03.11.1953
Neðri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

6. mál, gengisskráning

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég ætla að fara örfáum orðum um till. hv. þm. A-Húnv. (JPálm) á þskj. 116, en þar er lagt til, að verðlagsuppbót opinberra starfsmanna skuli bundin allt næsta ár við vísitöluna 1. des. 1953. Ég verð að segja, að hv. þm. A-Húnv. hefur farið talsvert fram frá því í fyrra. Þá lagði hann til, að vísitöluuppbót opinberra starfsmanna skyldi lækkuð um helming. Hann ætlaði opinherum starfsmönnum í fyrra, þessi hv. þm., að búa við lægri vísitöluuppbót en allir aðrir launþegar í landinu, sem fengið hafa með frjálsum samningum rétt sinn til fullrar eða nær fullrar vísitöluuppbótar viðurkenndan. Það er ánægjulegt, að hv. þm. skuli ekki sýna slíka till. hér aftur nú, enda var hún vægast sagt óvinsamleg í garð opinberra starfsmanna, sem ekki verður um sagt, að hafi notið sérstakrar hylli ríkisvaldsins á undanförnum árum. Kaup þeirra hefur hækkað seinna og minna en allra annarra stétta í þjóðfélaginu, sem hafa frjálsan samningsrétt um kaup sitt og kjör. Opinberir starfsmenn hafa á undanförnum verðbólguáratug orðið harkalega aftur úr í kapphlaupinu við dýrtíðina. Þeir hafa verið sá launamannahópurinn, sem ávallt hefur fengið sína kauphækkun síðast og oft og einatt minni en aðrar stéttir, sem hafa getað samið við vinnuveitendur sína í frjálsum samningum. Þess vegna kom það vægast sagt mjög undarlega fyrir sjónir, þegar þessi hv. þm., sem er einn af helztu áhrifamönnum Sjálfstfl., sýndi launabaráttu opinberra starfsmanna svo opinberan fjandskap sem átti sér stað í fyrra. Þess vegna ber því nú að fagna, að hann skuli ekki flytja slíka till. aftur.

En það kemur þó fram í þessari till., að enn er hv. þm. nokkuð í nöp við opinbera starfsmenn, því að hann ætlar þeim það verri hlut en öðrum launamönnum, að þeir skuli verða að sætta sig við sömu kaupuppbót í heilt ár, jafnvei þó að vísitalan breytist, sem líklega má búast við samkvæmt fyrri reynslu að verði frekar til hækkunar en til lækkunar. Auðvitað skal það játað, að ef vísitalan breyttist til lækkunar, væri þetta opinberum starfsmönnum til hagræðis, þýddi kauphækkun fyrir þá, en þessi hv. þm. er ekki vanur að leggja til kauphækkanir og allra sízt til opinberra starfsmanna, svo að í þessu felst vafalaust hans spádómur um það, hver verðlagsþróunin muni verða á næsta ári. Í þessu felst dómur hans um það, að vísitalan muni á næsta ári enn verða á uppleið, því að hann mundi vafalaust að öðrum kosti ekki leggja til, að verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna yrði bundin. En ég sé enga ástæðu til þess, að aðrar reglur gildi um opinbera starfsmenn en aðra launþega hvað þetta snertir, og sízt eðlilegt, að kaup þeirra sé bundið í lengri tíma en annarra stétta, sem hafa frjálsan samningsrétt. Viss rök mætti hins vegar færa fyrir því, að opinberir starfsmenn fengju mánaðarlegar uppbætur, þótt aðrir, sem hafa frjálsan samningsrétt, fái uppbætur á aðeins þriggja mánaða fresti, vegna þess að það er sannað mál, að opinberir starfsmenn hafa undanfarin ár orðið á eftir þeim stéttum, sem hafa frjálsan samningsrétt. Og reynist sá spádómur hv. þm. A-Húnv. réttur, að verðlag muni á næsta ári fara hækkandi, þá væri út af fyrir sig ekkert óeðlilegt, að opinberir starfsmenn fengju mánaðarlega vísitöluuppbót, þrátt fyrir það að aðrar stéttir fá sína uppbót aðeins á þriggja mánaða fresti, eins og lagt var til í till. hv. 2. þm. Reykv.

Í sambandi við þetta mál vildi ég leyfa mér að beina einni fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. og þá líklega helzt hæstv. fjmrh., en hún er um það, hvað líði endurskoðun launalaganna, en svo sem kunnugt er, var fyrir nokkrum árum skipuð n. til þess að endurskoða launalögin og færa þau til betra samræmis en nú á sér stað við laun annarra stétta í þjóðfélaginu, en það kveður nú þegar allmikið að því, að launalögin séu sniðgengin vegna þess, að augljóst er orðið, að þau samrýmast ekki því kaupgjaldi, sem greitt er t.d. í opinberum fyrirtækjum, sem ekki lúta launalögunum, hvað þá í einkarekstrinum. Það er enn orðið sams konar ástand og var orðið áberandi og óviðunandi 1946, að laun opinberra starfsmanna hafa dregizt verulega aftur úr, jafnvel launum manna í opinberum fyrirtækjum, sem ekki lúta launalögum, hvað þá launum manna í einkarekstri. Þetta misræmi er orðið svo áberandi, að ekki er lengur við það unandi, og mér finnst það hafa dregizt óhæfilega lengi hjá hæstv. fyrrverandi ríkisstj. að koma þessari endurskoðun í kring. Henni hafði verið lofað fyrir tveimur til þremur árum. Það loforð er enn þá óefnt. Þess vegna leyfi ég mér að spyrjast fyrir um það, hvað þessu máli liði. Ég veit, að það er opinberum starfsmönnum mikið áhugamál, að þessari endurskoðun ljúki sem fyrst, því að ekki getur farið hjá því, að hún leiði til þess, að um réttarbætur þeim til handa verði að ræða, og það er von, að þeir séu orðnir langeygðir eftir þessum réttarbótum.