22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

3. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég get nú í raun og veru látið mér nægja að segja hér örfá orð.

Hv. 3. þm. Reykv. hefur drepið á nokkur atriði til andsvara þeirri ræðu, er hv. 1. landsk. hélt hér um réttmæti þess, að ekki væri gert að skyldu, að þeir, sem ríkisborgararétt fengju, tækju upp íslenzk helti. Enn fremur hefur hv. 2. þm. Skagf. (GGísl) tekið mjög í sama streng, og það gladdi mig að heyra þennan hv. nýja þm. hér taka þá afstöðu til þessa máls, sem hann hefur gert. Þar ásannast það, sem því betur hefur nú verið hjá okkur áður, að líka meðal lærðra manna eru menn, sem vilja vera á verði fyrir íslenzkri tungu og íslenzkri menningu.

Hv. 1. landsk. þm. sagði, að hann liti nákvæmlega eins á þetta mál og kom fram í ræðu minni. En hann er svo trúaður á það, að ef þessum útlendingum, sem ríkisborgararétt fá, verður leyft að halda ættarnöfnum sínum, þá vari þau ekki lengur en meðan þeir eru lífs og börn þeirra eða niðjar taki þau ekki upp. Hvernig stendur nú á, að hv. þm. getur verið svona bjartsýnn í þessu efni? Þó lét hann þess getið, að þrátt fyrir þau skilyrði, sem Alþ. hefur sett um veitingu íslenzks ríkisborgararéttar, gangi nokkrir þeirra útlendinga, er ríkisborgararéttinn hafa fengið, undir hinn erlenda ættarnafni. Mér skilst, að afstaða hans til þessa máls ætti þá og að byggjast einmitt á þessum röksemdum, að af því að einhver þeirra eða máske einhverjir hafi ekki haldið þá skilmála, sem þeim voru settir fyrir því, að þeir öðluðust ríkisborgararéttinn, væri rétt að leyfa mönnum að halda hinu útlenda heiti. En hvernig getur hann þá hugsað sér, að það verði látið þar við sitja, að þessi nöfn deyi út með þeim mönnum, sem ríkisborgararéttinn fá? Einmitt hans röksemdafærsla og rökstuðningur í þessu efni fyrir sínu máli sannaði alveg það gagnstæða. Þess vegna er það, að það er langtum nær fyrir bæði hann og okkur aðra að brýna það fyrir stjórnarvöldunum að gefa því glöggar gætur, að menn haldi þeim íslenzku nöfnum, sem þeir taka sér um leið og þeir fá ríkisborgararéttinn. — Hann taldi, að þetta væru harðari kostir en nokkur þjóð önnur setti þeim mönnum, er fengju ríkisborgararétt. Þetta er nú hans fullyrðing. Um það treysti ég mér ekki að dæma. En þó að svo væri, er þá svo mikið að athuga við það? Hvernig hefur farið með tungur annarra þjóða? Mundi byrjunin ekki hafa verið þessi, sumpart hringlandaháttur, uppskafningsháttur, aðgæzluleysi og undirlægjuháttur hjá þjóðunum í þessum efnum, þegar þær voru að taka upp þessi erlendu nöfn, sem varð fyrsta sporið til þess að gerbreyta þjóðtungum þeirra? Einmitt vegna þess höfum við enn meiri skyldur. Af því að við höfum verið svo vel á verði, allra þjóða bezt á verði, næst Hellenum, um verndun okkar máls, eigum við að halda því áfram. Hv. 1. landsk. er það vel menntaður, að ég vil vona, að hann sjái, að við höfum skyldur gagnvart framtíðinni að móta það gull, sem okkur hefur verið lagt í hendur, og afhenda það okkar niðjum, og dýrasti gimsteinninn í þessu er okkar móðurmál.

Hv. 1. landsk. þm., sem hefur haft orð fyrir flm. þessarar till., verður að gæta þess, hve við erum fámenn þjóð, hvað náið samband okkar er orðið við erlendar þjóðir, hvað margir menn með erlendum nöfnum sækja um ríkisborgararétt og hvað miklar horfur eru á því innan skamms tíma, að hér verði mjög margt fólk af erlendu bergi brotið búsett í okkar landi og búið að fá þegnrétt. Ef við nú rennum augum yfir þingskjölin tvö, þar sem líkur eru til, að þeir, sem á þeim till. standa, þskj. 601 og 606, fái íslenzkan ríkisborgararétt, þá er vorkunnarlaust að sjá, hvernig málið mundi verða þegar stundir líða, ef mönnum ætti að vera veitt leyfi til þess að hafa þessi nöfn. Hér eru á þskj. 601 ættarnöfnin Arge, Bakker, Ballering, Gazeley, Holz, Knippen, fyrir utan alla Jensena og Larsena og þess konar, Krogh, Mikson, Moravek, Nielasen og náttúrlega Nielsen og Petersen, Petty, Ransyn, Wesseling, Wind, de Zeeuw. Þetta er nokkurt sýnishorn, hvernig málið mundi verða þegar fram liða stundir. Ég skal ekki telja upp fleira. Hv. þm. geta rennt augum yfir þessi nöfn, og þá sjá þeir, hvernig það mundi líta út þegar fram liða stundir.

Það var seinheppilegt hjá hv. 1. landsk., þegar hann fór að minnast á Stephan G. sem sýnishorn þess, hvernig Íslendingum lánaðist að halda nafni sínu meðal erlendra þjóða. Stephan G. Stephansson er okkur Íslendingum, sem þakkarlaust er, það kær, að við mundum sízt verða til þess að kasta að minningu hans steini fyrir það, þó að hann skipti um nafn. Hvar fyrirfinnst nú það heiti elns og hann skrifaði sitt nafn, eftir að hann kom til Ameríku? Það er rétt að gefa því gætur. Í Þýzkalandi finnst nafnið á sama hátt skrifað, Austurríki, Hollandi, Danmörku og vafalaust miklu viðar. Þessi lönd komu mér í huga, af því að ég þekki til þess. Í Englandi eða enskri tungu er munurinn ekki mikill. Það er skrifað Stephens, sem er sama nafn. Það mundi vafalaust fljótlega verða Stevenson, ef það færi að festast í málinu. Þannig er það skrifað í ensku máli. Á Írlandi er það skrifað á sama veg. Maður, sem hefur kveðið og verið jafnmikill ættjarðarvinur og Stephan G. Stephansson, — ja, ég skal skjóta því hér inn í, svo að mér gleymist það ekki, að nafn hans, eins og hann varð að skrifa það, er skrifað í fjölda þjóðtungum, en ekki íslenzku, það er sá mikli munur, — það var seinheppilegt að fara að vitna til hans einmitt í þessu efni. Ég ætla að leyfa mér, af því að svona stendur sérstaklega á, að fara með nokkrar ljóðlínur eftir þennan mikla andans mann og heita, íslenzka ættjarðarvin:

„Þó þú langförull legðir

sérhvert land undir fót,

bera hugur og hjarta

samt þíns heimalands mót,

frænka eldfjalls og íshafs,

sifji árfoss og hvers,

dóttir langholts og lyngmós,

sonur landvers og skers.

Yfir heim eða himin

hvort sem hugar þín önd,

skreyta fossar og fjallshlíð

öll þín framtíðar lönd.

Fjarst í eilífðar útsæ

vakir eylendan þin:

nóttlaus voraldar veröld,

þar sem víðsýnið skín.“

Nærri má nú geta, hvort haft hafi tilfinningu fyrir sinni feðratungu og því, sem íslenzkt er, sá maður, sem kveður svona, og þó er af mörgu að taka, eins og allir þekkja. En þrátt fyrir allt þetta verður hann að breyta nafni sínu á útlenzka vísu á þann hátt, að það fyrirfinnst hjá mörgum erlendum þjóðum, en alls ekki á Íslandi eða í íslenzku máli. Fremur ætti einmitt aðstaða hans að verða okkur hvöt til þess að vera á verði um okkar tungu og hleypa ekki inn í málið erlendum heitum. Það var gott, að stuðningsmenn þessarar till. minntust einmitt á Stephan G. Stephansson.

Ég ætla nú ekki að þreyta hæstv. forseta með lengra skrafi. Ég treysti því og enda veit, að hv. þm. Nd. eru það íslenzkir í anda, að þeir fara ekki að samþykkja þessa brtt. um nýjar nafngiftir og útlenzkan svip, sem yrði, áður en löng stund er liðin, til stórspjalla á tungunni.