22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

3. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þetta mál milli umræðna, 2. og 3. umr.

Fram á síðustu stundu hafa verið að berast óskir um ríkisborgararétt og það fleiri en n. hefur treyst sér til að mæla með.

N. leggur til, að til viðbótar þeim till., sem hún gerði fyrir 2. umr., verði 10 mönnum veittur ríkisborgararéttur, og réttur þeirra til þess kemur heim við þær reglur, er n. lagði til grundvallar fyrir till. sínum fyrir 2. umr.

Síðasta till., b-liður á þskj. 606, er um, að fellt verði niður síðasta nafnið í brtt., sem n. gerði fyrir 2. umr. Það er sakir þess, að sú kona, sem hafði óskað eftir ríkisborgararétti, hefur nú flutt úr landinu, flutt til útlanda, og þess vegna gerir nefndin að tillögu sinni, að nafn hennar verði fellt niður.

Um einstakar till., sem n. leggur til, þarf ég ekki að fjölyrða, en eina af þeim till., sem fyrir lágu við 2. umr. og er á þskj. 474, hefur n. tekið til greina. Aðrar till., sem fyrir lágu við 2. umr. og voru teknar aftur til 3. umr., þ.e. till. á þskj. 495 og á þskj. 509, svo og brtt. á þskj. 602 og á þskj. 603, getur n. ekki fallizt á, og það er sakir þess, að það fólk, sem þær fjalla um, skortir nokkuð upp á, að það fullnægi þeim skilyrðum, sem n. lagði til grundvallar fyrir till. sínum, og ég ætla, að það sé nauðsynlegt fyrir hv. Alþ. að taka upp einhverjar fastar reglur í þessu efni, að fólkið sé búið að dvelja og kynna sig hér um nokkurra ára skeið, áður en það öðlast ríkisborgararétt. Ég held, að það sé alveg nauðsynlegt, að þingið taki þar upp fasta reglu, til þess að ekki sé stefnt í óefni. Ríkisborgararétturinn er það mikilvægur fyrir hvern þegn, að þegar um útlending er að ræða, má ekki minna vera en menn hafi haft um nokkurt skeið kynni af manninum og hátterni hans, áður en hann fær þennan rétt. Undir þeim kynnum á það svo að vera komið, hvort hann öðlast þennan rétt eða ekki. En þegar menn hafa dvalið tilskilinu tíma og sýnt með hérveru sinni, að um góða menn og gegna er að ræða, þá álít ég, að eigi að veita slíku fólki þennan rétt.

Ég vil vísa hv. þm. til nál., sem n. gaf út fyrir 2. umr. og er á þskj. 472. Þar geta menn séð, hver eru þau almennu skilyrði, sem n. hefur lagt til grundvallar. Það gat ég um við 2. umr., og ég fer ekki að endurtaka það.

Svo eru till. á þskj. 619 og 621 frá nokkrum hv. þm. N. vannst ekki tími til þess að athuga þessar till. Ég held, að ég kannist við þau nöfn, sem á þessum brtt. eru, og að það skorti upp á, að þeir uppfylli þau skilyrði, sem n. lagði til grundvallar fyrir till. sínum. Ég held, að það sé rétt, en ég vil þó ekki staðhæfa það, af því að við höfum ekki getað athugað skjölin, sem fyrir þinginu liggja um þessar umsóknir, en hv. þm., sem að þessum till. standa, hafa vafalaust kynnt sér það, hvort þeir uppfylla þau skilyrði, sem n. hafði fyrir till. sínum. Ég vil því mega vænta þess, að hv. fim. haldi þessum till. ekki mjög fram, ef þessa menn skortir eitthvað upp á, að þeir fullnægi skilyrðunum. Þeir fá vafalaust þennan rétt, ef þeir dvelja hér áfram og kynna sig vel, og mér finnst, að þeir verði að láta sér það lynda eins og aðrir að bíða þennan tilskilda tíma eftir þessum réttindum.

Þá er hér brtt. á þskj. 498, sem varðar nöfnin. Eins og hv. þm. vita, hefur nú um nokkurra ára skeið verið gert að skilyrði, að þeir menn, sem vildu öðlast íslenzkan ríkisborgararétt og hétu erlendum nöfnum, tækju sér ný heiti, íslenzk nöfn, sem lytu lögmálum íslenzkrar tungu. Þingið hefur fyrir nokkrum árum tekið ákvörðun um þetta og haldið fast við þessa ákvörðun, eins og sjálfsagt er. Mér finnst, að það eigi illa við fyrir Alþ. að láta eitt gilda í dag og annað á morgun um slíkt atriði sem þetta. Það benti til fullmikils festuleysis og hringlandaháttur af hálfu Alþ., ef það færi að gera breytingu á þessu, það væri engan veginn viðkunnanlegt, og það er ekki hægt að segja það, að það væri fullkomlega réttlátt gagnvart þeim mönnum, sem búnir eru að fá íslenzkan ríkisborgararétt og uppfylla þau skilyrði um þetta efni, sem Alþ. hefur sett. En þó er engan veginn hægt að segja, að það sé aðalatriðið í þessu máli. Aðalatriðið er, hvort menn vilja vera á verði um íslenzka tungu og íslenzkt mál, og ég verð að segja, að mér þykir mikið miður að sjá nöfn þeirra fim. á þessari till., sem að henni standa.

Ég ætla, að sagan sýni, að hver sú þjóð, sem er nokkurs nýt, metur sína tungu, sýnir ræktarsemi fortíð sinni og forfeðrum. Tvær þjóðir hafa verið tilnefndar sem dæmi um mikla menningu og þroska í þessum efnum. Önnur þjóðin er Hellenar hinir grísku, en hin þjóðin Íslendingar. Mér segja málfróðir menn, að í hellenskri tungu sé mjög lítið af útlendum orðum og þar hafi Hellenar verið mjög á verði að taka ekki upp í sitt móðurmál útlend heiti nema mjög lítið. Þó er það þessi þjóð frá fortíðinni, sem mestur ljómi er yfir um bókmenntaleg afrek og bókmenntalega menningu, og af þeim brunni hafa menn fyrr og síðar ausið í þessum efnum. Hin þjóðin, eins og ég minntist á áðan, sem hefur verið mjög á verði um þetta, er Íslendingar. Andleg afrek hinna fornu Íslendinga hafa verið gullnáma, ekki eingöngu okkar, heldur og allra Norðurlanda og germanskra þjóða.

Íslendingar hafa að vísu tekið upp allmörg orð í sína tungu, en þeir hafa samt sem áður reynt að vera á verði fyrir því, að málið spilltist ekki.

Þegar aðrar þjóðir suður í álfunni tóku upp í sín mál erlend orð og erlend heiti, leiddu latneskuna til öndvegis, eins og margar þjóðir suður í Evrópu gerðu, var það byrjunin til þess, að tunga þeirra brjálaðist og breyttist, og að lokum varð hún litt þekkjanleg. Fyrir þessar sakir týndist þeirra tunga að miklu leyti. Hjá Norðurlandaþjóðunum, þó að það væri ekki af sömu rót runnið, fór á sama veg. Það var að vísu ekki latneskan ein, sem eyðilagði málin á Norðurlöndum, en móti tungumálum Mið-Evrópuþjóðanna var tekið af Norðurlandaþjóðunum, og þeirra tungur breyttust það mikið, að lítt urðu þær þekkjanlegar, miðað við það, er áður var. Þegar þessar þjóðir voru að týna sínum tungum, þá var það, að Íslendingar mótuðu og festu gullaldarmál vort.

Einn hluti tungunnar er eiginnöfnin. Hver maður hét sínu nafni og kenndur við föður sinn. Karlmenn kölluðust synir feðra sinna, en konur dætur þeirra. Nöfnin, þ.e. nafnorðin, eru sá þáttur tungunnar, sem er einna langminnugastur á sögu þjóðarinnar. Þarf ég ekki annað í því efni en benda hv. þm. á nöfnin í okkarmáli, hvaða upplýsingar þau gefa um uppruna vorn, trú og búsetu. Hið sama má og segja um bæjarnöfnin. Þau tala sínu máli um það, hvernig útlit lands okkar hefur verið, þegar Íslendingar námu hér land í fornöld.

Þá er og annað atriði, sem gerir viðhald réttra nafna mikilsvert fyrir viðhald tungunnar. Þau eru allra orða geymnust á beygingar og réttar orðmyndir, öfugt við það, sem hinn nýi nafnasiður gerir, þar sem tekin eru upp óbeygjanleg orð. Beygingar hverfa úr málinu við töku slíkra heita, og þá ætla ég, að hraðinn verði nokkur til þess, að við týnum okkarmáli.

Eiginnöfnin hafa því verið í þjónustu íslenzks þjóðernis, og þau munu verða það áfram, ef við ekki brjálum þau.

Nafnasiður vor er merki hins mikla einstaklingsfrelsis og einstaklingsfrjálsræðis, sem einkennir þjóð vora og er skuggsjá þeirrar virðingar, sem vér og forfeður vorir höfum jafnan borið fyrir konum og rétti þeirra. Rómverski nafnasiðurinn er aftur skuggsjá þess ófrelsis og ójafnaðar, sem ríkti hjá Rómverjum.

Geymni vor á tunguna hefur því gert þjóð vora mikilsmetna meðal þjóðanna og hefur vafalaust orkað að gera okkur aftur að frjálsri þjóð.

Mér sýnist, að okkur sé skylt að feta í fótspor feðra vorra um ræktarsemi og tryggð við tungu vora og þjóðerni.

Ekki þarf um það mikið að fjölyrða, hvernig fer um ættfræðina, þegar búið væri að innleiða hinn nýja nafnasið.

Í þeim till., sem fyrir liggja nú, er ætlazt til, að veittur verði 66 mönnum íslenzkur ríkisborgararéttur. Flest eru þetta útlendingar. Hvernig lízt mönnum nú á, þegar fram líða stundir, ef sá nafnasíður ætti að haldast hjá því fólki, sem ríkisborgararéttinn fær, og niðjum þess? Gera menn sér ekkert í hugarlund, hvernig málið mundi líta út eftir nokkra áratugi?

Nú veit ég, að einhver af þessum hv. flm. kann að segja, að það sé ekki meiningin, að börn þessa fólks haldi alltaf nafninu; það séu aðeins þeir, sem nú sé ríkisborgararétturinn veittur.

En ef við nú höfum ekki neina staðfestu í þessum efnum og höldum ekki betur þær ákvarðanir í þessu efni, sem við höfum gert, heldur en þetta, að við breytum nú undireins til, hvaða tryggingu höfum við þá fyrir því, að gengið verði ettir því, að börnin leggi niður ættarnafnið eða hin erlendu nöfn og taki upp íslenzk heiti? Því held ég að menn geti ekki gert mikið úr.

Nú ber þess líka að gæta, að miðað við það, sem áður var, eru samgöngur svo miklar nú og samband vort við aðrar þjóðir, að ósambærilegt er við það, er áður var. Þess vegna verðum við að vera enn betur og meira á verði en nokkru sinni áður um að gæta okkar tungu.

Hv. 1. flm. þessarar brtt., hv. 1. landsk., og ég verð að segja að mér þykir miður að sjá hans góða nafn þarna á þessari till., lét þess getið sem meðmæla með þessari till., að það væri nokkurs virði fyrir okkur að fá þessa nýju þegna og það væri hálfgert harðræði gagnvart þeim að heimta, að þeir skiptu um nafn. En má ég spyrja: Hvað verða Íslendingar að gera, þegar þeir eru komnir til annarra þjóða og dvelja hjá þeim? Þeir verða að gera svo vel að láta sér lynda að skipta um nafn og taka upp heiti að meira eða minna leyti að háttum og lögmálum tungunnar í því landi, þar sem þeir dvelja.

Hvað er þetta svo mikill hluti af okkar þjóð, ef miðað er við tölu þjóðarinnar, sem hér er um að ræða? Það er sennilega ekki meira en 2 eða 3%, kannske ekki það, sem hér ræðir um. Getum við ætlazt til þess, að 97 eða 98% af þjóðinni setji tungu sína í hættu fyrir það að geta látið að óskum þessara manna?

Ég vil vona, að þetta fólk hugleiði það, um leið og það vill gerast íslenzkir þegnar, að þá sé það ekki að sækjast aðeins eftir réttindunum, heldur ætli það sér líka að uppfylla þær skyldur, sem því er samfara að fá íslenzkan ríkisborgararétt. Ég þykist þess fullviss, að það geri það, þegar það íhugar, hve mikilvægt þetta atriði kann að vera fyrir okkur og okkar þjóð.

Það er ekki svo að skilja, að ekki hafi það komið fyrir áður hjá okkur, að tekin hafi verið inn í tunguna erlend heiti, þó að hún hafi ekki beðið nein veruleg skakkaföll við það. En líka hefur það komið fyrir áður, að menn hafa verið misvel á verði um þetta atriði. Lærðu mennirnir hjá okkur höfðu það fyrir nokkru á orði, — síðan er að vísu liðin alllöng stund, — að það væri síður en svo á móti því að taka upp erlend orð í tunguna. Samt sem áður varð þetta ekki neitt verulegt. Og hverjir voru það þá, sem voru á verði um það, að þetta náði ekki fótfestu hér hjá okkur? Það var á þeirri tíð ómenntaða fólkið, sem kallað var. Það var alþýða landsins, sem var á verði og hélt fast við tungu feðra sinna, sýndi henni ræktarsemi og trú. Og ekki get ég neitað því, að einkennilegt finnst mér, þegar ég lit á, hverjir flytja þessa till., að það skuli þá að mestu leyti, ef ekki öllu, vera menn úr hópi þeirra manna, sem mundu vera kallaðir „lærðir menn“. Erum við þá ekki enn þá lausir við þennan vanþroska? Ég vil skírskota til alþýðu manna, að hún reynist eins og áður sjálfri sér trú, sýni fulla trúmennsku og ræktarsemi fortíð sinni og forfeðrum og sinni tungu og láti engum manni, sem stefnir að því að brjála okkar mál, heppnast það eða haldast það uppi.

Frændur vorir, Norðmenn, gripu til þess nokkru eftir aldamótin síðustu að setja löggjöf um nöfnin hjá sér. Það mikil ásókn var hjá þeim á að koma upp alls konar heitum og orðskrípum í sambandi við eiginheiti, að þeir sáu sig knúða til þess með löggjöf að koma í veg fyrir slíkt.

Því miður áttuðu þeir sig ekki nógu fljótt á því að gera það í tæka tíð, á meðan mál þeirra var óskemmt, en vafalaust hefur þetta gert sitt gagn, og efalaust hefur þeim heppnazt að sporna á móti því, að það héldi áfram að spillast.

Ég vil nú mega vænta þess, að hv. d. verði á verði um þetta mál og láti þá ákvörðun, sem Alþ. tók fyrir nokkrum árum, gilda áfram og að íslenzki nafnasiðurinn haldist. Nær væri fyrir okkur að fara fram á það, að farið væri að framkvæma betur en gert hefur verið hingað til nafnalögin frá 1925. Með þessum hv. flm. eða einhverjum öðrum, hverjum sem væri, vildi ég gjarnan ljá lið til þess að ganga eftir því, að þeirri löggjöf yrði vel framfylgt, því að það væri spor í rétta átt og það, sem við ættum að gera, en ekki að gera slíka undanþágu sem þessa eftir þeirri brtt., sem hér liggur fyrir. Það er spor í öfuga átt. Það er okkur einmitt sízt nú sæmandi að gera slíkt.

Ég vil nú mega vænta þess og beina þeirri ósk til þeirra hv. flm., sem að þessari brtt. standa, að þeir taki hana aftur, hún komi hér ekki til atkv. Það væri langsamlega skemmtilegasta afgreiðslan á þessari till. En geti þeir ekki orðið við þeirri ósk, þá skora ég á hv. d., að hún greiði þannig atkv. um þessa till., að slíkri till. skjóti hér aldrei upp oftar á Alþingi.