08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að svara miklu þeim athugasemdum, sem hafa komið fram hér við þessa umr., en vildi þó aðeins segja nokkur orð um athugasemdir frá hv. 1. þm. N–M. Hann segir, að n. leggi á móti því, að hægt sé að framkvæma skattalögin, með því að vilja ekki mæla með því, að hans till. verði samþykktar, og þetta eigi allt saman að vera samkomulag við skattstjórann í Reykjavík. Þessi ummæli hans eru náttúrlega byggð á ákaflega miklum misskilningi. Þegar ég ræddi um skattstjórann í Reykjavík, þá ræddi ég um hann í sambandi við þá reglugerð, sem verið er að semja um þessi mál og skattanefndirnar eiga að fara eftir, svo að það er ekki um að ræða, að þetta sé samkomulag við skattstjórann í Reykjavík, heldur er þetta á mati skattanefndanna annars vegar og skattstofunnar og skattayfirvaldanna hins vegar, þessi atriði sem hér um ræðir, eins og svo mörg önnur atriði í skattalöggjöfinni. Það hefur ekki þótt gerlegt að setja svo fastákveðnar reglur í löggjöfinni, að ekki yrði hér að vera eitthvert svigrúm fyrir viðkomandi aðila til þess að fara eftir, enda stendur víða í löggjöfinni „eftir mati skattayfirvaldanna“.

Hv. þm. minnti m.a. á það, að það væri að fara aftur til minni frádráttar að setja takmarkið um ferðakostnaðinn við 200 km vegalengd. Ég upplýsti áðan, að n. var á þeirri skoðun, að þetta lágmark væri of hátt, það ætti að færast niður, og er því meiri ástæða til þess að halda því fast fram, að svo verði, eftir þær upplýsingar, sem komu frá hv. þm. Og ég vona þá, að hann beiti sínum áhrifum til þess, að það verði tekið upp í reglugerðina, að það verði a.m.k. ekki fært hærra en svo, að það sé engin rýrnun fyrir viðkomandi skattaðila.

Það er alveg eins í skattalöggjöfinni hér í sambandi við 35. gr. laganna, þ.e.a.s. 14. gr. frv., að þar er lagt á vald skattanefndanna, skattayfirvaldanna og yfirskattanefnda að meta þær ástæður, sem fyrir hendi eru á hverjum tíma, þegar um er að ræða að draga frá gjöld í sambandi við sjúkdóma, og svo er á fleiri stöðum í lögunum. Komi það fram, að skattanefndirnar eða skattayfirvöldin beiti ákvæðum laganna út fyrir þau takmörk, sem lögin ákveða, eða á þann veg, að það þyki óeðlilegt og ósanngjarnt, þá liggur það fyrir að sjálfsögðu að fá slíkt leiðrétt alveg eins með þessa löggjöf og hverja aðra, og vil ég í sambandi við það leyfa mér að benda á, hversu oft hefur orðið að hnika til eða breyta framkvæmd laga um almannatryggingar, vegna þess að það var ómögulegt að setja föst ákvæði um margvísleg fyrirmæli og margvísleg tilvik í þeim lögum. Og sama er að segja að sjálfsögðu um skattalögin. Hér verður að vera fullur skilningur skattayfirvaldanna og þeirra, sem framkvæma það fyrir þeirra hönd, og er útilokað að setja um þetta fast ákvæði með lögum frá Alþ., svo að ekki séu einhverjir árekstrar eða það geti verið gildandi ákvæði í hvaða tilfelli sem er. Ég veit, að það skilur þetta enginn betur en hv. þm. sjálfur, enda sagði hæstv. ráðh. hér: Hvernig dettur hv. þm. í hug að segja svona vitleysu? — Það væri nú kannske nægilegt fyrir mig að taka þessi orð upp og vísa til þeirra. Engum manni öðrum en honum ætti að vera kunnugra um, hversu erfitt er að fastákveða þetta með lagafyrirmælum.

Hv. þm. spurði, hvort ætti að hafa þessi lög frá þinginu að engu, og átti hann þar aðallega við framkvæmdina á 5. gr. laganna um það, ef maður seldi hús og keypti sér annað í staðinn. Ég vildi nú spyrja hv. þm., sem er mjög kunnugur þessum málum, að því, hvort honum t.d. þætti það réttlátt, ef maður hefði selt eign, sem hann væri búinn að eiga skemur en þennan tíma, byggði sér svo hús, sem væri jafnmikið að kostnaðarverði og hitt, sem hann seldi, og sýnilegt, að hér væri ekki um annað en eignayfirfærslu að ræða, þ.e. fyrri eign flutt yfir í aðra fasteign, en þegar tvö ár væru liðin, þá ætti hann t.d. eftir að setja í þetta hús annaðhvort lyftu, sem ætti að koma í húsið, dúka á stiga, eitthvað af hreinlætistækjum eða eitthvað af slíku, sem hann gæti e.t.v. ekki verið búinn að setja inn, vegna þess annaðhvort að það hefði verið bannað að flytja þetta inn, eins og hafa nú verið hömlur á undanfarið, eða að lánsstofnanirnar væru þannig, að hann hefði ekki getað komið lánum sínum í gegn eins og hann þyrfti að gera á þessum sama tíma og hefði því ekki getað gert þetta, — hvort það væri þá sanngjarnt að láta skattleggja þann gróða, sem hann hefði haft af hinni seldu eign, og taka ekkert tillit til þess, þó að hann hefði eytt svo að segja öllu því fé aftur eða kannske öllu því fé og meira fé til í hina nýju byggingu, þó að eftir væri að ganga frá slíkum hlutum sem hér um ræðir. Ég hygg, að það mundu engin skattayfirvöld fremja slíkt ranglæti, sízt hv. 1. þm. N–M. Hann mundi ekki einu sinni í ríkisskattanefndinni láta sér detta í hug að beita slíkum tökum í sambandi við framkvæmd málanna. Þá eru menn í n., m.a. ég, sem vildu gjarnan hafa þennan tíma lengri og m.a. miða við það, að maðurinn hefði byrjað á byggingu, einmitt vegna þessara árekstra, sem hér geta orðið á. Þetta verður því að vera eftir mati skattanefndanna á hverjum tíma, og þá kemur fyrst og fremst til þess að meta það sem grundvallaratriði, hvort maðurinn er að skipta um eign til þess að hafa af því ágóða, en það er alveg ákveðið í lögunum, að þá er ágóðinn skattskyldur, ef um það er að ræða. Ef hann hins vegar er aðeins að byggja það fyrir sjálfan sig til þess að skipta þannig um eign, láta af hendi aðra eign, sem kostar kannske jafnmikið, og fær sér nýja, sem honum er að einhverju leyti hentugri á einn eða annan hátt, þá á ekki að skattleggja gróðann. Þetta er höfuðsjónarmiðið. Og það er alveg fastákveðið í lögunum.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði engu svarað um þá athugasemd, sem hann gerði í sambandi við skip og flugvélar. Ég bið afsökunar á því að hafa ekki upplýst það, en ég get sagt hv. þm. það, að það er með vilja gert hjá mþn. að setja þessi ákvæði inn, alveg með opnum augum fyrir því, að þetta er einmitt eina leiðin til þess að geta unnið upp eitthvað af því tapi, sem oft og tíðum fellur á þessa menn í sambandi við reksturinn. Við teljum ekki, að það sé nokkurt vit í því, að menn eigi að kaupa skip, taka á sig kannske 300–400 þús. kr. rekstrartap á hverju ári, fá afskriftir samkv. lögum, sem verða ekki gildandi afskriftir, vegna þess að það er ekki hægt að draga það frá neinum ágóða, því að hann hefur ekki verið til, — en svo ef hægt er að selja, þá eigi að skattleggja afskriftirnar án þess að mega draga tapið frá. Það má að vísu færa tap á milli tveggja ára innan vissra takmarka, en það gæti vel svo farið, að ef ætti að skattleggja þennan gróða, þá sæti aðili eftir með stórkostleg töp, sem væri ekki hægt að greiða upp. Þetta veit hv. þm. Ef hins vegar er um það að ræða, að hann heldur áfram rekstri og kaupir sér nýtt skip í staðinn eða nýja flugvél, þá er hann hér að byggja upp varasjóð fyrir áframhaldandi rekstur til þess að geta mætt e.t.v. stórkostlegum töpum síðar. Þetta hefur verið skilningur þessara aðila, sem um þetta hafa fjallað, einnig skilningur hæstv. ríkisstj., að á þessum tímum sé þetta sjálfsagður hlutur. Ég veit hins vegar, að það eru til menn í þinginu, sem mega aldrei hugsa til þess, að menn fái nokkurn tíma nokkurn gróða, án þess að ríkið taki af því stóran skerf, — ja, helzt allan gróðann eða a.m.k. kúfinn af honum, en láti sömu viðkomandi aðila bera allar byrðarnar af rekstrinum og því tapi, sem honum hefur fylgt. Þetta ákvæði er ekki eingöngu gert fyrir skattþegnana. Þetta er líka gert fyrir ríkissjóðinn, þegar komið er inn á þá braut, að það er kvakað til ríkissjóðsins um að láta stórkostlegt fé af höndum til þess að halda atvinnurekstrinum áfram einmitt vegna þeirrar stefnu, sem hefur verið rekin hér í skattamálum á þessa aðila, að þeir hafa aldrei fengið frið til þess að safna neinum sjóði. — Þetta er svar mitt í sambandi við þær afskriftir.

Um allar hinar 160 skattanefndir, sem hv. þm. talaði um, get ég upplýst hann um það, að það getur vel komið til greina, a.m.k. verði ég áfram í mþn. í skattamálum, að það verði sótt fast að leggja allar þessar 160 skattanefndir niður, breyta alveg þessu fyrirkomulagi frá því, sem nú er. Ég tel, að það sé ekkert vit í því að vera að halda 160 skattanefndum í landinu til þess að peðra þessu niður á íbúana. Ég held, að það sé hægt að gera þetta miklu einfaldara og miklu kostnaðarminna fyrir ríkið og miklu öruggara. Ég skal hins vegar ekki ræða það atriði nú, það gefst kannske tækifæri til þess að ræða það síðar. Þetta er eitt af þeim atriðum, sem hafa verið rædd í mþn. og er óútrætt þar, en verður áreiðanlega rætt frekar, hvort ekki sé hægt að gera þetta allt saman einfaldara og ódýrara fyrir ríkissjóð.

Ég held, að það hafi ekki verið annað, sem ég þurfti að svara í sambandi við athugasemdir frá hv. 1. þm. N–M., en ég skal þá aðeins segja nokkur orð í sambandi við brtt. á þskj. 730 og þau ummæli. sem féllu frá hv. frsm. minni hl.

Það hafði líka komið mjög til umræðu í mþn. sú stefna, sem mörkuð er í 1. brtt. hans, og fara jafnvel enn lengra en þar er ákveðið. Það var m.a. rætt í n. að fella niður alveg allar upphæðir, sem væru undir 100 kr., á sama hátt og ætlazt er til í brtt., og enn fremur allar upphæðir, sem væru fyrir neðan 200 kr., er lagðar væru á alla þá aðila, sem eru frá 16 ára til 21 árs og yfir 65 ára. Um þetta varð ekki samkomulag í n., ekki af því, að það væri andúð gegn þessu út af fyrir sig, síður en svo, heldur vegna þess, að sú upphæð, sem þetta hefði kostað ríkissjóðinn, sem hv. þm. sagði að mundi nema um einni millj. kr., rúmaðist ekki innan þess, sem búið var að gera samkomulag um í sambandi við rýrnun tekna til ríkissjóðs, nema því aðeins að leggja þessa byrði á einhverjar aðrar herðar. Þetta vildi ég láta koma fram hér, að það er ekki gert af andúð á þessu fólki og það er ekki heldur gert vegna þess, að við teljum ekki, að það sé raunverulega eðlilegast að gera það, heldur var á þessu stigi málsins ekki hægt að koma þessu fyrir innan þessara takmarka, nema taka það einhvers staðar annars staðar. Þetta er því eitt af þeim atriðum, sem verður áfram haldið að ræða um og e.t.v. að breyta á næsta ári eða þegar gengið verður frá heildarendurskoðun laganna.

Um 2. brtt. hv. þm. vil ég segja það, að hann vill bæta hér inn í þeim öðrum aðilum, sem sækja þurfa atvinnu til staða fjarri heimilum sínum, en sjómönnum á fiskiskipum og draga einnig frá dvalarkostnað þeirra. En hér er einmitt gengið á móts við þá, sem vilja marka þá stefnu, sem verið er að reyna að marka með þessu frv., og hv. þm. vill fara enn lengra inn á þá braut, þ.e. að gefa þeim mönnum meiri fríðindi, sem vinna að fiskveiðum. Báðir hv. þm., sem flytja þessa till., hafa borið fram till. um að fara miklu lengra í að gefa hlunnindi þeim aðilum. sem vinna að fiskveiðunum, gefa þeim skattfrjálsan 1/3 af sínum launum, en á sama tíma eru þeir að tala um, að það sé alveg sjálfsagður hlutur að láta aðra í landinu njóta þessara sömu fríðinda. Þetta rekst nú nokkuð á, finnst mér. Mér er hins vegar alveg ljóst, að þegar búið er að gefa öllum fiskimönnum í landinu takmarkalaust skattfrelsi á einum þriðja af þeirra tekjum, þá koma einmitt kröfur einnig frá þeim aðilum, sem hér eru að bera fram þessa kröfu, um að láta aðra menn í þjóðfélaginu njóta sömu réttinda, svo að það sé ekki verið með neitt misrétti hér á þegnana. Fyrst eru haldnar hér langar hrókaræður um það, að það sé of skammt gengið í sambandi við fríðindi sjómannanna; svo eru af þessum sömu mönnum haldnar enn aðrar hrókaræður um það, hvers vegna aðrir menn séu ekki látnir fylgja þessum mönnum í þeim fríðindum. sem hér er verið að gefa. Ég held, að hv. Alþ. eða a.m.k. hv. meiri hluti Alþ. taki nú ekki svona gagnrýni mjög alvarlega. Hér hefur hv. þm. einnig talið nauðsynlegt, að hafður væri sá fyrirvari, að þetta væri allt eftir mati skattayfirvaldanna, og er þar á sömu skoðun og ég í því máli.

Þá vil ég aðeins segja nokkur orð um 3. brtt. Hún hafði ekki verið rædd í mþn. En ég vil segja það persónulega frá mínu sjónarmiði, að ég tel, að það komi mjög til athugunar við áframhaldandi endurskoðun skattalaganna að taka upp einhverja þá reglu eða hliðstæða reglu og hér er farið fram á. Ég hafði borið fram í mþn. í skattamálum að taka upp reglu um skattfrelsi á því, sem lagt er til hliðar af sparifé, og aðrir nm. höfðu haft einnig um það bæði frumtillögur og umræður, og það var mjög mikill áhugi manna að gera eitthvað í þá átt, að ekki væri tekinn skattur af ákveðnum tekjum manna, ef það væri sett á sparisjóði eða til einhvers annars, nokkuð líkt og farið er hér fram á. En einmitt vegna þess, að ekkert af þessu rúmaðist innan þeirra takmarka, sem n. voru sett, eins og þegar er kunnugt, þá var ekki hægt að ræða þetta mál til hlítar, en ég tel sannarlega, að það komi mjög til athugunar, að eitthvert slíkt ákvæði verði sett til frambúðar í lögin, og vænti þess, að hv. frsm. minni hl. geti fallizt á, að það sé ekki eðlilegt, að slík brtt. sé sett inn við 3. umr. í síðari d., því að sjálfsögðu þarf að hugsa um ýmis önnur atriði í sambandi við þetta, sem framkalla einnig, ef ekki hliðstæð fríðindi, þá a.m.k. umræður um hliðstæð atriði. Þetta er það eina, sem ég vildi segja um þessa till.

Að síðustu vil ég svo út af aths. hv. frsm. minni hl. um sambúðarfólk segja það, að ég er honum ekki alveg sammála um þetta atriði. Ég tel, að þetta atriði í skattalöggjöfinni þurfi engu að breyta í sambandi við þau ákvæði, sem eru í tryggingalöggjöfinni um þetta fólk, og ekki heldur því, sem hann talaði hér um, að það þyrfti að breyta iðgjöldunum. Það er alveg ákveðið ákvæði um það í tryggingalöggjöfinni, að iðgjöld skuli þar leggja á hjón og á fólk, sem býr saman. Hv. þm. hefur meira að segja fylgt þeirri reglu í framkvæmdinni, að ef þau hafa búið saman og átt börn saman, þá hefur stofnunin skoðað það eins og um hjón væri að ræða, og þau hafa einnig greitt iðgjöld eftir hjónareglum og konurnar fengið ekkjubætur, ef þær hafa átt börn með mönnum, sem þær hafa búið með. Þetta veit hv. þm., og ég sé ekki, að þessu raski nokkurn hlut það ákvæði, sem hér er um að ræða. Þau fá hins vegar ekki sama rétt í sambandi við skattaframtal, nema því aðeins að þau séu hjón, og þau eru sannarlega ekkert of góð til þess að ganga undir það jarðarmen, — ef það mætti orðast svo, — úr því að þau búa saman, eiga börn saman, að fylgja þá landslögum. Það á sannarlega ekki að ýta undir það, að menn hópum saman geti búið með konum, átt með þeim börn án þess að tryggja þeim jafnrétti í sambandi við eignir manna. Það er alve,g fjarri mér að vilja styðja að því, að þessu ákvæði í frv. verði breytt, enda hefur ekki hv. þm. borið fram neinar brtt. í sambandi við það.