06.05.1955
Efri deild: 83. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

198. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Fyrir nokkuð löngu gerði ég grein fyrir því í Sþ., hvernig horfði um afkomu ríkissjóðs á árinu 1954. Hafði ég þá bráðabirgðauppgjör, sem ég greindi frá. Var áætlað, að greiðsluafgangur mundi verða 35 millj. kr. Uppgjöri er ekki lokið. Ég get því ekki fullyrt, að útkoman verði sú, sem þar var áætlað, en ríkisstj. taldi, að rétt væri, að hv. Alþ. gengi frá því, áður en það hætti störfum, hvernig greiðsluafgangi yrði ráðstafað, í því trausti, að hann yrði ekki fjarri þeirri fjárhæð, sem gert var ráð fyrir í bráðabirgðayfirlitinu.

Þetta frv. gerir ráð fyrir heimildum ríkisstj. til handa í þessu sambandi og fjallar um 35 millj. kr. samtals.

Ég held, að óþarfi sé, að ég fari að setja á ræðu um hvern lið frv., þar sem þau mál, sem þar er gert ráð fyrir að veita fé til, eru hv. þm. mjög vel kunn og hafa öll meira og minna borizt í tal á þessu þingi. Það eina, sem er algert nýmæli í þessu sambandi, mun vera 9. liðurinn í frv. Það er till. um að leggja 6 millj. kr. til hliðar til þess að mæta, þegar þar að kemur, kostnaði við atvinnuleysistryggingar. Hv. þm. er það þó mjög vel kunnugt, að samkomulag hefur orðið um það, að ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar beiti sér fyrir setningu l. um atvinnuleysistryggingar á næsta hausti, og hv. þm. er vel kunnugt um aðalatriði þess samkomulags, bæði af flokksfundum í stjórnarflokkunum og einnig af því, sem fram hefur komið í heyranda hljóði.

Það er lauslega áætlað, að hlutur ríkissjóðs til þessara atvinnuleysistrygginga verði 14 millj. kr. eða svo á ári. Ég segi lauslega áætlað. Það er gert ráð fyrir, að greitt verði í atvinnuleysissjóðinn frá 1. júní þ. á. Það þótti því ekki annað fært en að fara nú strax að gera ráðstafanir til þess að leggja til hliðar fé í þessu skyni.

Ég vildi leyfa mér að leggja til, að málinu yrði vísað til hv. fjhn., og biðja n. og hæstv. forseta fyrir málið á þá lund, að því verði örugglega komið í höfn, áður en d. hættir fundarhöldum sínum nú að þessu sinni.