22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

3. mál, ríkisborgararéttur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég harma að þurfa að eiga í útistöðum við jafnmætan mann og hinn virðulega alþingisforseta, hv. 1. þm. Árn. (JörB). Ég harma það þeim mun meir, þar sem okkur ber í raun og veru ekkert á milli um það, sem við báðir teljum þó kjarna málsins. Hv. þm. lýsti því með mörgum vel sömdum og ágætum orðum í ræðu sinni áðan, hvilikt meginatriði það væri og hlyti að vera í þjóðernisbaráttu okkar Íslendinga að standa trúan vörð um tunguna. Hann lagði á það mikla áherzlu, að okkur bæri að meta málið mikils og sýna ræktarsemi sögu okkar og forfeðrum. Um þetta allt saman er ég honum fyllilega sammála. Ég er þess fullviss, að ég get sagt það sama um hina fjóra aðra alþm., sem flytja till. á þskj. 498 með mér. En sannleikurinn er sá, og fyrir því tel ég hægt að færa óyggjandi rök, að efni þeirrar till. er fullkomlega samrýmanlegt því að vilja vera á verði um íslenzka tungu, meta hana og gildi hennar fyrir þjóðernið og sýna sögu Íslendinga og minningu forfeðranna ræktarsemi.

Hv. þm. byggði alla ræðu sína á því, að hér væri uppi till. um það, að hinir fjölmörgu nýju ríkisborgarar haldi hinum erlendu nöfnum sínum. Oll röksemdafærsla hans snerist um það, hvílík skaðsemd það væri, ef inn í málið kæmust og festust þar fjölmörg erlend nöfn, sem lytu ekki eða gætu lotið beygingarlögmálum íslenzkrar tungu. Engin slík till. er hér uppi. Engin slík till. hefur verið lögð fram.

Það, sem er kjarni málsins í þeirri till., sem við höfum lagt fram, er, að hinir nýju ríkisborgarar skuli, meðan þeir lifa, fá að halda ættarnafni sínu, en breyta fornafni sínu, þ.e.a.s. taka upp íslenzkt fornafn, og síðan skuli börn þessara ríkisborgara lúta ákvæðum íslenzkra nafnalaga, þannig að þau kenni sig við föður sinn. Börnin eiga að taka upp íslenzk fornöfn og kenna sig við hið íslenzka fornafn föður sins. Þannig skulu allir niðjar þessara ríkisborgara nefna sig samkvæmt íslenzkum nafnalögum upp frá því. Einmitt með ákvæðum þessarar till. er því fullkomlega tryggt, að erlend nöfn festast ekki í málinu. Þau verða ekki talin festast í málinu, þó að fólk, sem búið er að búa hér í mörg ár, áratug, kannske meira, og er orðið fullorðið, fái að bera til dauðadags það nafn, sem það hefur borið meginhluta ævi sinnar, ef tryggt er, að yngri kynslóðin og allir afkomendur þess lúti íslenzkum reglum um nafngift.

Ég sé því ekki annað en að hið ágæta mál hv. þm. um nauðsyn þess að koma í veg fyrir, að erlend nöfn festist í málinu, eigi alls ekki við þessa till. Það ætti við, ef till. væri uppi um að taka upp aftur þá skipan, sem var fyrir nokkrum árum, að hinir nýju ríkisborgarar og afkomendur þeirra halda nöfnum sínum áfram um aldur og ævi.

Vegna þess að við erum í raun og veru sammála um kjarna málsins og till. okkar tryggir þann höfuðtilgang, sem hv. þm. gerði svo glögga grein fyrir í ræðu sinni, þá sé ég satt að segja ekki, hvílíkt feikikapp er lagt á það, að sú hugmynd, sem í þessari till. felst, nái ekki fram að ganga.

Ég skal ekki endurtaka það, sem ég hef áður sagt við fyrri umr. þessa máls, hver ég tel höfuðrök gegn því að fylgja þeim sið, sem hv. allshn. leggur til í þessu efni, að skylda hina nýju ríkisborgara til algerrar nafnbreytingar. Við flm. álítum, að nafn manns sé svo ríkur þáttur af persónu hans, sé í raun og veru svo óaðskiljanlegur hluti af honum, að það sé ekki sæmandi að svipta hann því nokkurn tíma. Þetta er mörgum mönnum viðkvæmt mál. Það er eðlilegt, að það sé mönnum viðkvæmt mál að þurfa á fullorðinsaldri að höggva á tengslin við forfeður sína, fortíð sína, sögu sína og arferni sitt, eins og menn eru í raun og veru skyldaðir til að gera, ef þeir á fullorðinsárum þurfa að taka upp algerlega nýtt nafn. Börnum og unglingum er það ekki sársaukaefni með sama hætti og fullorðnu fólki. Til þess verður ætlazt af þeim, en til þess verður ekki ætlazt að mínu viti af fullorðnum mönnum, kannske gömlum mönnum og konum.

Á það mætti einnig benda í þessu sambandi, að vissir beinir hagsmunir geta verið tengdir nafni manns. Við skulum taka útlendan mann, sem hér hefði starfað á einhverju tilteknu sviði, sem t.d. læknir, vísindamaður eða viðskiptafrömuður, og ætti mikla fjárhagslega hagsmuni tengda nafni sínu. Mér dettur t.d. í hug nafn kunns þýzks læknis, sem var hér um langt skeið og naut mikils álits sem slíkur og varð síðar ríkisborgari. Það væri mjög mikil skerðing á hagsmunum hans, ef hann við það að verða ríkisborgari, eftir að hafa verið hér í fjöldamörg ár hefði orðið að taka upp algerlega nýtt nafn. Það gæti skert „goodwill“ hans sem læknis, ef svo mætti segja, að þurfa allt í einu að taka upp starf undir nýju nafni. Hið sama mundi eiga við, þó að maðurinn starfaði á öðru sviði. Ég hef ekki kynnt mér, hvort um þetta er að ræða hjá einhverjum af þeim mönnum, sem þetta frv. fjallar um, og þó gæti það vel verið. En menningarhliðina á málinu tel ég þó enn þá þýðingarmeiri, sem sagt þá að ætla engum manni að segja á fullorðinsárum skilið við þann þátt persónugerðar sinnar, sem nafn hans hlýtur að teljast.

Hv. þm. vék í aðeins einni eða tveimur setningum að aðalefni þessarar till., sem er það, að reglurnar um íslenzk mannanöfn skuli gilda um börn ríkisborgaranna og svo niðja þeirra upp frá því, og sagði, að það vantaði tryggingu fyrir, að gengið yrði eftir því, að börnin tækju upp íslenzkt nafn og íslenzka nafngjafarsiði. Ef það vantar tryggingu fyrir því, að börnin taki upp íslenzkt nafn og hlýði íslenzkum nafnalögum, vantar þá ekki nákvæmlega á sama hátt trygginguna fyrir því, að hinir nýju ríkisborgarar taki upp íslenzkt nafn og íslenzka nafngjafarsiði? Ég vil í þessu sambandi skýra frá því, að mér hefur skilizt, að talsvert bresti á, að þeim lögum, sem um þetta hafa gilt nokkur undanfarin ár, hafi verið hlýtt, þ.e.a.s., að ýmsir af hinum nýju ríkisborgurum hafi að vísu látið skrá sig á hinu nýja íslenzka nafni, en noti það ekki, og kunningjar þeirra og vinir, jafnvel fjölskylda þeirra, fáist ekki til þess að nota það.

Ég vil að vísu ekki mæla lögbrotum bót, en þó finnst mér, að segja megi, að þessu fólki sé nokkur vorkunn, þó að það hlýði ekki jafnósanngjörnum ákvæðum og hér er um að ræða. Það á hér við eins og alls staðar, að það er betra að hafa í gildi sanngjörn ákvæði, sem eru haldin, en ranglát ákvæði, sem eru brotin. Ég tel vera meiri líkur fyrir því, að sú skipan mála verði haldin, sem við fimmmenningarnir leggjum til með brtt. á þskj. 498, heldur en sú skipan, sem hv. allshn. leggur til. Það er erfitt að framfylgja þeim reglum, sem hv. allshn. aðhyllist að enn verði hafðar í þessum efnum, en það er auðvelt að framfylgja þeim reglum, sem við leggjum til að teknar verði upp, af því að þær eru sanngjarnari og réttlátari en hinar.

Hv. þm. sagði, að Íslendingar yrðu að fara þannig að, þegar þeir tækju sér bólfestu erlendis, eins og hv. n. leggur til að þessir nýju ríkisborgarar skuli fara að, þ.e.a.s., að Íslendingar verði að taka upp nafnasiði erlendra þjóða, þegar þeir flytjast til þeirra. Þetta er mjög ofmælt hjá hv. þm., a.m.k. er það áreiðanlegt, að í engu landi, sem Íslendingar hafa flutzt til eða flytja nú til, gilda þær reglur, að þeim skuli skylt að taka upp nöfn þeirra þjóða, sem þeir taka sér bólfestu hjá.

Íslendingar hafa aðallega tekið sér bólfestu í tveim löndum öðrum, þ.e.a.s. í Kanada og Danmörku, allmikið líka í Bandaríkjunum. Veit ég með vissu, að í þessum þremur löndum er ekki ætlazt til þess, að landnemar af erlendu bergi brotnir séu skyldir til þess að breyta nafni sínu og þýða það á tungu þeirrar þjóðar, sem þeir taka að búa hjá. Það vel þekki ég Íslendinga, og það gerir hv. 1. þm. Árn. áreiðanlega ekki síður, að það vitum við báðir, að íslenzku landnemarnir í Kanada hefðu ekki tekið því með þökkum, ef Kanadastjórn hefði lögleitt varðandi þá sams konar reglur og hv. allshn. nú leggur til að lögleiddar verði fyrir útlenda menn, sem hún vill láta veita ríkisborgararétt. (Gripið fram í.) Nú nefndi hv. þm. einmitt dæmi, sem ég ætlaði að fara að nefna. Hvað segja menn um það, ef t.d. skáldjöfurinn Stephan G. Stephansson hefði verið skyldaður til þess að taka upp enskt nafn og orðið að kalla sig, svo sem legið hefði beinast við, Steve G. Stevenson? Hvað segja menn um það, ef við ættum að varðveita í íslenzkum bókmenntum Andvökur eftir Steve G. Stevenson? (Gripið fram í.) Hv. þm. Reykv. skaut því fram, hvort Stephan G. Stephansson hefði skrifað nafn sitt eftir íslenzkum hætti. Það er rétt, að hann breytti rithætti á nafni sínu að nokkru, en þó þannig, að hann gætti þess, að það gat engan veginn sært íslenzka máltilfinningu eða íslenzkan málsmekk, og það er mergurinn málsins. Sá kostur, sem hann valdi, var einmitt að fara skynsamlegan meðalveg í máli, sem er viðkvæmt og vandasamt, með alveg sama hætti og við fimmmenningarnir leggjum til á þskj. 498. Hann vildi gera þeirri þjóð, sem hann bjó með, auðveldara að lesa nafn sitt og bera það fram, án þess þó að segja með nokkru móti skilið við tungu og arferni þeirrar þjóðar, sem hann taldi sig til, þótt hann byggi í öðru landi og hefði annarrar þjóðar ríkisborgararétt.

Ég hygg, að þetta dæmi sanni glöggt, að við eigum ekki að ætla öðrum að gera það, sem við mundum aldrei vilja gera sjálfir eða láta gera við þjóð okkar. Það þarf ekki að orðlengja, að slíku hefðu hvorki landnemarnir né við unað. Það fordæmi eigum við að láta verða okkur til fyrirmyndar í breytni okkar gagnvart öðrum.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um málið. Ég vænti, að öllum hv. þm. sé orðið alveg ljóst, hver er kjarni þess, og undirstrika enn að síðustu, að málefnaágreiningur milli okkar flm. og hv. allshn. um nauðsyn þess, að erlend nöfn festist ekki til frambúðar í málinu, er enginn. Ágreiningurinn er um það eitt, hvort það eigi að gerast með þeim hætti, að fulltíða menn séu látnir skipta um nafn, eða með hinum hættinum, að sú skylda sé ekki lögð nema á börnin og siðan áfram á alla niðja þeirra.