30.03.1954
Efri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

184. mál, fasteignaskattur

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til að gera þetta frv. að miklu umræðuefni, en hv. frsm. n. drap á það í upphafi máls síns, hvílíkum vandræðum sveitarfélög landsins eru í með sín fjárhagsmál. Það hefur árum saman verið alkunnugt, að þau eiga ekki greiðar leiðir út úr þeim ógöngum, sem þau eru komin í, með því að ríkissjóður sjálfur hefur farið allar þær leiðir, sem finnanlegar hafa verið til þess að leggja á skatta og taka þá í sinn vasa. En ég vil aðeins láta það koma fram af minni hálfu, að ég lít ekki á þetta mál sem hina allra minnstu úrbót í þessum efnum fyrir sveitarfélög landsins. Ef einhver vildi halda því fram, að það, að fasteignaskattur, sem til þessa hefur runnið í ríkissjóð, en á nú samkvæmt þessu frv. að renna til sveitarfélaga landsins, væri einhver úrbót í fjármálum sveitarfélaga, þá er það hin argasta blekking. Fasteignaskattur sá til ríkissjóðs, sem er um að ræða í þessu frv., er í fjárl. þessa árs, ef ég man rétt, áætlaður um 700 þús. kr. á öllu landinu, og skal ég t.d. geta þess, að hv. 10. landsk. (GÍG) upplýsti mig um það hér rétt áðan, að í öllu hans umdæmi, Gullbringu- og Kjósarsýslu með Hafnarfirði, hefði þessi skattur árið 1951 numið innan við 50 þús. kr. Ég held, að allir sjái, að slíkar upphæðir sem hér er um að ræða hafa lítið að segja fjárhagslega fyrir sveitarfélög landsins í heild sinni, því að þau munu nú leggja á útsvör, sem nema hátt á annað hundrað milljónum króna. En eigi að síður sé ég mér ekki fært að leggjast á móti þeim brtt., sem hv. n. flytur við þetta frv. og eru þess efnis, að sveitarfélögum sé gert að skyldu að innheimta þennan óverulega skatt.

En ég vil benda á, að eins og það mun varla nema fyrirhöfn og kostnaði við innheimtu þessa skatts fyrir embættismenn ríkisins eins og nú er, þá er það áreiðanlega enginn greiði og e.t.v. bara hermdargjöf að gera sveitarfélögunum að skyldu að innheimta þennan skatt, þó að hann eigi að falla til þeirra. Ég er alveg viss um, að t.d. í sveitarfélagi, sem ég hef með að gera, er þessi skattur ekki fyrir innheimtukostnaði á honum.

Ég býst nú ekki við, að því verði haldið fram neins staðar, að með þessu frv. sé gengið til móts við sveitarfélög landsins og bætt úr þeirra fjárhagsvandræðum í neinni alvöru, en það má vera, að þessu hafi verið slegið fram eða verði slegið fram. Það er nú sýnilegt, að á útsvarslögum, sem hafa verið í endurskoðun ásamt l. um tekju- og eignarskatt, verður engin breyting gerð sveitarfélögunum til hagsbóta á þessu þingi.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða það mál heldur nú. Ég vona, að hv. stjórnarflokkum sé ljóst, að það getur ekki beðið mörg ár enn, að fjárhagsmál sveitarfélaganna verði tekin til alvarlegri og ábyrgari meðferðar en hefur verið gert og er enn gert á þessu þingi. Ég vil aðeins láta það koma fram, að þetta frv., sem hér er á ferðinni, hefur alls enga þýðingu í þeim efnum, og er enginn greiði gerður sveitarfélögum landsins með því að gefa þeim þennan skatt og leggja á þau innheimtu hans.