06.05.1955
Efri deild: 82. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

186. mál, togarakaup fyrir Neskaupstað

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Öllum hv. þm. munu vera vel kunnar ástæðurnar til þess, að þetta frv. er borið fram, en þær eru, eins og menn vita, þær, að togari bæjarútgerðarinnar í Neskaupstað fórst í vetur. Er frv. um það að veita ríkisábyrgð fyrir láni til þess að fá nýjan togara í staðinn, og er farið fram á allt að 9 millj. kr. ríkisábyrgð.

Það segir sig sjálft, að missir togarans í vetur hefur verið atvinnulífinu í Neskaupstað mikill hnekkir, og þess vegna er það sjálfsagt mjög eðlilegt, að þangað þurfi að koma nýr togari eða annar togari.

Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar og leggur til, að frv. verði samþ. En efasemdir komu fram í n. um það, að frv., eins og það liggur fyrir, gæti komið Neskaupstað og íbúum hans að fullu gagni, og þess vegna er komizt svo að orði í nál. fjhn. á þskj. 751, að n. muni taka til athugunar fyrir 3. umr., hvort þörf muni vera að gera breytingar á frv. Síðan hef ég talað við 1. þm. S–M., hæstv. fjmrh. (EystJ), og telur hann, að frv., eins og það liggur fyrir, geti náð tilgangi sínum, sem er sá, að Neskaupstaður geti fengið nýjan togara, ef frv. verður samþ.

Ég geri því frekar ráð fyrir, að það verði horfið frá því ráði í n. að bera fram nokkrar brtt. við 3. umr. vegna þessarar skoðunar hans. Annars er nú hv. 2. þm. S–M. (VH) hér og getur þá sagt sína skoðun um það, hvort það sé nægileg hjálp að samþ. þetta frv.