05.05.1955
Neðri deild: 84. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

199. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég sé, að það stendur ekki á því hjá hæstv. ríkisstj. að koma nú fram með frv. um launahækkun. Ég er hræddur um, að það verði að fara að endurskoða nokkuð þann hátt, sem hafður er á um launakjör og launabætur til starfsmanna ríkisins. Það er orðið nokkuð undarlegur háttur, að við hverja einustu launadeilu, sem nú á sér stað, er formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja látinn fara í útvarp og alla mögulega staði til þess að berjast á móti launahækkunum til láglaunaðra verkamanna og annarra verkamanna, og þegar hæstv. ríkisstj. og auðmannastéttin í landinu er að berjast á móti sjálfsögðum og réttlátum kröfum verkamanna um launahækkun, þá er það formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem er settur á oddinn til þess að reyna að hindra, að slíkar launahækkanir fari fram, og látinn bera fram svo kallaðar alls konar vísindalegar vitleysur á borð fyrir þjóðina til þess að reyna að hindra, að slík launahækkun fáist.

Samtímis því svo sem verkamenn berjast fyrir sinni launahækkun og allur almenningur í landinu hefur samúð með þeim og álítur þeirra kröfur réttmætar, þá kemur hæstv. ríkisstj. fram og lætur flytja villandi skýrslu í ríkisútvarpinu um, hvað það muni kosta ríkið, ef verkamenn fái launahækkun. Og þegar farið er að kryfja slíka skýrslu til mergjar hér á Alþ., kemur í ljós, að það, sem hæstv. ríkisstj. meinar með því, er einvörðungu, að svo framarlega sem verkamenn fái launahækkun, muni hún leggja til, að allir starfsmenn ríkisins fái launahækkun líka.

Ég vil segja það, að mér finnst þessi aðferð orðin nokkuð „ómórölsk“, að fyrst sé forseti BSRB í bandalagi við ríkisstj. látinn berjast á móti launahækkun verkamanna og síðan, þegar þessar launahækkanir eru komnar fram, kemur hæstv. ríkisstj. og jafnvel. þessi forseti og segir: Nú heimtum við launahækkanir. — Ég segi þetta ekki vegna þess, að ákveðinn hluti af starfsmönnum ríkis og bæja þurfi ekki launahækkanir, heldur vegna hins, að það er viðkunnanlegt, að menn vinni fyrir launahækkunum sínum á heiðarlegan hátt. Ef BSRB óskar eftir launahækkunum, á það að láta sína stjórn og sinn forseta segja það skýrt og skorinort, að þeir óski eftir því og að þeir muni styðja verkamenn í því að fá fram launahækkanir, vegna þess að það komi til góða BSRB. og þeim starfsmönnum, sem þar í eru. Það á að hafa heiðarlegan hátt á þessu, en ekki koma þannig fram að gera fyrst allt, sem hægt er af hálfu forseta BSRB og ríkisstj. til þess að hindra launahækkanir verkamanna, og koma síðan á eftir og segja: Við heimtum þessar launahækkanir líka.

Ég held, að við verðum alvarlega að athuga það, og þar á ég nú við, að stjórnarliðið ætti sjálft alvarlega að athuga það, því að stjórnarandstæðingar hafa flestir verið með því, að BSRB eða flestar greinar þess bandalags fengju sinn verkfallsrétt, — ég held, að það yrði alvarlega að athuga það, og því vil ég skjóta til þeirrar n., sem á að athuga þessa hluti, hvort það fari ekki að verða nær, að BSRB fái sinn verkfallsrétt, fái sinn rétt, eins og aðrir starfsmenn og verkamenn, til þess að berjast fyrir sínum launahækkunum. Svona ástand eins og nú er getur ekki gengið. Ástandið er orðið þannig, sérstaklega hvað snertir t.d. Dagsbrúnarverkamenn hér í Reykjavík, þegar þeir fara fram á launahækkun, og ég býst við, að t.d. flestar fagstéttirnar mundu fá sínar launahækkanir, þegar þær verða að berjast út af fyrir sig, — þó að stundum sé reynt að misnota þeirra kröfur í áróðrinum, þá er það vitanlegt, að þær mundu fá sínar launahækkanir, þegar þær væru að berjast út af fyrir sig, en slagur er alltaf látinn standa, þegar Dagsbrúnarverkamennirnir, þ.e. lægst launuðu verkamennirnir, leggja til, að þeir fái launahækkun; þá situr ríkisstj. og auðmannastéttin hér í Reykjavík stórastopp á atvinnulífið. Af hverju? M.a. vegna þess, að hún segir: Ja, við erum nú kannske ekki bara að berjast á móti Dagsbrúnarverkamönnunum. Við erum að berjast á móti, að verkamennirnir úti um land fái launahækkun og að starfsmenn ríkis og bæja fái launahækkun, og setja svo fram þessar villandi upplýsingar, sem fram komu í útvarpinu í sambandi við þetta frá hæstv. fjmrh., til þess að vinna á móti kröfum Dagsbrúnarmanna. Og svo er ekki nema rétt búið að semja, þá er ríkisstj. komin fram með frv. um ákveðnar bráðabirgðalaunahækkanir.

Ég held, að það verði að fara að hafa aðra aðferð í þessum málum, dálítið „móralskari“ aðferð en þá, sem þarna er höfð. Ég held, að það verði ekki heilbrigt fyrir þjóðlífið, þ.e. til frambúðar, að það verði að heyja í sambandi við réttmætar kröfur t.d. Dagsbrúnarverkamanna heildarbaráttu um allt ástandið í þjóðfélaginu. Ég held, að það væri betra, að starfsmenn ríkis og bæja fengju að sínu leyti sinn rétt til þess að gera verkfall og berjast fyrir sínum kauphækkunum.

Ég hefði að sumu leyti dálítið gaman af því að sjá Sjálfstfl. og formanninn, sem hann setur Fyrir BSRB, standa hérna verkfallsvörð. Ég hefði gaman af að hlusta á hann tala í útvarpinu um þessar réttmætu kröfur og skora á menn að standa verkfallsvörð við símastöðina og annars staðar til að koma þeim fram. Ég segi þetta alveg sérstaklega vegna þeirrar framkomu, sem formaður BSRB hefur haft á, og ég veit, að flokksbræður hans hér á Alþ., þó að hann eigi ekki sjálfur sæti hér í svipinn, geta fyllilega svarað þeirri ádeilu, sem ég hef á hans háttum í þessum efnum.

i vetur var rætt hér allmikið um launahækkanir, sem þá voru framkvæmdar. Þá voru framkvæmdar launahækkanir á þann hátt, að hæst launuðu starfsmönnum ríkisins voru greiddar launauppbætur, sem námu 5–6 þús. kr. á þeirra árslaun, en lægst launuðu starfsmönnum ríkisins voru greiddar uppbætur, sem námu máske 5–6 hundruð krónum á þeirra árslaun. Við sósíalistar lögðum þá til, að þetta væri haft nokkuð öfugt, lægst launuðu starfsmennirnir fengju hærri uppbót, en dregið væri úr þeirri uppbót, sem hæst launuðu starfsmönnunum væri ætluð. Allar slíkar till. voru felldar, og stjórnarliðinu þótti það þá ekki nein ósköp að samþykkja 12 millj. kr. til starfsmanna ríkisins, sem skiptust á þennan óréttmæta hátt, að hæst launuðu starfsmennirnir fengu jafnvel tíu sinnum hærri fjárupphæð ofan á sín árslaun en þeir lægst launuðu.

Það kom að vísu ekki greinilega fram í framsöguræðu hæstv. fjmrh., hverju sú hækkun mundi raunverulega nema í krónutölu, sem þeir lægst launuðu mundu fá með þessu móti, en þó skildist mér, að þetta ætti að verða nokkur uppbót til þeirra. E.t.v. sér ríkisstj., þó að seint sé, að með óréttlæti var farið að í vetur, þegar hún með offorsi knúði fram þær ráðstafanir, sem þá voru gerðar á móti till. stjórnarandstöðunnar, og ætlar nú að bæta nokkuð úr þessu, þegar það hefur sýnt sig, að ekki er hægt að halda niðri kaupi verkamanna þrátt fyrir dýrar tilraunir auðstéttarinnar til þess.

Jafnframt skilst mér, að hærra launuðu starfsmennirnir eigi að fá uppbót, sem nemi 5%. Ef ég man rétt, þá fengu þeir hæst launuðu í vetur grunnlaunauppbót, sem nam 10%, — það verður þá leiðrétt, ef það er skakkt hjá mér, — þannig að nú bætist þarna nokkuð ofan á hjá þeim, og ég vildi gjarnan, af því að ég er ekki nógu vel kunnugur þessum útreikningum, biðja hæstv. fjmrh. um að segja mér, hvað hann áliti að með þessu móti mundi heildarhækkunin verða, bæði með þeirri launahækkun, sem var í vetur, og þeirri, sem yrði samþ., ef þetta frv. yrði samþ., hvað það yrði hjá þeim lægst launuðu og hvað það yrði enn fremur hjá þeim hæst launuðu, sem fengu sína uppbót í vetur. Mér þætti gaman að vita, hvernig grunnlaunahækkunin skiptist á lægst launuðu og hæst launuðu embættismennina með þeim tveimur samþykktum, sem nú á að gera, samþykkt ríkisstj. í vetur í sambandi við fjárl. og með þessu frv. Ég hef ekki getað aflað mér upplýsinga um það í fljótu bragði. Þessu frv. var fyrst útbýtt nú, og á nú að setja það helzt þannig í gegn, að það verði samþ. frá þessari d. á morgun. Ef ekki er hægt að fá upplýsingar um þetta núna, þá vildi ég mjög gjarnan, að sú n., sem þetta fer til, gæti athugað það mál og látið það liggja skýrt fyrir okkur við 2. umr.

Nú skildist mér svo á hæstv. fjmrh., þegar hann gaf sína skýrslu, að á næsta fjárhagsári mundi það kosta ríkissjóð — það var lágmarkið — 12 millj., þó að ekki yrði nema 7% launahækkun hjá verkamönnum. Nú þætti mér gaman að fá frá honum, ef hann gæti gefið þær, ofur litlar upplýsingar um, af því að það var lögð svo gífurleg áherzla á, að það kostaði ríkissjóð mikið, þó að það raunverulega kostaði ríkissjóð sama sem ekki neitt að hækka laun verkamanna, — þá þætti mér gaman að fá vitneskju hjá honum um, hvað hefur kostað ríkissjóð óbeint, það sem af er, sú 6 vikna stöðvun, sem nú hefur orðið vegna verkfallsins. Hvað er um tolltekjur ríkissjóðs í aprílmánuði? Það var flaggað með því í útvarpinu og bókstaflega reynt að blekkja fólk með því í sambandi við þær tölur, sem voru látnar fara frá honum í útvarpið og frá hæstv. ríkisstj., og aldrei tekið fram í yfirlýsingunum í útvarpinu, að það, sem átt væri við, væri, að þetta kostaði ríkissjóð það að hækka laun starfsmanna ríkisins samsvarandi og ef laun verkamanna væru hækkuð um svo og svo mörg prósent.

Nú þætti mér gaman að vita: Hvað kostaði það ríkissjóð að hjálpa auðstéttinni í landinu til að streitast á móti því í 6 vikur, að gengið væri að sanngjörnum kröfum verkamanna? Það væri ekki óeðlilegt, að þær tölur lægju hér fyrir okkur.

Að öðru leyti álít ég, að hinir lágt launuðu starfsmenn ríkisins þurfi á sínum uppbótum að halda, en ég álít, að við meðferð þessa máls eigi d. að reyna að sjá til þess að leiðrétta það óréttlæti, sem gert var í vetur, bæta hinum lágt launuðu starfsmönnum betur upp og draga þá frekar úr hjá þeim hæst launuðu, og þess vegna vildi ég gjarnan fá þessar upplýsingar, sem ég bað um, hverju þessi hækkun mundi nema, líka að viðbættri hækkuninni í vetur, bæði hjá lægst launuðu mönnunum og hjá hæst launuðu starfsmönnunum.

Ég held, að það sé orðið óhjákvæmilegt, að þessi mál séu tekin til nánari og almennari umr. en hingað til hefur verið gert, ekki sízt þegar farið er að gera þau að eins stóru atriði og gert hefur verið í sambandi við vinnudeilur verkamanna.