14.10.1954
Efri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

6. mál, prentfrelsi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þau ákvæði, sem hér á landi gilda um ábyrgð manna á prentuðu máli, eru orðin ærið gömul, eða hundrað ára, og þar með nokkru eldri en sjálf fyrirmælin í stjórnarskránni um prentfrelsi. Þessi fyrirmæli eru um sumt nokkuð flókin, um hverjir beri ábyrgð á því prentaða máli, og veita mönnum allrúma heimild til þess að nafngreina sig ekki, þó að út séu gefin prentuð rit. Viðhorf manna í þessu hafa að ýmsu leyti breytzt á þeim 100 árum frá því að þessi ákvæði voru sett, og ég hef því efnt til endurskoðunar á þessum fyrirmælum í heild, fengið til þess ágætan mann, en við þá athugun, sem þegar hefur átt sér stað, hefur orðið ljóst, að málið er flóknara og vandasamara, eins og oft vill verða, heldur en menn í fljótu bragði gera sér grein fyrir, og um þetta eru uppi margar kenningar og athuganir hjá þeim lærðu mönnum úti í heimi, sem mest hafa kynnt sér þessi efni og skoðað reynslu í mörgum löndum. Það var því álit okkar, að athuguðu máli, að það væri ekki rétt að hraða svo þessari heildarendurskoðun, að hún kæmist fyrir þetta þing, heldur athuga málið betur og í rólegheitum.

En þó töldum við, að það væri eln breyting, sem ekki yrði hjá komizt að lögleiða strax, og það væri, að sá, sem gefur út rit, væri skyldugur til þess að nafngreina sig á ritinu. Hingað til hefur það nægt, að vitað væri, hver prentaði ritið, en ástæðan til þess að við töldum rétt, að það lægi öllum ljóst fyrir, hver væri útgefandi rits, er sú, að á síðustu mánuðum hefur hafizt hér útgáfa sérstakra tímarita, sem sérstaklega fjalla um ýmiss konar glæpamálefni, og það hefur vakið athygli manna, að útgefendur þessara rita, a.m.k. sumra, hafa hliðrað sér hjá að láta nafns síns getið við útgáfuna. Það er talið, að minnsta krafan, sem hægt væri að gera til þeirra, sem að slíku standa og taka af þessu fé og ágóða, væri það, að menn vissu, hvaða heiðursmenn þar eru á ferð. Og til þess að láta þá vitneskju liggja ljósa fyrir er þetta litla frv. samið og nú lagt fram. Ég vona, að enginn telji, að með því sé um of takmarkað prentfrelsið í landinu, heldur einungis fengin sjálfsögð leiðrétting á ákvæðum, sem við nú orðið hljótum að játa, að eru orðin úrelt. Ég játa hins vegar, að með þessu frv. er ekki komið í veg fyrir útgáfu þessara rita, sem ýmsir, sérstaklega uppeldisfróðir menn, telja mjög varhugaverð. Það er mjög hæpið í fyrsta lagi, hvað hægt er að gera með löggjöf til þess að halda frá mönnum óheppilegu lestrarefni. Reynslan er nú sú, að bönn duga lítið í slíkum efnum, og þá einnig hætta á því, ef bönn eru sett, að þau verði viðtækari en menn ætlast til í fyrstu og valdhafar ef til vill misnoti þau. Ég er því ekki mjög trúaður á almenn bönn í þessu efni, en vil þó geta þess, að ég tel eðlilegt, bæði að þetta atriði verði nánar skoðað við þá framhaldsendurskoðun prentfrelsisákvæðanna, sem ég gat um, en þó sérstaklega í sambandi við endurskoðun hegningarlaganna, að þar verði íhugað, hvort tiltækilegt sé að setja strangari reglur um slíka útgáfu heldur en nú er, og mun ég vekja sérstaka athygli þeirra manna, sem um það fjalla, á því atriði.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um málið, en legg til, að það að lokinni þessari umr. fari til 2. umr. og hv. allshn.