03.05.1955
Neðri deild: 83. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

78. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Það er alger misskilningur hjá hv. 1. landsk., að hér sé um nokkra stefnubreytingu að ræða hjá stjórnmálaflokkum þeim, er styðja hæstv. ríkisstj., það er síður en svo. Sjútvn. hefur komið sér saman um að gera till. um það að lækka vextina um 1/2%. Fiskveiðasjóður hefur frá öndverðu tekið sömu vexti af öllum lánum, sem hann hefur veitt. Í frv. því, sem hér er til umr., er gert ráð fyrir að víkja frá því, eða að taka sömu vexti og áður af skipum, 4%, en 6% af öllum öðrum lánum.

Það er ákaflega einfalt, sem hér hefur skeð. Allir hv. meðlimir sjútvn. eru sammála um það að telja þessa hækkun, 6%, óþarflega háa, eða úr 4% í 6%, og óska eftir, að hækkunin nemi aðeins 11/2 %, að hún verði sú sama og þegar hefur átt sér stað bæði hjá ræktunarsjóði og byggingarsjóði. Þar hafa vextirnir einnig verið hækkaðir um 11/2 %. Það er því ekki um neina stefnubreytingu að ræða. Ég held, að hæstv. ríkisstj. geti vel fallizt á brtt. sjútvn, um vaxtalækkun frá því, sem frv. kveður á um, eða úr 6% í 51/2%.

Ég tel, að það sé ekki þörf á því að ræða þetta miklu frekar. Ég vil bara andmæla því, að hér sé um nokkra breytingu á stefnu ríkisstj. að ræða í þessum málum. Það eru ekki nema ákaflega eðlileg atvik, sem hér hafa skeð um vaxtabreytingu á útlánsvöxtum, bæði hvað snertir sjávarútveginn og landbúnaðinn. Þegar þess er gætt, að bankastofnanir þær, Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn, sem veita forstöðu sjóðum þeim, er lána til sjávarútvegsins og landbúnaðarins, greiða vexti af innstæðufé upp í 7%, ef upphæðin er bundin í 10 ár, virðist ekki óeðlilegt, að af lánum, sem veitt eru til 42 ára, sbr. lán byggingarsjóðs, séu greiddir vextir, sem nema 31/2% á ári.

Það var auðsætt, að í kjölfar þeirra hækkana á innlánsvöxtum, sem átt hafa sér stað hjá öllum bönkum og sparisjóðum, hlaut að sigla hækkun á útlánsvöxtum — og þá einnig af lánum til atvinnuveganna. Hjá vaxtahækkun á útlánum verður ekki komizt vegna hinna háu vaxta af innstæðufé almennt og einnig vegna hækkandi vaxta af lánum, sem þessir sjóðir, fiskveiðasjóður, ræktunarsjóður og byggingarsjóður, óhjákvæmilega verða að taka til að geta fullnægt eðlilegri lánaþörf atvinnuveganna.