29.11.1954
Efri deild: 23. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

7. mál, veitingaskattur

Frsm:

(Lárus Jóhannesson): Herra forseti. Með frv. þessu, sem er stjórnarfrv., er lagt til, að felld verði úr gildi frá 1. jan. 1955 lög nr. 99 frá 19. júní 1933, um veitingaskatt, með síðari breytingum á þeim lögum.

Lögin um veitingaskatt voru sett, þegar fjárhagur ríkissjóðs var mjög þröngur, þó að ljóst væri, að þessi skattstofn væri mjög vafasamur, þar sem hann í fyrsta lagi vann á móti því, að gistíhús væru reist í landinu og menn gerðu veitingar að atvinnu sinni, og í öðru lagi kom hann sérstaklega hart niður á einhleypum mönnum og erlendum mönnum, sem þurftu að leita til veitingastaða með fæði og aðra fyrirgreiðslu. Það hafa því verið uppi, bæði utan þings og innan, ákveðnar raddir um að fá þessum skatti létt af, og það því frekar sem hann er ekki verulegur tekjustofn fyrir ríkissjóð og innheimta hans auk þess ýmsum örðugleikum bundin.

Sem betur fer er nú fjárhag ríkissjóðs þannig komið, að ríkisstj. hefur séð sér fært að leggja til, að þessi lög verði felld úr gildi. Fjhn. Nd., sem hafði þetta frv. til meðferðar, áður en það kom fyrir þessa hv. deild, lagði einróma til, að frv. yrði samþ., og fjhn. Ed. hefur einnig lagt einróma til við deildina, að hún samþykki frv. óbreytt.