06.05.1955
Efri deild: 82. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

187. mál, togarinn Valborg Herjólfsdóttir

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það er öllum kunnugt, hvílík vandræði hafa orðið við sjávarsíðuna í þrem landsfjórðungum nú á síðari árum vegna aflabrests og atvinnuleysis að vetrinum, og margir hafa haft þá skoðun, að helzta ráðið til að bæta úr þessu væri, að staðir úti um land gætu eignazt togara eða haft gagn af togaraútgerð.

Af þeim ástæðum var það, að snemma á þessu þingi bárum við 3 þm. hér í hv. d., hv. þm. S-Þ. (KK), ég og hv. 2. þm. S-M. (VH), fram frv. um útgerð togara til þess að koma á og viðhalda jafnvægi í byggðum landsins, þar sem gert er ráð fyrir, að stofnað verði félag fleiri staða til togaraútgerðar og ríkissjóður verði þátttakandi í því.

Þetta frv. hefur ekki verið afgr. í fjhn., þar sem ég er þó formaður. Er það af ýmsum ástæðum og m.a. sökum þess, að tímanlega í vetur gerði ríkisstj. ráðstafanir í svipaða átt, sem að nokkru leyti geta komið í staðinn fyrir þetta frv. Það voru þær ráðstafanir, að þegar togarinn Vilborg Herjólfsdóttir í Vestmannaeyjum var boðinn til kaups, þá keypti ríkisstjórnin fyrir hönd ríkissjóðs togarann og seldi hann síðan félagi, sem þrír kaupstaðir norðanlands og íbúar þar eru þátttakendur í, þ.e. Húsavík, Ólafsfjörður og Sauðárkrókur.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er ekki um annað en að kvitta ríkisstj. af þessum ráðstöfunum, m.ö.o., að Alþ. leggi eftir á samþykki sitt á gerðir hennar í þessu málí, svipað og gert er með brbl. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft málið til athugunar, og nm. voru vitanlega kunnar allar aðstæður í því máli. Leggur n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.