05.05.1955
Efri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

3. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Ég verð að biðja deildina afsökunar á því, að ég gleymdi í framsögu minni að minnast á 2. gr., sem aths. var gerð við í nál. okkar á þskj. 735.

Eins og sást á ræðu hæstv. dómsmrh., eru hér skiptar skoðanir um þetta. Hann vill halda þessari reglu, sem verið hefur. Hv. 1. þm. Eyf. vildi aftur á móti eins og sumir nm. færa þetta í annað horf og þá í meira samræmi við brtt. í Nd. á þskj. 498. Ég átti tal um þetta við frsm. allshn. Nd., hv. 1. þm. Árn. (JörB), að við hefðum e.t.v. hug á að breyta þessu, og ég er alveg sammála báðum hv. ræðumönnum um það, að auðvitað á þessi d. að fara sínu fram og hefur gert það og er alls óhrædd við að gera það, en það geta verið ástæður til að víkja frá smáatriðum, ef hætta er á að setja höfuðatriði máls í hættu.

Till. Gylfa Þ. Gíslasonar og fleiri í Nd. var felld þar við nafnakalli með 18 atkv. gegn 13, og frsm. n. sagði mér, að ef við breyttum þessu í Ed., þá mundi það leiða til þess, að frv. færi ekki í gegnum d., og þá yrði það annað árið, sem engin lög um veitingu ríkisborgararéttar yrðu samþ.

Ég álít því, þar sem ekki var upplýst um skoðun d. í þessum efnum, að ekki væri rétt að stofna höfuðatriði málsins í hættu, að veita mönnunum þessi réttindi, út af atriði, sem að vísu er nokkuð mikilvægt, en er þó aukaatriði í því sambandi.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að 70 manns væru í frv., þá vildi ég benda á það, sem einhver skaut fram í ræðuna, að það kemur auðvitað til af því, að í fyrra var engum veittur ríkisborgararéttur vegna ágreinings milli d. En ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir það og ég vildi óska þess, að sú regla kæmist á, að menn yrðu að sækja um ríkisborgararétt til dómsmrn. Ég játa það, að við höfum í flestum tilfellum látið okkur nægja umsögn sakadómara og umsögn bæjaryfirvalda um, að umsækjandinn hefði hvorki orðið fyrir því að lenda undir manna höndum né sætt ákæru eða refsingu fyrir nokkurt lagabrot, og um það, að hann hefði ekki orðið til byrðar fyrir sveitarfélagið. Í mörgum tilfellum eru þó meðmæli frá ýmsum mönnum, sem við þekkjum meira eða minna. Ég vil taka undir það með hæstv. ráðh., að það ætti ekki að veita þessi réttindi mönnum, nema þeir hefðu sérstaklega gott orð á sér og þá væri búið að sannprófa í þessum efnum, því að við erum ekki einungis að veita þeim meiri rétt en þeir fá í flestum öðrum löndum vegna okkar þroskuðu tryggingalöggjafar, heldur getum við átt á hættu, að þessir menn fari til annarra landa sem íslenzkir ríkisborgarar. T.d. í Bandaríkjunum mun lítil fyrirstaða á því, að Íslendingur fái landvistarleyfi. Það kom fyrir hér fyrir nokkrum árum, að þýzk kona, sem hafði dvalið hér, sótti um íslenzkan ríkisborgararétt og lét þess jafnframt getið, að hún gerði það ekki til að setjast hér að og væri því engin hætta á að veita henni hann; hún mundi ekki verða þjóðinni til byrðar, heldur væri ætlunin eingöngu að komast til Bandaríkjanna á íslenzkum kvóta. Auðvitað fékk hún ekki ríkisborgararétt.

Viðvíkjandi nöfnunum skal ég rétt taka það fram út af ræðu hv. 1. þm. Eyf., að það var ekki heppileg samlíkingin hjá honum, eins og hæstv. dómsmrh. raunar tók fram, því að einmitt þegar maður gerist kjörbarn einhvers, þá tekur hann upp nafn hans, en ekki fyrri foreldra sinna. Annars eru skiptar skoðanir um þetta, og við hugsuðum okkur vegna þess, hve áliðið væri þingtímans, að taka þetta mál upp á næsta þingi, og ef meiri hluti þm. væri fyrir því að breyta 2. gr. frv. á einhvern hátt, þá væri hægt að láta þau lög verka aftur fyrir sig, því að það er ekki svo mikið, sem í húfi er.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, því að mjög er liðið á fundartímann.