22.03.1955
Neðri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

3. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég get látið nægja að vísa til nál. allshn., sem er á þskj. 472, þar sem gerð er grein fyrir till. n., sem hún flytur við frv., og færðar fram höfuðástæðurnar fyrir því, að n. leggur til, að menn þeir, er getur um á þskj. 473, fái íslenzkan ríkisborgararétt.

Ég ætla, að hv. þm. geti af nál. séð ástæðurnar fyrir því í grundvallaratriðum, á hverju nefndin byggir þessar till. sínar. Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að vera má, að n. hafi ekki borizt allar þær till., sem snerta umsóknir þeirra manna, er í þetta sinn hafa óskað eftir að fá íslenzkan ríkisborgararétt, því að þeir eru miklu fleiri en kemur fram á þskj. 473. Það eru allmargir menn, sem skortir ýmislegt á, að n. gæti tekið tillit til óska þeirra. Ég hef t.d. orðið þess var um eina umsókn, að þau skjöl, sem áttu að fylgja umsókninni, eru nýlega komin fram, og mun n. taka það ásamt öðrum atriðum til frekari íhugunar á milli 2. og 3. umr.

Viðvíkjandi till. n. að öðru leyti, þá eru hér þrír menn, sem eru á þskj. 473 og ekki uppfylla nákvæmlega þau skilyrði, sem n. varð að leggja til grundvallar. En umsóknir þessara manna eru þess eðlis, að n. sýndist sanngjarnt og rétt að verða við óskum þessara þriggja umsækjenda. Ég vil í því sambandi fara um þær nokkrum orðum.

Það er þá tölul. 13. Það er Guðrún Ólafsdóttir, sem er fædd á Íslandi, hefur heimilisfang sitt nú í Reykjavík, er af íslenzku foreldri og hér upp alin. Fór til Ameríku og dvaldi þar afar lengi. Er nú nýlega komin hingað til lands og er hjá venzlafólki sínu eða skyldfólki hér í Reykjavík. Þessi kona er fædd 1879, svo að hún er mjög við aldur, og ætlar sér að dvelja hér heima það sem eftir er ævinnar. N. sýndist, þar sem svona stendur á, að sjálfsagt sé að verða við óskum þessarar konu, og þess vegna leggur n. til, að hún fái hér íslenzkan ríkisborgararétt, því að með dvöl sinni erlendis hafði hún tapað honum.

Þá er tölul. 30. Það er Kolsö, Reidar, stýrimaður í Reykjavík, sem fæddur er í Noregi 1902. Þessi maður kom hingað til íslands 1942. Hann kvæntist íslenzkri konu 1943 og hefur átt hér heima síðan, en stundum hefur hann fallið út af manntali, og það er sakir þess, að hann hefur haft sína atvinnu í siglingum á erlendum skipum. Þessi hjón eiga 3 börn, og jafnan þegar hann hefur haft frí, hefur hann komið hér heim til fjölskyldu sinnar og verið á meðan fríið varaði. En að því loknu hefur hann aftur farið til atvinnu sinnar, til siglinga. Stundum hefur hann verið sem stýrimaður á skipum, en stundum sem skipstjóri. Hann hefur ekki getað fengið hér þessa atvinnu, sakir þess að hann er ekki íslenzkur ríkisborgari, og hefur því ekki getað stundað sína atvinnu hér og orðið þess vegna að leita í siglingar til annarra landa. N. sýndist, þar sem komið er í ljós um jafnlangan tíma, að maðurinn hefur rækt sínar skyldur við sitt heimili og borið mjög fyrir brjósti hag sinnar fjölskyldu og í hvert sinn, sem eitthvert hlé varð á atvinnu hans eða hann hefur fengið frí frá störfum, þá hefur hann komið heim og verið hjá fjölskyldu sinni, að þar sem svo stæði á, þá væri sjálfsagt að verða við óskum þessa manns og velta honum íslenzkan ríkisborgararétt, þar sem enn fremur maðurinn getur ekki annað vegna starfa síns en leitað í burtu, unz hann fær íslenzkan ríkisborgararétt. Þetta sýndist n. svo ríkar ástæður, að það væri hvorki sanngjarnt né rétt að neita manninum um íslenzkan ríkisborgararétt.

Þau meðmælaskjöl, sem hann leggur fram, eru hin ágætustu um framkomu hans og hegðun alla, og sú vitneskja yfir höfuð, sem menn hafa um hann, ber honum gott vitni. Fyrir þessar sakir leggur n. til, að hann fái íslenzkan ríkisborgararétt.

Þá er þriðji maðurinn. Það er töluliður 33 á þessu sama þskj. Það er Kuhn, Dietrich, námsmaður. Móðir þessa pilts er íslenzk, en dvelur erlendis, er með manni sínum þar. Faðir þessa pilts er mikill Íslandsvinur. Pilturinn var hér um nokkurt skeið. Hann kom hingað til lands 1945 og dvaldi hér þar til í október 1949. Þá fór hann heim til foreldra sinna og dvaldi hjá þeim þar til í fyrra, að hann kom aftur hingað til Íslands. Hér gekk hann í skóla, og prófskírteini hans sýnir, að þessi piltur er ágætlega getinn. Hann hefur í námsgreinum ágætispróf. Og hans meining er að setjast hér að. Honum hefur fallið dvölin svo vel hér heima, að hann hugsar sér að lifa og starfa hér. Undireins og hann kom á s.l. sumri til landsins, fór hann upp í sveit og dvaldi þar fram á haust. Nú mun hann í vetur vera hér hjá frændfólki sínu í bænum við nám, að því er mér er tjáð. Næsta vetur ætlar hann sér á búnaðarskóla hér á landi. Hann hefur í hyggju að gerast bóndi á Íslandi. Honum fellur svo vel við þau störf, að hann kýs sér ekkert annað fremur að ævistarfi. Þar sem svona er nú ástatt um þennan unga mann, öll vitneskja, sem fyrir liggur um hann, er með ágætum, hann er í aðra ætt af íslenzku bergi brotinn, og loks, að faðir hans er mikill Íslandsvinur, þá sýndist nefndinni, að það væri rétt að verða við óskum þessa unga manns. Af þessum ástæðum leggur n. til, að honum verði nú veittur ríkisborgararéttur. Hann er fæddur, þessi piltur, 1934, svo að hann er nú rétt tvítugur að aldri.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frekar af hálfu nefndarinnar. Ég ætla mér sé óhætt að taka fram, að það muni ekki vera innan n. neinn ágreiningur um þær tillögur, sem n. flytur og eru á þskj. 473. Á þskj. 474 liggur hér fyrir brtt., en hv. flm. hennar hefur ekki gert grein fyrir henni enn, og ég læt bíða að gera hana að umtalsefni.