03.05.1955
Neðri deild: 83. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

78. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að láta í ljós með örfáum orðum undrun mína yfir þeim skorti á stefnufestu, sem virðist ríkja hjá hæstv. ríkisstj., þegar um grundvallarmál er að tefla eins og vaxtapólitíkina í landinu. Hér í þessari hv. d. hefur undanfarið verið til umr. hvert frv. á fætur öðru frá hæstv. ríkisstj., sem í hafa verið fólgnar verulegar vaxtahækkanir, bæði gagnvart landbúnaðinum og þó einkum og sér í lagi gagnvart byggingariðnaðinum eða húsbyggjendum.

Það hefur verið yfirlýst stefna hæstv. ríkisstj., að almennir vextir af byggingarlánum skyldu vera yfir 7%. Baunverulegir vextir í veðlánakerfinu, sem hæstv. ríkisstj. er nú í þann veginn að koma upp, verða hvorki meira né minna en 7.36%.

Nú er hér hins vegar til umr. frv. frá hæstv. ríkisstj. sjálfri um fiskveiðasjóðinn, þar sem gert er ráð fyrir 6% vöxtum af útlánum úr fiskveiðasjóði til annarra þarfa en til fiskiskipasmíða, og þá koma stjórnarflokkarnir sjálfir hér í þessari hv. d. og breyta þessum fyrirætlunum hæstv. ríkisstj. í þá átt, að þeir gera ráð fyrir lægri vöxtum en hæstv. stjórn hafði gert ráð fyrir í sínu frv.

Nú skal ég í sjálfu sér láta ósagt um það, hvort þessi vaxtahækkun, sem hér er gert ráð fyrir hjá fiskveiðasjóði til annarra þarfa en skipalána, úr 4% upp í 51/2%, sé ekki alveg nægilega mikil. Á hinu vil ég vekja athygli, að hæstv. ríkisstj. virðist vera hikandi á þessu sviði og að hv. frsm. sjútvn. gerði engan veginn nægilega grein fyrir því í framsöguræðu sinni, hvaða ástæður ]ægju til þess, að horfið er frá því marki, sem nefnt var í frv. upphaflega. Sagt var, þegar frv. var lagt fyrir, að það væri ófrávíkjanleg stefna ríkisstj. að hækka þessa vexti upp í 6%, sem jafnvel þá eru meira en 1% undir almennum markaðsvöxtum.

Liggur næst við að ætla, að hrein tilviljun ráði, hvernig afgreiðslu stórmál fá. Annað eins mál og þetta virðist eiga að afgreiða hér á um það bil 10 minútum, og er hér þó sannarlega ekki aðeins um mikið hagsmunamál sjávarútvegsins að ræða, heldur einnig mikilvægt stefnumál. Hér gerist það sem sagt, eftir að búið er að knýja fram gegn miklum mótmælum stjórnarandstöðunnar mikla vaxtahækkun gagnvart landbúnaðinum og húsbyggjendum, að þá hörfa stjórnarflokkarnir sjálfir um fet aftur á bak,, þegar um er að ræða vaxtahækkun gagnvart sjávarútveginum, án þess að það sé stutt með nokkrum frambærilegum rökum. Það er látið duga að segja um þetta örfáar setningar og við það látið sitja.

Ég vildi ekki láta þessari umr. ljúka án þess að vekja athygli á því, að hér eru stuðningsflokkar hæstv. ríkisstj. ekki sjálfum sér samkvæmir í stórmálum. Það ber ekki að skoða þetta sem andmæli gegn þeirri till., að vaxtahækkunin verði aðeins 11/2% í stað 2%, og mun ég greiða atkvæði með þessari brtt. hv. sjútvn. En gleggri rök hefði ég viljað fá fyrir því, að í þessu efni virðast hv. stjórnarflokkar hafa aðra afstöðu en þeir hafa haft í hliðstæðum málum, sem verið hafa til meðferðar í þessari hv. d. undanfarið.