05.05.1955
Efri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

3. mál, ríkisborgararéttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur tekið allmiklum breytingum, frá því að það var lagt fyrir hv. Alþ., og hef ég út af fyrir sig ekki mikið við þær breytingar að athuga. Mér er ljóst, að það hlýtur ætið að verða álitamál, hvaða reglur skuli gilda um veitingu ríkisborgararéttar, og fellst á, að það er vinningur út af fyrir sig, ef allshn. beggja deilda koma sér þó saman um einhverjar reglur, þó að mér sé hitt ljóst, að fastmótaðar reglur í þessum efnum eiga ekki við til hlítar, vegna þess að hér hljóta ætíð að verða mörg áhorfsmál. Einmitt þess vegna eru ekki settar almennar reglur í lögum, og stjórnarskráin mælir fyrir um, að Alþ. eigi að taka um þetta ákvörðun hverju sinni, vegna þess að það er talið svo mikilsvert, hverjir fái réttinn, að Alþ. eigi sjálfstætt að gera upp hug sinn um hvern einstakan umsækjanda. Það breytir ekki því, að það er mikill kostur og enda nauðsynlegt að hafa reglur til þess að styðjast við í því mati.

Ég verð þó að varpa fram þeirri spurningu, hvort nefndirnar hafi raunverulega kannað það, sem fram kom hjá hv. frsm., að allir þeir menn, sem hér eru taldir, hafi gott orð. (Gripið fram í.) Ja, vottorð frá hverjum? (Gripið fram í.) Nei, vottorðin eru ekki um það út af fyrir sig; það er alger misskilningur. Vottorðin fjalla alls ekki um það. Ég held, að ef sú er meiningin, að það sé kannað, þá þurfi aðra meðferð en höfð hefur verið á þessu máli nú.

Ég gerði tilraun um það í samræmi við umræður, sem höfðu farið fram á Alþ. áður, að láta auglýsa á s.l. sumri, að þeir, sem vildu koma til greina um það að verða að tillögum ríkisstj. ríkisborgarar með lögum, sem sett yrðu á því þingi, sem nú stendur, yrðu að hafa gefið sig fram fyrir tiltekinn tíma. Það voru ekki mjög margir, sem sóttu innan þess tíma, og ég hef grun um, að hv. nefndir hafi tekið menn alveg án tillits til þess, hvort þeir höfðu sótt fyrir þann tíma eða ekki, og í raun og veru alveg sleppt fram af sér athugun á einstökum umsækjendum umfram það, að hin formlegu vottorð séu í lagi, sem alls ekki segja það, sem hv. frsm. skaut hér fram í og virtist ætla að þau segðu. En ég játa, að í mörgum tilfellum þekkja einstakir þm. meira og minna til þessa fólks, svo að þeirra umsagnir og þekking er alveg eins góð og vottorðagjafir einhverra manna úti í bæ, ef svo mætti segja. En þó er ég hræddur um, að hér sem of oft ella komi töluvert áróður til greina, en ekki hlutlaus athugun.

Þessum almennu athugasemdum vildi ég nú varpa fram. Ég er ekki að leggjast á móti þeim breytingum, sem frv. hefur tekið, og eftir því sem á stendur, er enginn maður í þessu frv. nú, sem ég mundi telja frágangssök að veita ríkisborgararéttinn. Til flestra þeirra þekki ég alls ekki og get ekki gert mér neina grein fyrir þeim. En ég vildi þó benda á þessi atriði, úr því að ég tók hér til máls, og ég verð að játa, að mér finnst það vera nokkuð ríflegt, ef 70 manns ættu árlega að fá ríkisborgararétt. (Gripið fram í.) Rétt kann það að vera. Ég hef ekki tekið jafnaðartölur um þetta, enda er ég ekki svo glöggur stærðfræðingur sem hv. 1. þm. N-M. (PZ). Ég efast þó um, að það sé hyggilegt að taka jafnstóran hóp inn í einu, nema þá að það hafi verið kannað rækilega, og það er ánægjulegt, ef n. hafa gert það. Þetta eru almennar aths. og beinast ekki að einstökum mönnum. Ég vil taka það alveg skýrt fram.

Það, sem kom mér sérstaklega til að tala, voru ummæli hv. 1. þm. Eyf. (BSt) út af 2. gr. frv. Ég get tekið undir það með honum, að ég tel það óviðurkvæmilegt, að þessi hv. d. lúti ráðum hv. Nd. og láti hana, ef svo má segja, setja stólinn fyrir dyrnar um afgreiðslu mála, þó að fram hjá hinu verði aldrei komizt, að menn hafi það nokkuð í huga varðandi aðgerðir sínar og breytingar, hvað líklegt sé til framgangs, og nenni ekki að vera í deilum út af minni háttar atriðum, ef þau eru vonlaus um framgang. Um þá breytingu, sem hann ræddi, veit ég ekkert, hvort þannig stendur á, og er því ókunnugur. Hins vegar verð ég að segja, að ef menn á annað borð vilja láta gera slíka nafnabreytingu sem hér um ræðir, þá finnst mér sjálfsagt, að hún komi til greina strax, en ekki bara í öðrum lið.

Ég heyrði það, að mjög hefði verið haft á orði í hv. Nd., að óviðurkvæmilegt þætti okkur, ef maður eins og Stephan G. Stephansson hefði verið látinn breyta um nafn, þegar hann varð ríkisborgari í öðru landi. Nú stendur einmitt þannig á, að þessi maður breytti sínu gamla íslenzka nafni. Hann breytti því að vísu ekki á þann veg, sem var talað um í Nd., en hann breytti því og færði það til landssiðar í því landi, þar sem hann settist að, svo að þar var nákvæmlega það sama á ferðum, að vísu lögþvingunarlaust, eins og menn hér hafa talið rétt að gera með lagaboði. Sú röksemd er því einna hlálegust af öllum röksemdum, sem ég hef heyrt, vegna þess að hún snýst beint á móti þeim málstað, sem hún var færð með.

Það er alkunnugt, að ef menn setjast að í öðrum þjóðlöndum en þeir hafa verið í, verða þeir, áður en langar stundir líða, yfirleitt að færa nöfn sín til þess, sem siður er í því landi. Við Íslendingar vitum, ef við förum með konum okkar úr landi, að það er enginn okkar, sem hefur kjark til þess, þegar komið er út fyrir landsteinana, að láta konuna halda sínu rétta nafni þar, heldur verður að færa það til þess síðar, sem þar tíðkast, að kenna hana við föðurnafn okkar. (Gripið fram í.) Ja, það kann að vera, að hv. þm. hafi verið svo djarfur að skjóta sér undan því, enda hefur hann þá verið — — (BSt: Eins og nafn Dóru Þórhallsdóttur.) Já, það kann nú að vera með svo mjög háttsettar persónur, en „quod lieet jovi non lieet bovi“, sögðu latínumenn, að það, sem hentar drottnaranum, hentar ekki þursanum, og þannig kann það nú einnig að vera í því tilfelli. Við vitum það, að þjóðhöfðingjar hafa víða sérstakan nafnasið, þótt það sé að vísu ekki um forseta yfirleitt.

Reglan er samt þessi óumdeilanlega, og mér fannst hv. frsm., sem annars taldi þessa reglu, sem sett hefur verið, heldur óheppilega, þó að hann vildi ekki leggja í að breyta henni, alveg sanna það, að hún væri nauðsynleg, með því að hann var að reyna að lesa hér upp nafn á einum hinna væntanlegu ríkisborgara og gat ekki gert það betur en með því að stafa nafnið, því að hann gat ekki með nokkru móti komið því saman eða komið því út fyrir sinn tungubrodd, sem ræður við íslenzkt mál, en ekki erlent. Ætli það sé ekki svo með einhverja fleiri hér? Einhverja Ungverja virtist mér ég sjá, sem ég veit ekki alveg hvernig til tækist að nefna á íslenzku.

Ég vil þess vegna efnislega, ekki fyrst og fremst af tillíti til hv. Nd., heldur efnislega, mæla á móti þeirri breytingu, sem hv. 1. þm. Eyf. vildi fram koma. Mér finnst, að hún sé til ills. Það er líka alger misskilningur hjá honum, að hv. 3. þm. Reykv. (BÓ), sem hefur haft forustu um að koma þessu máli í skaplegt horf í Nd., hafi ættarnafn. (Gripið fram í.) Nú, jæja, ég hafði heyrt hans áður getið í því sambandi, en það er ljóst, að hann hefur ekki slíkt nafn.

Hitt verðum við svo að játa, að nafnalögin íslenzku eru að ýmsu leyti orðin úrelt og eru ekki framkvæmanleg, vegna þess að það mundi vera talið óviðurkvæmilegt að beita refsingum til þess að svipta suma þá menn ættarnöfnum, sem þau hafa tekið upp í bága við lögin. En það er sitt hvað í raun og veru, hvort menn hafa ættarnöfn, sem eru með íslenzku sniði, eða hvort menn halda þeim útlendu ónöfnum, sem við sjáum, þegar við lesum þennan lista. Það er alveg sitt hvað.

Einmitt vegna þess, að nafnalögin eru orðin úrelt og lítt framkvæmanleg, hef ég fengið nokkra lærða og hæfa menn til þess að taka að sér að endurskoða þau lög og vonast til þess að geta lagt fram frv. um ný nafnalög fyrir næsta Alþingi. Gæti það þá vonandi, ef það verður slíkt, að menn geti fellt sig við það, sem ég þori auðvitað ekki að segja, orðið leiðbeining og til stoðar um afgreiðslu slíkra mála sem þessa í framtíðinni. En úr því að Alþ. er búið að taka upp þennan hátt, sem í 2. gr. þessa frv. segir, nú um nokkurra ára bil, þá finnst mér með öllu ástæðulaust að hverfa frá þeim sið, eins og nú standa sakir.