22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

3. mál, ríkisborgararéttur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Við höfum átt þess kost að hlýða hér á nokkrar skeleggar ræður hv. þdm. um brtt. eina á þskj. 498, viðkomandi nöfnum þeirra manna, sem lagt er til að fái hér ríkisborgararétt. Við, sem sátum á síðasta þingi, heyrðum nokkrar svipaðar ræður um þetta efni, og ég bygg því, að við höfum fengið það staðgóða fræðslu um þetta atriði frú báðum hliðum, að við ættum að vera nokkurn veginn færir um að greiða atkv, um till. án frekari upplýsinga, enda er dagur nú að kvöldi kominn.

En það er annað viðkomandi þessu frv., sem ég tel að hafi ekki verið upplýst sem skyldi, og þess vegna kvaddi ég mér hljóðs. Í nál. hv. allshn. á þskj. 472 kemur fram, að hv. n. hefur í samráði við menn úr allshn. hv. Ed. reynt að skapa reglu, sem farið yrði eftir við veitingu ríkisborgararéttar. Ég tel þetta gott. Ég hef lesið þessar reglur yfir, eins og þær birtast í nál., og ég tel nú, að dyrnar að okkar landi séu opnaðar þar það mikið, að ekki sé ástæða til að opna þær enn meira, a.m.k. að svo stöddu. Ég geri ráð fyrir því, að hv. nefndarmenn hafi miðað sínar till., sem þeir hafa hér borið fram, einmitt við þessar reglur. En hér liggja nú fyrir á nokkrum þskj. brtt. frá einstökum hv. þdm. um það að taka inn til viðbótar allmarga menn víðs vegar að. Ég tel, að það sé erfitt fyrir okkur að greiða atkv. um þetta, fyrr en liggur alveg greinilega fyrir frá hv. allshn., hvað af þessu samrýmist þeim reglum, sem hún hefur sett, ef eitthvað af því gerir það, sem sagt, hverju hv. n. getur mælt með og hverju ekki af þessu, sem fyrir liggur. Ég vil því mjög fara fram á það við hv. n., að hún gefi okkur upplýsingar um, hvort það er samrýmanlegt hennar reglum að samþykkja eitthvað af þessum brtt. frá einstökum þm. eða ekki. Sé n. ekki við því búin að gefa þessar upplýsingar nú, þá vil ég mjög ákveðið fara fram á það við hæstv. forseta, að hann fresti umr., þar til þessar upplýsingar liggja ljóst fyrir. Verði tilviljun ein látin ráða, hvað samþ. verður, þá getur farið eins og á síðasta þingi, að málið dagi uppi. Vera má, að það sé ekki stórskaði fyrir þjóðina. Þó hygg ég, að þarna séu í frv. eins og það nú liggur fyrir tillögur um ríkisborgararétt handa ýmsum mönnum, sem eðlilegt væri að fengju hann.

Ég hef verið beðinn að flytja till. um ríkisborgararétt handa þýzkri konu, sem er búin að vera hér nokkur ár, ekki tíu ár. Hún er gift íslenzkum manni fyrir — ég held tæpum tveimur árum, en eftir þeim reglum, sem n. vill fylgja, eiga þær konur, sem giftast hér íslenzkum mönnum, að hafa verið þrjú ár í hjónabandi skilst mér, þangað til þær geta fengið réttinn. Ég hef því ekki flutt þessa till., því að ég vil fylgja n. að málum að reyna að hafa þann hátt á afgreiðslu málsins, sem n. leggur til í sínu nál. En fari það hins vegar svo, að n. láti afskiptalausar þær till., sem hér liggja fyrir, og gefi engar bendingar um það, áður en til atkvæða kemur, hvað af því er samrýmanlegt hennar reglum, þá getur vel verið, að ég, áður en umr. verður slitið, beri fram þessa till., sem ég hef verið beðinn að flytja. Ég hef ekki viljað gera það, eins og ég sagði áðan, vegna þess að ég tel, að það sé skynsamlegt af deildinni að aðstoða nefndina við það, að þessar reglur verði upp teknar og þeim fylgt.