29.03.1954
Neðri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

168. mál, fyrningarafskriftir

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þegar mál þetta var til meðferðar í fjhn. hv. d., skrifaði ég undir nál. með fyrirvara. Þegar mál þetta var tekið til 2. umr. á síðdegisfundi, var ég fjarstaddur, bundinn við önnur skyldustörf, og gat því ekki þá gert grein fyrir því, í hverju fyrirvari minn er fólginn, en ég vil nú leyfa mér að gera það með örfáum orðum.

Þegar málið var rætt í n., vakti ég athygli á því, að reglurnar, sem nú giltu um heimild til sérstakra fyrningarafskrifta, væru að ýmsu leyti ófullkomnar og jafnvel varhugaverðar. Í þessum reglum felast geysileg skattfríðindi til handa þeim fyrirtækjum, sem þessi heimild tekur til. En reglunum er að ýmsu leyti ábótavant. Það er t.d. sérstök nauðsyn á að setja þá um leið miklu ýtarlegri og strangari reglur en nú gilda um heimild til þess að draga viðhaldskostnað eigna frá tekjum, áður en skattur er á þær lagður. Enn fremur benti ég á, að nauðsynlegt væri að setja sérstakar reglur, sem gera það að verkum, að þær tekjur, sem verða skattfrjálsar vegna hinna háu fyrningarafskrifta, yrðu skattlagðar, ef hlutaðeigandi fyrirtæki eða atvinnurekandi selur eign sína. Það er sjónarmið út af fyrir sig að veita fyrirtækjum mikil skatthlunnindi með háum fyrningarafskriftum, meðan framleiðslutækin eru í eigu skattgreiðandans, en það er fráleitt að láta þessi skattfríðindi haldast, eftir að eigandi framleiðslutækisins hefur selt það með miklum hagnaði. Ég kvaðst vilja bíða eftir því, hvort von væri á einhverjum breytingum um þetta efni í skattafrv. hæstv. ríkisstj. Ein gr. þar fjallar um nokkra breytingu í þessu efni, þar sem svo er kveðið á, að fyrningar, sem áður hefðu verið skattfrjálsar, skyldu verða skattskyldar, ef eignin væri seld fyrir verð, sem væri hærra en bókfært verð, en þó á þessi skattskylda ekki að ná til fasteigna og skipa. Ég tel mjög varhugavert, að skattfrelsið skuli eiga að haldast af fyrningu skipa, sem heimilt er að afskrifa á fimm árum samkv. þessu frv., ef samþ. verður, og mun ég bera fram brtt. um það efni. En hitt þyrfti einnig, ef haldið er áfram á þessari braut að veita jafngífurleg skatthlunnindi og gert er með þessum háu fyrningarafskriftum, að gera öll þessi ákvæði ýtarlegri og þó alveg sérstaklega að takmarka heimild manna til þess að draga frá tekjum viðhaldskostnað af þessum eignum. Mér skilst, og styðst það raunar við nokkra athugun, að ef þessi ákvæði fá að gilda áfram, eins og gert er ráð fyrir í frv., og venjur skattanefnda hvað snertir heimild til frádráttar á viðhaldskostnaði, þá sé svo um ýmis fyrirtæki, ég nefni hraðfrystihús sem dæmi, að það er varla hugsanlegt, að þau græði svo mikið, að þau geti ekki komizt undan að greiða skatt, með tilliti til þeirra fyrningarreglna, sem hér er gert ráð fyrir, og gildandi venja um viðhaldsfrádrátt. En það nær auðvitað engri átt að hafa skattareglur þannig, að fyrirtæki, þótt þau stórgræði, skuli geta komið sér undan skattgreiðslu beinlínis samkv. gildandi lagareglum. Hér þyrfti því talsvert um að bæta, ef þessar reglur eiga að halda áfram að vera í gildi. Sumpart er hægt að laga þetta við meðferð tekjuskattslaganna, og mun ég á þeim vettvangi gera till. um það. En ég vildi ekki láta umr. málsins ljúka í d. án þess að gera grein fyrir þessum sjónarmiðum, sem ég einnig vakti athygli á í hv. fjhn. Fyrirvari minn var þessu atriði bundinn.