06.05.1955
Neðri deild: 86. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

198. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það var í rauninni auðheyrt á ræðu hæstv. fjmrh., að hann var mér sammála í grundvallaratriðum um það, hver skyldi vera höfuðkjarninn í fjármálastefnu íslenzka ríkisins á tímum eins og þeim, sem við lifum núna. Hann tvísagði í ræðu sinni, að það væri mjög æskilegt að hafa greiðsluafgang, að geta nú haft greiðsluafgang. Þegar hann segir þetta ekki einu sinni, heldur tvisvar, þá er það auðvitað af því, að hæstv. ráðh. skilur, eins og ég veit að hann gerir, að allt einkenni tímanna, sem nú eru, er þannig, að það er sjálfsagt, ef menn vilja geta stært sig af heilbrigðri fjármálastefnu, að hafa greiðsluafgang hjá ríkissjóði. (Gripið fram í.) Já, ég skal víkja að því rétt á eftir. En hæstv. fjmrh. sagði, að ríkisstj. hefði haft greiðslujöfnuð og þess vegna með fjármálastefnu sinni ekki stuðlað að nýrri verðbólgu. Það eitt getur hæstv. fjmrh. fært sér til heiðurs á þessu sviði að hafa ekki stuðlað að verðbólgu með því að hafa komið á jöfnuði í greiðslum ríkissjóðs. Það skal ég játa og segja honum til þess heiðurs, sem hann á skilið, að með tilkomu hans í sæti fjmrh. varð á í þessum efnum mikil breyting til batnaðar frá því, sem áður hafði verið. En hinu megum við ekki gleyma, að á tveimur til þremur árum, sérstaklega tveimur undanförnum árum, hafa verið alveg óvenjuleg góðæri hér á Íslandi, — góðæri, sem samkvæmt öllum venjulegum fjármálasjónarmiðum hefðu átt að leiða til þess, að á búskap ríkisins væri verulegur greiðsluafgangur. Þetta veit ég að hæstv. fjmrh. er nákvæmlega jafnvel ljóst og mér, þó að hann reyni að berja svolítið í bakkana, eins og eðlilegt er að hann geri.

Þá er spurningin um það, hvernig koma eigi hagstæðum greiðslujöfnuði á. Í þeim efnum hefur hæstv. fjmrh. engin rök fram að færa nema gagnásakanir á Alþfl. um það, að hann hafi kvartað undan of mikilli skattaálagningu, og að það sé ósamræmi í því að kvarta undan of litlum greiðsluafgangi og of mikilli skattaálagningu.

Í þessu sambandi vil ég, án þess að lengja umr. um þetta, aðeins benda á, að við höfum fyrst og fremst gagnrýnt, að skatta- og tollabyrðin væri orðin of þung á almenningi og að skattabyrðin hvíldi að óeðlilega miklu leyti á launastéttunum, en höfum margbent á og meira að segja flutt um það till., að skattabyrðin væri þyngd tilsvarandi á þeim, sem gjaldgetuna hafa mesta. Það er hins vegar undarlegt, að hæstv. fjmrh. nefnir aldrei möguleikana á sparnaði, þegar hann ræðir um nauðsynina á auknum greiðslujöfnuði. Það er eins og hann geti aldrei hugsað sér, að hægt væri að auka greiðslujöfnuð ríkisins með því að koma á auknum sparnaði hjá ríkinu. Ef talað er um aukinn greiðslujöfnuð, þá segir hann: Með því hljóta menn að meina auknar skattaálögur. — Þetta finnst mér dálítið óeðlilegt að heyra frá hæstv. fjmrh., sem a.m.k. hér áður fyrr — ég vona, að svo sé enn — hafði talsverðan áhuga á því, að sparnaðarandinn væri sem mestur í ríkisbúskapnum. En þegar um þetta er að ræða, er alveg gleymt að minnast á sparnað.

Þá sagði hæstv. fjmrh., að það væri ósanngjörn gagnrýni hjá mér að bera fjármálastjórn íslenzku ríkisstj. saman við fjármálastjórn nágrannalandanna, og nefndi í því sambandi ríkisstj. Bretlands og fjmrh. þess, Butler. Nú var hæstv. ráðh. mjög óheppinn að því leyti, að ég er sannfærður um, að ef Butler, fjmrh. Breta, heyrði það, að honum væri borið það á brýn, að hann hefði greiðsluhalla á sínum ríkisbúskap, þá brygðist hann hinn versti við. Ég byði ekki í hæstv. fjmrh., ef Mr. Butler hefði heyrt þetta, því að hann er maður málsnjall og hefði vafalaust svarað honum mörgum og hörðum orðum. En sannleikurinn er sá, að það er ein af skrautfjöðrunum í núverandi stjórnarstefnu Bretlands að hafa sem tæki í efnahagspólitíkinni raunverulegan greiðsluafgang á ríkisbúskapnum. Það er eitt af því, sem Mr. Butler stærir sig og getur stært sig af.

Fjmrh. má ekki blanda því saman, — en það hygg ég að valdi misskilningi hans í þessum efnum, — að verulegur hluti af hernaðarútgjöldunum er í Bretlandi kostaður með lántökum á hinum almenna lánamarkaði, á frjálsum lánamarkaði, því að þannig hefur Bretastjórn haldið á fjármálum sínum, að brezka ríkið hefur mjög mikið lánstraust hjá brezkum almenningi og brezkum lánsstofnunum, gagnstætt íslenzku ríkisstj., því að engan hluta af fjárfestingarútgjöldum íslenzka ríkisins hefur verið hægt að kosta með almennum lántökum á lánamarkaði, sem hér á landi er ekki til, einmitt vegna þess, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur haldið á þessum málum. Auðvitað má í grundvallaratriðum deila mjög um þá fjármálastefnu, sem brezka íhaldsstjórnin og Mr. Butler hafa fylgt í Bretlandi, en um það verður ekki deilt með sanngirni, að hún framkvæmir þær meginreglur, sem hún hefur lýst yfir. Það er ein meginreglan í stjórnarstefnu brezku íhaldsstjórnarinnar, eins og allra annarra íhaldsstjórna, að beita raunverulegum greiðsluafgangi sem markvíssu tæki til þess að halda peningalegu jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þetta hefur brezka ríkisstj. gert. Um grundvallaratriðin má deila, en ekki hitt, að brezki fjmrh. hefur staðið við orð sín.

Fyrst þessar umr. hafa farið nokkuð á við og dreif, langar mig til þess að varpa fram spurningu til forsvarsmanna hæstv. ríkisstj. Hún er í sambandi við lausn verkfallsins, sem nú er nýlokið. Meðan á verkfallinu stóð, var því óspart haldið fram af málsvörum hæstv. ríkisstj., bæði stjórnmálamönnum og fræðimönnum hennar, að ef verkfallið leystist með einhverri verulegri kauphækkun, þá mundi allt fjármálakerfið riða, þá væri ný verðbólguskrúfa sett í gang, þá væri jafnvel gengið í hættu. Nú er verkfallið búið, og það var leyst með allverulegri kauphækkun. Nú langar mig til þess að spyrja: Hvað um þessar staðhæfingar hæstv. ríkisstj. og forsvarsmanna hennar allar saman, meðan á verkfallínu stóð? Voru þær allar rangar? Stafar þá engin hætta af þessari grunnkaupshækkun? Stafar engin verðbólguhætta og engin þensluhætta af grunnkaupshækkuninni, sem átti sér stað? Stafar peningalegu jafnvægi engin hætta af henni? Stafar genginu engin hætta af henni? Ef það var rétt, sem þessir menn sögðu, hví er þá ekki gripið til ráðstafana gegn þessari hættu? Hvers vegna líður vika eftir viku eftir lausn verkfallsins, hvers vegna á þinginu að ljúka eftir lausn verkfallsins, án þess að fram komi nokkur till. til þess að sporna gegn henni? Eina málið, sem menn hafa séð síðan verkfallið leystist og gefur tilefni til almennrar umr. um fjárhagsmálin, er þetta frv., sem fjallar um ráðstöfun á þeim hluta greiðsluafgangsins, sem óráðstafað var. Ég veit, að hæstv. fjmrh. skilur það mætavel, að þetta er ekki í góðu samræmi við þau varnaðarorð, sem mælt voru um áhrif grunnkaupshækkananna á peningakerfið í heild. Ef hæstv. ríkisstj. í raun og veru trúir á stefnu sína, þá hefði maður búizt við frv., sem gengi í þveröfuga átt við þetta. Nú langar mig því til að spyrja: Hvað um öll alvarlegu orðin, sem sögð voru? Voru þau markleysa, eða ef þau voru ekki markleysa, er þá einhver stór voði fram undan, og sé þessi stórvoði fram undan, er stefna þessa frv. þá ráðið við honum?