlagningunni á þeim á þetta fullkomlega við um formælendur þessa frv. En í þeirri góðu bók er nokkur viðbót við þessa lýsingu á þessum mönnum, sem hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar og afneita hennar krafti. Þar kemur ráðlegging frá höfundinum, og hún er á þessa leið: „Forðastu þvílíka.“