05.05.1955
Neðri deild: 84. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

199. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. (EOl). Hann réðst hér með miklu offorsi á formann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem ekki á hér sæti og hefur þar af leiðandi ekki aðstöðu til þess að bera hér hönd fyrir höfuð sér. Ég verð að mótmæla því, að slíkum árásum skuli vera haldið hér uppi, og tel þær í alla staði ósæmandi, vegna þess að efnislega var þar farið með algerlega rangt mál.

Hv. 2. þm. Reykv. hélt því fram, að formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefði vegið aftan að verkalýðssamtökunum og verið jafnan reiðubúinn til að reka í þau rýtinginn í þeirra baráttu og sýnt kjarabaráttu þeirra fjandskap. Það, sem formaður þessa bandalags hefur hvað eftir annað lagt áherzlu á, er það, að það sé ekki einhlítt til kjarabóta að hækka kaup, það sé margt annað, sem komi þar til greina, og ég hygg, að það sé ekki finnanlegt nokkurs staðar í þeim ummælum, sem hann hefur haft í sambandi við þessa kjaradeilu nú, neitt fjandskaparorð í þá átt, að verkamenn bæti kjör sín á þann hátt, að það gefi þeim raunverulegar kjarabætur. Það er því algerlega villandi og ósæmilegt að halda því fram hér á Alþ., að formaður þessara næststærstu launþegasamtaka landsins hafi lagt sig fram um það að vinna gegn því, að verkalýðurinn fengi kjarabætur. Því fer svo víðs fjarri. Hann hefur hvað eftir annað á það áherzlu lagt, að það beri að stefna að því, að launþegar allir geti fengið raunverulegar kjarabætur, sem séu þess eðlis, að þeir tapi þeim ekki aftur í vaxandi verðbólgu og dýrtíð. Þessu tel ég nauðsynlegt að vekja hér athygli á, þótt að vísu öllum hv. þm. sé það kunnugt, en ég tel sérstaka ástæðu til þess að vita það og mótmæla, að slíkum árásum sé haldið hér uppi á jafnómaklegan hátt og hér hefur verið gert.