08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Út af brtt. hv. 1. þm. N–M. við till. mína og hv. 10. landsk. (GÍG) vil ég taka fram, að ég get fallizt á hana og mun greiða henni atkv. Nái hún samþykki, mun ég að sjálfsögðu óska eftir því, að till. þannig breytt verði samþ. af hv. dm.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. sagði um þær ábendingar, sem ég gerði hér áðan í sambandi við breytingar á skattlagningu sambúðarfólks, þykir mér rétt að taka þetta fram: Það var ekki mín ætlun að flytja neina brtt. við l. í sambandi við þetta atriði, heldur vildi ég gjarnan, að það kæmi hér fram í umr., að þetta hefði verið athugað. En það, sem fyrir mér vakti, var það, að það er e.t.v. nokkuð harðneskjulegt að beita þessu ákvæði nú þegar á fyrsta ári, sem ekki er leitt í l. fyrr en núna einhvern tíma í aprílmánuði og á að gilda gagnvart skattlagningu á tekjur ársins 1953, því að hugsanlegt er, að eitthvað af þessu fólki, og það mun vera þarna um töluvert margt fólk að ræða, hefði viljað breyta sinni hjúskaparstétt, ef um þetta hefði verið vitað. Það getur munað, skilst mér, fast að þúsund krónum, sem geta orðið hærri tryggingagjöld hjá fólki, ef það er skattlagt eins og gert er ráð fyrir á skattstofunni nú, eða eftir þeim aðferðum, sem áður voru hafðar, þar sem sambúðarfólk, sem var skattlagt í einu lagi, var látið greiða hjónaiðgjald til trygginganna.

Ég vildi út af ummælum hv. frsm. segja það, að það er ekki Tryggingastofnunin, sem leggur þessi gjöld á. Samkvæmt lögum eru það skattanefndir, sem ákveða gjöldin, og það eru þær, sem setja reglurnar um þetta, að sjálfsögðu að nokkru leyti í samráði við Tryggingastofnunina. Og ég minnist þess ekki, að neins staðar í lögunum séu ákvæði um það, að iðgjöld á sambúðarfólk skuli vera önnur en á tvo einstaklinga. Það er aðeins framkvæmdaratriði, sem hefur byggzt á þeirri túlkun, að sambúðarfólk, sem er skattlagt eins og hjón til ríkisins, sé einnig skattlagt eins og hjón til Tryggingastofnunarinnar. Um leið og framkvæmdin gagnvart ríkissjóði breytist, telja skattayfirvöldin — og sennilega réttilega, að það hljóti einnig að breytast tilsvarandi að því er snertir álagningu iðgjaldanna.

Það, sem ég því vildi vekja athygli á með þessu, er nánast það, hvort ekki væri til athugunar að veita einhverja undanþágu frá því nú á fyrsta ári, ef þetta ásamt öðru mætti verða til þess, að fólk tæki heldur á sig hnapphelduna — held ég hv. frsm. hafi orðað það — en að vera í þessum lausakaupum áfram.