31.03.1955
Neðri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

78. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi voru samþ. tvær till. til þál. varðandi Fiskveiðasjóð Íslands. Önnur þeirra var áskorun til ríkisstj. um að beita sér fyrir því að afla fiskveiðasjóði viðbótarfjár til stofnlána, endurnýjunar og aukningar fiskiskipaflotanum og til bátasmiði innanlands. Hin till. var áskorun á ríkisstj. um að láta fara fram endurskoðun laga nr. 34 1943, um fiskveiðasjóð. Hæstv. atvmrh. skipaði þá Gunnlaug Briem skrifstofustjóra, Sigtrygg Klemenzson skrifstofustjóra, Davíð Ólafsson fiskimálastjóra og Elías Halldórsson forstjóra til að annast endurskoðun löggjafarinnar. Á þessu þingi var svo lagt fram á þskj. 103 frv. til laga um fiskveiðasjóð, sem hin skipaða nefnd hafði samið. Fylgja frv. ýtarlegar athugasemdir ásamt margvíslegum upplýsingum um starfsemi sjóðsins og áætlun um lánastarfsemi hans á næstu 5 árum. Einnig fylgja frv. athugasemdir frá hæstv. atvmrh. Þar vekur hann athygli Alþ. á þeirri hugmynd að sameina stofnlánadeild sjávarútvegsins og fiskveiðasjóð. Þá bendir hæstv. ráðh. einnig á þann möguleika til að efla starfsemi sjóðsins, að þar sem vitað sé, að allverulegur tekjuafgangur verði á ríkisbúskapnum á árinu 1954, mundi æskilegt, að nokkrum hluta þess fjár yrði varið til að bæta úr brýnni þörf fiskveiðasjóðs fyrir aukið starfsfé og það yrði lagt sjóðnum sem óafturkræft framlag. Hefur hæstv. ríkisstj. þegar afhent fiskveiðasjóði 8 millj. kr. af tekjuafgangi ríkissjóðs árið 1954 út á væntanlegt samþykki Alþ. tel ég æskilegt, að fært þætti að ganga enn lengra í þessum efnum til að auka starfsfé sjóðsins, þar sem vitað er, að mjög hart er sótt á stjórn fiskveiðasjóðs um lánbeiðnir vegna nýsmíði fiskiskipa og til annarra þarfa vegna sjávarútvegsins, sem ég mun koma nánar að í þessari ræðu minni.

Ég vil þá með nokkrum orðum ræða hinar ýmsu greinar frv., sem máli skipta, ásamt þeim breytingum, sem gert er ráð fyrir að verði á lögunum um fiskveiðasjóð frá 1943, ef frv. það, sem hér liggur fyrir, verður lögfest.

Í 1. gr. er kveðið á um, að tilgangur fiskveiðasjóðs sé að styðja sjávarútveg Íslendinga, einkum bátaútveginn, með hagkvæmum stofnlánum, sbr. 4. gr.

Í 2. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Tekjur fiskveiðasjóðs eru:

1) Útflutningsgjöld af sjávarafurðum, sem ríkissjóður innheimtir samkv. l. nr. 81 5. júní 1947.

2) Vextir.“

Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja frá n. í athugasemdum með frv., gerir hún ráð fyrir því, að fiskveiðasjóður muni hafa í tekjur á yfirstandandi ári af útflutningsgjöldum og vöxtum 9.4 millj. kr. og 3 millj. kr. í afborganir af lánum, eða samtals 12.4 millj. kr. Hins vegar gerir n. ráð fyrir lánveitingum úr sjóðnum til nýsmiði fiskiskipa, endurnýjunar bátavéla, verbúða og fiskhúsa, samtals 28 millj. kr. Eftir þessum upplýsingum n. myndast greiðsluhalli að upphæð 15.6 millj. kr. á þessu eina ári. Sama gildir og um áætlaða vexti sjóðsins næstu 4 ár, eða árin 1956-1959, að gert er ráð fyrir greiðsluhalla öll árin, og mun hann nema samkv. áætlun n. rúmum 53 millj. kr. þessi 5 ár, eins og greint er frá í athugasemdum með frv. Í þessari áætlun n. er ekki gert ráð fyrir lánveitingum af hendi fiskveiðasjóðs til hraðfrystihúsa, fiskimjölsverksmiðja eða annarra fiskiðjuvera, þar sem hún telur, að það muni falla í hlut Framkvæmdabanka Íslands að veita lán til slíkra framkvæmda. Átti n. ýtarlegt tal við bankastjóra Framkvæmdabankans um þessi mál, og eftir þær umr. var henni tjáð, að Framkvæmdabankinn muni í framtíðinni veita lán til bygginga og endurbóta frystihúsa og annarra fiskverkunarstöðva eftir því, sem bankinn hefur fjármagn handbært og samrýmanlegt er öðrum verkefnum hans. Mun Framkvæmdabankinn þegar á þessu ári hafa veitt eða lofað lánum til nokkurra frystihúsa og fiskiðjuvera, og verður að treysta á það, að hann muni á næstu árum fullnægja eðlilegri eftirspurn lána til þessara framkvæmda.

Við síðustu áramót munu hafa legið fyrir umsóknir um lán úr fiskveiðasjóði að fjárhæð 51 millj. kr., aðallega til aukningar fiskibátaflotanum, og hrökkva því skammt tekjur sjóðsins til að fullnægja þeim lánsbeiðnum. Það verður því að teljast mjög aðkallandi að auka starfsfé sjóðsins. Sjútvn. þessarar hv. d. er þeirrar skoðunar, að ekki verði hjá því komizt, að ríkissjóður leggi sjóðnum til árleg fjárframlög. Mun n. við 3. umr. frv. flytja brtt. þar að lútandi.

Til þess að öðru leyti að geta séð fiskveiðasjóði fyrir starfsfé er ákveðið í 3. gr. frv., að sjóðurinn megi taka lán, þegar þörf krefur að áliti hæstv. sjútvmrh., og er ríkissjóði heimilað að ábyrgjast lán fyrir sjóðinn í þessu skyni, allt að 50 millj. kr. Er fyrirsjáanlegt, að nú þegar verði að gera gangskör að því að afla fiskveiðasjóði mikils hluta af umræddum 50 millj. kr., ef hann á þessu og næstu árum á að geta fullnægt lánsbeiðnum þeim, sem þegar liggja fyrir og vitað er að honum munu berast á næstu 4 árum, ef allt gengur með eðlilegum hætti með aukningu vélbátaflotans, byggingu verbúða og fiskhúsa fyrir útgerðina.

Í athugasemdum við frv. vekur hæstv. atvmrh. athygli Alþ. á þeirri hugmynd, að sameina stofnlánadeild sjávarútvegsins og fiskveiðasjóð. Sjútvn. hefur ekki á þessu stigi málsins séð sér fært að gera till. hér að ]útandi, enda telur hún, að það sé fyrst og fremst hlutverk hæstv. ríkisstj. að ræðamálið við stjórn Landsbankans. Hins vegar er n. sammála um nauðsyn þess, að það fé, sem stofnlánadeildin hefur enn í lánum hjá sjávarútveginum og í fiskiðjuverum og mun nema um 70–80 millj. kr., verði fest sem stofnfé eða rekstrarfé fyrir sjávarútveginn, og ráðstafanir í því efni verði framkvæmdar af hæstv. ríkisstj. á þessu ári. Tel ég nauðsyn á því, að á þessu þingi verði samþykkt till. til þál. með áskorun á hæstv. ríkisstj. að koma þessu máli í framkvæmd.

Í 4. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Fiskveiðasjóður má eingöngu lána til:

a) Fiskiskipa, þar með taldir opnir vélbátar. Skip innan 200 rúmlesta sitja fyrir lánum.

b) Vinnslustöðva fyrir sjávarafurðir svo og annarra mannvirkja, sem bæta aðstöðu til útgerðar og hagnýtingar sjávarafla.“

Þessi ákvæði í frv. ganga mun lengra en gildandi lög um fiskveiðasjóð frá 1943 kveða á um. Rúmlestastærð fiskiskipanna, sem sitja eiga fyrir lánum úr sjóðnum, er hækkuð úr 150 rúmlestum í 200 rúmlestir. telja verður þessa hækkun eðlilega og í samræmi við þá þróun, sem átt hefur sér stað síðasta áratuginn í sambandi við kröfur um stærri og betri fiskiskip fyrir verstöðvarnar. B-liður 4. gr. heimilar nú stjórn fiskveiðasjóðs að lána til vinnslustöðva fyrir sjávarafurðir svo og annarra mannvirkja, sem bæta aðstöðu til útgerðar og hagnýtingar sjávarafla. Á þennan hátt hefur stjórn sjóðsins heimild til m.a. að lána til verbúða, fiskhúsa og annarra mannvirkja fyrir sjávarútveginn, sem löggjöfin frá 1943 heimilaði ekki. Eftirspurn eftir slíkum lánum hefur verið og er enn mjög mikil, sérstaklega í sambandi við verbúðabyggingar, fisk- og veiðarfærageymslur. Engin lánsstofnun hefur talið sér skylt að sinna lánbeiðnum útgerðarmanna til að standast kostnað við byggingu á slíkum húsum. Óhætt má fullyrða, að mikið af veiðarfærum útgerðarfyrirtækja fer forgörðum árlega vegna vöntunar á nauðsynlegum veiðarfærageymslum. Sömu sögu má einnig segja um ýmsar sjávarafurðir, eins og t.d. saltfisk og skreið, að þessar afurðir liggja víða undir skemmdum vegna vöntunar á nauðsynlegum fiskgeymslum. Úr þessum vandkvæðum, sem útgerðarmenn og fiskvinnslustöðvar eiga við að búa, má stjórn fiskveiðasjóðs nú bæta með lánveitingu til húsagerða í þessu skyni, ef frv. verður lögfest og sjóðnum séð fyrir nægilegu rekstrarfé.

5. gr. kveður á um, að sjóðurinn láni einungis gegn 1. veðrétti. Mega lán nema alls allt að 2/3 hlutum af kostnaðar- eða virðingarverði nýrra fiskiskipa og 2/3 hlutum nýrra fiskvinnslustöðva og annarra fasteigna útvegsins. Til nýrra fiskiskipa, sem smíðuð eru innanlands, mega lán þó nema allt að 3/4 hlutum af kostnaðar- eða virðingarverði. Verður að telja þennan mismun, sem gerður er á lánveitingum, annars vegar til skipa, sem smiðuð eru innanlands, og hins vegar til skipa, sem keypt eru erlendis frá, eðlilegan og sjálfsagðan, þar sem hinar innlendu skipasmíðastöðvar eru sjávarútveginum nauðsynlegar og raunar ómissandi. Það leikur ekki heldur á tveim tungum, að fiskibátar, sem byggðir eru innanlands, séu traustari og betur byggðir en þeir erlendu, svo að stefna ber að því, að allir fiskibátar, sem þjóðin þarf með, verði smíðaðir innanlands. Hámark lána til skipa er nú ákveðið í frv. 1 millj. 250 þús. kr., en var áður 750 þús. kr., og til fasteigna 600 þús. kr. í stað 500 þús. kr., sem er í gildandi löggjöf. Hér er um töluverða hækkun að ræða á lánveitingum úr sjóðnum, sérstaklega út á ný fiskiskip. Þegar það er haft í huga, að mikil áhætta er hjá fiskveiðasjóði í samhandi við lánveitingar til fiskiskipaflotans vegna lögveða og sjóveða, sem ganga á undan 1. veðréttar láni sjóðsins, verður ekki annað sagt en að fiskveiðasjóður taki á sig allstóra áhættu með að veita 75% lán af kostnaðarverði nýrra fiskiskipa.

Reynsla síðustu ára hefur fært oss heim sanninn um þá miklu erfiðleika og áhættu, sem er samfara útgerð og rekstri vélbátaflotans. Að sjálfsögðu hefur aflaleysið á síldveiðum fyrir Norðurlandi s.l. 10 ár valdið þar miklu um. Verður því ekki hjá því komizt að veita fiskveiðasjóði árlegt framlag úr ríkissjóði til þess að tryggja rekstur sjóðsins og til að mæta áhættu þeirri, sem lánveitingar hans til fiskiskipaflotans óhjákvæmilega hafa í för með sér, áhættu, sem engin hliðstæð lánsstofnun býr við.

Í 6. gr. frv. eru ákveðin vaxtakjör sjóðsins. Þar er gert ráð fyrir 4% vöxtum af lánum til skipa, en af öðrum lánum 6%, sem greiðast fyrir fram. Er hér um nokkra hækkun að ræða á vöxtum, sérstaklega þegar þess er gætt, að 1/3 hluti af lánveitingum fiskveiðasjóðs til nýrra fiskiskipa var veittur samkv. ákvæðum 8. gr. gildandi laga vaxtalaus í 10 ár og afborgunarlaus í fimm ár. — Þá er gert ráð fyrir, að öll lán, sem sjóðurinn veitir, önnur en út á skip, beri 6% vexti. Þar sem nú er svo komið, að óhjákvæmilegt er, að fiskveiðasjóður taki veruleg lán til starfsemi sinnar gegn hærri vöxtum en hann tekur sjálfur af sínum lánum, virðist ekki hjá því komizt, að sjóðurinn taki 4% ársvexti af öllum lánum til fiskiskipa. Þegar að öðru leyti eru athuguð almenn vaxtakjör, sem þjóðin býr nú við, bæði hvað snertir vexti á sparifé og vexti af útlánum, verður að teljast eðlilegt, að aðrir útlánsvextir séu ákveðnir 6%.

Aðrar greinar frv. tel ég óþarft að ræða um sérstaklega, enda hefur n., er samdi frv., getið þeirra, að því er máli skiptir, í athugasemdum sínum við frv.

Á árinu 1954 nam útlán fiskveiðasjóðs rúmum 23 millj. kr., að langmestu leyti til fiskiskipaflotans. Af þessari upphæð voru veittar nær 6 millj. kr. til vélakaupa í fiskiskip. Í árslok 1954 voru útlán fiskveiðasjóðs þessi: Opnir vélbátar: 104 lán, rúm 11/2 millj. Þiljaðir vélbátar innan 12 rúmlesta: 24 lán, tæp 1 millj. Skip 12 rúmlestir og stærri: 274 lán, rúmar 39 millj. Hraðfrystihús: 31 lán, 6.7 millj. Fiskþurrkunarhús: 28 lán, tæpar 2 millj. Fiskimjölsverksmiðjur: 21 lán, rúmar 4 millj. Fiskvinnslustöðvar: 11 lán, tæpar 3 millj. Lifrarbræðslustöðvar: 5 lán, 270 þús. Olíusamlög: 5 lán, 284 þús. Dráttarbrautir: 3 lán, tæp 1/2 millj. Aðrar fasteignir: 5 lán, 371 þús. Ríkistryggð vaxtabréf: 11 lán, 3.4 millj.

Eignir fiskveiðasjóðs námu 1. okt. s.l. rúmum 76 millj. kr.

Rétt er, að hv. alþm. geri sér nokkra grein fyrir því, hvaðan fé það er runnið, sem sjóðurinn starfar með. Fiskveiðasjóður var stofnaður með lögum 1905, og tók hann til starfa á árinu 1906. Framlag ríkissjóðs hefur numið 1 millj. 150 þús. kr. til 1. okt. 1954. Er þar með talið sektarfé fyrir landhelgisbrot, sem rann til sjóðsins á árunum 1907–39, alls um 138 þús. kr. Hins vegar hafa runnið til sjóðsins frá sjávarútveginum í útflutningsgjöldum á árunum 1942–54 rúmar 56 millj. kr., svo að þaðan er raunverulega komið að mestu það fé, sem sjóðurinn hefur starfað með til þessa, eða þar til ríkisstj. lagði honum 8 millj. kr. framlag af tekjuafgangi ríkissjóðs á s.l. ári.

Á þskj. 515 hefur sjútvn. lagt fram nál., þar sem hún mælir með því, að frv. verði samþ. með nokkrum breytingum. Flytur hún á þskj. 519 þrjár brtt.

1. brtt. kveður á um, að fiskveiðasjóður greiði 1/3 hluta láns til skipasmíða þegar kjölur er lagður og meginhluti efnis kominn á staðinn, 1/3 hluta þegar skipið er byrt og þiljur lagðar og vél skipsins komin á staðinn, og loks 1/3 þegar skipið er fullsmíðað, virt og vátryggt. Hlýtur þessi tilhögun að hafa í för með sér stórbætta aðstöðu fyrir innlendar skipasmíðastöðvar, sem ætti einnig að verða til hagsbóta fyrir sjávarútveginn. Framkvæmdastjóri Landssambands iðnaðarmanna hefur í bréfi til nefndarinnar lagt mikla áherzlu á þessa fyrirgreiðslu skipasmiðastöðvunum til handa. Þessi ákvæði eru einnig í gildandi lögum fiskveiðasjóðs, en þeim mun lítið hafa verið sinnt í framkvæmd á undanförnum árum.

2. brtt. n. felur í sér sömu ákvæði og nú eru í lögum fiskveiðasjóðs, að stjórn sjóðsins sé heimilað að veita lán til kaupa á hátum eidri en eins árs.

Í 3. brtt. leggur n. til, að fellt verði niður ákvæði 6. gr. frv. um, að vextir af lánum úr fiskveiðasjóði skuli greiddir fyrir fram. Telur nefndin rétt, að vextir séu greiddir eftir á, eins og tíðkast hjá hliðstæðum stofnunum.

Í áliti n. er þess getið, að hún muni við 3. umr. flytja brtt. um árlegt framlag úr ríkissjóði til fiskveiðasjóðs.

Ég tel óþarft að fara fleiri orðum um frv. og nál. á þessu stigi.