03.11.1953
Neðri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

6. mál, gengisskráning

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það eru ummæli frá 1. landsk. (GÞG), sem gefa mér tilefni til að segja hér nokkur orð til viðbótar. Hann gat þess í upphafi varðandi mína till., að hún þýddi framför frá minni hálfu frá því á síðasta þingi, en mér skildist nú heldur eða mátti heldur taka það svo sem það væri undanhald. Og það er rétt, að þetta er undanhald, því að ég álít það sanngjarnt, að það væri eitthvað öðruvísi að farið í okkar þjóðfélagi varðandi þessa vísitöluskrúfu almennt en gert hefur verið á undanförnum árum, vegna þess að hún hefur stefnt og stefnir til þess að eyðileggja allt okkar fjármálakerfi. Út í það skal ég ekki mikið fara. — Ég flutti þá till. í fyrra, að ekki væri borgað nema 50% af vísitölunni. Hún fékk ekki neitt fylgi, og þess vegna vil ég reyna að fara skemmra nú og flytja till. um það, að það gildi sama vísitala allt árið um kring.

Þá sagði þessi hv. þm. eitthvað á þá leið, að minar till. í þessu efni sýndu fjandskap í garð opinberra starfsmanna. Þetta er nú náttúrlega alveg út í bláinn sagt og hrein fjarstæða, enda mætti nærri geta, að ég er ekki sá auli, hvað sem skoðunum liður, að mér detti slíkt í hug, að sýna nokkurri stétt í okkar þjóðfélagi fjandskap eða óvild, ekki snefil af óvild, hvað þá heldur fjandskap. Þessi orð eru þess vegna algerlega út í bláinn sögð. Það, sem hér vakir fyrir mér, er ekkert annað en það, að ég tel það sanngjarnt, að meðan vísitölukerfið er þó í gildi, þá hafi fastlaunaðar stéttir annað fyrirkomulag á vísitölukaupi heldur en verkamenn, sem hafa ótrygga atvinnu og geta alltaf átt það á hættu að verða atvinnulausir svo og svo langan tíma af árinu.

Varðandi það, að opinberir starfsmenn séu illa settir, þýðir ekkert að þræta um þann mun,

því að við hv. þm., sem er úr launastéttunum, og ég og aðrir, sem erum úr framleiðslustéttunum, getum sjálfsagt aldrei orðið sammála um þann hlut, en það eina, sem sker úr í því efni, er það, að helzt allir menn í landinu vilja komast á föst laun og hafa viljað það á undanförnum árum. Það þykir ekkert sérstaklega eftirsóknarvert að vera í verkalýðsstétt og eiga það undir högg að sækja oft og einatt, hvort maðurinn fær atvinnu eða fær hana ekki. Það er komið svo með útgerðarmenn, bændur, iðnaðarmenn og fleiri, og það sýnir reynslan, að fjöldinn af þeim mönnum, sem stunda þá atvinnu, getur ekki látið reksturinn bera sig, nema því aðeins að fá beina eða óbeina styrki frá hinu opinbera, annaðhvort bæjar- og sveitarfélögum eða ríkinu sjálfu. Þetta er staðreynd, sem er búin að sýna sig undanfarin mörg ár, og það er víst, að um hvert einasta fastlaunað starf, sem losnar, sækir fjöldi manna og það af þeirri ástæðu, að það er talið æskilegast að komast í þá stöðu. Það þýðir þess vegna ekkert fyrir menn úr hópi opinberra starfsmanna að slá því fram, að þessir menn hafi verri aðstöðu í okkar þjóðfélagi en annað fólk. Það er þvert á móti.

Að öðru leyti skal ég ekki neitt fjölyrða hér um þetta mál almennt. Ég geri ráð fyrir því, að örlög minnar till. séu ráðin eins og áður, vegna þess að hér eru fastlaunaðir menn á Alþ. alltaf í meiri hluta og tryggja sinn hag þannig, að þeim er nokkurn veginn borgið.