13.10.1954
Neðri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

3. mál, ríkisborgararéttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í frv. það, sem hér liggur fyrir um veitingu ríkisborgararéttar, hafa aðeins verið teknir fjórir umsækjendur. En þannig stendur á, að dómsmrn. tók nú upp þá nýbreytni frá því sem verið hefur, að auglýst var eftir umsækjendum um ríkisborgararétt, og var beint til þeirra, að þeir skyldu hafa gefið sig fram á tilteknum tíma, sem var miðað við, að hægt væri að kynna sér nokkuð umsækjendur með hæfilegum fresti, áður en Alþingi kæmi saman. Þó að tekið væri fram, að auglýst væri eftir endurnýjun umsókna þeirra, sem áður höfðu sótt og ekki fengið réttinn, þá hafa enn aðeins borizt umsóknir frá þremur af þeim sjö, sem voru upphaflega í frv. því, sem lá fyrir siðasta þingi og varð ekki útrætt þá. Og við þessa þrjá, sem dómsmrn. hafði tekið upp í frv. sitt fyrir síðasta þing, hefur aðeins einn umsækjandi bætzt, sem fullnægir hinum ýtrustu kröfum um dvalartíma hér á landi, en rn. hafði haldið sér við þær kröfur, sem áður hafði verið fylgt frekast í þessum efnum. Hins vegar, eins og þingmenn ef til vill muna, voru komin 37 nöfn á frv., er það dagaði uppi á síðasta þingi, og var verulegur ágreiningur milli hv. Ed. og Nd. um þær meginástæður, sem ættu að ráða því, hvort menn skyldu fá ríkisborgararétt eða ekki. Rn. hefur ekki viljað blanda sér í þessar deilur og þess vegna haldið sér við þessar reglur, sem það áður hefur fylgt um undirbúning frv., og eftir þeim komust ekki fleiri af umsækjendum að en þeir fjórir, sem hér eru taldir. Hins vegar verða auðvitað umsóknirnar allar, sem koma, jafnóðum og þær koma, sendar til nefnda Alþingis, og geta þá nefndirnar tekið til athugunar, hvort þær vilja hvor um sig leggja til, að málið verði afgreitt eins og þær gerðu í fyrra, eða hvort reynt er að fá samkomulag milli deildanna um reglur, er hægt yrði þá að fylgja í framtíðinni og undirbúa slík lög hér eftir með hliðsjón af þeim reglum, sem vitað er að Alþ. muni fylgja, en engar slíkar reglur eru nú fyrir hendi.

Ég kemst svo ekki hjá því að vekja athygli á, að við höfum hér upp í 2. gr. frv. tekið það ákvæði, sem undanfarið hefur verið samþykkt á Alþingi og við töldum rétt að því fylgdi með hér, að þeir, sem heita erlendum nöfnum, skuli þó ekki öðlast íslenzkan ríkisborgararétt eftir lögum þessum fyrr en þeir hafa fengið íslenzk nöfn samkv. lögum o.s.frv. Við framkvæmd þessa ákvæðis mundi hins vegar strax koma verulegt vandamál, þar sem er fyrsta nafnið, sem hér er talið, þar sem er Adolf Björn Petersen, sem hefur að vísu misst íslenzkan ríkisborgararétt, en er fæddur Íslendingur og af íslenzku bergi brotinn mann fram af manni, þó að hann beri þetta nafn með nokkuð erlendum keim. En ég mundi hafa tilhneigingu til að líta svo á, að þótt maður beri slíkt erlent ættarnafn, sem hefur viðgengizt hér áratugum saman, ef ekki lengur, verði það í þessu sambandi að teljast íslenzkt nafn og eins hans fornafn. En það eru mörg vandamálin, sem upp koma við samningu slíkra frv., og ég vildi vekja athygli á því við hv. n., að við athugun málsins sýndist okkur verulegur vafi á, hvernig um þetta atriði mundi fara. — Ég legg svo til, að málið fari til 2. umr. og hv. allshn.