09.05.1955
Efri deild: 85. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

198. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. (HG) hreyfði því í n., að frv. yrði breytt í þá átt, sem hann hefur nú flutt brtt. um á þskj. 774. Aðrir nm. féllust ekki á það, og þar af leiðir, að ég tel mig geta lýst yfir því fyrir hönd hinna 3 nm., að þeir fallist ekki á þessar brtt.

Það má alltaf benda á ýmislegt, sem þörf sé að veita fé til. Út af fyrir sig skal ég ekkert mótmæla því, að það sé þörf á fé til byggingarsjóðs verkamanna og að honum sé tryggt fé eftir öðrum leiðum. En n. lítur svo á um það, sem hér er ætlað til höfuðatvinnuvega þjóðarinnar eða lánastarfsemi til þeirra, ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs, sem hv. þm. gerir till. um að lækka um 1 millj. til hvors, að það sé svo aðkallandi þörf að auka fjármagn þessara sjóða, að ekki beri að skerða það framlag, sem hér er lagt til. Og hvað snertir veðdeild Búnaðarbanka Íslands, þá er það svo, að hún hefur alls ekkert fé haft nú undanfarið og ekkert getað lánað nema með því móti að taka það, sem hún hefur lánað, að láni hjá sparisjóðsdeild bankans, og verður því að telja, að veðdeild Búnaðarbankans, ef hún á að starfa á annað borð og vera til, eigi í þessu frv. að ganga fyrir byggingarsjóði verkamanna, sem þegar hefur verið ákvörðuð fjárveiting til.